þriðjudagur, maí 30, 2006

Helgi J. Hauksson myndar Nýhil

Ljósmyndarinn Helgi J. Hauksson var meðal þeirra sem mætti á glæsilega opnun Ljóðabókaverzlunar Nýhils þann 20. maí síðastliðinn. Helgi beitti kubbnum af fádæma listfengi og nákvæmni, eins og hann á ættir til, og má nú sjá afrakstur þess á síðu Helga: http://www.bsh.is/Nyhil/. Á myndinni sem er hér til hliðar, sem er ein þeirra sem Helgi tók, má sjá þá Hauk Má Helgason, stofnfélaga í Nýhil og Þór Steinarsson, framkvæmdastjóra Nýhils, ræða eilífðina við listaskáldið vonda, Sigurð Pálsson.

þriðjudagur, maí 23, 2006

Vídjóbókaljóðabúð


Get this video and more at MySpace.com
Þessi fallega búð var opnuð á laugardag.

föstudagur, maí 19, 2006

Norrænar bókmenntir II

Nýhil kynnir! Titrandi af stolti! Norrænar bókmenntir II!

Um er að ræða síðara holl í ljóðabókaseríu Nýhils, fimm ljóðabækur frá jafn mörgum nýhilistum. Ónefnd bók eftir Þórdísi Björnsdóttur, Eðalog eftir Val Brynjar Antonsson, Húðlit auðnin eftir Kristínu Eiríksdóttur, Litli kall strikes again eftir Steinar Braga og Roði eftir Ófeig Sigurðsson.

Þá væri okkur mikil ánægja að sjá þig við opnun búðarinnar okkar næstkomandi laugardag, þar sem til sölu verða bækur Nýhils og annar varningur auk frábærs og áður óþekkts úrvals af ljóðum, innlendum og erlendum. Húsnæði verslunarinnar er að Laugavegi 59, í kjallara Kjörgarðs, inn af plötuverslun Smekkleysu. Opnunin stendur frá 16 til 18 og í boði verða léttar veitingar, ljúf skemmtiatriði og leiðinleg ræðuhöld. Búðin verður framvegis opin virka daga frá 14 til 18. Áskrifendur að Norrænum bókmenntum geta sótt eintök sín í búðina, og þeir sem það gera á laugardaginn fá safnljóðabók Nýhils Ást Æða Varps í kaupbæti. Aðrir áskrifendur fá svo seríuna senda heim. Þeir sem vilja kaupa sér áskrift að seríunni geta gert það í ljóðabókabúð Nýhils, eða með því að senda tölvupóst á nyhil@nyhil.org. Fyrri bækurnar fjórar í seríunni voru Gleði og glötun eftir Óttar Martin Norðfjörð, Rispa jeppa eftir Hauk Má Helgason, Blandarabrandarar eftir Eirík Örn Norðdahl og Gamall þrjótur, nýjir tímar eftir Örvar Þóreyjarson Smárason. Allar þessar níu bækur fást fyrir litlar 6.750 krónur.
Frekari upplýsingar er að fá hjá Þór Steinarssyni, framkvæmdastjóra Nýhils (692-0979) eða Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni, verslunarstjóra Nýhils (869-3099).

Upplýsingar um skáldin:

Kristín Eiríksdóttir (1981-)


Kristín Eiríksdóttir er ljóðskáld og myndlistarmaður. Eftir hana liggur ljóðabókin Kjötbærinn, sem hún myndskreytti, og fjöldinn allur af myndlistarsýningum. Kristín hlaut fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni Eddu og Fréttablaðsins 2004.


Ófeigur Sigurðsson (1975-)


Ófeigur Sigurðsson er ljóðskáld, heimspekinemi og tónlistarmaður. Eftir hann liggja ljóðabækurnar Skál fyrir skammdeginu og Handlöngun, og skáldsagan Áferð.


Valur Brynjar Antonsson (1976-)


Valur Brynjar Antonsson er ljóðskáld. Hann lauk BA-prófi í heimspeki frá HÍ árið 2004. Eftir hann liggur ljóðabókin Ofurmennisþrá.


Steinar Bragi Guðmundsson (1975- )


Steinar Bragi Guðmundsson skrifaði ljóðabækurnar Ljúgðu Gosi, ljúgðu, Útgönguleiðir, Svarthol og Augnkúluvökvi og skáldsögurnar Áhyggjudúkkur; Sólskinsfólkið; og Turninn.


Þórdís Björnsdóttir (1978-)

Þórdís Björnsdóttir er ljóðskáld. Eftir hana liggur ljóðabókin Ást og appelsínu, sem meðal annars var sett á svið á Akureyri. Von er á samstarfsverkefni hennar og bandaríska ljóðskáldsins Jesse Ball, Vera & Linus, síðar á árinu.


þriðjudagur, maí 16, 2006

Búðabókaljóðin!

Ástkærir vinir, fjölmiðlamógúlar, ættingjar, kunningjar, velgjörðarmenn, elskendur:

Þá er komið að því. Viðburður ársins. Fífldirfska Nýhils hefur náð nýjum hæðum, laugardaginn næstkomandi kl. 16 ýtir kompaní allífsins úr vör einhverri vitlausustu hugmynd íslenskrar viðskiptasögu: Ljóðabókabúð Nýhils verður ljóðsentrúm næsta árþúsunds, þar mun öld hins íslenska ljóðs ná sínu hæsta flugi, hálfkalkað af súrefnisleysi sleikir eldtungur sólarinnar og bros tunglsins. Ljóðvöllurinn er vígvöllur og liðhlaupar verða skotnir! Finni einhver meinbugi við þessum ráðahag Nýhils verður sá hinn sami skjátufleginn og kjöldreginn, héðan af verður ekki hopað, ekki hikað.

Ljóðabókabúðin opnar eins og áður segir kl. 16 laugardaginn 20. maí 2006, að Laugavegi 59 (Kjörgarði, inn af Smekkleysubúðinni). Nýhil vill bjóða öllum sínum elskulegu vinum að mæta og þiggja veitingar og fagna fullnaðarsigrinum með okkur. Þá verða stórfengleg ræðuhöld, Nýhilískir ljóðaupplestrar, harmonikkumúsík auk þess sem hljómsveitin Retro Stefson stígur á senuna. Samkoman stendur í tvo tíma, frá 16-18.

Fjölmiðlum er bent á að hafa samband við Þór Steinarsson, framkvæmdastjóra Nýhils (692-0979) eða Örvar Þóreyjarson Smárason, verslunarstjóra Nýhils (869-3099) til að fá frekari upplýsingar. Hægur leikur verður að fá að kíkja í búðina á fimmtudag eða föstudag með ljósmyndara eða upptökuvélar annars kyns, og er mönnum bent á að hafa einfaldlega samband og melda sig við einn af ofannefndum.

Ást og kossar,

Ykkar, að sjálfsögðu og eilífu,

Nýhil

miðvikudagur, maí 10, 2006

Orðið tónlist – opnun sýningar í Galleríi Humri eða frægð


Föstudaginn 12. maí kl. 17 verður opnuð sýning í Galleríi Humri eða frægð (í húsnæði Smekkleysu, Laugavegi 59, kjallara) sem markar upphaf Orðsins tónlistar – fjölljóðahátíðar. Þar verða hljóðtengd myndverk eftir Finnboga Pétursson, Harald Jónsson, Kiru Kiru – Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Ólaf J. Engilbertsson og bókverk nemenda í LHÍ. Verk nemendanna felast annarsvegar sjálfstæðu bókverki eftir hvern og einn og hinsvegar í bókverkinu Orðið tónlist, sem er upplýsingaaskja um dagskrá fjölljóðahátíðarinnar Orðið tónlist sem verður dagana 19.-21. maí í fjölnotasal Listasafns Reykjavíkur Hafnarhúsi í samstarfi Smekkleysu og Magnúsar Pálssonar við Listahátíð í Reykjavík. Ghostigital leikur við opnun sýningarinnar í Galleríi Humri eða frægð og Bragi Ólafsson og Óskar Árni Óskarsson lesa úr nýútkomnum bókum sínum.
Heildardagskrá Orðsins tónlistar má sjá á vef Listahátíðar www.listahatid.is – en aðrir atburðir hátíðarinnar verða auglýstir nánar á Nýhilblogginu eftir því sem nær dregur.

þriðjudagur, maí 09, 2006

Ófeigur pistlar í Víðsjá


Nýhil vekur sérstaka athygli landans á því að í dag pistlar í Víðsjá enginn annar en Ófeigur Sigurðsson. Ófeigur kallar verk sín pestarpistla, og mun hann vafalaust einskis svífast í ádrepum sínum. Víðsjá er hér: www.ruv.is/vidsja

Tíu þúsund tregawött


Nýhil vekur athygli á nýju vefriti um ljóðlist, Tíu þúsund tregawött, sem hefur aðsetur hér: www.10000tw.blogspot.com.
Þar verður birt alls lags efni um ljóðlist, íslenska og erlenda, gamla og nýja, framúrstefnu og hefðbundna, og hefur þegar nokkuð birst af efni þó ritið sé einungis þriggja daga gamalt. Að ritstjórn þessa nýja vefrits standa Ásgeir H. Ingólfsson, bókmenntafræðingur, Eiríkur Örn Norðdahl, ljóðskáld, Hildur Lilliendahl, ljóðskáld, Ingi Björn Guðnason, bókmenntafræðingur og Ingólfur Gíslason, stærðfræðingur. Óbreyttum netnotendum og ljóðaunnendum viljum við benda á að heimsækja síðuna.
Ljóðskáldum, bókmenntafræðingum, þýðendum og ljóðaunnendum er bent á að senda inn efni; nánari upplýsingar þar um á: http://10000tw.blogspot.com/2006/05/ritstjrn.html

mánudagur, maí 08, 2006

Nýhil með á Hressó

Þrír Nýhilistar taka þátt í ljóðakvöldi á Hressó annað kvöld. Þau Hildur Lilliendahl og Haukur Már Helgason lesa upp, og Viðar Þorsteinsson gegnir hlutverki kynnis. Í fréttatilkynningu segir:

"Þriðjudaginn 9.maí, kl.20:30 er ljóðakvöld á Hressó. Þar leiða saman hesta sína Ljóð.is, Nýhil og List án landamæra. Fjöldi frábærra ljóðskálda með ólíkan bakgrunn koma fram, útgefin og óútgefin, hömluð og óhömluð, fötluð og ófötluð. Hamlanir kvöldsins eru afstæðar, hvort sem er skortur á mætti í fótum eða hamlanir á tilfinningasviðinu.

Ljóðin verða túlkuð jafnóðum af táknmálstúlkum en kynnir kvöldsins er Viðar Þorsteinsson."

Ljóðskáld kvöldsins eru:

Hildur Lilliendahl,
Bjarni Bernharður,
Hallur Þór Halldórsson
Ásdís Jenna Ástráðsdóttir,
Magnús Korntop,
Haukur Már Helgason
Skúli Steinar Pétursson
og Björk Þorgrímsdóttir.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Konkret í NoD

Nýhilistinn Eiríkur Örn Norðdahl er meðal þeirra sem eiga ljóð í nýjasta tölublaði kanadíska ljóðatímaritsins NoD magazine. Ljóð Eiríks er konkretljóð í tólf myndum sem verður í ónefndri ljóðabók sem von er frá skáldinu nú í haust, og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er um púsluspilsljóð að ræða. Til að komast að því hvað stendur á púsluspilinu verða menn hins vegar annað hvort að kaupa NoD eða bíða eftir bókinni.