föstudagur, desember 22, 2006

Afrek?


Loksins, loksins gefur Sigurður Hróarsson, nýr ljóðagagnrýnandi Fréttablaðsins, ljóðabók færri en fjórar stjörnur!

Ljóðabókin sem stöðvaði 4 til 5 stjörnu dóma hans er enginn önnur en A-Ö eftir Óttar M. Norðfjörð , sem gefin er út undir formerkjum Nýhil, en hún fékk einungis 1 stjörnu hjá Sigurði.

Við óskum Óttari til hamingju með þetta mikla "schlecht aber gut"-afrek!

Bóksalar, Hannes, Eitur og Norrænar bókmenntir

Fjallað er um bókmenntaverðlaun bóksala í Blaðinu í dag. Þar er Kristján Freyr Halldórsson, verslunarstjóri Eymundsson, tekinn tali og segir hann upp og ofan af verðlaunum. Segist Kristján sjálfur hafa valið Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl sem bestu íslensku skáldsöguna. Þá tjáir Kristján sig einnig um ævisögu Óttars Martin Norðfjörð, Hannes - nóttin er blá, mamma, og segir: „Þetta er mjög áhugavert mál frá a-ö. Ég hef lúmskt gaman af þessu öllu saman, sérstaklega þegar maður heyrir frá bókaútgefendum sjálfum sem margir hverjir eru að malda í móinn. Hannes er bók því hún er með IBSN númer. Mín Biblía fyrir jólin eru Bókatíðindi sem Félag íslenskra bókaútgefenda sér um og þar er bókin skilgreind sem bók og sem slík er hún skráð inn í okkar verslanir. Hannes hefur selst vonum framar, Óttar var að árita í einni af okkar verslunum um helgina og það fóru mörg hundruð eintök út. Málstaðurinn er góður en allur ágóði rennur til Mæðrastyrksnefndar. Mér finnst þetta ákaflega göfugt og gott framtak hjá honum Óttari fyrir jólin og ég bíð spenntur eftir næsta bindi.“

Þá er rétt að benda á að dómur Þórunnar Hrefnu Sigurjónsdóttur um Eitur fyrir byrjendur í Víðsjá. Sagði Þórunn m.a.: "Sorgin í sögunni, sem er umtalsverð, er ekki tækluð með neinu sorgarklámi, sem betur fer. Sögumaðurinn sýnir hæfilega nærgætni þó að hann sé stundum meinhæðinn, sem er undarlega heillandi, eins sikk og það hljómar. [...] Eiríkur Örn Norðdahl sýnir á sér nýjar hliðar með Eitri fyrir byrjendur. Hún er dýpri, einhvern veginn fegurri en fyrri bækur hans. Og þó að kafað sé í innsta eðli mannlegrar sorgar er það gert af hæfilegum stráksskap þess sem veit að sorgin og sektin verða alltaf til staðar hvort sem við lokum okkur inni eða eitrum fyrir okkur. Þess vegna er um að gera að láta byrðarnar ekki sliga sig...og bara flissa svolítið."

Dóminn má lesa hér.

Loks má geta þess að nýlega birtist grein í tímaritinu Nordisk Litteratur um Nýhil. Ingi Björn Guðnason skrifar. Greinina má lesa (á ensku) hér.

Eitur fyrir byrjendur má kaupa með því að smella hér, og Hannes má kaupa með því að smella hér.

fimmtudagur, desember 21, 2006

Húðlit auðnin prísuð og lofsungin


Ritdómur birtist þann 20. desember í Morgunblaðinu um ljóðabókina Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur sem út kom hjá Nýhil fyrr á árinu. Ritdómari fer lofsamlegum orðum um bókina og segir hana "sterkt og hnitmiðað verk" sem "vitnar um ótvíræða hæfileika ungs skálds." Kaupa má bókina á netinu hér og í ljóðabókaverslun Nýhils á Klapparstíg 25 (í plötubúð Smekkleysu).

miðvikudagur, desember 20, 2006

Arnaldur fallinn!


Hannes - Nóttin er blá, mamma heldur áfram að gera það gott. Allir gagnrýnendur sem skrifað hafa um ævisöguna hafa gefið henni 5 stjörnur og í vikunni voru Bókmenntaverðlaun bóksala veitt og lenti bókin í 3. sæti í flokki ævisagna.

Nýjustu gleðifréttirnar eru svo þær að Hannes er komin í efsta sæti á metsölulistanum sem gerður er út frá Pennanum-Eymundsson og Bókabúð Máls og menningar, nú örfáum dögum fyrir jólin. Hefur ævisagan þar með rutt Konungsbók eftir Arnald Indriðason úr vegi, en hún hefur trónað efst á listanum frá því að hún kom fyrst út í nóvember.

Við óskum bæði Hannesi til hamingju og Íslendingum, enda ekki á hverjum degi sem "einræðisherra" eins og Arnaldur er toppaður á metsölulistum landsins.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Nýhil: Lætur engan ósnertan

Menntaskólatímaritið Verðandi mælir með þremur af nýjustu bókum Nýhils í nýjasta tölublaði sínu. Alls mælir blaðið með sjö nýjum bókum, og því ljóst að Nýhil ber höfuð og herðar yfir samkeppnisaðila sína í þessu bókaflóði.

mánudagur, desember 18, 2006

Skáldsögur Nýhils lofaðar

Bókmenntafræðineminn Kristján Atli Ragnarsson hefur nýlokið við að lesa sig í gegnum skáldsagnahluta jólabókaflóðs Nýhils, og er skemmst frá því að segja að hann eys bækurnar miklu lofi.

Um Svavar Pétur & 20. öldin eftir Hauk Má Helgason segir hann meðal annars: "Svavar Pétur og 20. öldin er fyrsta skáldsaga Hauks Más Helgasonar og mætti því tala um að hann mæti á senuna með látum. Það fyrsta sem maður tekur eftir við söguna er hversu þéttur prósinn hjá honum er. [...] Með frásögn Svavars Péturs færir Haukur Már síðustu öld og núverandi saman með nýstárlegum hætti svo úr verður kolsvört háðsádeila á markaðsráðandi tískusamfélag Íslands."

Um Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl segir hann m.a.: "Stundum er minna meira og hin hálf-mínímalíska frásögn sögumanns af sambúðinni við vinkonu sína dansar vel hina fínu línu á milli þess að vera of ýkt og að vera ekki nógu ítarleg. [...] Textinn hér er einfaldlega frábær og ég verð að viðurkenna að það eru ekki margar íslenskar skáldsögur á þessum áratug sem ég man eftir sem standa Eitrinu jafnfætis í þeim efnum. [...] Eitt óborganlegasta atriði sem ég hef lesið í íslenskum skáldskap í lengri tíma er að finna í þessari bók, þar sem lætin í parinu eru að æra Halldór sem leitar sér hugarafdreps í að fylgjast með sprungum í loftinu frammí stofu. Það atriði, vopnað frábærum prósa Eiríks Arnar, er algjört dúndur."

Um Fenrisúlf eftir Bjarna Klemenz segir Kristján Atli þá m.a.: "Sagan er ótrúlega flæðandi og prósinn gríðarlega ríkur - hjá Bjarna, ólíkt Hauki Má og Eiríki Erni, er meira vissulega meira - og sagan sjálf minnti mig um margt á bækurnar Neverwhere og American Gods eftir Neil Gaiman, en eins og hann blandar Bjarni nútímanum og goðsögnum saman á nýstárlegan og ferskan hátt.
Þessi bók er einfaldlega ótrúlega ríkuleg, hvort sem litið er á prósann eða söguna. [...] Ef hann getur skrifað svona góða skáldsögu í fyrstu tilraun verður spennandi að sjá hvað hann gerir næst."

Umfjöllun Kristjáns Atla er hægt að lesa í heild sinni á heimasíðu hans.

Bækurnar má meðal annars kaupa á www.eymundsson.is, www.boksala.is, www.baekur.is, og www.haraldur.is. Þá er þær að sjálfsögðu að finna í öllum bókabúðum sem standa undir nafni.

föstudagur, desember 15, 2006

Óttar áritar Hannes


Á morgun, laugardaginn 16. des., mun Óttar M. Norðfjörð árita nýútkomna ævisögu sína, Hannes - Nóttin er blá, mamma í bókabúð Máls og menningar á Laugarveginum.

Fyrsta bindi þessa meistaraverks hefur verið í efsta sæti metsölulistans í flokki ævisagna, handbóka og fræðirita nokkrar vikur í röð. Og í öðru sæti á sama lista yfir alla flokka, hársbreidd á eftir Konungsbók eftir Arnald Indriðason.

Áritunin hefst kl. 14.00 og eru allir velkomnir.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Af ósviknum meistaraverkum, nautnum og viðtölum

Á vef Eymundsson er hægt að setja inn umsagnir um þær bækur sem eru til sölu. Þar má meðal annars lesa dóma lesenda um bækurnar Hannes - nóttin er blá, mamma eftir Óttar Martin Norðfjörð og Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl. Um þá fyrrnefndu segir einn lesenda einfaldlega: "Ósvikið meistaraverk". Bóksalinn Kristján Freyr Halldórsson segir Eitur fyrir byrjendur vera frábæra bók: "Bók Eiríks kemur inná margar tilfinningar, yfir lestrinum má bæði hlæja og gráta. Eiríkur skrifar mjög vel og maður líður áfram um lipran textann og erfitt var að leggja frá sér bókina. Frábærir dómar um hana koma ekki á óvart."

Nýhil vill hvetja fólk til að nýta sér möguleikann til að skrifa umsagnir um bækur á vef Eymundsson.

Kristján er ekki einn um að þykja mikið til Eiturs fyrir byrjendur koma. Rithöfundurinn og smásagnaskáldið Ágúst Borgþór treinir sér bókina þessa dagana og les fáeinar síður á dag. Á bloggi sínu segir hann m.a.: "Algjörlega óumbeðinn er ég að glugga í Eitur fyrir byrjendur. Ég fór upp að síðu 40 áðan. Það var nánast nautn. Flottur stíll, draumkennt andrúmsloft, ófyrirsjáanleiki. Þrælgóður texti."

Eiríkur Örn ræddi bókina við Víðsjá í gær, og má hlusta á það viðtal á vef RÚV.

Þá ræddi Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóri Nýhils, um forlagið, félagið og félagaforlagið í Vítt og breitt í gær.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Nýhil í portrettum á Borgarbókasafni


SKRÁSETNING KYNSLÓÐAR í Borgarbókasafninu – Björn M. Sigurjónsson sýnir ljósmyndir af skáldum Nýhils í Borgarbókasafni, Grófarhúsi.
Ljósmyndasýningin „Skrásetning kynslóðar“ opnar í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi 15. desember kl. 17.00. Þar sýnir Björn M. Sigurjónsson portrett af ungum íslenskum rithöfundum og listamönnum. Allt eru þetta höfundar sem hafa gefið út undir merkjum Nýhils, en eiga það jafnframt sammerkt að hafa vakið athygli fyrir framsækna og nýja sýn í listsköpun sinni. Myndirnar eru teknar í vistkerfum skáldanna – á heimilum þeirra, þar sem sköpunarverkin verða til.
Á opnun sýningarinnar verður dagatal fyrir árið 2007 með úrvali sömu ljósmynda kynnt. Þá munu skáldin lesa upp úr nýlegum verkum sínum. Þetta er önnur einkasýning Björns á þessu ári og í þriðja sinn sem hann sýnir myndir sínar opinberlega. Sýningin er opin á opnunartíma Borgarbókasafnsins fram í janúar.
Nánari upplýsingar veita Viðar í s. 6954280 og Björn í síma 8940720.

föstudagur, desember 08, 2006

Eitur fyrir byrjendur: „gríðarlega vel skrifuð“


Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl hefur hlotið einstaklega góðar viðtökur gagnrýnenda líkt og tíundað hefur verið hér á blogginu, og nú síðast í DV 8. desember. Sigríður Albertsdótti ritar þar mjög lofsamlegan dóm og segir m.a.:
„Eitur fyrir byrjendur … er saga sem tekur verulega á taugarnar og því tæpast fyrir viðkvæmar sálir enda vílar Eiríkur Örn ekki fyrir sér að skyggnast inn í myrkustu hugskot mannsins og draga þaðan út alls kyns sora og perragang. En sagan er gríðarlega vel skrifuð … Í Hugsjónadruslunni sýndi Eiríkur Örn Norðdahl snilldartakta en bætir hér um betur og sýnir svo ekki verður um villst að hann er höfundur sem er kominn til að vera.“

Bloggað um bækur og ó-bækur


Talsvert er bloggað um fyrsta bindi ævisögu Hannesar Hólmsteins Gissurarson eftir Óttar Martin Norðfjörð, Hannes - Nóttin er blá, mamma, einkum í ljósi yfirstandandi klögunarmáls Nýhils á hendur Eddu útgáfu og umræðu sem spunnist hefur um hvort bókin sé í raun bók. Hinn aðsópsmikli bloggari og rithöfundur Ágúst Borgþór Stefánsson hefur þetta að segja: "Þeim [Nýhil] nægir ekki að láta þennan ævisögubrandara standa sem slíkan heldur teygja hann á langinn með frekar idjótískum kvörtunum og kærumálum."
Guðmundur Magnússon sagnfræðingur og ritstjóri tekur hins vegar undir með Lesbók Morgunblaðsins og segir að skilgreining bókar sé undirorpin vilja höfundarins, að ljóð sé það sem ljóðskáld segi að sé ljóð, að bók sé það sem bókarhöfundur segir að sé ljóð.
Nýhil fagnar umræðunni um hvað sé bók, og leggur nú á ráðin um málþing í samstarfi við Samtök Iðnaðarins, Prenttæknistofnun og Heimspekistofnun Háskóla Íslands þar sem spurningin verður rædd í pallborði af sérfræðingum. Bent skal á að klaga Nýhils á hendur Eddu snýst þó ekki um skilgreininguna á bók, heldur rangfærslur í auglýsingum varðandi metsölulista sem Hannes var óneitanlega efstur á.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Nýhil sendir erindi til NeytendastofuNýhil hefur sent svohljóðandi bréf til Neytendastofu:

Reykjavík, 6. desember 2006

Til: Neytendastofu

Nýhil áhugamannafélag (kt. 580203-3960) sendir eftirtalið erindi til Neytendastofu og leitar eftir ákvörðun hennar vegna framferðis Eddu-útgáfu hf (kt. 710800-3590).

Í Fréttablaðinu 3. desember sl. birti Edda opnuauglýsingu undir fyrirsögninni ‘Vinsælustu bækurnar’. Eru þar nokkrar bækur forlagsins kynntar og sæti þeirra á metsölulistum Morgunblaðsins og/eða sölulista Pennans-Eymundsson og Bókabóða MM tíundaður. Í tilfelli einnar bókar (Ljósið í djúpinu e. Reyni Traustason) er sæti ekki tilgreint heldur er eftirfarandi texti settur í staðinn:

„Mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt metsölulistum.“
(Sjá mynd.)

Nýhil gerir alvarlega athugasemd við þennan auglýsingatexta þar eð mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt þeim tveimur metsölulistum sem voru nýbirtir á þessum tíma er alls ekki umrædd bók heldur er það bókin Hannes – nóttin er blá mamma eftir Óttar Martin Norðfjörð sem gefin er út af Nýhil. (Sjá mynd).

Þann 6. desemeber hafði útgáfustjóri Nýhils samband við kynningarstjóra Eddu og leitaði skýringa á þessum fullyrðingum. Þær einu skýringar voru gefnar að kynningarstjórinn teldi Hannes – nóttin er blá, mamma ekki sambærilega við bækur Eddu og að Edda réði því hvað og hvernig hún auglýsti. Ekkert kom fram í samtalinu sem benti til þess að vitnað hefði verið til metsölulista annarra en þeirra þar sem Hannes – nóttin er blá, mamma er sannarlega talin mest selda ævisagan.

Nýhil telur hér um að ræða brot á 6. grein laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins (2005 nr. 57 20. maí) – enda hafi „rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum“ verið veittar með því að annað hvort vitna til metsölulista sem ekki eru til eða fara vísitandi rangt með ótvíræðar niðurstöður þeirra metsölulista bóka sem í umferð eru.

Nýhil fer þó aðeins fram á að Edda – útgáfa birti leiðréttingu á umræddri auglýsingu í þeim fjölmiðlum þar sem hún birtist og biðji höfund og útgefanda Hannesar – nóttin er blá, mamma opinberlega afsökunar.


Fyrir hönd Nýhils,

___________________________
Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóri

Þögnin rofin


Blaðamaðurinn og ritstjóri Menntaskólablaðsins Verðandi, Sindri Freyr Steinsson, tók viðtal við ævisagnaritarann Óttar M. Norðfjörð í nýjasta hefti blaðsins. Þar kemur margt nýtt og skemmtilegt fram, meðal annars vangaveltur Hannesar Hólmsteins Gissurssonar um nýútkomna ævisögu, en Sindri leitaði til hans vegna viðtalsins. Aðspurður um ævisöguritun Óttars sagði Hannes :

"Ég hef nákvæmlega ekkert við það að athuga, að Óttar M. Norðfjörð gefi út þennan fjölritaða bækling um mig. Það hafa aðrir gefið slíka fjölritaðabæklinga út áður, þótt þeir hafi af einhverjum ástæðum ekki fengið bókabúðir til að selja þær fyrir sig. Ég tel, að oft hafi verið valin ómerkilegri viðfangsefni í bókum! Ég myndi líka hafa ágætan húmor fyrir framtakinu, ef þessi bæklingur væri skrifaður af húmor, en svo er því miður ekki. En ég óska Óttari alls góðs á rithöfundarbrautinni, þótt fyrstu skrefin hafi eftil vill ekki verið mjög örugg."

Já, þögnin er svo sannarlega rofin og ekki ber á öðru en að Hannes taki uppátækinu bara vel. Það má svo sem hnýta í tal Hannesar um bókina sem "bækling" en Nýhil fyrirgefur það.

Þess má geta að Menntaskólablaðið Verðandi er fríblað og dreift um alla framhaldsskóla landsins og það fer líka í almenna fríblaðadreifingu á höfuðborgarsvæðinu, á kaffihúsum og fleiri almenningsstöðum.

þriðjudagur, desember 05, 2006

„Tekst ótrúlega vel að tvinna þjáningu þessara persóna saman“

Bjarky Valtýsson skrifar dóm um Eitur fyrir byrjendur eftir Eirík Örn Norðdahl á vefritið Vettvang. Bjarki er að vonum harla ánægður með bókina, líkt og aðrir gagnrýnendur hafa verið, og segir meðal annars: „Eiríki tekst ótrúlega vel að tvinna þjáningu þessara persóna saman, og hann gerir það oft með því að setja þær í undarlegar aðstæður þar sem öfgar mætast, og maður bíður spenntur eftir viðbrögðum.“

Dóminn í heild sinni er hægt að lesa á vefritinu Vettvangur.

Bókina er hægt að versla með því að smella hér.