mánudagur, desember 18, 2006

Skáldsögur Nýhils lofaðar

Bókmenntafræðineminn Kristján Atli Ragnarsson hefur nýlokið við að lesa sig í gegnum skáldsagnahluta jólabókaflóðs Nýhils, og er skemmst frá því að segja að hann eys bækurnar miklu lofi.

Um Svavar Pétur & 20. öldin eftir Hauk Má Helgason segir hann meðal annars: "Svavar Pétur og 20. öldin er fyrsta skáldsaga Hauks Más Helgasonar og mætti því tala um að hann mæti á senuna með látum. Það fyrsta sem maður tekur eftir við söguna er hversu þéttur prósinn hjá honum er. [...] Með frásögn Svavars Péturs færir Haukur Már síðustu öld og núverandi saman með nýstárlegum hætti svo úr verður kolsvört háðsádeila á markaðsráðandi tískusamfélag Íslands."

Um Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl segir hann m.a.: "Stundum er minna meira og hin hálf-mínímalíska frásögn sögumanns af sambúðinni við vinkonu sína dansar vel hina fínu línu á milli þess að vera of ýkt og að vera ekki nógu ítarleg. [...] Textinn hér er einfaldlega frábær og ég verð að viðurkenna að það eru ekki margar íslenskar skáldsögur á þessum áratug sem ég man eftir sem standa Eitrinu jafnfætis í þeim efnum. [...] Eitt óborganlegasta atriði sem ég hef lesið í íslenskum skáldskap í lengri tíma er að finna í þessari bók, þar sem lætin í parinu eru að æra Halldór sem leitar sér hugarafdreps í að fylgjast með sprungum í loftinu frammí stofu. Það atriði, vopnað frábærum prósa Eiríks Arnar, er algjört dúndur."

Um Fenrisúlf eftir Bjarna Klemenz segir Kristján Atli þá m.a.: "Sagan er ótrúlega flæðandi og prósinn gríðarlega ríkur - hjá Bjarna, ólíkt Hauki Má og Eiríki Erni, er meira vissulega meira - og sagan sjálf minnti mig um margt á bækurnar Neverwhere og American Gods eftir Neil Gaiman, en eins og hann blandar Bjarni nútímanum og goðsögnum saman á nýstárlegan og ferskan hátt.
Þessi bók er einfaldlega ótrúlega ríkuleg, hvort sem litið er á prósann eða söguna. [...] Ef hann getur skrifað svona góða skáldsögu í fyrstu tilraun verður spennandi að sjá hvað hann gerir næst."

Umfjöllun Kristjáns Atla er hægt að lesa í heild sinni á heimasíðu hans.

Bækurnar má meðal annars kaupa á www.eymundsson.is, www.boksala.is, www.baekur.is, og www.haraldur.is. Þá er þær að sjálfsögðu að finna í öllum bókabúðum sem standa undir nafni.

Engin ummæli: