þriðjudagur, maí 16, 2006

Búðabókaljóðin!

Ástkærir vinir, fjölmiðlamógúlar, ættingjar, kunningjar, velgjörðarmenn, elskendur:

Þá er komið að því. Viðburður ársins. Fífldirfska Nýhils hefur náð nýjum hæðum, laugardaginn næstkomandi kl. 16 ýtir kompaní allífsins úr vör einhverri vitlausustu hugmynd íslenskrar viðskiptasögu: Ljóðabókabúð Nýhils verður ljóðsentrúm næsta árþúsunds, þar mun öld hins íslenska ljóðs ná sínu hæsta flugi, hálfkalkað af súrefnisleysi sleikir eldtungur sólarinnar og bros tunglsins. Ljóðvöllurinn er vígvöllur og liðhlaupar verða skotnir! Finni einhver meinbugi við þessum ráðahag Nýhils verður sá hinn sami skjátufleginn og kjöldreginn, héðan af verður ekki hopað, ekki hikað.

Ljóðabókabúðin opnar eins og áður segir kl. 16 laugardaginn 20. maí 2006, að Laugavegi 59 (Kjörgarði, inn af Smekkleysubúðinni). Nýhil vill bjóða öllum sínum elskulegu vinum að mæta og þiggja veitingar og fagna fullnaðarsigrinum með okkur. Þá verða stórfengleg ræðuhöld, Nýhilískir ljóðaupplestrar, harmonikkumúsík auk þess sem hljómsveitin Retro Stefson stígur á senuna. Samkoman stendur í tvo tíma, frá 16-18.

Fjölmiðlum er bent á að hafa samband við Þór Steinarsson, framkvæmdastjóra Nýhils (692-0979) eða Örvar Þóreyjarson Smárason, verslunarstjóra Nýhils (869-3099) til að fá frekari upplýsingar. Hægur leikur verður að fá að kíkja í búðina á fimmtudag eða föstudag með ljósmyndara eða upptökuvélar annars kyns, og er mönnum bent á að hafa einfaldlega samband og melda sig við einn af ofannefndum.

Ást og kossar,

Ykkar, að sjálfsögðu og eilífu,

Nýhil

Engin ummæli: