þriðjudagur, desember 23, 2008

sjón um síðustu ljóðabók sjónsÉg er búinn að fá eintak af bókinni og get mælt með henni. Það kemur mér á óvart hversu mörg tækifæri til ljóða eru falin í orða- og myndabanka frumgerðanna. Best væri að þeir sem keyptu Ljóðasafnið mitt kipptu þessari bók með sér líka, og öfugt. Saman leggja þær grunninn að jólaspili ljóðelsku fjölskyldunnar í ár. Eins og André Breton þreyttist ekki á að minna okkur á þá sagði Greifinn af Lautreamont: Ljóðið er skapað af öllum. Til lukku Celidonius!

Sjón, rithöfundur

mánudagur, desember 22, 2008

Nýhil brosirNýhil iðar af kæti og losta vegna úthlutana nýræktarstyrkja frá Bókmenntasjóði. Styrki hlutu ljóðabók Kára Páls Óskarssonar, Með villidýrum, sem er þegar út komin, og svo hið nýstárlega útgáfu-prósjekt Bút-gáfa sem Kristín Svava Tómasdóttir hefur umsjá með. Á myndinni sjást skælbrosandi styrkhafar á viðhöfn sem Bókmenntasjóður efndi til af þessu tilefni.

Konur uppseld

Konur eftir Steinar Braga er uppseld hjá útgefanda. Síðustu eintökin eru í verslunum. Von er á endurútgáfu í kilju á nýju ári.

Með villidýrum - fjórar stjörnurMeð villidýrum eftir Kára Pál Óskarsson er vafalítið ein kröftugasta ljóðabók þessa árs. Hér er ekkert dregið undan, dýrunum er sleppt lausum, það er skálað við glundroðann, dansað við hungurguðinn og haturguðinn, hugsað um byssukúlur og þjáningar sem enginn deilir með öðrum, hugað að þessum endalausu aðförum að mennskunni sem samtíminn býður okkur upp á.

Og þetta gerir Kári Páll af smekkvísi hins grófa og beinskeytta sem hæfir »skrauthvarfalausum heimi«. Orðfæri er laust við tilgerð og upphafningu en höfundur veigrar sér samt ekki við að skreyta textann vísunum og myndmáli. Kári Páll hefur fundið rödd sem orkar sterkt á lesandann

Þröstur Helgason, Lesbók Morgunblaðsins

fimmtudagur, desember 18, 2008

Konur slá í gegn

„Sú bók sem kemur út nú á seinni hluta árs sem hefur hrært hvað mest í mér . . . Alveg óhemju áhrifarík bók, glæsilega skrifuð.“
Páll Balvin Baldvinsson, Kiljunni.

„[Steinar Bragi] er einfaldlega á stað þar sem aðrir íslenskir höfundar eru ekki.“
Eiríkur Guðmundsson, útvarpsmaður.„Höfundur hefur aldrei fyrr spennt bogann jafn hátt, eða tekist á jafn agaðan hátt á við jafn margþætt og vandasamt viðfangsefni . . . Með Konum hefur Steinar Bragi sent frá sér eins konar bölsögu, niðdimmt og kvalafullt verk sem fjallar um klám, niðurlægingu, mansal og kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn konum, og er þetta framreitt í umbúðum haganlega smíðaðrar en sjálfsafbyggjandi spennusögu.“
Björn Þór, Lesbók Morgunblaðsins.

„Konur gerist í nútímanum, við nafngreindar götur og í kunnuglegum húsum. Tíðarandi og þjóðfélag er frá því sirka í vor, þegar íslenska útrásin virtist enn vera á fljúgandi fart og það er gaman að staðsetja hreyfingar persóna og rifja upp nýbirtar fyrirsagnir dagblaða. Samtöl eru lifandi og sannfærandi á meðan að frásagnir af ofskynjunum Evu (eða hvað) eru svo ísmeygilegar að á köflum varð ég ringluð og svimaði. Þetta gerir lesturinn að afar sterkri upplifun og reyndar las ég bókina í einum rikk því það var mér ómögulegt að leggja hana frá mér án þess að vita hvar keflið endaði.
Mig dreymdi illa þá sömu nótt.“
Unnur María, kistan.is


„Sögusviðið er Reykjavík útrásarmanna, bankastráka og vaðandi yfirborðsmennsku. Strax á fyrstu síðunum sogaðist ég inn í spennandi atburðarás þar sem ráðvillt, einmana og drykkfelld kona, Eva Einarsdóttir, er í aðalhlutverki . . .
. . . Smám saman tekur gjörsamlega botnlaus hryllingur yfirhöndina. Þegar líður á opinberast lesandanum og aðalpersónunni hverskonar öfl eru að verki og hvílíka gildru er búið að veiða konuna í. Konur er hrollvekja þar sem uppdiktaðar persónur jafnt sem þekktar verur koma við sögu, allt frá hundinum Lúkasi til Hannesar listfræðings. Þarna er fjallað um fólk í þjóðfélagi þar sem peningar, frægð og yfirborðsmennska gegnumsýra alla tilveruna með tilheyrandi siðblindu og subbuskap. Algjörlega klikkað ...“
Þórdís Gísladóttir, bókarýna


„Tvímælalaust áhrifamesta verk sem komið hefur út hér á landi í langa tíð.“
Páll Balvin Baldvinsson, Fréttablaðið.

„Flott bók hjá Steinari Braga. Dularfull og miskunnarlaus hryllingssaga. Hér er konan bókstaflega lokuð inni, býr við allsnægtir en er misþyrmt andlega og líkamlega. Tímabært að staða kvenna sé krufin svona hressilega. Spurningar vakna um mörk og eðli lista, þjáningar og firringar. Í bókinni segir furðufuglinn og listamaðurinn Novak eitthvað á þá leið að fyrir hverja konu sem kemst til valda eða áhrifa í samfélaginu séu gerðar þúsund klámmyndir þar sem konan er sett aftur á sinn stað: valdalaus, undirgefin og niðurlægð. Alveg magnað!“
Steinunn Inga, bloggari

Upplestur

sunnudagur, desember 14, 2008

Stjörnuregn í Lesbók


Gagnrýnandi Lesbókar Morgunblaðsins er ánægður með Konur Steinars Braga og gefur henni fullt hús stjarna, fimm af fimm möguleikum. Í dómnum segir: „Höfundur hefur aldrei fyrr spennt bogann jafn hátt, eða tekist á jafn agaðan hátt á við jafn margþætt og vandasamt viðfangsefni.“ Miðað við stjörnugjöfina má álykta að gagnrýnanda þyki Steinari hafa hitt í mark með sínum listarinnar Amors-örvum.
Enn fremur segir í dómnum: „Með Konum hefur Steinar Bragi sent frá sér eins konar bölsögu, niðdimmt og kvalafullt verk sem fjallar um klám, niðurlægingu, mansal og kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn konum, og er þetta framreitt í umbúðum haganlega smíðaðrar en sjálfsafbyggjandi spennusögu.“ Og undir þessi orð gagnrýnandans, Björns Þórs Vilhjálmssonar, má taka.

föstudagur, desember 12, 2008

síðasta ljóðabók sjóns


hreistraður fákur hleypur niður augnlok mín
og leggur niður næfurþunnar blæjur
lykt af lirfum berst fyrir hornið
og býr til falleg sár við brjóst mitt
fiskar við hvern fingur
og með dúfur í ermunum
í langröndóttum náttslopp
í myrkrinu

og ljósinu

og öfugtLoksins loksins!

Síðasta ljóðabók Sjóns er loksins komin út og ekki seinna vænna! Hér ægir saman ótrúlegum fjölda ólíkra fyrirbæra í óheftu hugsanaflæði snillingsins, stefnt saman með aðferðum súrrealismans af þeirri natni og innsæi sem vænta mátti af höfundi.

Allir textar bókarinnar eiga það sameiginlegt að vera með einum eða öðrum hætti byggðir á ljóðum Sjóns. Aldrei fyrr á Íslandi hefur önnur eins bók komið fyrir almenningssjónir og því ættu sannir ljóðaunnendur ekki að láta þetta snilldarverk framhjá sér fara!

Ritstjóri er Celidonius, útgefandi er Nýhil og leiðbeinandi verð er kr. 490,-

föstudagur, desember 05, 2008

Steinar Bragi hræðist engan


Hinn óhræddi útvarpsþáttur „Víðsjá“, sem margir þekkja, birti í gær viðtal við rithöfundinn Steinar Braga, um bók hans KONUR. Nýhil hvetur til þess að einstaklingar hlusti á spjallið, en það má gera með því að smella á tengilinn hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4426122
Góðar stundir,
N

fimmtudagur, desember 04, 2008

Nýhil á Næsta bar, fös 5.des kl.20

Nýhil hræðist ekki framtíðina heldur mætir dögunum reigt í baki og dansandi - undanhaldinu er lokið og nú verður sótt fram af fullum þunga, illmennum er hollast að gefast upp hið snarasta, Einar Már er búinn að umkringja Vatnaskóg, það heyrist pískrað í öllum hornum ("það er ég viss um þetta er ljóð").

Og upp rennur, rýkur og fýkur næstkomandi föstudagskvöld þar sem apynjur Nýhils troða senur á Næsta bar og kynna nýútkomnar bækur Nýhilista:

Með villidýrum - Kári Páll Óskarsson
Konur - Steinar Bragi
Loftnet klóra himinn - Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir
Þess á milli - Ingvar Högni Ragnarsson
Provence í endursýningu & Tvítólaveislan - Ófeigur Sigurðsson
Ú á fasismann - og fleiri ljóð - Eiríkur Örn Norðdahl

Í hópinn vantar Kristínu Eiríksdóttur, og hópurinn grætur og veinar sínar allra hugheilustu kveðjur vestur til Kanada - Montréal! Stína við elskum þig og komdu fljótt aftur!

(Kristín gaf út bókina Annars konar sæla - og hún kemur síðar til að lesa úr bókinni, fylgist með og óttist eigi!)

Viðgjörningur íslenskrar ljóðlistar og afturhaldsundanhaldið fer fram á Næsta bar klukkan 20, næstkomandi föstudagskvöld, 5. desember.

Lifi byltingin, ást og kossar,
ykkar að eilífu,
Nýhil