þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Líf ljóðabókanna – málþing um útgáfu ljóðabóka og óháða útgáfustarfsemi

Á 4ðu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils fer fram málþing um stöðu ljóðabókaútgáfu og óháðrar útgáfustarfsemi í hnattrænu samhengi. Málþingið stendur milli klukkan 14:00 og 16:00 í sal Þjóðminjasafns Íslands, sunnudaginn 24. ágúst.

Jón Karl Helgason, bókmenntafræðingur, stýrir umræðum. Jón Karl hefur að undanförnu unnið að rannsókn um ævi og störf Ragnars í Smára, eins stórtækasta velgjörðarmanns íslenskrar bókaútgáfu á tuttugustu öld.

Stuttar framsögur munu flytja þau Sureyyya Evren frá Tyrklandi og hin danska Nina Søs Vinther. Evren og Vinther eru bæði starfandi rithöfundar, en hafa jafnframt komið beint að útgáfumálum í heimalöndum sínum, sá fyrrnefndi sem ritstjóri róttæks menningartímarits og sú síðarnefnda sem útgáfustjóri rithöfundaforlagsins Arena sem undir hennar stjórn hefur gengið í endurnýjun lífdaga.

Með þeim í pallborði sitja þau Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, og Silja Aðalsteinsdóttir, fráfarandi ritstjóri Tímarits Máls og menningar og verðandi útgáfustjóri Máls og menningar innan Forlagsins.

Búast má við að drepið verði á ýmsum málefnum sem snerta útgáfustarfsemi, en íslenskur útgáfumarkaður hefur verið einkar umhleypingasamur á síðustu árum. Hver eru afdrif ljóðabóka í þeim breytingum? Geta íslenskir rithöfundar tekið málin í sínar hendur í meiri mæli og hver er reynslan af því erlendis frá? Hvaða áhrif hefur samþjöppun auðmagns í atvinnulífinu um heim allan á tjáningarfrelsið? Hvaða hundar liggja grafnir á bak við annars vegar opinberan stuðning við bókaútgáfu og hins vegar stuðning frá einkaaðilum og fyrirtækjum?

Allt þetta og margt fleira verður rætt á æsispennandi málþingi um breyttan heim bókaútgáfunnar og örlög ljóðsins. Boðið verður upp á léttar veitingar í kjölfar málþingsins, sem markar lok fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils.

Nánari upplýsingar:
Jón Karl Helgason s. 690 3936 jkh@hi.is / Viðar Þorsteinsson s. 695 4280 vidart@hive.is

Engin ummæli: