föstudagur, desember 22, 2006

Afrek?


Loksins, loksins gefur Sigurður Hróarsson, nýr ljóðagagnrýnandi Fréttablaðsins, ljóðabók færri en fjórar stjörnur!

Ljóðabókin sem stöðvaði 4 til 5 stjörnu dóma hans er enginn önnur en A-Ö eftir Óttar M. Norðfjörð , sem gefin er út undir formerkjum Nýhil, en hún fékk einungis 1 stjörnu hjá Sigurði.

Við óskum Óttari til hamingju með þetta mikla "schlecht aber gut"-afrek!

Bóksalar, Hannes, Eitur og Norrænar bókmenntir

Fjallað er um bókmenntaverðlaun bóksala í Blaðinu í dag. Þar er Kristján Freyr Halldórsson, verslunarstjóri Eymundsson, tekinn tali og segir hann upp og ofan af verðlaunum. Segist Kristján sjálfur hafa valið Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl sem bestu íslensku skáldsöguna. Þá tjáir Kristján sig einnig um ævisögu Óttars Martin Norðfjörð, Hannes - nóttin er blá, mamma, og segir: „Þetta er mjög áhugavert mál frá a-ö. Ég hef lúmskt gaman af þessu öllu saman, sérstaklega þegar maður heyrir frá bókaútgefendum sjálfum sem margir hverjir eru að malda í móinn. Hannes er bók því hún er með IBSN númer. Mín Biblía fyrir jólin eru Bókatíðindi sem Félag íslenskra bókaútgefenda sér um og þar er bókin skilgreind sem bók og sem slík er hún skráð inn í okkar verslanir. Hannes hefur selst vonum framar, Óttar var að árita í einni af okkar verslunum um helgina og það fóru mörg hundruð eintök út. Málstaðurinn er góður en allur ágóði rennur til Mæðrastyrksnefndar. Mér finnst þetta ákaflega göfugt og gott framtak hjá honum Óttari fyrir jólin og ég bíð spenntur eftir næsta bindi.“

Þá er rétt að benda á að dómur Þórunnar Hrefnu Sigurjónsdóttur um Eitur fyrir byrjendur í Víðsjá. Sagði Þórunn m.a.: "Sorgin í sögunni, sem er umtalsverð, er ekki tækluð með neinu sorgarklámi, sem betur fer. Sögumaðurinn sýnir hæfilega nærgætni þó að hann sé stundum meinhæðinn, sem er undarlega heillandi, eins sikk og það hljómar. [...] Eiríkur Örn Norðdahl sýnir á sér nýjar hliðar með Eitri fyrir byrjendur. Hún er dýpri, einhvern veginn fegurri en fyrri bækur hans. Og þó að kafað sé í innsta eðli mannlegrar sorgar er það gert af hæfilegum stráksskap þess sem veit að sorgin og sektin verða alltaf til staðar hvort sem við lokum okkur inni eða eitrum fyrir okkur. Þess vegna er um að gera að láta byrðarnar ekki sliga sig...og bara flissa svolítið."

Dóminn má lesa hér.

Loks má geta þess að nýlega birtist grein í tímaritinu Nordisk Litteratur um Nýhil. Ingi Björn Guðnason skrifar. Greinina má lesa (á ensku) hér.

Eitur fyrir byrjendur má kaupa með því að smella hér, og Hannes má kaupa með því að smella hér.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Húðlit auðnin prísuð og lofsungin


Ritdómur birtist þann 20. desember í Morgunblaðinu um ljóðabókina Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur sem út kom hjá Nýhil fyrr á árinu. Ritdómari fer lofsamlegum orðum um bókina og segir hana "sterkt og hnitmiðað verk" sem "vitnar um ótvíræða hæfileika ungs skálds." Kaupa má bókina á netinu hér og í ljóðabókaverslun Nýhils á Klapparstíg 25 (í plötubúð Smekkleysu).

miðvikudagur, desember 20, 2006

Arnaldur fallinn!


Hannes - Nóttin er blá, mamma heldur áfram að gera það gott. Allir gagnrýnendur sem skrifað hafa um ævisöguna hafa gefið henni 5 stjörnur og í vikunni voru Bókmenntaverðlaun bóksala veitt og lenti bókin í 3. sæti í flokki ævisagna.

Nýjustu gleðifréttirnar eru svo þær að Hannes er komin í efsta sæti á metsölulistanum sem gerður er út frá Pennanum-Eymundsson og Bókabúð Máls og menningar, nú örfáum dögum fyrir jólin. Hefur ævisagan þar með rutt Konungsbók eftir Arnald Indriðason úr vegi, en hún hefur trónað efst á listanum frá því að hún kom fyrst út í nóvember.

Við óskum bæði Hannesi til hamingju og Íslendingum, enda ekki á hverjum degi sem "einræðisherra" eins og Arnaldur er toppaður á metsölulistum landsins.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Nýhil: Lætur engan ósnertan

Menntaskólatímaritið Verðandi mælir með þremur af nýjustu bókum Nýhils í nýjasta tölublaði sínu. Alls mælir blaðið með sjö nýjum bókum, og því ljóst að Nýhil ber höfuð og herðar yfir samkeppnisaðila sína í þessu bókaflóði.

mánudagur, desember 18, 2006

Skáldsögur Nýhils lofaðar

Bókmenntafræðineminn Kristján Atli Ragnarsson hefur nýlokið við að lesa sig í gegnum skáldsagnahluta jólabókaflóðs Nýhils, og er skemmst frá því að segja að hann eys bækurnar miklu lofi.

Um Svavar Pétur & 20. öldin eftir Hauk Má Helgason segir hann meðal annars: "Svavar Pétur og 20. öldin er fyrsta skáldsaga Hauks Más Helgasonar og mætti því tala um að hann mæti á senuna með látum. Það fyrsta sem maður tekur eftir við söguna er hversu þéttur prósinn hjá honum er. [...] Með frásögn Svavars Péturs færir Haukur Már síðustu öld og núverandi saman með nýstárlegum hætti svo úr verður kolsvört háðsádeila á markaðsráðandi tískusamfélag Íslands."

Um Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl segir hann m.a.: "Stundum er minna meira og hin hálf-mínímalíska frásögn sögumanns af sambúðinni við vinkonu sína dansar vel hina fínu línu á milli þess að vera of ýkt og að vera ekki nógu ítarleg. [...] Textinn hér er einfaldlega frábær og ég verð að viðurkenna að það eru ekki margar íslenskar skáldsögur á þessum áratug sem ég man eftir sem standa Eitrinu jafnfætis í þeim efnum. [...] Eitt óborganlegasta atriði sem ég hef lesið í íslenskum skáldskap í lengri tíma er að finna í þessari bók, þar sem lætin í parinu eru að æra Halldór sem leitar sér hugarafdreps í að fylgjast með sprungum í loftinu frammí stofu. Það atriði, vopnað frábærum prósa Eiríks Arnar, er algjört dúndur."

Um Fenrisúlf eftir Bjarna Klemenz segir Kristján Atli þá m.a.: "Sagan er ótrúlega flæðandi og prósinn gríðarlega ríkur - hjá Bjarna, ólíkt Hauki Má og Eiríki Erni, er meira vissulega meira - og sagan sjálf minnti mig um margt á bækurnar Neverwhere og American Gods eftir Neil Gaiman, en eins og hann blandar Bjarni nútímanum og goðsögnum saman á nýstárlegan og ferskan hátt.
Þessi bók er einfaldlega ótrúlega ríkuleg, hvort sem litið er á prósann eða söguna. [...] Ef hann getur skrifað svona góða skáldsögu í fyrstu tilraun verður spennandi að sjá hvað hann gerir næst."

Umfjöllun Kristjáns Atla er hægt að lesa í heild sinni á heimasíðu hans.

Bækurnar má meðal annars kaupa á www.eymundsson.is, www.boksala.is, www.baekur.is, og www.haraldur.is. Þá er þær að sjálfsögðu að finna í öllum bókabúðum sem standa undir nafni.

föstudagur, desember 15, 2006

Óttar áritar Hannes


Á morgun, laugardaginn 16. des., mun Óttar M. Norðfjörð árita nýútkomna ævisögu sína, Hannes - Nóttin er blá, mamma í bókabúð Máls og menningar á Laugarveginum.

Fyrsta bindi þessa meistaraverks hefur verið í efsta sæti metsölulistans í flokki ævisagna, handbóka og fræðirita nokkrar vikur í röð. Og í öðru sæti á sama lista yfir alla flokka, hársbreidd á eftir Konungsbók eftir Arnald Indriðason.

Áritunin hefst kl. 14.00 og eru allir velkomnir.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Af ósviknum meistaraverkum, nautnum og viðtölum

Á vef Eymundsson er hægt að setja inn umsagnir um þær bækur sem eru til sölu. Þar má meðal annars lesa dóma lesenda um bækurnar Hannes - nóttin er blá, mamma eftir Óttar Martin Norðfjörð og Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl. Um þá fyrrnefndu segir einn lesenda einfaldlega: "Ósvikið meistaraverk". Bóksalinn Kristján Freyr Halldórsson segir Eitur fyrir byrjendur vera frábæra bók: "Bók Eiríks kemur inná margar tilfinningar, yfir lestrinum má bæði hlæja og gráta. Eiríkur skrifar mjög vel og maður líður áfram um lipran textann og erfitt var að leggja frá sér bókina. Frábærir dómar um hana koma ekki á óvart."

Nýhil vill hvetja fólk til að nýta sér möguleikann til að skrifa umsagnir um bækur á vef Eymundsson.

Kristján er ekki einn um að þykja mikið til Eiturs fyrir byrjendur koma. Rithöfundurinn og smásagnaskáldið Ágúst Borgþór treinir sér bókina þessa dagana og les fáeinar síður á dag. Á bloggi sínu segir hann m.a.: "Algjörlega óumbeðinn er ég að glugga í Eitur fyrir byrjendur. Ég fór upp að síðu 40 áðan. Það var nánast nautn. Flottur stíll, draumkennt andrúmsloft, ófyrirsjáanleiki. Þrælgóður texti."

Eiríkur Örn ræddi bókina við Víðsjá í gær, og má hlusta á það viðtal á vef RÚV.

Þá ræddi Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóri Nýhils, um forlagið, félagið og félagaforlagið í Vítt og breitt í gær.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Nýhil í portrettum á Borgarbókasafni


SKRÁSETNING KYNSLÓÐAR í Borgarbókasafninu – Björn M. Sigurjónsson sýnir ljósmyndir af skáldum Nýhils í Borgarbókasafni, Grófarhúsi.
Ljósmyndasýningin „Skrásetning kynslóðar“ opnar í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi 15. desember kl. 17.00. Þar sýnir Björn M. Sigurjónsson portrett af ungum íslenskum rithöfundum og listamönnum. Allt eru þetta höfundar sem hafa gefið út undir merkjum Nýhils, en eiga það jafnframt sammerkt að hafa vakið athygli fyrir framsækna og nýja sýn í listsköpun sinni. Myndirnar eru teknar í vistkerfum skáldanna – á heimilum þeirra, þar sem sköpunarverkin verða til.
Á opnun sýningarinnar verður dagatal fyrir árið 2007 með úrvali sömu ljósmynda kynnt. Þá munu skáldin lesa upp úr nýlegum verkum sínum. Þetta er önnur einkasýning Björns á þessu ári og í þriðja sinn sem hann sýnir myndir sínar opinberlega. Sýningin er opin á opnunartíma Borgarbókasafnsins fram í janúar.
Nánari upplýsingar veita Viðar í s. 6954280 og Björn í síma 8940720.

föstudagur, desember 08, 2006

Eitur fyrir byrjendur: „gríðarlega vel skrifuð“


Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl hefur hlotið einstaklega góðar viðtökur gagnrýnenda líkt og tíundað hefur verið hér á blogginu, og nú síðast í DV 8. desember. Sigríður Albertsdótti ritar þar mjög lofsamlegan dóm og segir m.a.:
„Eitur fyrir byrjendur … er saga sem tekur verulega á taugarnar og því tæpast fyrir viðkvæmar sálir enda vílar Eiríkur Örn ekki fyrir sér að skyggnast inn í myrkustu hugskot mannsins og draga þaðan út alls kyns sora og perragang. En sagan er gríðarlega vel skrifuð … Í Hugsjónadruslunni sýndi Eiríkur Örn Norðdahl snilldartakta en bætir hér um betur og sýnir svo ekki verður um villst að hann er höfundur sem er kominn til að vera.“

Bloggað um bækur og ó-bækur


Talsvert er bloggað um fyrsta bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarson eftir Óttar Martin Norðfjörð, Hannes - Nóttin er blá, mamma, einkum í ljósi yfirstandandi klögunarmáls Nýhils á hendur Eddu útgáfu og umræðu sem spunnist hefur um hvort bókin sé í raun bók. Hinn aðsópsmikli bloggari og rithöfundur Ágúst Borgþór Stefánsson hefur þetta að segja: "Þeim [Nýhil] nægir ekki að láta þennan ævisögubrandara standa sem slíkan heldur teygja hann á langinn með frekar idjótískum kvörtunum og kærumálum."
Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og ritstjóri tekur hins vegar undir með Lesbók Morgunblaðsins og segir að skilgreining bókar sé undirorpin vilja höfundarins, að ljóð sé það sem ljóðskáld segi að sé ljóð, að bók sé það sem bókarhöfundur segir að sé ljóð.
Nýhil fagnar umræðunni um hvað sé bók, og leggur nú á ráðin um málþing í samstarfi við Samtök Iðnaðarins, Prenttæknistofnun og Heimspekistofnun Háskóla Íslands þar sem spurningin verður rædd í pallborði af sérfræðingum. Bent skal á að klaga Nýhils á hendur Eddu snýst þó ekki um skilgreininguna á bók, heldur rangfærslur í auglýsingum varðandi metsölulista sem Hannes var óneitanlega efstur á.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Nýhil sendir erindi til NeytendastofuNýhil hefur sent svohljóðandi bréf til Neytendastofu:

Reykjavík, 6. desember 2006

Til: Neytendastofu

Nýhil áhugamannafélag (kt. 580203-3960) sendir eftirtalið erindi til Neytendastofu og leitar eftir ákvörðun hennar vegna framferðis Eddu-útgáfu hf (kt. 710800-3590).

Í Fréttablaðinu 3. desember sl. birti Edda opnuauglýsingu undir fyrirsögninni ‘Vinsælustu bækurnar’. Eru þar nokkrar bækur forlagsins kynntar og sæti þeirra á metsölulistum Morgunblaðsins og/eða sölulista Pennans-Eymundsson og Bókabóða MM tíundaður. Í tilfelli einnar bókar (Ljósið í djúpinu e. Reyni Traustason) er sæti ekki tilgreint heldur er eftirfarandi texti settur í staðinn:

„Mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt metsölulistum.“
(Sjá mynd.)

Nýhil gerir alvarlega athugasemd við þennan auglýsingatexta þar eð mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt þeim tveimur metsölulistum sem voru nýbirtir á þessum tíma er alls ekki umrædd bók heldur er það bókin Hannes – nóttin er blá mamma eftir Óttar Martin Norðfjörð sem gefin er út af Nýhil. (Sjá mynd).

Þann 6. desemeber hafði útgáfustjóri Nýhils samband við kynningarstjóra Eddu og leitaði skýringa á þessum fullyrðingum. Þær einu skýringar voru gefnar að kynningarstjórinn teldi Hannes – nóttin er blá, mamma ekki sambærilega við bækur Eddu og að Edda réði því hvað og hvernig hún auglýsti. Ekkert kom fram í samtalinu sem benti til þess að vitnað hefði verið til metsölulista annarra en þeirra þar sem Hannes – nóttin er blá, mamma er sannarlega talin mest selda ævisagan.

Nýhil telur hér um að ræða brot á 6. grein laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins (2005 nr. 57 20. maí) – enda hafi „rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum“ verið veittar með því að annað hvort vitna til metsölulista sem ekki eru til eða fara vísitandi rangt með ótvíræðar niðurstöður þeirra metsölulista bóka sem í umferð eru.

Nýhil fer þó aðeins fram á að Edda – útgáfa birti leiðréttingu á umræddri auglýsingu í þeim fjölmiðlum þar sem hún birtist og biðji höfund og útgefanda Hannesar – nóttin er blá, mamma opinberlega afsökunar.


Fyrir hönd Nýhils,

___________________________
Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóri

Þögnin rofin


Blaðamaðurinn og ritstjóri Menntaskólablaðsins Verðandi, Sindri Freyr Steinsson, tók viðtal við ævisagnaritarann Óttar M. Norðfjörð í nýjasta hefti blaðsins. Þar kemur margt nýtt og skemmtilegt fram, meðal annars vangaveltur Hannesar Hólmsteins Gissurssonar um nýútkomna ævisögu, en Sindri leitaði til hans vegna viðtalsins. Aðspurður um ævisöguritun Óttars sagði Hannes :

"Ég hef nákvæmlega ekkert við það að athuga, að Óttar M. Norðfjörð gefi út þennan fjölritaða bækling um mig. Það hafa aðrir gefið slíka fjölritaðabæklinga út áður, þótt þeir hafi af einhverjum ástæðum ekki fengið bókabúðir til að selja þær fyrir sig. Ég tel, að oft hafi verið valin ómerkilegri viðfangsefni í bókum! Ég myndi líka hafa ágætan húmor fyrir framtakinu, ef þessi bæklingur væri skrifaður af húmor, en svo er því miður ekki. En ég óska Óttari alls góðs á rithöfundarbrautinni, þótt fyrstu skrefin hafi eftil vill ekki verið mjög örugg."

Já, þögnin er svo sannarlega rofin og ekki ber á öðru en að Hannes taki uppátækinu bara vel. Það má svo sem hnýta í tal Hannesar um bókina sem "bækling" en Nýhil fyrirgefur það.

Þess má geta að Menntaskólablaðið Verðandi er fríblað og dreift um alla framhaldsskóla landsins og það fer líka í almenna fríblaðadreifingu á höfuðborgarsvæðinu, á kaffihúsum og fleiri almenningsstöðum.

þriðjudagur, desember 05, 2006

„Tekst ótrúlega vel að tvinna þjáningu þessara persóna saman“

Bjarky Valtýsson skrifar dóm um Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl á vefritið Vettvang. Bjarki er að vonum harla ánægður með bókina, líkt og aðrir gagnrýnendur hafa verið, og segir meðal annars: „Eiríki tekst ótrúlega vel að tvinna þjáningu þessara persóna saman, og hann gerir það oft með því að setja þær í undarlegar aðstæður þar sem öfgar mætast, og maður bíður spenntur eftir viðbrögðum.“

Dóminn í heild sinni er hægt að lesa á vefritinu Vettvangur.

Bókina er hægt að versla með því að smella hér.

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Hannes uppseld


Fyrsta upplag ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurssonar, Hannes -Nóttin er blá, mamma, er uppselt hjá útgefenda, en áhugi almennings ábókinni hefur farið fram úr björtustu vonum. Enn eru til einhver eintök í nokkrum bókabúðum, en fjölmargar búðir bíða nú eftir eintökum af bókinni.

Þess má geta í framhaldi að bókin er komin í fyrsta sæti yfir mest seldu ævisögur, handbækur og fræðibækur í Pennanum-Eymundsson og bókabúð Máls og menningar, og í annað sæti yfir mest seldu bækur íöllum flokkum, hársbreidd á eftir Konungsbók eftir Arnald Indriðason.

Von er á öðru upplagi bókarinnar á næstunni.

miðvikudagur, nóvember 29, 2006

Hannes í fyrsta sæti!


Þær gleðifréttir hafa borist Nýhil að fyrsta bindi í ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurssonar, Hannes - Nóttin er blá, mamma, er komið í fyrsta sæti metsölulistans í Pennanum Eymundsson og Bókabúð Máls og menningar í flokknum handbækur/fræðibækur/ævisögur. Listinn er gerður út frá sölu dagana 22.11.06 - 28.11.06.

Og það er ekkert lát á gleðifréttunum hjá Nýhil, því á listanum yfir mest seldu bækur í öllum flokkum er bókin komin í annað sæti! Í fyrsta sæti er Konungsbók eftir Arnald Indriðason, fjórðu vikuna í röð, en Hannes sækir fast að honum og tekst jafnvel að steypa henni af stóli í næstu viku ef fram fer sem horfir.

Það verður gaman að sjá hvernig bókinni reiðir af á metsölulistanum sem Morgunblaðið birtir á næstunni.

mánudagur, nóvember 27, 2006

Eitur fyrir byrjendur fær þrjár og hálfa stjörnu í Kastljósi


Eitur
fyrir byrjendur
eftir Eirík Örn Norðdahl hlaut rífandi góðan dóm hjá
Jóni Yngva Jóhannssyni, gagnrýnanda Kastljóssins, fyrr í kvöld. Ýmsum af
virtustu höfundum þjóðarinnar var skotinn refur fyrir rass, því Eiríki voru
útdeildar þrjár og hálf stjarna af hinum mikilsvirta gagnrýnanda, sem er harla
gott. Sjáið undrið með eigin
augum
!

Hannes hafnar HannesiSamkvæmt áreiðanlegum heimildarmanni Nýhil sást til félaganna Gísla Marteins Baldurssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í Pennanum-Eymundsson í Austurstræti fyrir örfáum dögum. Grínistinn Gísli Marteinn ákvað þá að bregða á leik og keypti því eintak af fyrsta bindi ævisögu Hannesar, Hannes - Nóttin er blá, mamma og hugðist gefa bláklædda hugmyndafræðingnum. Hannes neitaði hins vegar að þiggja gjöfina!

Þess ber þó að geta að ævisöguritari Hannesar, Óttar M. Norðfjörð, sendi Hannesi eintak af bókinni í síðustu viku, svo ef til vill þáði hann ekki gjöfina sökum þess að hann á nú þegar eintak.

Ekki er vitað um afdrif eintaksins sem Gísli Marteinn keypti handa lærimeistara sínum.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Bókahönnun Nýhils prísuð af einvalaliði sérfræðingaFréttablaðið birtir í dag úttekt á gæðum bókahönnunar í jólabókaflóðinu. Óhætt er að segja að Nýhil komi vel út úr samanburðinum, þar eð Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl lendir í 2. sæti. Lofsamlegum orðum er farið um jólaútgáfu Nýhils í heild, m.a. með þessum orðum: „Nýhil-útgáfan skarar augljóslega fram úr samkeppnisaðilum í útgáfu hvað varðar hönnun bókarkápa í ár. Hver bókin frá Nýhil er annarri fegurri …“. Jafnramt segist einn álitsgjafi „alveg eins geta nefnt Svavar Pétur og 20. öldina“ og Eitur fyrir byrjendur.
Í hópi álitsgjafa Fráttablaðsins voru Bryndís Loftsdóttir hjá Pennanum-Eymundsson, Egill Helgason sjónvarpsmaður og Guðmundur Oddur Magnússon hönnunarprófessor.
Una Lorenzen á heiðurinn af hönnun bókanna tveggja sem nefndar voru auk Fenrisúlfs eftir Bjarna Klemenz. Allir þrír titlarnir voru prentaðir hjá prentsmiðjunni Odda en með þeim var einmitt ýtt úr vör samstarfi Nýhils og Odda um framsækna bókagerð, sem óhætt að segja að hefjist með stæl.

föstudagur, nóvember 24, 2006

Birta mælir með Svavari Pétri


Fylgirit Fréttablaðsins um ástina og lífið, Birta, mælir í dag með skáldsögunni Svavar Pétur og 20. öldin eftir Hauk Má Helgason. Nýhil tekur hjartanlega undir þau meðmæli og bendir áhugasömum á að festa kaup á bókinni t.d. hér, en annars í nánast hvaða bókabúð sem er.

Hannes í 4. sæti!


Hannes heldur áfram að klifra upp metsölulistana. Á bóksölulista Morgunblaðsins, sem Félagsvísindastofnun tók saman 15-21 nóv. og birtist í dag, er ævisagan komin í 4. sæti í flokki ævisagna og endurminninga.

Bóksölulisti Morgunblaðsins er helsti metsölulisti bókajólanna og byggir á sölutölum frá bókabúðum út um allt land, sem og verslunum á borð við Hagkaup og Nettó. Árangur Hannesar er því einkar glæsilegur, enda fæst hún aðeins í tveimur búðum, Mál og menningu á Laugavegi og Pennanum-Eymundsson í Austurstræti. Eins og áður hefur komið fram kostar hún litlar 99 kr.

"Ég hef hlegið af mér rassgatið!"

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, ævisagnaritari og bókagagnrýnandi Víðsjár, er "mikilvirkur bloggari", eins og kallað er. Á síðu hennar, Dagbók Tótu Pönk, segir Þórunn m.a. frá því að hún hafi nýverið lokið við fyrsta bindi ævisögu Hannessar Hólmsteins: Hannes - Nóttin er blá, mamma, og fer um hana fjarska fallegum orðum. "Ég hef verið að lesa Ævisögu Hannesar Hólmsteins eftir Óttar M. Norðfjörð og ég hef hlegið af mér rassgatið! Svo er pilturinn svo góður að hann selur eintakið á 99 krónur og Mæðrastyrksnefnd fær allan ágóða. Þessi efnismikla og góða bók fer sko í alla jólapakka frá mér!"

Hannes - nóttin er blá, mamma er gefin út af Nýhil og fæst aðeins í Eymundsson á Austurstræti og Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. Leiðbeinandi verð er 99 krónur, og líkt og kemur fram í orðum Þórunnar Hrefnu rennur allur ágóði til Mæðrastyrksnefndar.

fimmtudagur, nóvember 23, 2006

Víðsjá og Ólafur Egill um Nýhils-bækur


Leikarinn knái Ólafur Egill Egilsson er einn af þeim sem hafa þegar lesið Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl. Á myndinni má sjá ummæli hans þar um, tekin úr Blaðinu 22. nóvember sl.
Í Víðsjá birtist á dögunum úttekt Þórunnar Hrefnu Baldvinsdóttur um Svavar Pétur og 20. öldina, og hefur hann nú verið birtur á vefsíðu RÚV. Skulu allir hvattir til að lesa hann hér.

miðvikudagur, nóvember 22, 2006

Hannes strax í 9. sæti!


Landsmenn hafa augljóslega beðið spenntir eftir fyrsta bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurssonar, Hannes - Nóttin er blá, mamma. Bókin kom í búðir seinnipart mánudags (20. nóv) og á metsölulistanum sem gerður er út frá sölu dagana 15.11-21.11. í Pennanum Eymundsson og Bókabúð Máls og menningar rauk hún beint í 9. sætið yfir handbækur, fræðibækur og ævisögur! Það verður því mjög spennandi að sjá hvernig bókinni vegnar í næstu viku, en miðað við þessar fyrstu tölur má reikna með því að hún klifri allverulega upp listann.

Þess má geta að Hannes - Nóttin er blá, mamma fæst aðeins í bókabúð Mál og menningar á Laugavegi og Pennanum-Eymundsson í Austurstræti. Hún kostar litlar 99 kr. og allur ágóði hennar rennur til Mæðrastyrksnefndar.

AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMN- OÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ


Nýhil kynnir:
AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ eftir Óttar M. Norðfjörð.

AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ er frumleg ljóðabók þar semreynt er til hins ítrasta á íslenska tungumálið. Öll orðin í bókinnieru í stafrófsröð, frá fyrsta orði í fyrsta ljóði til síðasta orðs ísíðasta ljóði, og í hverjum kafla er einungis stuðst við orð sembyrja á sama bókstaf. Niðurstaðan er stórskemmtileg ljóðabók semfjallar um allt á milli himins og jarðar, skrifuð á nýstárlegutungumáli sem minnir einna helst á tónlist.

Óttar M. Norðfjörð hefur áður gefið út ljóðabækurnar Grillveður í október, Sirkus, Gula bókin og Gleði og glötun hjá Nýhil og skáldsöguna Barnagælur hjá Mál og menningu. Fyrir örfáum dögum kom einnig út fyrsta bindi í ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar – Hannes: Nóttin er blá, mamma.

Sýnishorn úr bókinni:

E.
Einusinnivar einvalalið einvaldsherra, einvörðungu Eista.Eitilharðir, eitthundrað eitthvað ekkjumenn. Ekklarnir eldgamlir,eldhressir eldhugar. Eldrauðir ellilífeyrisþegarnir elliæru elskuðuendasprettinn. Endaþarmarnir endingargóðir, endurlífganirnarendurteknar, engin ennþá erfðabreyttur. Erfiðasta ergelsið eróbikkið,ertingin espaði Evrópumennina.

AÁBCDÐEÉFGHIÍJKLMNOÓPQRSTUÚVWXYÝZÞÆÖ e. Óttar Martin Norðfjörð 58bls. 1.500 kr ISBN 9979-9581-5-6Nánari upplýsingar hjá höfundi í síma 866 9276 netf. ottarmn@gmail.com

laugardagur, nóvember 18, 2006

Fenrisúlfur dæmdur í Lesbók: dauði, dulúð, eyðilegging, myrkur og kuldi


Ólafur Guðsteinn Kristjánsson ritar gagnrýni um Fenrisúlf Bjarna Klemenzar í Lesbók Morgunblaðsins í dag. Dómurinn er frekar jákvæður og segir Ólafur Guðsteinn m.a. þetta: "Textinn er að mestu leyti vel úr garði gerður, agaður og tekst að skapa spennu sem heldur lesandanum við efnið allt til loka."
Fenrisúlf má kaupa hér.

föstudagur, nóvember 17, 2006

Arnaldur Máni um Ljóðahátíð Nýhils


"Samkoma nýhilja, alþjóðleg nota bene, ljóðahátíð á stúdentakjallaranum" er umfjöllunarefni Arnaldar Mána í stórskemmtilegum pistli á Kistunni. Lesið pistilinn hér.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Eitur fyrir byrjendur: „grípandi og endalokin óvænt“


Í Morgunblaði dagsins ritar Þórdís Gísladóttir gagnrýni um eitt af jólaflaggskipum Nýhils, Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl. Hún segir m.a.: „Bókin er grípandi og endalokin óvænt og ekki endilega augljós. … Eitur fyrir byrjendur er ekki stór bók en hún fjallar um mikilvæga atburði. Sagan býður upp á áhugaverðar vangaveltur um sambönd og sektarkennd og áhrif fortíðar á nútíð. … Eitur fyrir byrjendur er athyglisverð skáldsaga.“
Dóminn í heild sinni má lesa með því að næla sér í eintak af Morgunblaðinu, en Eitur fyrir byrjendur má eignast með því að smella hér. Þess má jafnframt til gamans geta að Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins gerir meintar líkamsmeiðingar sama rithöfundar að umtalsefni í Blaðinu í dag, sem lesa má hér.

Oddi og Nýhil undirrita samning


Prentsmiðjan Oddi og Nýhil hafa gert með sér sögulegan þriggja ára samstarfssamning. Samningurinn snýst um að leita leiða í óhefðbundnum frágangi á prentverki og er samstafinu ýtt úr vör með prentun á þremur jólaskáldsögum Nýhils en þær eru Fenrisúlfur eftir Bjarna Klemens, Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl og Svavar Pétur og 20. öldin eftir Hauk Má Helgason. Lesa má fréttatilkynninguna í heild sinni hér, en Nýhil lýsir yfir almennum fögnuði og tilhlökkun vegna undirritunarinnar, auk þakklætis. Á myndinni má sjá Viðar Þorsteinssson útgáfustjóra Nýhils og Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóra Odda, en á milli sín hafa þeir bók sem er innbundin í skyrtu áþekka þeirri sem útgáfustjórinn klæðist, glæsilegt dæmi um framsækna bókagerð!

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

Svavar Pétur og 20. öldin jólabókin í ár?


Blaðið leitar álits fjögurra einstaklinga um 'jólabókina í ár' í Jólablaði sínu og er einn þeirra ljóðskáldið unga Arngrímur Vídalín. Hann er ekki seinn á sér að nefna til sögunnar eina af jólabókum Nýhils, og viðhefur þau orð: "Það er ekki hægt að standast annan eins söguþráð og birtist í skáldsögunni Svavari Pétri og 20. öldinni, eftir Hauk Má Helgason. Bankastarfsmaður sem fenginn er til að stilla líki Johns Lennon upp í skemmtigarði í Kópavoginum til að hylla 20. öldina, en ræður ekki við afleiðingarnar. Þetta er skemmtilega firrtur gjörningur og hvergi er spurt um siðferði, en eins og LoveStar sýndi fram á um árið veit maður aldrei hvenær skáldskapurinn getur orðið að veruleika."
Arngrímur er því á öndverðum meiði við Úlfhildi Dagsdóttur, gagnrýnanda Bókmenntavefjarins, sem sárnar að höfundur Svavars Pétur útskýri kenningar franska hugsuðarðins Baudrillards 'of vandlega'.
Kaupið Svavar Pétur og 20. öldina hér.

föstudagur, nóvember 10, 2006

Dagskrá ljóðahátíðar

Í kvöld kl. 20 hefst glæsileg dagskrá ljóðahátíðar Nýhils í Stúdentakjallaranum, og heldur hún svo áfram fram á annað kvöld. Á morgun verður málþing í Norræna húsinu kl. 12 á hádegi, sem stendur til 15, og upplestur frá 16-18. Um kvöldið heldur gamanið svo áfram í Stúdentakjallaranum, og hefst sú dagskrá kl. 20. Hér að neðan er dagskrá fyrir viðburðina tvo í Norræna húsinu - og birtist hún með fyrirvara um breytingar.

Dagskrá/ Program

Föstudagur/ Friday

20.00 Þórdís Björnsdóttir
20.15 Ingólfur Gíslason
20.30 Jesse Ball
20.45 Leevi Lehto
21.05 Ófeigur Sigurðsson
21.20 Ingibjörg Magnadóttir
21.35 Gunnar Wærness
21.55 Homebreakers
22.15 Valur Brynjar Antonsson
22.35 Katie Degentesh
22.55 Kristín Eiríksdóttir
23.15 Birgitta Jónsdóttir
23.35 Kenneth Goldsmith
23.55 Berglind Ágústsdóttir
00.15 Matti Pentikäinen
00.35 Skakkamanage


Laugardagur/ Friday

20.00 Bjarni Klemenz
20.15 Stórsveit Áræðis
20.35 Jane Thompson
20.55 Haukur Már Helgason
21.10 Óttar Martin Norðfjörð
21.30 Derek Beaulieu
21.50 Donna Mess
22.10 Kristín Svava Tómasdóttir
22.25 Jörgen Gassilewski
22.45 Þórunn Erlu Valdimarsdóttir
23.05 Anna Hallberg
23.25 Eiríkur Örn Norðdahl/ Halldór Arnar Úlfarsson
23.45 Kabarettinn Músifölsk
00.05 Christian Bök
00.25 Reykjavík!

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Dómar felldir


Dómar hafa verið felldir um skáldsögu Hauks Más Helgasonar, Svavar Pétur og 20. öldin. Ritdómari Kistunnar, Arnaldur Máni Finnsson, segist sjaldan hafa lesið jafn "heilbrigðar lýsingar á kostum peninga" en gefur skáldsögunni almennt plús í kladdann, óskar bæði höfundi og Nýhil til hamingju. Nýhil þakkar fyrir sig og roðnar upp að hársrótum! Dóminn má lesa í heild sinni hér.
Samkvæmt Birni Þór Vilhjálmssyni á Morgunblaðinu "umfaðmar" Svavar Pétur og 20. öldin "svokallaðan póstmódernisma í bókmenntum og gerir sér ennfremur mat úr … kenningum og hugmyndum þessarar stefnu." Verkið spyrji "samtímann ákveðinna spurninga", en "einkum er ímyndasamfélagið yfirheyrt". Björn, sem er nokkuð tvíbentur og tvíeggjaður í dómi sínum, lætur nægja að gefa í skyn að þetta metnaðarfulla verkefni hafi heppnast, en gerir þess í stað athugasemdir við skemmtigildi verksins og líkir því við blogg. Dóminn má ekki lesa nema í prentaðri útgáfu Morgunblaðsins.

þriðjudagur, nóvember 07, 2006

Jólabókaflóð Nýhils á Súfistanum


Hinir mikilúðlegu skáldsagnahöfundar Nýhils munu miðvikudagskvöldið 8. nóvember lesa upp í hjarta íslenskrar bókmenningar, í sjálfri Bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. Hér er að sjálfsögðu um að ræða þá herrans menn Bjarna Klemenz, sem kynnir Fenrisúlf, Eirík Örn Norðdahl, sem kynnir Eitur fyrir byrjendur, og Hauk Má Helgason, sem kynnir Svavar Pétur og 20. öldin. Á þeim fáu dögum sem liðið hafa frá útgáfu bókanna hafa þær vakið gríðarjákvæð viðbrögð íslenskra bóklesenda.

Fenrisúlfur Bjarna Klemenzar lofaður í bloggheimum


Bloggarinn Valþór skýtur atvinnu-gagnrýnendum ref fyrir rass og er fyrri til að veita Fenrisúlfi Bjarna Klemensar umsögn. Hann segist "stórhrifinn" af þessari jólaskáldsögu Nýhils -- en lesið alla álitsgjörðina hér. Allar jólaskáldsögur Nýhils eru nú fáanlegar í bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu.

fimmtudagur, nóvember 02, 2006

Svavar Pétur í bloggheimum og á RÚV


Svavar Pétur á sinni 20. öld hefur tekið að sigla um úthöf nets og ljósvaka. Bloggarinn Björn Flóki sem skrifar á valinkunnurandandsmadur.blogspot.com segir skemmtilega frá viðkynningu sinni af Svavari Pétri, hér.
Guðni Tómasson, hinn aðsópsmikli þáttastjórnandi Víðsjár, spjallaði svo við Hauk Má, höfund Svavars Péturs og 20. aldarinnar, hér.

Viðar Þorsteinsson svarar Önnu Björk Einarsdóttur

Lesa má svar Viðars Þorsteinssonar við grein Önnu Björk Einarsdóttur þar sem drepið er á kaup Landsbankans á 130 ljóðabókum Nýhils, hér. Fylgist spennt með ritdeilunni!

þriðjudagur, október 31, 2006

Anna Björk, EÖN, Valur B. Antons


Nýhil veit að þið hafið ábyggilega flest lesið greinina hennar Önnu Bjarkar á Kistunni, en ef þið skylduð ekki hafa gert það þá er hún hér:
http://www.kistan.is/efni.asp?n=4940&f=4&u=98 [Til varnar ljóðinu]
Grein Eiríks Arnar Norðdahl sem minnist er á má finna hér:
http://fjallabaksleidin.blogspot.com/2006/10/vi-fornan-fjrustein.html
[Við fornan fjörustein]
Og að lokum skal ákaflega minnt á pistil Vals Brynjars sem var fluttur í Síðdegisútvarpinu í dag, en hann er einmitt hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4249630/9 [Úr Babelsturni Nýhils]

mánudagur, október 30, 2006

Hvernig svarar maður Þorsteini frá Hamri?

- eða vandinn að hafa ekki efni á Meira en mynd og grunur

Þú kaupir þér ekki nagla
til að krossfesta sálir –
þú þarft einúngis
að hnykkja rétt á orðunum.


-Úr ljóðinu Golgata eftir Þorstein frá Hamri, úr bókinni Spjótalög á spegil

Ég hafði ekki haldið niðri matarbita í tæpan sólarhring þegar ég fékk smáskilaboð frá móður minni. Síminn pípti: „Líttu í Lesbók Mbl!“ Ég tíndi til einhverjar nálægar spjarir og staulaðist fram í gegnum leifar tveggja daga gamals matarboðs, niður brakandi tréstiga Öldunnar á eigin brakandi mjöðmum. Morgunblaðið var komið.

„Ég hef ekki heyrt öðru fleygt en Eiríkur Örn Norðdahl sé skýrleiksmaður.“ Ekki get ég sagt grein Þorsteins frá Hamri hafi byrjað illa, fyrir mig. Ég las mig í gegnum pistilinn í sótthitakasti og gat einhvern veginn ekki betur séð en ég hefði, kannski í öðru eins óráði, kallað Þorstein frá Hamri „rumpulýð sem aldrei nennir neinu nema láta kjálkamótorana ganga linnulaust“, að hann væri haldinn þeim tendens að stunda „einhvers konar sjálfróun sem [á] fyrst og síðast að eiga sér stað tigarlaust hangandi í sturtuhengjum“ og að hann hafi árum saman litið svo á að list hans sé fyrir hina fáu, eigi að vera fjarlæg og hana eigi ekki að vera hægt að nálgast“.

Í veikindum mínum næsta sólarhringinn starði ég út í þennan dauða sem tveggja daga rúmlega veitir lifandi mönnum og velti fyrir mér þessari ægilegu spurningu: Hvernig svarar maður Þorsteini frá Hamri? Og fylltist satt best að segja nokkru vonleysi gagnvart verkefninu.

Hafandi löngum lagt stund á bægslagang veit ég orðið vel hversu líklegt er að einhver taki honum illa, og enn fremur hef ég lært að það er engu ólíklegra að menn taki honum illa að ósekju. Bægslagangur hefur veraldlega ókosti, en ljóðræna kosti.
Hvað ég var nákvæmlega að hugsa meðan á þessu viðtali stóð man ég varla, ég á ekki lengur heildarhugsanirnar heldur bara svörin, eins og aðrir lesendur, sem veitt voru við einhverjar tilteknar aðstæður á tilteknum tíma. Ég er ekki ósammála sjálfum mér í neinu af því sem ég segi, en ég inniheld mergðir eins og Whitman og aðrir menn, og er þó einungis fær um að finnast eitt í einu. Ég tel enn að Íslendingar séu meira gefnir fyrir að tala en að framkvæma, ég tel enn að íslensk ljóðskáld séu feimin, og á stundum hrokafull, í list sinni og ég tel enn að ljóðabækur stóru forlaganna séu of dýrar. Á meðan ég hef ekki efni á þeim eru þær of dýrar.

Löngu eftir að pestin var runnin út í veður og vind og farin að plaga eitthvað allt annað fólk en sjálfan mig, var ég enn jafn glórulaus um það hvernig maður svarar Þorsteini frá Hamri. Ég fletti honum upp á netinu. Hann hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, sagði ég við sjálfan mig og stundi þungan eins og farlama, búkollulaus karlsson. Ekki það ég vilji líkja Þorsteini við tröllskessu, svona til að fyrirbyggja allan frekari misskilning. Þetta virtist allt bara eitthvað svo vonlaust. Ég var kannski ekki ósammála sjálfum mér, en það er líka ólíklegt ég hafi skilið mig á sama hátt og Þorsteinn. Kannski var ég líka ekki alls kostar viss hvað Þorsteinn hafði sagt, kannski skildi ég hann hreinlega ekkert betur en hann mig. Sagði hann mig hafa haldið því fram að þau Ingibjörg létu kjálkamótorana ganga linnulaust? Að þau litu á ljóðlistina sem exklúsíft listform?

Til áréttingar og útskýringar: Þegar ég talaði um rumpulýðinn sem lætur kjálkamótorana ganga linnulaust átti ég einfaldlega við fólk almennt, hvorki meira né minna Þorstein frá Hamri en alla aðra Íslendinga sem ég ekki þekki. Og punkturinn er sá að gríðarlega mikið finnst af fólki sem finnst gaman að gera plön, en minna af fólki sem framfylgir plönum. Þetta hefur ekkert sérstaklega að gera með skáld. Nýhil er viðbragð við framkvæmdaleysi. Nýhil framkvæmir.

Mig grunar hins vegar að það hafi fyrst og síðast verið það sem kom næst sem særði Þorstein.

„Nýhil er ómeðvitað viðbragð við þeim tendensum innan íslenskrar ljóðlistar að hún sé exklúsíft listform, að hún sé einhvers konar sjálfsfróun sem eigi fyrst og síðast að eiga sér stað tignarlaust hangandi í sturtuhengjum. Íslensk ljóðskáld hafa árum ef ekki áratugum saman litið svo á að list þeirra sé fyrir hina fáu, og eigi að vera fjarlæg og hana eigi ekki að vera hægt að nálgast.“

Ég tek kannski fullmikið upp í mig með þessari fullyrðingu. Réttara væri að segja að mér virðist mörg íslensk ljóðskáld líta svo á að list þeirra sé fyrir hina fáu. Þetta fæ ég ekki á tilfinninguna af ljóðunum sjálfum heldur framsetningu þeirra, sem er alltaf að nokkru leyti á ábyrgð skáldanna þó ýmsir aðrir véli þar um. Ég tók sem dæmi í umræddu viðtali að mér þættu nýjar ljóðabækur frá stóru forlögunum almennt alltof dýrar, og nefndi þau Þorstein og Ingibjörgu, einfaldlega vegna þess að ég hef tvisvar snúið dapur heim úr bókaverslun sem ég hafði heimsótt til þess að kaupa mér ljóðabók. Í fyrra skiptið ætlaði ég að kaupa Hvar sem ég verð eftir Ingibjörgu og í það seinna þegar ég hugðist kaupa Meira en mynd og grunur eftir Þorstein. Mér þótti þetta afskaplega ömurleg lífsreynsla; ég þóttist eiga nægan monnípening í vasanum til að geta leyft mér þann munað að kaupa það sem þótti nýjast og heitast árið 2002. En svo var auðvitað ekki. Og ég les ekki ljóðabækur á bókasöfnum, einfaldlega vegna þess að þær fúngera ekki svo fyrir mér að ég lesi þær í gegn og skili þeim aftur út í bæ. Ljóðabækur verður maður að eiga ætli maður á annað borð að kynnast þeim.

Harðkápubækur á fallegum pappír eru fjarska eigulegar, en bækur þurfa ekki að vera mublur þó höfundarnir séu virtir og dáðir. Þannig má fagna framtaki á borð við það sem Óskar Árni Óskarsson og Bragi Ólafsson réðust í með liðsinni Smekkleysu fyrir fáeinum mánuðum að gefa út lítil kver sem hvort kostar 1.290 krónur, nýjar ljóðabækur Bjarts eru á tæplega 1.700 krónur, og þar sem ég nefni Nýhil sem viðbragðið er rétt að geta líka seríunnar Norrænar bókmenntir, þar sem kaupa má 9 ljóðabækur fyrir alls 6.750 kr. Sú upphæð hefði ekki dugað mér fyrir tveimur harðkápuljóðabókum frá Máli og menningu árið 2002.

Þá skilst mér að samningar RSÍ um spilun ljóða í útvarp séu þannig gerðir að útvarpsmenn veigri sér við að hleypa ljóðum í loftið, af ótta við að brenna upp fjárlög heilu þáttana á örfáum mínútum. Og segir mér svo hugur að þennan samning hafi skáldin sjálf samið.

Alla mína ævi hefur verið gengið út frá þeirri forsendu að ljóðið sé dautt, meira að segja þegar fjálglegast er lýst yfir lífi þess, er forsendan þessi dauði: Ljóðið er aldrei einfaldlega lifandi, það er „ekki dautt“. Ég lifði aldrei neina tíð þar sem ljóðlist þótti sjálfsögð, og veit ekki einu sinni hvort hún hefur nokkurn tímann verið til. Mér hefur alla tíð, eða í öllu falli frá því ég fór sjálfur að möndla við skáldskap, þótt þetta alveg gríðarleg vonlaus afstaða. Hverjum sem um er að kenna, skáldum, lesendum, fjölmiðlum, ljóðunum, eða öllum saman.

En maður svarar auðvitað ekki Þorsteini frá Hamri með orðavaðli, tafsi og útskýringum. Maður biðst bara velvirðingar. Mér þykir í raun og sanni miður hafi orð mín valdið honum hugarangri. Þeim var ekki síst ætlað að benda á þann vanda að dýrar bækur eru eðlilega bara fyrir vel sett fólk.

Eiríkur Örn Norðdahl
- Greinin birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 28. október.

föstudagur, október 27, 2006

Fenrisúlfur - spangólandi 2. jólaskáldsaga Nýhils


Nýhil kynnir:

FENRISÚLFUR e. Bjarna Klemenz

Í Reykjavík sem er skuggalegri en nokkur glæpasaga dvelur Bergur, hávaðaseggur og miðbæjarrotta sem lifir í fantasíuheimi á mörkum noise-tónlistar og norrænnar goðafræði. Hann kemst í kynni við hina dularfullu BDSM-drottningu Védísi á netinu og þarf í kjölfarið að keppa um hylli hennar við súkkulaðidrenginn sem gengur undir nafninu Bronsmaðurinn, hvers dagar verða brátt taldir ... Á bak við allt saman lúrir skuggi undraverunnar eða ofurhetjunnar Fenrisúlfs – sem Bergi er ekki ljóst hvort er eigin hugarsmíð eða blákaldur raunveruleiki. En svo mikið er víst að bíll Bergs ber heitið Naglfar og hann er fastagestur á skemmtistaðnum Niflheimi.

„Fenrisúlfur iðar af skuggum og skrímslum hversdagsins“ – Hugleikur Dagsson

Margklofnir persónuleikar, hnakkar, treflar og hvítir hrafnar leika lausum hala í þessari fyrstu skáldsögu Bjarna Klemenzar (f. 1978), æsispennandi noir-trylli sem er ekki fyrir viðkvæmar sálir. Útgefandi er Nýhil.

Fenrisúlfur verður fáanlegur í verslunum ásamt hinum jólaskáldsögum Nýhils, en þær eru Svavar Pétur & 20. öldin (Haukur Már Helgason) og Eitur fyrir byrjendur (Eiríkur Örn Norðdahl).

Nánari upplýsingar veitir Viðar Þorsteinsson, útáfustjóri Nýhils, í s. 695 4280, nyhil@hive.is

Fenrisúlfur | 176 bls. | útg. Nýhil 2006 | viðmiðunarverð 3.500 krónur | ISBN 9979-9751-3-X

föstudagur, október 20, 2006

20. öldin snýr aftur – Nýhil kynnir skáldsögu Hauks Más Helgasonar


Nýhil kynnir:

SVAVAR PÉTUR & 20. ÖLDIN e. Hauk Má Helgason

„Það er hvorki neitt við lífið að athuga né um það að segja. En það má drepa tíma með orðum, það er fínt.“
– Svavar Pétur, bankastarfsmaður

Svavar Pétur og 20. öldin segir af bankastarfsmanninum eilífa, Svavari Pétri Svavarssyni, sem er gert að flytja líkið af John Lennon frá New York til Kópavogs, þar sem því verður stillt upp við hafnarmynnið til að bjóða íbúa velkomna í 20. aldar-garðinn Öldina okkar. „Atburðastýran“ Ásthildur gerir Svavari Pétri tilboð sem hann getur ekki hafnað uns verkefnið vex honum, vægast sagt, yfir höfuð, og jafnvel persónulegustu minningar hans sjálfs af 20. öldinni eru ekki lengur óhultar.

„Þeir sem fylgdust í forundran með Yoko Ono reisa súlu handa Lennon á sama tíma og Gorbachev var skyndilega staddur í Höfða í boði Landsbankans hafa eflaust velt fyrir sér hvaða mikli höfundur stóð á bak við þessa atburði. Sá höfundur var Haukur Már Helgason og hann er til alls vís.“ – Andri Snær Magnason

Þetta er fyrsta skáldsaga Hauks Más Helgasonar, sem áður hefur sent frá sér ljóðabækur og kennslubækur. Útgefandi er Nýhil.

Von er á tveimur skáldsögum til viðbótar frá Nýhil fyrir jólin. Þær eru Fenrisúlfur eftir Bjarna Klemenz og Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl

Nánari upplýsingar veitir Viðar Þorsteinsson, útáfustjóri Nýhils, í s. 695 4280, nyhil@hive.is

Svavar Pétur og 20. öldin | 176 bls. | útg. Nýhil 2006 | viðmiðunarverð 3.500 krónur | ISBN 9979-9751-4-8

miðvikudagur, október 18, 2006

Gagnrýni um Veru og Linus í Publisher's Weekly

Stærsta og virtasta málgagn heims í útgáfumálum, Publisher's Weekly, birti í vikunni ritdóm um hið Nýhil-útgefna prósaverk Vera og Linus. Dómurinn er á þessa leið:
"In this unusual collection of what are arguably prose poems, sketches or pieces of flash fiction, husband and wife Ball (March Book, 2004) and Björnsdottir introduce a charming yet gruesome pair of protagonists: Vera and Linus. They are childlike, living in a world where giving presents and playing are top priority, but they are also devoted lovers and perhaps siblings. Their twisted fairy tale world is as magical as it is disturbing: in it, a treasure chest opens up to reveal an entire lake inside, and children and animals are tortured for the protagonists' amusement. Episodes of violence ("Vera and Linus broke the dog's neck and put the body into a brown canvas bag which they tied neatly with great satisfaction") are often sewn seamlessly into scenes of fanciful beauty: "...their sorrows were carried away... to the court of the sea-king, and dined on there to much acclaim...." The light touch and often archaic feel of the prose owes as much to Kafka as to classic fairy tales. Certainly many readers will find this book unsettling, but most will also find it hard not to remember a time when the world was filled with this kind of fearful mystery and wonder, though hopefully not this kind of violence."
Nýhil óskar Jesse og Þórdísi til hamingju. Veru & Linus má kaupa í öllum helstu bókabúðum.

föstudagur, september 08, 2006

Um Nýhilkvöldið í Þjóðleikhúskjallaranum

http://10000tw.blogspot.com/2006/09/ljapart-nhils-g-var-alltof-fullur.html

fimmtudagur, september 07, 2006

Spjallað við Þórdísi í Víðsjá


Í tilefni af útkomu bókarinnar Vera & Linus eftir Jesse Ball og Þórdísi Björnsdóttur tók Víðsjá viðtal við þá síðarnefndu. Þar segir Þórdís frá tilurð bókarinnar í léttu spjalli við hinn geðþekka Hauk Ingvarsson, auk þess sem hún les upp úr verkinu. Viðtalið má hlusta á hér. Nýhil minnir á að Þórdís og Jesse lesa upp úr Veru & Linus í Þjóðleikhúskjallaranum fimmtudagskvöldið 7. september.

laugardagur, september 02, 2006

Sumarútgáfu Nýhils fagnað


Í sumar hafa sjö nýir titlar frá Nýhil litið dagsins ljós. Um er að ræða prósaverk á ensku, Vera & Linus, eftir Jesse Ball og Þórdísi Björnsdóttur, ljóðabókina Barkakýli úr tré eftir Þorstein Guðmundsson, og seinni bækurnar fimm í bókaflokkinum ‘Norrænar bókmenntir’, en þær eru Roði (e. Ófeig Sigurðsson), Húðlit auðnin (e. Kristínu Eiríksdóttur), Og svo kom nóttin (e. Þórdísi Björnsdóttur), Eðalog (e. Val Brynjar Antonsson) og Litli kall strikes again (e. Steinar Braga).

Nýhil hyggst minna rækilega á kraftmikla útgáfu sumarsins með upplestrarkvöldi í Þjóðleikhúskjallaranum fimmtudagskvöldið 7. september næstkomandi. Skáldin munu lesa úr nýútkomnum verkum auk þess sem frekari útgáfa haustsins verður kynnt. Söngkonan blíða Lay Low léttir lund á milli atriða og auðvelt verður að nálgast hressingar á barnum. Húsið opnar klukkan 20:00 en dagskrá hefst um 20:30.

Nánari upplýsingar: Viðar Þorsteinsson útgáfustjóri Nýhils, vidart@hi.is, s. 695 4280 og Þór Steinarsson, steinarsson@gmail.com, s. 692 0979

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Barkakýli úr tré

Út er komin ljóðabókin Barkakýli úr tré eftir Þorstein Guðmundsson grínista og rithöfund. Í henni er að finna yfir 100 einföld og stutt ljóð í anda þess fáránleika og þeirrar undirfurðulegu sýnar á hversdaginn sem hann er þekktur fyrir. Viðfangsefni Þorsteins eru margvísleg, allt frá Napóleon til Vinstri-grænna, frá bensínafgreiðslumönnum til gamla mannsins sem stofnaði Garðabæ. Bókin er kilja í vasabókarbroti og fæst í nokkrum vel völdum verslunum á stór-Reykjavíkursvæðinu og á þeim dreifbýlisstöðum sem teljast þess virði að bjóða upp á ljóð en hana má einnig nálgast með því að senda skáldinu sjálfu vinsamlegt sendibréf. Verð bókarinnar er 1.890 kr. Útgefandi er Nýhil og Eiríkur Örn Norðdahl ljóðskáld ritar formála.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Nýhil rokkar í Bókaverslun Máls og menningar


Að Laugavegi 18 hefur um langt skeið staðið hús. Húsið var byggt fyrir blóðpeninga ógnarstjórnarinnar í Sovétríkjunum, en á íslandi voru kommúnistar fylgileppar og kvislingar þessa illa heimsveldis. En til þess að þeir gætu logið meira að fólki þá þurftu þeir að byggja hús til að selja lygar sínar í. Þá fengu þeir peninga frá Stalín og lygurum og morðingjum hans til að gera það.
Mánudaginn 21. ágúst tekur Nýhil þátt í dagskrá með fleirum (þ.á m. hljómsveitinni Fræ) sem byrjar klukkan 15:00 í Bókaverslun Máls og Menningar. Komið þangað.

Úlfhildur Dagsdóttir um Norrænar bókmenntir II


Á Bókmenntavefnum hefur nú birst ritdómur Úlfhildar Dagsdóttur um ljóðabækurnar fimm í seinna holli ljóðabókaseríunnar Norrænar bókmenntir. Úlfhildur segir "með þessari fimm bóka útgáfu hafa orðið nokkur bókmenntaleg tíðindi." Dóminn í heild sinni má lesa hér.

sunnudagur, júlí 30, 2006

Vera & Linus í Reykjavík Mag


Í ágústlok gefur Nýhil út á Íslandi verkið 'Vera & Linus' eftir Jesse Ball og Þórdísi Björnsdóttur. Eilítinn forsmekk að dásemdunum má sjá í umfjöllun og viðtali sem birtist í Reykajvík Mag, hér.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Nýhil í Grapevine - Bezt í heimi!

Nýhilbúðinni auðnaðist á dögunum sá heiður að vera valin í "Bezt í heimi" í hinu öðla tímariti The Reykjavík Grapevine. Þar segir m.a. "Now, the Nýhil group has found a home for their work, taking over a sitting room in the Smekkleysa (Bad Taste) Record Shop and turning it into the poet’s sweetest dream. Perhaps surprising for people who have followed the group’s more gritty tendencies, the poetry shop is basically high end, featuring tome after tome, set into bookshelves and, in one of the salesperson’s own words, “The most expensive display case in the city.”" - Greinina má lesa í heild sinni hér. Þá má geta þess að á næstu vikum munu birtast ljóð eftir þá Nýhilista sem eiga bók í seríunni Norrænar Bókmenntir í Grapevine, og reið Eiríkur Örn Norðdahl á vaðið í síðasta blaði og má finna hans innlegg hér.

Myndin hér að ofan, sem sýnir þrusufólk í banastuði við opnun Nýhilbúðarinnar, var tekin af Helga J. Haukssyni.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Benedikt Hjartarson fjallar um Norrænar bókmenntir

Góðkunni framúrstefnufræðingurinn Benedikt Hjartarson hefur líklega glaðst öðrum mönnum meira yfir úgáfu Norrænna bókmennta, enda ekki á hverjum degi sem að stefnt er fram úr daufþykkum og daunillum samtíma íslensks skáldskapar.
Hann hefur nú tekið sama tvö erindi um seríuna sem flutt voru í Víðskjá og nálgast má hér: 1, 2.

miðvikudagur, júní 28, 2006

Vessalingur minn


Lesið æsispennandi ritdeilu Magnúsar Þórs Snæbjörnssonar og Kristínar Eiríksdóttur á 10.000 tregawöttum.
Fyrsta innlegg Magnúsar, Vessapóesía, hér.
Svar Kristínar, Aparass, hér.
Andsvar Magnúsar, Hve gamall varð hann Adam, hér.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Lata stelpan

„Hitaveiturörin á veggnum gefa frá sér lágt, vinalegt suð og himneskan yl. Lötu stelpuna langar engan veginn að yfirgefa þessa tvo vingjarnlegu menn og rólegt andrúmsloftið. “ Svo segir í greinarkorni á hinu stórfína vefriti Lata Stelpan um yndislegustu bókabúð höfuðborgarsvæðisins, Ljóðabókaverzlun Nýhils í Kjörgarði (vingjarnlegu mennirnir eru Örvar Þór. Smár. og Þór St. Einarsson). Greinarkornið má lesa með því að smella hér. Lesendur eru þó beðnir um að vara sig á fullyrðingum um að Örvar Þóreyjarson Smárason, verzlunarstjóri, sé innkaupastjóri. Sjálfsagt má kenna gömlum þrjótsskap Örvars um þessa misfellu í framvindu sögunnar.

mánudagur, júní 19, 2006

Ný sending í Nýhil-búð!

Kæru vinir, nær og fjær,
Nýhil tilkynnir hér með um nýja sendingu í Ljóðabókaverslun sína! Um er að ræða það sjóðheitasta og besta frá kanadíska ljóðaútgáfuframverðinum Coach House Press, og innifelur höfunda á borð við Christan Bök, Angelu Rawlings, bp Nichol, Sylviu Legris, Bruce Andrews, Derek Beaulieu og Jon-Paul Fiorentino. Bækurnar eru allar hóflega verðlagðar og bíða þess eins að rata í hendur opinmynntra ljóðaunnenda.
Ykkar,
Nýhil

mánudagur, júní 12, 2006

Tandri Árdal: Af gefnu tilefni


(Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 9. júní)
Það er ekki oft sem það gefst jafn skemmtilegt tækifæri til að bregðast við kalli um úrbætur eins og nú, þegar síður Morgunblaðsins hafa verið þaktar skrifum um þörf á góðum bókaverslunum í henni Reykjavík. Ólafur Stefánsson frá Syðri-Reykjum skrifar í gær, í tilefni af þörfum pistli skáldbróður míns Péturs Gunnarssonar, um hnignun kaupmennsku á sviði bókmennta í samtímaveruleika okkar. Vissulega hafa margir orðið til að benda á – einkum sín og milli og í einkasamtölum – að í óefni sé komið þegar ekki er lengur hægt að ramba inn í fallega bókabúð og láta þar fingur leika eftir rykföllnum kilinum á stórvirki einhvers af gömlu meisturunum.
Þannig er nútíminn – trunta, eins og einhver sagði! – að allt er á hverfanda hveli, og eitt tekur við af öðru. En þó er ekki öll von úti, því nýverið opnaði einmitt í miðbæ Reykjavíkur bókaverslun sem gefur fyrirheit um betri tíð. Ég er hér að sjálfsögðu að tala um Ljóðabókaverslun Nýhils, sem opnaði þann 23. maí í kjallaranum í Kjörgarði, Laugavegi 59. Ungu skáldin taka við þar sem okkur þá eldri brestur, og hafa svo sannarlega sýnt að þau eru föðubetrungar á fleiri en einu sviði. Í þessari ágætu ljóðabókabúð er að finna nánast allt það sem Ólafur lætur sig dreyma um – ‘notalegt umhverfi’, ‘fagfólk’ (já, ef ekki hreinlega starfandi rithöfunda, og þá ekki af verri endanum!) og sannkallaða, dulúðlega bókastemningu.
Ég vonast til að rekast á þá kumpána, Ólaf og Pétur, einhvern sólríkan eftirmiðdaginn í ljóðabókaverslun Nýhils, einu alvöru bókabúðinni í Reykjavík!
-- Tandri Árdal (Höfundur er ljóðskáld og fyrrv. léttvínsinnflytjandi)

þriðjudagur, maí 30, 2006

Helgi J. Hauksson myndar Nýhil

Ljósmyndarinn Helgi J. Hauksson var meðal þeirra sem mætti á glæsilega opnun Ljóðabókaverzlunar Nýhils þann 20. maí síðastliðinn. Helgi beitti kubbnum af fádæma listfengi og nákvæmni, eins og hann á ættir til, og má nú sjá afrakstur þess á síðu Helga: http://www.bsh.is/Nyhil/. Á myndinni sem er hér til hliðar, sem er ein þeirra sem Helgi tók, má sjá þá Hauk Má Helgason, stofnfélaga í Nýhil og Þór Steinarsson, framkvæmdastjóra Nýhils, ræða eilífðina við listaskáldið vonda, Sigurð Pálsson.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Vídjóbókaljóðabúð


Get this video and more at MySpace.com
Þessi fallega búð var opnuð á laugardag.

föstudagur, maí 19, 2006

Norrænar bókmenntir II

Nýhil kynnir! Titrandi af stolti! Norrænar bókmenntir II!

Um er að ræða síðara holl í ljóðabókaseríu Nýhils, fimm ljóðabækur frá jafn mörgum nýhilistum. Ónefnd bók eftir Þórdísi Björnsdóttur, Eðalog eftir Val Brynjar Antonsson, Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur, Litli kall strikes again eftir Steinar Braga og Roði eftir Ófeig Sigurðsson.

Þá væri okkur mikil ánægja að sjá þig við opnun búðarinnar okkar næstkomandi laugardag, þar sem til sölu verða bækur Nýhils og annar varningur auk frábærs og áður óþekkts úrvals af ljóðum, innlendum og erlendum. Húsnæði verslunarinnar er að Laugavegi 59, í kjallara Kjörgarðs, inn af plötuverslun Smekkleysu. Opnunin stendur frá 16 til 18 og í boði verða léttar veitingar, ljúf skemmtiatriði og leiðinleg ræðuhöld. Búðin verður framvegis opin virka daga frá 14 til 18. Áskrifendur að Norrænum bókmenntum geta sótt eintök sín í búðina, og þeir sem það gera á laugardaginn fá safnljóðabók Nýhils Ást Æða Varps í kaupbæti. Aðrir áskrifendur fá svo seríuna senda heim. Þeir sem vilja kaupa sér áskrift að seríunni geta gert það í ljóðabókabúð Nýhils, eða með því að senda tölvupóst á nyhil@nyhil.org. Fyrri bækurnar fjórar í seríunni voru Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason, Blandarabrandarar eftir Eirík Örn Norðdahl og Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason. Allar þessar níu bækur fást fyrir litlar 6.750 krónur.
Frekari upplýsingar er að fá hjá Þór Steinarssyni, framkvæmdastjóra Nýhils (692-0979) eða Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni, verslunarstjóra Nýhils (869-3099).

Upplýsingar um skáldin:

Kristín Eiríksdóttir (1981-)


Kristín Eiríksdóttir er ljóðskáld og myndlistarmaður. Eftir hana liggur ljóðabókin Kjötbærinn, sem hún myndskreytti, og fjöldinn allur af myndlistarsýningum. Kristín hlaut fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni Eddu og Fréttablaðsins 2004.


Ófeigur Sigurðsson (1975-)


Ófeigur Sigurðsson er ljóðskáld, heimspekinemi og tónlistarmaður. Eftir hann liggja ljóðabækurnar Skál fyrir skammdeginu og Handlöngun, og skáldsagan Áferð.


Valur Brynjar Antonsson (1976-)


Valur Brynjar Antonsson er ljóðskáld. Hann lauk BA-prófi í heimspeki frá HÍ árið 2004. Eftir hann liggur ljóðabókin Ofurmennisþrá.


Steinar Bragi Guðmundsson (1975- )


Steinar Bragi Guðmundsson skrifaði ljóðabækurnar Ljúgðu Gosi, ljúgðu, Útgönguleiðir, Svarthol og Augnkúluvökvi og skáldsögurnar Áhyggjudúkkur; Sólskinsfólkið; og Turninn.


Þórdís Björnsdóttir (1978-)

Þórdís Björnsdóttir er ljóðskáld. Eftir hana liggur ljóðabókin Ást og appelsínu, sem meðal annars var sett á svið á Akureyri. Von er á samstarfsverkefni hennar og bandaríska ljóðskáldsins Jesse Ball, Vera & Linus, síðar á árinu.