mánudagur, ágúst 18, 2008

Ljóðlistin í Ríki Sjoppunnar – málþing um samtímaljóðlist


Á ljóðahátíð Nýhils, sem fram fer í Norræna húsinu og á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins dagana 22.-24. ágúst, verður efnt til afar spennandi pallborðsumræðna með ungum skáldum frá ýmsum löndum. Skáldin eru öll sérlegir þátttakendur í hátíðinni, en það eru þau Ármann Jakobsson, lektor í íslensku við Háskóla Íslands, og Birna Bjarnadóttir, dósent og forstöðumaður við íslenskudeild Manitóbaháskóla í Kanada, sem stýra umræðunum.

Umræðurnar hefjast stundvíslega klukkan 13:00 í sal Norræna hússins, Sturlugötu 5, laugardaginn 23. ágúst, verður skipt í tvær lotur, og lýkur klukkan 14:30.

Í fyrri lotu munu Ármann og skáldin beina umræðum í farveg útfrá tveimur spurningum:
Í fyrsta lagi er spurt: leitar ljóðlistin ávallt að nýjum byrjunarreit?
Í öðru lagi er spurt: Er ljóðlist samtímans síður ljóðræn en ljóðlist fortíðarinnar?
Í pallborði fyrri lotu sitja þau Ann Cotten (Austurríki), Nina Søs Vinther (Danmörk), Süreyyya Evren (Tyrkland) og Haukur Már Helgason.

Seinni lota pallborðsumræðna hefst að loknu örstuttu kaffihléi, en þar verður spurt: Hvert er rými listarinnar í Ríki Sjoppunnar á tíma kapítalískrar neysluhyggju?
Birna Bjarnadóttir mun kría svör út úr þessum skáldum: Ida Börjel (Svíþjóð), Morten Søkilde (Danmörk), Eiríkur Örn Norðdahl og Kristín Eiríksdóttir.

Dagskrá hátíðarinnar í heild má sjá hér að neðan.
RÚV mun taka upp dagskrá allrar ljóðahátíðar Nýhils og gera henni skil í útvarpsþáttum á Rás 1 í kjölfarið.
Stuðningsaðilar ljóðahátíðar Nýhils eru Norræna húsið, Reykjavíkurborg, Clara Lachmanns fond og Prentsmiðjan Oddi.

Engin ummæli: