fimmtudagur, september 27, 2007

Fönix á þúsundkall - örfá eintök eftir - útgáfu flýtt

Forsala fjórðu ljóðabókar Eiríks Arnar Norðdahl, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum, hefur gengið vel og er nú einungis um fjórðungur forsölulagersins eftir, en líkt og kunngjört hefur verið verða fyrstu 200 eintökin af bókinni seld á sérstöku tilboði með 60% afslætti, eða á stakan þúsundkall. Í tilefni af góðum viðtökum við tilboði þessu hefur útgáfu bókarinnar verið flýtt, og mun hún koma út um miðjan október en ekki í byrjun nóvember eins og til stóð.
Athygli er vakin á að enn eru ríflega 50 eintök eftir óseld á þúsund krónur, og hægt er að festa sér eintak með því að senda skáldinu tölvupóst á kolbrunarskald@hotmail.com.
Eiríkur hefur áður gefið út ljóðabækurnar Heimsendapestir, Nihil Obstat og Blandarabrandarar, auk þess sem hann gaf út bókina Handsprengja í morgunsárið ásamt Ingólfi Gíslasyni. Þá ritstýrði hann bókinni Af ljóðum, og gaf nýlega út ljóðaþýðingasafnið 131.839 slög með bilum, þar sem finna má þýðingar á verkum 61 skálds, að mestu eftir erlend samtímaskáld. Eiríkur er einnig höfundur skáldsagnanna Hugsjónadruslan og Eitur fyrir byrjendur.

föstudagur, september 21, 2007

Angela Rawlings og Leif Holmstrand - efni á Tregawöttum

Ágætu landsmenn.

Angela Rawlings er kanadískt ljóðskáld sem mun heiðra 3ju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils, sem fram fer 12.-14. október næstkomandi, með nærveru sinni. Rawlings hefur átt geysilega frjósaman feril þrátt fyrir ungan aldur, og er ein stærsta stjarnan í kanadískri ljóðagerð. Hún gefur út verk sín, eins og ófá kanadísk ljóðskáld, hjá Coach House Press, og er undir áhrifum af LANGUAGE-poetry hefðinni. Stílbrigði og áferð tungumálsins sjálfs leika ríkulegt hlutverk í skrifum hennar, svo úr verður hrein og allt að því ómenguð lýrík, gjörsneidd fígúratívu myndmáli. Hér má hlýða á Angelu lesa ljóð úr þekktustu ljóðabók sinni, Víður lúr fyrir fiðrildafræðinga.

Þá skal vakin athygli á þýðingu sem Hjörvar Pétursson gerði á ljóði Angelu „Þvagleki“ sem birtist í Nypoesi ásamt afar skemmtilegri fónólógískri þýðingu 'til baka' á ensku sem gerð var af Hugh Thomas, undir titlinum "The Vague Lucky."

Leif Holmstrand hefur einnig dreift hljóðbylgjum á öldur netsins, og má lesa samantekt um nokkur hljóðaljóð-verk hans á Tregawöttunum.

mánudagur, september 17, 2007

Póstmódernískur sitúasjónisti þýðir Baudelaire, en kemur líka á ljóðahátíð

Surrealism meets poetry-as-noise meets 17th century dissidents and refusers. Teasing hints of folk classics (she walked through the fair) are inserted into chance texts and suggestive vocabulary which may just lead you up a garden path. Sometimes the ride is worthwhile but hold onto your hat. - Steve Spence um Blade Pitch Control Unit eftir Sean Bonney

Einn af dularfyllstu gestum Alþjóðlegu Ljóðahátíðar Nýhils sem fram fer 12.-14. október næstkomandi er Bretinn snarhenti Sean Bonney. Bonney yrkir prósa og ljóðrænu af margvíslegum toga, og er ef til vill þekktastur fyrir framúrstefnulegar og undirfurðulegar "þýðingar" sínar á ljóðum Baudelaires, sem birtar hafa verið hinu virta ljóðavefriti Onedit. Prósaverk Seans eru hins vegar meira í ætt við einhvers konar póst-módernískan sitúasjónisma, en ljóð sem nú hefur birst á Tregawöttum ber því ágætis vitni.

sunnudagur, september 16, 2007

Forsala Fönixins hafin: Þúsundkall!

Í byrjun nóvembermánaðar kemur út ljóðabókin Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum eftir Eirík Örn Norðdahl, hjá Nýhil. Bókin, sem er vel ríflega 200 síður, inniheldur m.a. 50 blaðsíðna ljóðabálk um liðhlaupa úr Þorskastríðinu, 8 blaðsíðna ljóðahljóðabálkinn Einræðisherrarnir, og 60 blaðsíðna róttæka endurvinnslu á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, auk ljóðsins Parabólusetning, sem hlaut viðurkenningu í Ljóðstafi Jóns úr Vör fyrr í ár, og fjölda annarra ljóða, bæði ljóðmælandi og framúrstefnandi nýmæla í íslenskri ljóðagerð. Þá skrifar Ingólfur Gíslason formála að bókinni, Haukur Már Helgason er höfundur miðmála og eftirmálann ritar Bryndís Björgvinsdóttir.

Prentkostnaður er höfundum og forlögum oft þungur róður, og því hefur Nýhil gripið til þess ráðs að selja verk þetta í forsölu á verði sem varla á sinn líka, þar sem gefinn verður 60% afsláttur af útsöluverði, sem verður 2.500 krónur, og bókin seld á sléttan þúsundkall.

Ath.: einungis 200 eintök verða seld í forsölu.

Á kápu bókarinnar lýsir ljóðskáldið Valur Brynjar Antonsson bókinni svo: „Nú í þessa tíð þarf eitthvað eins og öxulveldi hins illa, öxul yfir vötnin, öxul sem spannar Ísafjörð, flugstöð Leifs Eiríkssonar og Helsinki City, til að skjóta fallbyssukúlum í hnakkann á hversdagsleikanum, töfrunum og einfaldleikanum. Nú þurfum við hryðjutíð, fellalög og kannski ekki síst hreðjatök, því að þegar kemur að Estrógeni, þá sýnir Eiríkur að „less is more“.“

Bókina er hægt að panta með að senda skáldinu póst á netfangið kolbrunarskald@hotmail.com.

föstudagur, september 14, 2007

10 þúsund tregawött eru fjölbiðill 3ALN

Tekist hefur samkomulag við framsæknasta ljóðamiðil Íslendinga, 10 þúsund tregawött, um að sá síðarnebdi taki að sér að hlutverk "media partners" ellegar "fjölbiðils" 3ju Alþjóðlegu Ljóðahátíðar Nýhils. Tregawöttin hafa um langt skeið verið eini vettvangur öflugs þýðingastarfs á samtímaljóðlist, og fer því vel á að þýðingar og kynningar á verkum gesta ljóðahátíðar fari þar fram.
Nálgast má allt efni á Tregawöttunum sem snýra að 3ALN með því að smella á þar til gerðan flokk.
Góðar stundir,
V.

þriðjudagur, september 11, 2007

Gestir ljóðahátíðar byrjaðir að rokka

Einn af þeim ástsælu rithöfundum sem sækir landið heim í tilefni 3ju ljóðahátíðar Nýhils er kraftaköggullinn Linh Dinh. Hann er marverðlaunaður bæði sem prósahöfundur og ljóðskáld, en verk hans eru oftar en ekki refleksjónir um gildrur tungumálsins. Sjálfur er Dinh tvítyngdur, fæddur í Víetnam en uppalinn í BNA. Hann hefur tekið að blogga hér. Á Tregawöttunum má einnig sjá Linh Dinh lesa upp.

Þá hefur Eiríkur Örn Norðdahl snarað ljóði eftir Svíann hugumprúða Leif Holmstrand yfir á íslensku, og birt á þeim sömu Tregawöttum. Leif er rithöfundur sem jafnframt hefur gert það gott á öðru sviði, líkt og á við marga meðlimi Nýhiles -- en Leif þykir mjög upprennandi myndlistarmaður í Svíþjóð.

sunnudagur, september 09, 2007

3ja aljóðlega ljóðahátíð Nýhils


Ágætu landsmenn.

Nýhil blæs til sinnar 3ju alþjóðlegu ljóðahátíðar. Hún mun fram fara í Reykjavík 12.-14. október og hafa eftirtalin erlend skáld staðfest komu sína:
- Lars Skinnebach
- Leif Holmstrand
- Markku Paasonen
- Vilja-Tuulia Huotarinen
- Sean Bonney
- Angela Rawlings
- Linh Dinh

Á næstu dögum birtast kynningartextar um skáldin auk þess sem dagskrá verður auglýst.

N.