þriðjudagur, desember 23, 2008

sjón um síðustu ljóðabók sjónsÉg er búinn að fá eintak af bókinni og get mælt með henni. Það kemur mér á óvart hversu mörg tækifæri til ljóða eru falin í orða- og myndabanka frumgerðanna. Best væri að þeir sem keyptu Ljóðasafnið mitt kipptu þessari bók með sér líka, og öfugt. Saman leggja þær grunninn að jólaspili ljóðelsku fjölskyldunnar í ár. Eins og André Breton þreyttist ekki á að minna okkur á þá sagði Greifinn af Lautreamont: Ljóðið er skapað af öllum. Til lukku Celidonius!

Sjón, rithöfundur

mánudagur, desember 22, 2008

Nýhil brosirNýhil iðar af kæti og losta vegna úthlutana nýræktarstyrkja frá Bókmenntasjóði. Styrki hlutu ljóðabók Kára Páls Óskarssonar, Með villidýrum, sem er þegar út komin, og svo hið nýstárlega útgáfu-prósjekt Bút-gáfa sem Kristín Svava Tómasdóttir hefur umsjá með. Á myndinni sjást skælbrosandi styrkhafar á viðhöfn sem Bókmenntasjóður efndi til af þessu tilefni.

Konur uppseld

Konur eftir Steinar Braga er uppseld hjá útgefanda. Síðustu eintökin eru í verslunum. Von er á endurútgáfu í kilju á nýju ári.

Með villidýrum - fjórar stjörnurMeð villidýrum eftir Kára Pál Óskarsson er vafalítið ein kröftugasta ljóðabók þessa árs. Hér er ekkert dregið undan, dýrunum er sleppt lausum, það er skálað við glundroðann, dansað við hungurguðinn og haturguðinn, hugsað um byssukúlur og þjáningar sem enginn deilir með öðrum, hugað að þessum endalausu aðförum að mennskunni sem samtíminn býður okkur upp á.

Og þetta gerir Kári Páll af smekkvísi hins grófa og beinskeytta sem hæfir »skrauthvarfalausum heimi«. Orðfæri er laust við tilgerð og upphafningu en höfundur veigrar sér samt ekki við að skreyta textann vísunum og myndmáli. Kári Páll hefur fundið rödd sem orkar sterkt á lesandann

Þröstur Helgason, Lesbók Morgunblaðsins

fimmtudagur, desember 18, 2008

Konur slá í gegn

„Sú bók sem kemur út nú á seinni hluta árs sem hefur hrært hvað mest í mér . . . Alveg óhemju áhrifarík bók, glæsilega skrifuð.“
Páll Balvin Baldvinsson, Kiljunni.

„[Steinar Bragi] er einfaldlega á stað þar sem aðrir íslenskir höfundar eru ekki.“
Eiríkur Guðmundsson, útvarpsmaður.„Höfundur hefur aldrei fyrr spennt bogann jafn hátt, eða tekist á jafn agaðan hátt á við jafn margþætt og vandasamt viðfangsefni . . . Með Konum hefur Steinar Bragi sent frá sér eins konar bölsögu, niðdimmt og kvalafullt verk sem fjallar um klám, niðurlægingu, mansal og kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn konum, og er þetta framreitt í umbúðum haganlega smíðaðrar en sjálfsafbyggjandi spennusögu.“
Björn Þór, Lesbók Morgunblaðsins.

„Konur gerist í nútímanum, við nafngreindar götur og í kunnuglegum húsum. Tíðarandi og þjóðfélag er frá því sirka í vor, þegar íslenska útrásin virtist enn vera á fljúgandi fart og það er gaman að staðsetja hreyfingar persóna og rifja upp nýbirtar fyrirsagnir dagblaða. Samtöl eru lifandi og sannfærandi á meðan að frásagnir af ofskynjunum Evu (eða hvað) eru svo ísmeygilegar að á köflum varð ég ringluð og svimaði. Þetta gerir lesturinn að afar sterkri upplifun og reyndar las ég bókina í einum rikk því það var mér ómögulegt að leggja hana frá mér án þess að vita hvar keflið endaði.
Mig dreymdi illa þá sömu nótt.“
Unnur María, kistan.is


„Sögusviðið er Reykjavík útrásarmanna, bankastráka og vaðandi yfirborðsmennsku. Strax á fyrstu síðunum sogaðist ég inn í spennandi atburðarás þar sem ráðvillt, einmana og drykkfelld kona, Eva Einarsdóttir, er í aðalhlutverki . . .
. . . Smám saman tekur gjörsamlega botnlaus hryllingur yfirhöndina. Þegar líður á opinberast lesandanum og aðalpersónunni hverskonar öfl eru að verki og hvílíka gildru er búið að veiða konuna í. Konur er hrollvekja þar sem uppdiktaðar persónur jafnt sem þekktar verur koma við sögu, allt frá hundinum Lúkasi til Hannesar listfræðings. Þarna er fjallað um fólk í þjóðfélagi þar sem peningar, frægð og yfirborðsmennska gegnumsýra alla tilveruna með tilheyrandi siðblindu og subbuskap. Algjörlega klikkað ...“
Þórdís Gísladóttir, bókarýna


„Tvímælalaust áhrifamesta verk sem komið hefur út hér á landi í langa tíð.“
Páll Balvin Baldvinsson, Fréttablaðið.

„Flott bók hjá Steinari Braga. Dularfull og miskunnarlaus hryllingssaga. Hér er konan bókstaflega lokuð inni, býr við allsnægtir en er misþyrmt andlega og líkamlega. Tímabært að staða kvenna sé krufin svona hressilega. Spurningar vakna um mörk og eðli lista, þjáningar og firringar. Í bókinni segir furðufuglinn og listamaðurinn Novak eitthvað á þá leið að fyrir hverja konu sem kemst til valda eða áhrifa í samfélaginu séu gerðar þúsund klámmyndir þar sem konan er sett aftur á sinn stað: valdalaus, undirgefin og niðurlægð. Alveg magnað!“
Steinunn Inga, bloggari

Upplestur

sunnudagur, desember 14, 2008

Stjörnuregn í Lesbók


Gagnrýnandi Lesbókar Morgunblaðsins er ánægður með Konur Steinars Braga og gefur henni fullt hús stjarna, fimm af fimm möguleikum. Í dómnum segir: „Höfundur hefur aldrei fyrr spennt bogann jafn hátt, eða tekist á jafn agaðan hátt á við jafn margþætt og vandasamt viðfangsefni.“ Miðað við stjörnugjöfina má álykta að gagnrýnanda þyki Steinari hafa hitt í mark með sínum listarinnar Amors-örvum.
Enn fremur segir í dómnum: „Með Konum hefur Steinar Bragi sent frá sér eins konar bölsögu, niðdimmt og kvalafullt verk sem fjallar um klám, niðurlægingu, mansal og kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn konum, og er þetta framreitt í umbúðum haganlega smíðaðrar en sjálfsafbyggjandi spennusögu.“ Og undir þessi orð gagnrýnandans, Björns Þórs Vilhjálmssonar, má taka.

föstudagur, desember 12, 2008

síðasta ljóðabók sjóns


hreistraður fákur hleypur niður augnlok mín
og leggur niður næfurþunnar blæjur
lykt af lirfum berst fyrir hornið
og býr til falleg sár við brjóst mitt
fiskar við hvern fingur
og með dúfur í ermunum
í langröndóttum náttslopp
í myrkrinu

og ljósinu

og öfugtLoksins loksins!

Síðasta ljóðabók Sjóns er loksins komin út og ekki seinna vænna! Hér ægir saman ótrúlegum fjölda ólíkra fyrirbæra í óheftu hugsanaflæði snillingsins, stefnt saman með aðferðum súrrealismans af þeirri natni og innsæi sem vænta mátti af höfundi.

Allir textar bókarinnar eiga það sameiginlegt að vera með einum eða öðrum hætti byggðir á ljóðum Sjóns. Aldrei fyrr á Íslandi hefur önnur eins bók komið fyrir almenningssjónir og því ættu sannir ljóðaunnendur ekki að láta þetta snilldarverk framhjá sér fara!

Ritstjóri er Celidonius, útgefandi er Nýhil og leiðbeinandi verð er kr. 490,-

föstudagur, desember 05, 2008

Steinar Bragi hræðist engan


Hinn óhræddi útvarpsþáttur „Víðsjá“, sem margir þekkja, birti í gær viðtal við rithöfundinn Steinar Braga, um bók hans KONUR. Nýhil hvetur til þess að einstaklingar hlusti á spjallið, en það má gera með því að smella á tengilinn hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4426122
Góðar stundir,
N

fimmtudagur, desember 04, 2008

Nýhil á Næsta bar, fös 5.des kl.20

Nýhil hræðist ekki framtíðina heldur mætir dögunum reigt í baki og dansandi - undanhaldinu er lokið og nú verður sótt fram af fullum þunga, illmennum er hollast að gefast upp hið snarasta, Einar Már er búinn að umkringja Vatnaskóg, það heyrist pískrað í öllum hornum ("það er ég viss um þetta er ljóð").

Og upp rennur, rýkur og fýkur næstkomandi föstudagskvöld þar sem apynjur Nýhils troða senur á Næsta bar og kynna nýútkomnar bækur Nýhilista:

Með villidýrum - Kári Páll Óskarsson
Konur - Steinar Bragi
Loftnet klóra himinn - Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir
Þess á milli - Ingvar Högni Ragnarsson
Provence í endursýningu & Tvítólaveislan - Ófeigur Sigurðsson
Ú á fasismann - og fleiri ljóð - Eiríkur Örn Norðdahl

Í hópinn vantar Kristínu Eiríksdóttur, og hópurinn grætur og veinar sínar allra hugheilustu kveðjur vestur til Kanada - Montréal! Stína við elskum þig og komdu fljótt aftur!

(Kristín gaf út bókina Annars konar sæla - og hún kemur síðar til að lesa úr bókinni, fylgist með og óttist eigi!)

Viðgjörningur íslenskrar ljóðlistar og afturhaldsundanhaldið fer fram á Næsta bar klukkan 20, næstkomandi föstudagskvöld, 5. desember.

Lifi byltingin, ást og kossar,
ykkar að eilífu,
Nýhil

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Með villidýrum

Nýhil kynnir:

Með villidýrum eftir Kára Pál Óskarsson.

Er hægt að eiga raunverulega hlutdeild í þjáningum annars fólks? Þetta er ein helsta spurningin sem er til umfjöllunar í þessari ljóðabók, sem hefur ofbeldi að meginþema.

Kæri herra Bataille,

ég vildi bara skrifa þér
til að segja að bók þín,
Saga augans,
gekk alveg fram af mér.
Sérstaklega þótti mér senan
þegar stúlkan stingur auga prestsins
fyrst upp í...


Kápu bókarinnar prýðir málverk eftir franska listmálarann Fabien Claude.

Bókin verður fáanleg í bókaverslunum frá og með mánudeginum 1. desember. Leiðbeinandi útsöluverð er kr. 1690. Bókin er 60 síður.

Hægt er að hafa samband við höfund í gegnum netfangið kpo@hi.is og í síma 864 5710.

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Umfjöllun Einars Fals Ingólfssonar um Þess á milli í Morgunblaðinu Laugardaginn 11. október 2008

Ástandið þegar heimar breytast

Þess á milli er ný bók, kynnt sem ljósmyndabók, en ef skilgreiningar er þörf kýs ég að kalla þetta bókverk; verk úr ljósmyndum og texta, pakkað í bókarform - sem er oft besta framsetningin á ljósmyndum.
Þess á milli fjallar um þetta millibilsástand þegar heimar breytast eða skipta um hlutverk. Þess vegna talar þessi bók á beinskeyttan hátt beint inní núið, og birtir nánast endurspeglun þessa furðulega veruleika sem við upplifum á Íslandi í dag. Veruleika sem er svo óraunverulegur, þar sem við erum stödd einhversstaðar„á milli"; í heimi sem enginn þekkir eða hefur not fyrir, eins og þeim sem birtist í ljósmyndum Ingvars Högna Ragnarssonar. Heimi sem við kusum ekki yfir okkur, heimi sem okkur datt aldrei í hug að við myndum lenda í, en þessi heimur er hér engu að síður - í himins stað hangir þung
blýhella í trosnuðum spottum yfir höfðum okkar, og við stöndum
ráðalaus í þessum heimi miðjum.

Ingvar Högni er ungur listamaður sem útskrifaðist úr Listaháskóla
Íslands fyrir einu ári. Árið 2005 ferðaðist hann um landið með
hollenska ljósmyndaranum Rob Hornstra, sem skrásetti mannlíf og
umhverfi hér á landi, eins og hann upplifði það, á ferskan og frumlegan hátt með stórri blaðfilmuvél. Afrakstur vinnu Hornstra var eftirminnileg sýning í Þjóðminjasafninu og bókin Rætur rúntsins. Engum blöðum er um það að fletta að vinnan með Hornstra hefur verið lærdómsrík fyrir Ingvar Högna. Þegar blaðað er í þessu ferska bókverki - sem er fyrsta bók hans og útgáfunnar, Nýhils – má sjá að í uppbyggingunni fer Ingvar Högni að sumu leyti svipaða leið og Hornstra. Myndir eru mismunandi í stærðum, sumar blæða, aðrar fá að anda í hvítunni; þær eru iðulega óræðar, og á milli eru handskrifaðir textar og þankabrot.

Myndheimurinn er af óræðum stað í þessu millibilsástandi, þar sem mannaverk og hlutir sem einkenna umhverfi manna eru á víð og dreif en þetta er staður sem „virkar"ekki. Veggir eru brotnir og pottablóm í pissuskálum. Sú hugsun hvarflar að manni að þetta kunni að vera heimur búinn til af listamönnum; einskonar innsetning í margbreytilegu rými. Aftast í bókinni kemur í ljós hver veruleikinn er. Þetta er heimildaskráning listamanns í yfirgefinni byggingu á dagparti í Hollandi. Þegar hann sneri síðan aftur, mögulega til að halda skráningunni áfram, var heimurinn horfinn.

Þetta er áhrifamikið verk hjá Ingvari Högna, í þessum einfalda ramma. Ef myndir hans eru bornar saman við myndir Hornstra, standa þær ekki vel í samanburðinum, blaðfilmur Hornstra sýna minnstu smáatriði, sem styrkir myndirnar verulega. Stafrænar myndir Ingvars Högna eru ekki jafnskarpar, sumar jafnvel hreyfðar. Ég sakna þess að hafa veruleikann ekki nákvæmari í myndrænni útfærslunni. En heimurinn sem birtist í verkinu Þess á milli er áhrifamikill. Við getum ekki annað en vonað að þegar okkar milliheimur hér á Íslandi hverfur, þá verði sá sem við tekur heilsteyptari og lífvænlegri.

Umfjöllun Sigurðar Hróarssonar um Gáttir í Fréttablaðinu, Föstudaginn 26. september 2008.

Fyrirmyndarbók

Lesandinn er vitaskuld alveg gáttaður á þessari bók, hún er svo falleg
og vel úr garði gerð í alla staði, svo vönduð og smekkleg að maður er alveg stúmm, eins og nafntogaður listmunur á fínu listasafni eða háð, maður þorir varla að fletta og lesa ljóðin og þýðingarnar, en þá heldur ævintýrið áfram eins og ekkert sé, gefur skít í efann, sér ekki fyrir endann, þetta batnar bara, meira eða minna. Bókin er afrakstur alþjóðlegrar ljóðahátíðar, safnrit átján höfunda, tólf íslenskra, sex erlendra, öll ljóðin birt bæði á frummáli og í þýðingu (stundum jafnvel fleiri en einni), allt til fyrirmyndar. Bókin er til vitnis um mikla grósku, borin uppi af sýnilegri trú á hlutverk ljóðsins, sígilt og síungt, rödd þess í skarkalanum, viðspyrnu þess og sjón-varp í samtíma, svar þess við klisjum fjölmiðla og dómara, trú á útúrsnúninga þess og orðumorð. Allir sem fæddir eru fyrir miðja síðustuöld ættu að lesa þessa bók til þrautar, aðrir gera það óumbeðnir vænti ég. Bókin er framhald, ekki nýtt upphaf, því síður órar um framtíð, tekur við því sem er og gerir við það eitthvað nýtt.

Eru þetta tilraunaljóð? Hvað eru tilraunaljóð? Í „Hátíðarkveðju" bjóða forsprakkar forlags og hátíðar lesendum að „kynnast því besta
sem nú er á seyði í íslenskri ljóðlist" - mér finnst þessi setning besta tilraunaljóðið í bókinni, auðmýkt setningarinnar undirstrikar dramb ljóðanna ef maður les hvort tveggja sem íróníu frá rótum, og mistekst. Í skóla heyrði ég þessa skilgreiningu á tilraunaljóði: „Tilraunaljóð eru tvenns konar, tilraun sem tekst og tilraun sem mistekst, og ef tilraunin tekst er ljóðið ekki (lengur) tilraunaljóð". Í þessu felst að tilraunaljóð er bara „eins konar"; ljóð sem mistekst. Þetta hlýtur að vera bull. Hvað er þá tilraunaljóð? Eitthvað nýtt sem á eftir að vaxa og sanna sig (eða afsanna)? Veit ekki, segir hver?, held samt að í þessari bók séu ekki tilraunaljóð, minnir of mikið á verklega eðlisfræði, þetta eru ekki skóla(stofu)ljóð. Hómó sapíens er tilraun, það var kennt í mínu ungdæmi, annars féll maður á landsprófi.

Það eru nokkur frábær ljóð í þessari bók og fallegar, tilgerðarlausar Og blátt áfram þýðingar, víðast, (á einstaka stað ber þó á þeim leiða sið að leita samheita þegar skáldið beitir endurtekningum), spennandi skáldskapur og fagleg vinnubrögð - dæmi um fyrirmyndarþýðingu á íslensku eru „Rótandi kepna" (Kári Páll Óskarsson), „Pan fafla"(EiríkurÖrn Norðdahl) og „Ef Helsinki" (KristínEiríksdóttir) - allt eru þetta líka æðisleg ljóð. Konur fara á kostum í þessari bók, hver án kapps við aðra, „Stóri hvíti maður"(Kristíne) er t.d.magnað ljóð sem beitir lesandann líkamlegum klækjum, sér ígegnum hann eins ogþriðja augað í draumi, skekur með því vídd hans og skerpir sýn hans á eigin skilning, „Neytendalögin" (Börjel) eru drepfyndin og eitruð, „Yrðing" (Cotten) er fagursköpuð og klár, „Ég hef mínar efasemdir..." (KristínSvava), ég ekki, áleitið ljóð með einkar bragðvísu myndmáli, „Hótel Blizz" (Linda) sprengir stríð með friði, kveikir mannkyni von á eigin kostnað, ég tárast, „Ox" (Una Björk) er ljóð sem mig langar sjálfan að dreyma, hvernig sem fer ... og „Ef Helsinki" (Nina Sos); gamanleikur ársins, skellið ykkur strax, áður en það er of seint. Svo gefa strákarnir þeim ekkert eftir, „hreinustu ljóð í heimi", ég segi það satt (núna).

föstudagur, nóvember 21, 2008

Konur


Nýhil kynnir:

KONUR eftir Steinar Braga

Ung kona snýr aftur heim til Íslands eftir nokkurra ára fjarveru og reynir að raða saman brotunum í lífi sínu. Lánið virðist leika við hana þegar bankamaður, einn íslensku útrásarvíkinganna, býður henni að dvelja endurgjaldslaust í háhýsi við Sæbraut.

Í framhaldi sér konan breytingarnar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi og hvernig allt snýst um peninga, banka og auðmenn. Smám saman fær hún á tilfinninguna að verið sé að leiða hana í gildru, en þegar hið myrka leyndarmál opnast henni kann allt að vera um seinan.

Með þessari hugrökku og listilega fléttuðu sögu er varpað ljósi á íslenska þjóð eins og hún er nákvæmlega núna með öllu sínu ranglæti, kúgun, glötuðu trausti – og milljörðum eftir óskiljanlega milljarða sem rísa eins og rimlar umhverfis þegna landsins.

Skáldsagan verður fáanleg í verslunum frá og með mánudeginum 1. desember. Leiðbeinandi útsöluverð er kr. 4.490. Bókin er 220 síður.

Steinar Bragi (f. 1975) hefur áður sent frá sér fimm ljóðabækur og fjórar skáldsögur.

„Á tíma þegar allt er galopið tekst Steinari Braga að vera ráðgáta. Það er ansi mikill kostur. Hann er dularfulli maðurinn í íslenskum bókmenntum.“
- Egill Helgason, blaðamaður

„Ein af bestu bókum sem ég hef lesið síðustu ár.“
- Stefán Máni, rithöfundur

„Frá því ég kynntist fyrst verkum Steinars Braga hef ég alltaf hlakkað til nýrrar bókar eftir hann.“
- Ólafur Stefánsson, handboltamaður

„Bestu verk Steinars Braga smeygja sér inn í vitundina og víkka hana út á undarlegan hátt. Þau hafa haft umtalsverð áhrif á marga íslenska rithöfunda, þar á meðal sjálfa mig.“
- Auður Jónsdóttir, rithöfundur

sunnudagur, október 12, 2008

Ljóðlistarlistinn

Nýhil vill vekja athygli á nýjum póstlista um ljóðlist. Hægt er að skoða færslur á http://groups.google.com/group/ljodlist og skrá sig hér að neðan eða á heimasíðunni. Listinn er öllum opinn og óritstýrður - þangað er hægt að senda línu um hvaðeina sem tengist ljóðlist.

Netfang:

miðvikudagur, september 03, 2008

Tvítólaveizlan eftir Ófeig Sigurðsson


fílarnir með hægð sinni fljóta inn
höfnina mót gleði á bakkanum
hvar álftir vefja hálsum um kvenlæri
þær gráta af fögnuði við að líta hvílíka
dýrð sínum eigin augum er þeir smeygja
sér inn til að leggja við dekkin á kæjanum
bara að finna lyktina af skorpinni húðinni
brakandi á gúmmíinu & heyra í fílunum
stynja & pústa eftir sína löngu ferð
yfir hafið alla leið til okkar
Í Tvítólaveizlunni stefnir Ófeigur Sigurðsson saman forneskjulegri dulúð og lostafullum viðfangs-efnum svo úr verður blanda sem skilur lesandann eftir tilfinningalega steinrotaðan, spólgraðan en þó annarlega háleitan í hugsun. Tvítólaveizlan sýnir sterk tök höfundar á óvenjulegu ljóðformi og sleipu viðfangsefni, en um er að ræða fimmtu ljóðabók Ófeigs, sem einnig hefur gefið út skáldsöguna Áferð.

Kápa bókarinnar er skrýdd teikningu eftir Harald Jónsson, myndlistarmann.

Tvítólaveizlan er til sölu í öllum heiðvirðum bókaverslunum og er leiðbeinandi útsöluverð kr. 1.690. Bókin 70 síðna meðfærileg en eiguleg kilja, prentuð af Odda undir merkjum samstarfs prentsmiðj-unnar og Nýhils um framsækna bókagerð.


Beiðnir um kynningareintök óskast sendar á netfangið nyhil@hive.is

Ófeig má nálgast í gegnum síma 695 7296 og netfangið ofeigursigurdsson@gmail.com

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Ljóð fljúga um Gáttir á vængjum þýðingaNýhil kynnir, tárvott af stolti: Gáttir / Gateways – þýðingarit 4ðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og hönnun Söru Riel.

Í tilefni af Ljóðahátíð Nýhils, sem nú er haldin í fjórða sinn, kemur út sérstakt rit með þýðingum á verkum innlendra og erlendra skálda sem koma fram á hátíðinni. Með útgáfu ritsins, sem nefnist Gáttir eða Gateways, er ætlunin að gera skáldunum sem koma fram á hátíðinni kleift að lesa verk hvers annars, sem og að kynna betur verk erlendu skáldanna. Einnig gefst mörgum upprennandi íslenskum höfundum í fyrsta sinn færi á að fá verk sín þýdd á ensku, sem vonandi verður fyrsta skrefið í landvinningum þeirra erlendis í framtíðinni. Enn fremur eru Gáttir hin glæsilegasta sýnisbók ungrar, íslenskrar ljóðagerðar.

Erlendu skáldin sem eiga verk í Gáttum eru þessi: Nina Søs Vinther (Danmörk), Ida Börjel (Svíþjóð), Hanno Millesi (Austurríki), Ann Cotten (Þýskaland), Sureyyya Evren (Tyrkland) og Morten Søkilde (Danmörk).

Eftirtalin íslensk skáld eiga jafnframt þýðingar á ensku í bókinni: Kristín Svava Tómasdóttir, Kári Páll Óskarsson, Ingólfur Gíslason, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Már Helgason, Kristín Eiríksdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ófeigur
Sigurðsson, Una Björk Sigurðardóttir og Ragnar Ísleifur Bragason.

Einnig er í bókinni stuttur texti um hvert skáld á íslensku og ensku ásamt mynd.

Ritstjóri Gátta / Gateways er Kári Páll Óskarsson, rithöfundur og þýðingafræðingur. Hönnun og frágangur bókarinnar, sem er einkar glæsilegur, var í höndum myndlistarkonunnar Söru Riel. Það er Prentsmiðjan Oddi sem prentaði bókina, en Nýhil og Oddi eiga í samstarfi um framsækna bókagerð. Bókin verður til sölu á 1500 krónur á öllum viðburðum ljóðahátíðar Nýhils, og í bókaverslunum eftir helgi. Bókin er harðspjalda og 109 síður að lengd.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Ljóðahátíð Nýhils 2008 – dagskrá

Föstudaginn 22. agúst


16:00-17:30
Setning ljóðahátíðar, móttaka í Norræna húsinu

20:00-23:00
Ljóðapartí # 1, Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Hanno Millesi, Morten Søkilde, Ann Cotten, Linda Vilhjálmsdóttir, Ófeigur Sigurðsson, Kári Páll Óskarsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Haukur Már Helgason og Una Björk Sigurðardóttir. Tónlist: Ólöf Arnalds. Kynnar: Fræði & framkvæmd

Laugardaginn 23. ágúst


13:00-14:30
Ljóðlistin í Ríki Sjoppunnar – málþing um samtímaljóðlist, Norræna húsinu. [sjá nánar hér]

18:00-19:00
Ljóðalestur – skandinavískir gestir hátíðarinn lesa upp, Norræna húsinu. Ida Börjel, Morten Søkilde, Nina Søs Vinther

20:00-23:00
Ljóðapartí # 2, Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Sureyyya Evren, Ida Börjel, Nina Søs Vinther, Eiríkur Örn Norðdahl, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ragnar Ísleifur Bragason, Jón Örn Loðmfjörð, Kristín Eiríksdóttir og Ingólfur Gíslason. Tónlist: The Diversion Session. Kynnar: Fræði & framkvæmd

Sunnudaginn 24. ágúst


14:00-16:00
Líf ljóðabókanna – málþing um óháða útgáfustarfsemi og ljóðabókaútgáfu á Íslandi og erlendis, Þjóðminjasafninu. [sjá nánar hér]

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Kristín Eiríksdóttir, myndlistarkona og skáld. Helstu stuðningsaðilar eru Norræna húsið, Reykjavíkurborg, Clara Lachmanns fond og Prenstmiðjan Oddi. Í tilefni hátíðarinnar kemur út veglegt þýðingarit,Gáttir/Gateways, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og hönnun Söru Riel. RÚV tekur dagskrá hátíðarinnar upp í heild og gerir í kjölfarið skil í þáttum sem útvarpað verður á Rás 1. Frítt er inn á alla viðburði ljóðahátíðar Nýhils.

Sjá fréttatilkynningu í heild sinni hér

Líf ljóðabókanna – málþing um útgáfu ljóðabóka og óháða útgáfustarfsemi

Á 4ðu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils fer fram málþing um stöðu ljóðabókaútgáfu og óháðrar útgáfustarfsemi í hnattrænu samhengi. Málþingið stendur milli klukkan 14:00 og 16:00 í sal Þjóðminjasafns Íslands, sunnudaginn 24. ágúst.

Jón Karl Helgason, bókmenntafræðingur, stýrir umræðum. Jón Karl hefur að undanförnu unnið að rannsókn um ævi og störf Ragnars í Smára, eins stórtækasta velgjörðarmanns íslenskrar bókaútgáfu á tuttugustu öld.

Stuttar framsögur munu flytja þau Sureyyya Evren frá Tyrklandi og hin danska Nina Søs Vinther. Evren og Vinther eru bæði starfandi rithöfundar, en hafa jafnframt komið beint að útgáfumálum í heimalöndum sínum, sá fyrrnefndi sem ritstjóri róttæks menningartímarits og sú síðarnefnda sem útgáfustjóri rithöfundaforlagsins Arena sem undir hennar stjórn hefur gengið í endurnýjun lífdaga.

Með þeim í pallborði sitja þau Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, og Silja Aðalsteinsdóttir, fráfarandi ritstjóri Tímarits Máls og menningar og verðandi útgáfustjóri Máls og menningar innan Forlagsins.

Búast má við að drepið verði á ýmsum málefnum sem snerta útgáfustarfsemi, en íslenskur útgáfumarkaður hefur verið einkar umhleypingasamur á síðustu árum. Hver eru afdrif ljóðabóka í þeim breytingum? Geta íslenskir rithöfundar tekið málin í sínar hendur í meiri mæli og hver er reynslan af því erlendis frá? Hvaða áhrif hefur samþjöppun auðmagns í atvinnulífinu um heim allan á tjáningarfrelsið? Hvaða hundar liggja grafnir á bak við annars vegar opinberan stuðning við bókaútgáfu og hins vegar stuðning frá einkaaðilum og fyrirtækjum?

Allt þetta og margt fleira verður rætt á æsispennandi málþingi um breyttan heim bókaútgáfunnar og örlög ljóðsins. Boðið verður upp á léttar veitingar í kjölfar málþingsins, sem markar lok fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils.

Nánari upplýsingar:
Jón Karl Helgason s. 690 3936 jkh@hi.is / Viðar Þorsteinsson s. 695 4280 vidart@hive.is

mánudagur, ágúst 18, 2008

Ljóðlistin í Ríki Sjoppunnar – málþing um samtímaljóðlist


Á ljóðahátíð Nýhils, sem fram fer í Norræna húsinu og á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins dagana 22.-24. ágúst, verður efnt til afar spennandi pallborðsumræðna með ungum skáldum frá ýmsum löndum. Skáldin eru öll sérlegir þátttakendur í hátíðinni, en það eru þau Ármann Jakobsson, lektor í íslensku við Háskóla Íslands, og Birna Bjarnadóttir, dósent og forstöðumaður við íslenskudeild Manitóbaháskóla í Kanada, sem stýra umræðunum.

Umræðurnar hefjast stundvíslega klukkan 13:00 í sal Norræna hússins, Sturlugötu 5, laugardaginn 23. ágúst, verður skipt í tvær lotur, og lýkur klukkan 14:30.

Í fyrri lotu munu Ármann og skáldin beina umræðum í farveg útfrá tveimur spurningum:
Í fyrsta lagi er spurt: leitar ljóðlistin ávallt að nýjum byrjunarreit?
Í öðru lagi er spurt: Er ljóðlist samtímans síður ljóðræn en ljóðlist fortíðarinnar?
Í pallborði fyrri lotu sitja þau Ann Cotten (Austurríki), Nina Søs Vinther (Danmörk), Süreyyya Evren (Tyrkland) og Haukur Már Helgason.

Seinni lota pallborðsumræðna hefst að loknu örstuttu kaffihléi, en þar verður spurt: Hvert er rými listarinnar í Ríki Sjoppunnar á tíma kapítalískrar neysluhyggju?
Birna Bjarnadóttir mun kría svör út úr þessum skáldum: Ida Börjel (Svíþjóð), Morten Søkilde (Danmörk), Eiríkur Örn Norðdahl og Kristín Eiríksdóttir.

Dagskrá hátíðarinnar í heild má sjá hér að neðan.
RÚV mun taka upp dagskrá allrar ljóðahátíðar Nýhils og gera henni skil í útvarpsþáttum á Rás 1 í kjölfarið.
Stuðningsaðilar ljóðahátíðar Nýhils eru Norræna húsið, Reykjavíkurborg, Clara Lachmanns fond og Prentsmiðjan Oddi.

mánudagur, júlí 28, 2008

Alþjóðleg hátíð ungra skálda haldin í fjórða sinn í Reykjavík


Sex erlend skáld og tólf íslensk lesa í ljóðapartíum á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og taka þátt í umræðum með Birnu Bjarnadóttur og Ármanni Jakobssyni í Norræna húsinu á Fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils. Glæsilegt þýðingarit verður gefið út samhliða hátíðinni, sem fer fram 22.-24. ágúst næstkomandi.

Fjórða alþjóðlega Ljóðahátíð Nýhils verður haldin hátíðleg dagana 22.-24. ágúst í Norræna húsinu og á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Dagskrá hátíðarinnar er með eindæmum metnaðarfull, en sex erlend skáld koma sérstaklega til landsins í tilefni hennar. Þau munu lesa upp á ljóðapartíum og taka þátt í pallborðsumræðum með íslenskum kollegum sínum.

Um er að ræða einu íslensku hátíðina þar sem ljóð eru í brennidepli, en hún hefur þegar skipað sér sess sem framsækinn listviðburður í íslensku menningarlífi. Frá því fyrsta hátíðin var haldin árið 2005 hefur verið lögð sérstök áhersla á að leiða saman íslenska og erlenda strauma í ljóðlist, auk þess sem frjótt samspil við aðrar listgreinar hefur verið í fyrirrúmi.

Erlendir gestir hátíðarinnar að þessu sinni eru þau Nina Søs Vinther (Danmörk), Ida Börjel (Svíþjóð), Hanno Millesi (Austurríki), Ann Cotten (Þýskaland), Sureyyya Evren (Tyrkland) og Morten Søkilde (Danmörk). Þá munu eftirtalin íslensk skáld koma fram á hátíðinni: Kristín Svava Tómasdóttir, Kári Páll Óskarsson, Ingólfur Gíslason, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Már Helgason, Kristín Eiríksdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ófeigur Sigurðsson, Una Björk Sigurðardóttir og Ragnar Ísleifur Bragason.

Glæsilegt rit verður gefið út í tilefni hátíðarinnar með þýðingum á verkum íslenskra og erlendra þátttakenda. Ritinu er ætlað að efla kynningu á skrifum ljóðskáldanna, en í því birtast í fyrsta sinn enskar þýðingar á verkum marga íslenskra ungskálda. Kári Páll Óskarsson, skáld og nemi í þýðingafræði, er ritstjóri þýðinga- og dagskrárritsins. Hönnun þess annast myndlistarkonan Sara Riel, en frágangur bókarinnar verður bæði óhefðbundinn og metnaðarfullur.

Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af tveimur ljóðapartíum, föstudags- og laugardagskvöld, sem standa frá 20:00 til 23:00. Bæði fara þau fram á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins, en seinna partíið er hluti af dagskrá Menningarnætur í Reykjavík. Ólöf Arnalds leikur tónlist á föstudagskvöldinu, en útskriftarnemar í „Fræði & framkvæmd“ við Listaháskóla Íslands munu ramma inn dagskránna með óvæntum uppákomum bæði kvöldin.

Ekki síður mikilvægur hluti dagskrárinnar eru pallborðsumræður þar sem landsins rósfingruðustu bókmenntafræðingar, þau Birna Bjarnadóttir og Ármann Jakobsson, mun rekja garnirnar úr ungum rithöfunum um skáldskap þeirra. Umræðurnar fara fram milli 13 og 14:30 á laugardeginum, í Norræna húsinu, og eru einnig hluti af dagskrá menningarnætur. Milli 18 og 19 sama dag verður einnig stuttur upplestur norræna ljóðskálda í Norræna húsinu.

Hátíðinni lýkur sunnudaginn 24. ágúst með málþingi um óháða útgáfustarfsemi og ljóðabókaútgáfu á alþjóðavísu. Þátttakendur í umræðum verða þau Sureyyya Evren og Nina Søs Vinther, en þau hafa bæði komið að útgáfumálum í sínum heimalöndum. Nina hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra rithöfundaforlagsins Arena sem hefur verið leiðandi í ljóðabókaútgáfu í Danmörku, en býr að áratuga hefð sem framsækið bókaforlag undir beinni stjórn starfandi rithöfunda. Staður og nákvæmur tími málþingsins verða auglýst innan skamms.

Listrænn stjórnandi fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils er Kristín Eiríksdóttir, en framkvæmdastjóri er Viðar Þorsteinsson. Hátíðin er haldin í samstarfi við Norræna húsið og Reykjavíkurborg, en nýtur einnig stuðnings frá Clara Lachmanns fond og Prentsmiðjunni Odda.


– – – – – –

Nánari upplýsingar um hátíðina, skáldin sem taka þátt í henni, Nýhil og útgáfu þýðingaritsins verður að finna á heimasíðu Nýhil, www.nyhil.org, en síðan undirgengst nú viðamiklar breytingar og verður nýtt útlit hennar kynnt í aðdraganda hátíðarinnar. Þangað til má hafa samband á nyhil@nyhil.org

mánudagur, júní 30, 2008

Vísir og Víðsjá

Hér má heyra umfjöllun Víðsjár um málið og að neðan er svo frekari fréttaflutningur visir.is um málið:

Fá ný skáldverk í pottinum


„Það er reginmisskilningur að það sé eina eða meginhlutverk Bókmenntasjóðs að styrkja ný íslensk skáldverk," segir Njörður Sigurjónsson, framkvæmdastjóri sjóðsins.

Í blaðinu í gær var því haldið fram að sjóðurinn hefði ekki staðið sig sem skyldi að þessu leyti og var byggt á a-lið 2. greinar laga um Bókmenntasjóð. Þar stendur að sjóðurinn skuli „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka". Síðan er rætt um önnur verk.
Bókaútgáfan Nýhil hefur krafist þess að lögmæti síðustu úthlutunar Bókmenntasjóðs verði rannsakað. Nýhil heldur því fram að sjóðurinn hafi ekki styrkt „frumsamin skáldverk", heldur frekar endurútgáfur skáldverka og svo fræðirit og annað.

„En frumsamið skáldverk þarf alls ekki að vera nýtt skáldverk," segir Njörður. Með lagaákvæðinu sé einfaldlega verið að vísa til þess að sjóðurinn eigi ekki einungis að styrkja þýðingar eða fræðirit.
Frumsamið íslenskt skáldverk geti því vel verið endurútgáfa á eldri íslenskum bókum. „Þetta þýðir að verkin eiga ekki að vera þýdd og ekki stolin."

Njörður segir óumdeilt að sjóður­inn eigi líka að styrkja ný íslensk skáldverk. Of fáir umsækjendur hafi þó gert sér grein fyrir því. Einni milljón króna verði varið í haust til að vekja athygli á þessu. Ný skáldverk verði þó engu að síður gjaldgeng í öðrum úthlutunum.

„Úthlutunin í vor var alls ekki stefnumarkandi. Ákvörðun um styrkveitingu er tekin á grundvelli þeirra umsókna sem berast. Þær voru bara of fáar í ár. Engin þeirra hlaut náð fyrir augum dóm­nefndar."

Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, fellst ekki á þessi rök. „Það er með ólíkindum að þeir haldi þessu fram núna. Þetta er lagakrókur á móti bragði. Það sem gerðist er ekki að fáir hafi sótt um heldur að stóru forlögin, hagsmunaaðilarnir, áttuðu sig ekki á því að sækja um.
Stjórn sjóðsins hefur því skipt um reglur í miðjum leik. Þetta hefði frekar átt að vera rík ástæða til að verðlauna litlu forlögin, sem voru vakandi," segir hann. Það hefði vakið athygli þeirra stóru.

Tvö prósent fjárins í megintilgang sjóðs

Af visi.is

Ekki er að sjá að Bókmenntasjóður hafi farið nákvæmlega eftir forskrift þeirri sem er að finna í lögum um hann þegar 24 milljónum var úthlutað til útgáfu í síðasta mánuði. Sjóðurinn styrkti engin frumsamin íslensk verk og hefur ekki styrkt þau síðan hann var stofnaður á síðasta ári.

Lögin segja að sjóðurinn skuli rækja hlutverk sitt með ýmsum hætti. En það sem er efst á lista, undir lið A, er að „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka [...]".

Liður C, að „stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum [...] erlendis", er hins vegar sá sem tekur mesta orku og peninga sjóðsins, að sögn Njarðar Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra hans. Þetta sé gert með því að styrkja þýðingar á útgefnum verkum á erlend mál.

En í haust á að gera bragarbót á þessu, segir Njörður, og úthluta sérstaklega til frumsaminna verka. Sjóðurinn hefur yfir fimmtíu milljónum að ráða árlega og ætlar að nýta eina þeirra í þessi verk. Tvö prósent fjárins.

Bókaútgáfan Nýhil sótti um styrki fyrir útgáfu ungra skálda í ár en fékk ekki. Öll ljóðskáldin sem fengu styrki til útgáfu í ár, fyrir utan Gunnar Dal, eru reyndar látin. Þetta eru því endurútgáfur eða safn eldri verka.
Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, sendi í gær menntamálaráðherra bréf „í nafni nýsköpunar", þar sem hann fer fram á að lögmæti úthlutunarinnar verði rannsakað.

Ljóðabækur ungra höfunda séu verkin sem síst seljist og því oft gefnar út í sjálfboðavinnu. Þessi fyrstu verk séu hins vegar ómetanleg fyrir bókmenninguna.
„Við erum gríðarlega óánægð og lítum á þetta sem svik við þá bókaútgáfu sem er mest styrktarþurfi," segir hann.

Njörður Sigurjónsson bendir á að enn sé verið að móta starf sjóðsins. Hann telur ekki að ein milljón sé lítið fé til fagurbókmennta. Þó kunni upphæðin að hækka í framtíðinni.

„En í ár bárust okkur fáar umsóknir og úthlutunin var svolítið sérstök, í anda hins gamla Menningarsjóðs, sem styrkti til dæmis orðabækur. Það er hins vegar mikill vilji til að gera vel við fagurbókmenntir og við þurfum að kynna þessa styrki betur fyrir úthlutunina í haust."

laugardagur, júní 28, 2008

Bréf Nýhils til menntamálaráðherra

Til: Menntamálaráðherra
Menntamálaráðuneytinu
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík
Erindi: Ósk um athugun á lögmæti úthlutana úr Bókmenntasjóði


Undirrituð fara þess á leit við menntamálaráðherra að hún láti fara fram athugun á lögmæti úthlutana úr Bókmenntasjóði sem gerðar voru opinberar 7. maí 2008. Undirrituð telja að úthlutun sjóðsins hafi ekki uppfyllt skilyrði sem lýst er í lögum nr. 91 frá árinu 2007. Í lögunum er hlutverk sjóðsins meðal annars sagt það að „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka og vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu,“ en undirrituð telja í því ljósi ámælisvert að engin frumsamin verk voru styrkt í umræddri úthlutun. Undirrituð telja auk þess að sjóðurinn hafi gengið í berhögg við eigin viðmiðunarreglur um úthlutanir til ljóðabóka.

Þann 11. febrúar 2008 auglýsti Bókmenntasjóður eftir umsóknum um útgáfu- og þýðingastyrki, þar sem sérstaklega var minnst á styrki til „útgáfu frumsaminna verka“ auk annars, í samræmi við lög um sjóðinn. Enn fremur var að finna á heimasíðu sjóðsins leiðbeinandi texta fyrir umsækjendur þar sem þrír meginflokkar styrkja voru tilgreindir. Flokki „C“ er lýst svo:

Flokkur C. Styrkir sem miða að því að styðja við bakið á verkefnum sem hafa takmarkaða eða litla tekjuvon en eru mikilvæg fyrir íslenska bókmenningu. Hér er til að mynda átt við stuðning við ýmsa vinnslu á myndskreyttum barnabókum eftir innlenda höfunda, útgáfu ljóðabóka og ritsafna með fræðilegum innangi eða formála, þróunarverkefni, verkefni í rafrænni miðlun, fræðilegt efni af ýmsum toga o.s.frv.

Undirrituð höfðu túlkað lög sjóðsins og ofangreindan leiðbeiningartexta á þann veg að enginn vafi léki á að sjóðurinn myndi styrkja útgáfu nýrra ljóðabóka, og ályktuðu sem svo að þar yrðu bækur yngri höfunda hafðar til hliðsjónar, í ljósi þess að þær hafa litla tekjuvon en eru afar mikilvægar fyrir íslenska bókmenningu, líkt og nánar verður vikið að.
Stjórnarformaður Nýhils hafði enn fremur átt samtöl við Kristján B. Jónasson, fulltrúa Félags íslenskra bókaútgefenda í stjórn Bókmenntasjóðs, og Njörð Sigursjónsson, starfsmann sjóðsins, þar sem margítrekað kom fram að Nýhil myndi sækja um styrki vegna skáldverka yngri höfunda, einkum ljóðabóka. Í engu þessara samtala kom annað fram en að slíkar bækur féllu undir svið útgáfustyrkja Bókmenntasjóðs.
Í úthlutun sinni sem kunngjörð var 7. maí styrkti Bókmenntasjóður hins vegar engar nýjar ljóðabækur eftir unga höfunda, heldur aðeins endurútgáfur á verkum eldri eða látinna íslenskra ljóðaskálda. Undirrituð telja þetta ganga í berhögg við lög um starfsemi sjóðsins, enda séu verkin ekki „frumsamin“ heldur áður útgefin, og falli þar að auki ekki að þeirri skilgreiningu að verkin hafi takmarkaða eða litla tekjuvon í samanburði við aðra útgáfu – til að mynda útgáfu á nýjum, íslenskum ljóðabókum.
Undirrituð lýstu þessum áhyggjum sínum í erindi til stjórnar Bókmenntasjóðs í bréfi dagsettu 13. maí 2008. Undirrituðum voru í kjölfar þess færð munnleg skilaboð frá starfsmanni sjóðsins í gegnum stjórnarformann Nýhils um að stjórn Bókmenntasjóðs hygðist ekki svara erindinu eftir að hafa fjallað um það á stjórnarfundi sínum miðvikudaginn 18. júní, og bar stjórnin fyrir sig stjórnsýslulögum sem verja rétt opinberra nefnda til að tjá sig ekki um einstakar úthlutanir.
Undirrituð mótmæla þessu og telja stjórn Bókmenntasjóðs skylt að veita menntamálaráðuneyti, skipunaraðilum sjóðsins, umsækjendum og öllum almenningi skýringar á því hvers vegna hún tók ákvörðun um úthlutun sem virðist vera á skjön við lög um starfsemi sjóðsins og þær viðmiðanir sem stjórnin sjálf hafði ætlað umsækjendum að fylgja. Umrædd stjórnsýslulög eiga við um kvartanir sem lúta að huglægu eða listrænu mati nefndarmanna um einstakar úthlutanir, en ekki um athugasemdir við almenn vinnubrögð og áherslur viðkomandi úthlutunarnefndar með hliðsjón af lögum og útgefnum viðmiðum.

Ljóst er að ef stjórn Bókmenntasjóðs hefur farið eftir eigin viðmiðunum um meginflokka A, B og C í úthlutun sinni þá eru allir styrkir sem úthlutað var til ljóðabóka í flokki C, þar sem styrkupphæðir eru á bilinu 100-300 þúsund. Allar bækurnar sem hlutu styrk eru undurútgáfur.
Veruleg áhöld hljóta að teljast á því hvort þær ljóðabækur sem hlutu styrk uppfylli skilyrði í viðmiðunum um að hafa „takmarkaða eða litla tekjuvon“. Tekjuvon bóka grundvallast á sölu þeirra, og má ætla að endurútgáfa sé almennt og í eðli sínu tiltölulega vel til þess fallin að uppfylla eðlilegar söluvæntingar, enda væri vart þörf á endurútgefa verkin nema vegna þess að þau hafa þegar notið vinsælda og selst upp.
Alkunna er innan íslenskrar bókaútgáfu að sú útgáfa sem hvað sísta tekjuvon hefur er útgáfa á ljóðum, einkum ljóðum ungra og lítt þekktra höfunda. Þetta sést best af því að slíkri útgáfu er að miklu leyti haldið úti með sjálfsútgáfu höfunda eða undir formerkjum sjálfsprottina hópa á borð við Nýhil eða Nykur, svo dæmi séu nefnd, sem starfa á grundvelli sjálfboðavinnu og án arðsemismarkmiða. Almennt viðurkenna stöndugri bókaforlög að í útgáfu nýrra ljóðabóka er ekki hægt að gera ráð fyrir að sölutekjur standi undir kostnaði, og er því útgáfa einstakra titla að hluta afskrifuð.
Menningarlegt gildi fyrstu ljóðabóka ungra höfunda er ótvírætt og má rökstyðja að útgáfa þeirra sé að sönnu fjöregg íslensks bókmenntalífs. Endurnýjun í rithöfundastétt er háð því að ungum höfundum sé gefið færi á að koma verkum sínum fyrir sjónir almenning, og hljóta þá umfjöllun og gagnrýni sem útgáfan ein getur tryggt.
Allur aðdragandi styrkúthlutunar Bókmenntasjóðs gaf til kynna að þessari mikilvægu en lítt söluvænlegu endurnýjun rithöfundastéttarinnar yrði veitt liðsinni með auglýstum útgáfustyrkjum. Stjórn sjóðsins virðist hins vegar hafa snúist hugur og er eðlilegt að hún veiti skýringar á því hvers vegna hún beinir fjármagni sjóðsins annað en tilefni var gefið til. Slíkt hlýtur að teljast eðlilegur réttur þeirra sem þurfa að verja tíma og kröftum í samnings- og áætlanagerð vegna styrkumsókna.

Undirrituð leggja á það sérstaka áherslu að þau setja fram mál sitt í nafni almennra hagsmuna ungra, íslenskra rithöfunda. Með erindi þessu er ekki verið að krefjast rökstuðnings fyrir einstökum úthlutunum sjóðsins innan hvers flokks bóka, heldur skýringa á því hvers vegna heill flokkur bóka – nýjar ljóðabækur – var í heild sinni sniðgenginn af hálfu sjóðsins, öfugt við anda laganna um starfsemi sjóðsins og leiðbeiningar til umsækjenda.

Með ósk um góð viðbrögð við erindi þessu,

Nýhil

mánudagur, júní 16, 2008

Öfuguggaljóðaglíma

Fyrir allri skemmtan er góð ástæða, helst aldarafmæli!

Í tilefni af aldarafmæli Ólympíuþátttöku Íslendinga blæs skátahreyfingin Nýhil til ljóðveislu á Næsta bar klukkan 20:30 miðvikudagskvöldið 18. júní. Kvöldið er haldið sérstaklega til heiðurs glímukappanum Guðmundi Sigurjónssyni Hofdal, þátttakanda á Ólympíuleikunum í London 1908 og eina Íslendingnum sem dæmdur hefur verið fyrir sódómíu. Ýmis ung og öfugsnúin skáld stíga á stokk og hylla lífsvilluna.


Þau eru: Kristín Eiríksdóttir, Ingólfur Gíslason, Kristín Svava Tómasdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Bergþóra Einarsdóttir, Gísli Hvanndal og Arngrímur Vídalín.

miðvikudagur, apríl 30, 2008

Fréttir frá mínu landi - útgáfuteiti

Í tilefni af útgáfu hinnar stórglæsilegu bókar, Fréttir frá mínu landi, býður hinn hugumstóri höfundur, Ármann Jakobsson, til útgáfuteiti nk. föstudag (2. maí). Herlegheitin fara fram í Reykjavíkur-Akademíunni (4. hæð JL-hússins), frá 16-18, og verður vitanlega boðið uppá léttar veigar. Bókin verður fáanleg á vægu verði og eflaust má plata höfundinn til að hripa vinsamleg kveðjuorð í bókina. Það er almennt mál manna að betri byrjun á góðri helgi sé vandfundin.

Gagnrýnendur hafa farið lofsamlegum orðum um bókina og birtast hér nokkur brot:

„Það sem einkennir textana öðru fremur er óvenjulegt sjónarhorn á daglegt líf og góður húmor fyrir bæði tíðarandanum og eigin tilveru.”
- Huldar Breiðfjörð, Viðskiptablaðið

„Ég hef sjálfur haft áhuga á textum af þessu tagi og tel að verk Ármanns sé í hópi allra bestu örsagna sem ég hef lesið lengi. Ég mæli með verkinu í sumarfríið sem er hjá flestum á næsta leiti.”
- Sigurður Gylfi Magnússon, Kistan

„Ármann er gleðigjafi.”
- Gerður Kristný, Mannamál

föstudagur, apríl 25, 2008

Þá er það alvaran


* Þessu fólki er alvara *
- - Upplestur og uppgrip í Bókaverslun Máls og menningar klukkan 15 á laugardag - -

Nýhil efnir til upplestrar í Bókaverslun Máls og menningar, Laugavegi 18, klukkan 15:00 á morgun, laugardaginn 26. apríl. Tilefnið er vika bókarinnar, sumarið og lífið sjálft.

Skáldin sem lesa eru:
* Haukur Már Helgason, sólbrúnn og bísperrtur
* Kristín Eiríksdóttir, rjóð og blóðstorkin
* Ingólfur Gíslason, ábyrgur og rökvís

Mætið tímanlega og hlustið á rithöfundana ógna viðteknum gildum, halla réttu máli og valda usla líkt og svefnlausir vörubílstjórar.

Á það skal minnt að ljóðabækur og skáldsögur Nýhils eru til sölu í öllum bókabúðum með fáheyrðum afslætti á meðan Þjóðargjöf Félags bókaútgefenda gildir. Allar bækur frá 2007 og eldri eru á kr. 299 eða 499. Nánari upplýsingar um það hér: http://nyhil.org/vikabokar.pdf

Gangi ykkur allt í haginn,
Nýhil

mánudagur, apríl 21, 2008

Vika bókarinnar - kauptu bækur ungskáldanna á fáránlegum prís


Ung skáld fagna sérstaklega Viku bókarinnar, Degi bókarinnar og hinni stórhuga Þjóðargjöf sem Félag bókaútgefenda stendur fyrir af því tilefni. Nýhil hvetja bókaunnendur til að beina sjónum að öflugri útgáfu síðustu missera á skáldskap ungra, íslenskra rithöfunda.

Sautján eftirsóknarverðir titlar sem ættu að prýða bókahillur allra sem fylgjast vilja með nýlegum hræringum í skáldskap verða á tilboði -- aðeins tvö verð gilda: kr 299,- og kr 499,-. Með kaupum á einhverri bókanna fylgir auk þess sýnisbókin Ást æða varps að gjöf meðan birgðir endast.

Bækurnar verða fáanlegar á auglýstu tilboðsverði í helstu bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu frá og með þriðjudeginum 22. apríl og fram á sunnudag 27. apríl, eða jafn lengi og hægt er að nýta sér Þjóðargjafar-ávísunina.

Nánari upplýsingar um verð og titla hér:
http://nyhil.org/vikabokar.pdf

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Fréttir frá mínu landi


TÍTAN
Skrýtið að kalla ferðatöskur eftir geðvondum risum sem gleyptu börnin sín.


Hinn sómakæri bloggari, íslenskukennari og lífskúnstner Ármann Jakobsson hefur stokkið fram á vígvöll ljóðsins í fullum herklæðum með fulltingi Nýhils í 96 blaðsíðna riti sem ber nafnið FRÉTTIR FRÁ MÍNU LANDI.

Ljóð Ármanns, brynjuð harmrænni fágun, una lesandanum ekki hvíldar fyrr en hann hefur laugað sig í undirtexta þeirra, bundinn líkt og Ódysseifur við skipsmastur hins óræða.

Höfundur hefur þegar getið sér gott orð fyrir lævísleg orðspjót sem lénsherra á blogginu armannjakobsson.blogspot.com, sem stendur í órofa sambandi við bókina.

Bókin verður fáanleg í helstu bókaverslunun frá og með föstudegi gegn sanngjörnu verði, en útgáfa hennar er einkum hugsuð höfundi sjálfum og velunnurum hans til skemmtunar.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Gjadfrjáls aðstaða í ReykjavíkurAkademíunni fyrir framkvæmdastjóra Nýhil


Nýhil leitar að
F R A M K V Æ M D A S T J Ó R A
í hlutastarf frá 1. apríl

Starfið er kjörið fyrir manneskju sem hefur áhuga á hræringum í samtímaskáldskap og sjálfstæðri útgáfustarfsemi.

Framkvæmdastjóranum bjóðast gjaldfrjáls afnot af skrifstofu Nýhils í
ReykjavíkurAkademínni utan vinnutímans til að sinna eigin störfum, svo
sem námi eða skrifum, í félagsskap sjálfstætt starfandi rithöfunda og
fræðimanna.


· Starfssvið: framkvæmdastjóri vinnur náið með stjórn félagsins að sölustjórn & dreifingu, reikningshaldi og skipulagningu viðburða.
· Starfshlutfall: 20-25%
· Vinnutími: sveigjanlegur
· Laun: sanngjörn
· Bifreið: viðkomandi þarf að hafa bifreið til umráða en fær bensínkort með fastri mánaðarlegri úttekt.
· Ráðningatími: sveigjanlegur
· Vinnuaðstaða: skrifstofa Nýhils í ReykjavíkurAkademíunni, Hringbraut 121

Ferilsskrá og meðmæli óskast send á netfangið nyhil@nyhil.org ásamt texta (má vera ljóð) þar sem löngun og/eða hæfni viðkomandi til starfans er færð í orð.

Reykjavík,
mars 2008
N Ý H I L

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

Geigvænlegir afslættir af bestu Nýhilstitlunum á bókamarkaðinum í Perlunni


Halló allir, takið nú eftir:

Byltingarkenndustu ljóða- og skáldsagnatitlar síðari ára frá Nýhil eru á bókamarkaðinum í Perlunni á allt að 70% afslætti!
Frí sýnisbók ungra íslenskra ljóðskálda, Ást æða varps, fylgir kaupum á öllum Nýhils-bókum á bókamarkaðinum í Perlunni!

Auk þess verður nýjasta ljóðabók Eiríks Norðdahl, ÞJÓNN, ÞAÐ ER FÖNIX Í ÖSKUBAKKANUM MÍNUM, á geypilegum afslætti, en þetta sagði Jón Yngvi Jóhannsson, en það er bókmenntafræðingurinn sem er oft í sjónvarpinu, um Eirík í dómi um bókina: „Snorri Sturluson 21. aldarinnar".

Mætið og gangið út klyfjuð af Nýhilsbókum!

Ingólfur Gíslason og Haukur Már Helgason tilnefndir til menningarverðlauna DV í dag


Nýhil er orða vant, en reynir þó að stumra út úr sér orðunum innan um táraflóðin: strákar, þið eigið þetta skilið!

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Ert þú ljóðrænn framkvæmdastjóri?

Nýhil leitar að
F R A M K V Æ M D A S T J Ó R A
í hlutastarf | frá 1. mars

Starfið er kjörið fyrir manneskju sem hefur áhuga á hræringum í
samtímaskáldskap og sjálfstæðri útgáfustarfsemi.

· Starfssvið: framkvæmdastjóri vinnur náið með stjórn félagsins að
sölustjórn & dreifingu, reikningshaldi og skipulagningu viðburða auk
tilfallandi verkefna
· Starfshlutfall: 20-25%
· Vinnutími: sveigjanlegur
· Laun: sanngjörn
· Bifreið: fæst útveguð til starfans
· Ráðningatími: 1 ár (sveigjanlegt)

Ferilsskrá og meðmæli óskast send á netfangið nyhil@nyhil.org ásamt texta
(má vera ljóð) þar sem löngun og/eða hæfni viðkomandi til
starfans er færð í orð.

Ljóðrænn framkvæmdastjóri óskast

Nýhil leitar að
F R A M K V Æ M D A S T J Ó R A
í hlutastarf | frá 1. mars

Starfið er kjörið fyrir manneskju sem hefur áhuga á hræringum í
samtímaskáldskap og sjálfstæðri útgáfustarfsemi.

· Starfssvið: framkvæmdastjóri vinnur náið með stjórn félagsins að
sölustjórn & dreifingu, reikningshaldi og skipulagningu viðburða auk
tilfallandi verkefna
· Starfshlutfall: 20-25%
· Vinnutími: sveigjanlegur
· Laun: sanngjörn
· Bifreið: fæst útveguð til starfans
· Ráðningatími: 1 ár (sveigjanlegt)

Ferilsskrá og meðmæli óskast send á netfangið nyhil@nyhil.org ásamt texta
(má vera ljóð) þar sem löngun og/eða hæfni viðkomandi til
starfans er færð í orð.


Reykjavík,
febrúar 2008

N Ý H I Lmánudagur, janúar 28, 2008

Sekúndu nær dauðanum hrósað í hástert af virtum íslenskufræðingi

Missið ekki af hinni stórskemmtilegu gagnrýni Katrínar Jakobsdóttur í þættinum Mannamál með Sigmundi Erni, en þar fjallar hún m.a. um ljóðabók Ingólfs Gíslasonar, "Sekúndu nær dauðanum - vá, tíminn líður". Sjáið herlegheitin HÉR.

mánudagur, janúar 21, 2008

Íslam með afslætti uppseld hjá útgefanda

* Íslam með afslætti uppseld hjá útgefanda *

Nýhil er sársaukablandin ánægja að tilkynna að hið merka safnrit *Íslam með afslætti* hefur runnið út líkt og ræpa af hillum bókaverslana frá því bókin kom út í byrjun mánaðarins og er nú uppseld hjá útgefanda.

Aðstandendur bókarinnar hafa á síðustu vikum svamlað um öldur ljósvakamiðla og rætt um málefni Íslam og Íslendinga í þáttum á borð við Kastljós, Silfur Egils, Víðsjá og Helgarútgáfuna, auk þess sem prentmiðlar hafa gert verkinu góð skil.

Bókin hefur hlotið einstaklega jákvæðar viðtökur hjá velflestum sem um hana hafa fjallað, þótt dýpt, rökfesta og marbrotin tök hennar á viðfangsefni sínu hafi sett stöku fjölmiðlamann úr jafnvægi.

Fjölmargir lesendur hafa lýst ánægju sinni með framtakið, bæði í bloggheimum og í heyrenda hljóði. Ljóst er að íslensku þjóðina sárþyrstir í upplýsandi og blæbrigðaríka umræðu um hina dularfullu múslima.

Annarrar prentunar Íslam með afslætti er von fyrir helgi og geta áhugasamir því gert sér för í bókabúð, bjartsýnir og kátir í skapi, nú um helgina.

Ritstjórar bókarinnar eru Auður Jónsdóttir og Óttar Martin Norðfjörð, bæði rithöfundar.

fimmtudagur, janúar 10, 2008

Kastljósið og Morgunvaktin


Hlustið á Auði Jónsdóttur og Viðar Þorsteinsson á Morgunvaktinni HÉR

og

horfið á Auði Jónsdóttur og Hauk Má Helgason í Kastljósinu HÉR

um ÍSLAM MEÐ AFSLÆTTI.

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Fyrir hina árrisulu

Morgunhanar lífsins: í fyrramálið (þ.e.a.s. miðvikudag) klukkan 07:00 verða Auður Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um hið nýútkomna stórvirki Íslam með afslætti. Sjáumst þar! Nefndin.

mánudagur, janúar 07, 2008

Rabbað um Íslam með afslætti í Víðsjá

Auður Jónsdóttir og Viðar Þorsteinsson spjölluðu við þá Hauk Ingvarsson og Guðna Tómasson í Viðsjá síðastliðinn föstudag. Tilefnið var kynningarpartí bókarinnar "Íslam með afslætti" sem út kemur í dag. Hlustið á viðtalið HÉR.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Íslam og Íslendingar - bókarkynning á föstudag


Íslam á Íslandi
- fyrsta bók ársins kynnt á föstudag ásamt hneykslanlegum teikningum!

Föstudaginn 4. janúar kl. 17 verður útgáfu bókarinnar Íslam með afslætti fagnað í bókabúðinni Útúrdúr á Njálsgötu 14. Um er að ræða greinasafn í ritstjórn rithöfundanna Auðar Jónsdóttur og Óttars M. Norðfjörð sem fjallar um hættulegar einfaldanir í umræðunni um íslam á Íslandi og víðar í heiminum.

Í bókinni er að finna 12 myndir gerðar af innlendum og erlendum myndlistarmönnum sem varpa upp þeirri spurningu hvort Íslendingum sé nokkuð heilagt, en múslimar hafa verið gagnrýndir fyrir að leggjast gegn skopteikningum af spámanninum Múhameð. Myndirnar í bókinni draga upp rætna mynd af hlutum sem Íslendingum eru heilagir, en þær verða hengdar upp til sýnis í útgáfuveislunni. Einnig eru tvær skopteikningar í bókinni eftir þau Hugleik Dagsson og Lóu Hjálmtýsdóttur.

Í ritnefnd bókarinnar sátu Viðar Þorsteinsson, Haukur Már Helgason, Eiríkur Örn Norðdahl og Þórarinn Leifsson. Meðal greinarhöfunda í bókinni má nefna Magnús Þorkel Bernharðsson, Amal Tamimi, Jón Orm Halldórsson, Guðberg Bergsson og Þórhall Heimisson. Áberandi er einnig að fjöldi höfunda af yngri kynslóðinni skrifar í bókina um innflytjendamál og trúarbragðadeilur. Í bókinni er enn fremur viðtal við Yousef Inga Tamimi, 19 ára gamlan múslima sem er fæddur og uppalinn á Íslandi.

Bókin er 190 síður og verður dreift í allar helstu bókaverslanir strax eftir helgi. Nýhil gefur út.

Allir eru velkominir á bókakynninguna, en þar verður boðið upp á íslamskt snakk og aðstandendur bókarinnar verða til viðtals.

Nánari upplýsingar:
Auður Jónsdóttir - audur@jonsdottir.com - 659-3603
Óttar M. Norðfjörð - ottarmn@gmail.com - 866-9276