föstudagur, mars 31, 2006

Íslenskt gengi!

Góður rómur var gerður að hlutdeild Nýhils sem og Gamlhils á Vestanvindum á Ísafirði í gærkvöldi. Á heimasíðu fréttablaðsins Bæjarins besta segir um málið: "Bókmenntahátíð Edinborgarhússins, Vestanvindar, sem haldin var í gærkvöldi gekk mjög vel að sögn Margrétar Gunnarsdóttur skipuleggjanda hátíðarinnar. „Þetta var frábær dagskrá, ofsalega fallegur texti og vel fluttur. Það voru alltof fáir mættir, textinn um Jón úr Vör var það góður að óskandi væri að fleiri hefðu notið hans. Hann verður vonandi fluttur annar staðar og oftar“, segir Margrét. Dagskráin í ár var tileinkuð Jóni úr Vör og flutti Andrea Sigrún Harðardóttir erindi um hann og Páll Gunnar Loftsson las úr ljóðum hans. Engin sérstök ástæða var fyrir því að Jón úr Vör varð fyrir valinu í ár að sögn Margrétar: „Við eigum ekki svo mörg vestfirsk skáld og það var bara komið að honum í röðinni.“ Auk dagskrárinnar um Jón úr Vör lásu þrjú ung skáld úr verkum sínum en það voru þeir Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Ingvarsson og Haukur Már Helgason. „Þeir voru alveg frábærir, það var mjög gaman að hlusta á þá“, segir Margrét. Vestanvindar hafa verið haldnir í Edinborgarhúsinu síðan 2001 og er tileinkuð vestfirskum bókmenntum. Þau skáld sem hátíðin hefur verið tileinkuð eru Guðmundur G. Hagalín, Jakobína Sigurðardóttir og Guðmundur Ingi Kristjánsson. Þá hefur hún einnig verið tileinkuð vestfirskum ævisögum og vestfirskri ævisagnaritun fyrr og síðar." Síðast spurðist til skáldanna ungu nú í morgunsárið hvar þeir rifust hástöfum um gengi íslensku krónunnar á leið sinni heim í háttinn.

miðvikudagur, mars 29, 2006

Sigurskáldið 2006

Þeir vita það sem fylgjast með að þessa dagana stendur yfir ljóðasamkeppnin Sigurskáldið 2006, en keppnin er haldin af Fréttablaðinu og bókaforlaginu Eddu, og einungis sanslausustu kjánar hafa gleymt því að Kristín Eiríksdóttir í Nýhil bar sigur úr býtum í fyrra. Kristín var ekki eini Nýhilistinn til að komast á blað í keppninni heldur röðuðu þau Ófeigur Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir og Hildur Lilliendahl sér einnig í efstu sætin. Ljóðið sem Kristín sigraði með heitir:

Sálin er rakki sem á skilið að þjást

Maður gefur ekki ókunnugum
draumana sína
perlunar sínar eyðileggur maður ekki
perlufestina sína
til þess að gefa með sér
maður hefur hana um hálsinn
og vonar að hún slitni aldrei.

Maður stingur ekki rýting
í bök vina sinna
maður stingur þá í hjörtun
horfir djúpt í augu þeirra
og lætur vaða.
Maður elskar ekki fólk
í alvörunni
alvaran er að vera einn
í myrkrinu og drekka Tab
og fróa sér
maður elskar fólk
í þykjustunni
í stuttan tíma
og forðar sér svo.

Maður gerir ekki innkaupin sín
í Hagkaup eða 10-11
maður verslar í Bónus
kaupir sér horaðan kjúkling
borðar hann hráan
og vonast til að fá salmónellu
til að þurfa ekki að
vinna þurfa ekki að lifa.

Kristín Eiríksdóttir

Í fréttatilkynningu frá Eddu og Fréttablaðinu vegna keppninnar kemur fram að öllum sem fæddir eru á árinu 1976 og síðar er heimilt að senda eins mörg ljóð og þá lystir á ljod@edda.is. Fresturinn til að skila inn ljóðum rennur svo út miðvikudaginn 5. apríl og þá kemur til kasta dómnefndar. Dómnefndin velur 8 ljóð sem birt verða tvö og tvö hvern dag í Viku bókarinnar og gefst lesendum Fréttablaðsins kostur á að kjósa það sem þeim líst best á í símakosningu. Keppa ljóðskáldin svo hvert við annað uns eitt þeirra stendur uppi sem sigurvegari. Dómnefndina skipa að þessu sinni Þórarinn Þórarinsson frá Fréttablaðinu, Kristján B. Jónasson frá Eddu útgáfu og Ragnheiður Eiríksdóttir - Heiða í Unun - , sem ku fulltrúi ákafra lesenda. Nýhil skorar á heiminn að taka þátt.
Ljóðabókabúð Nýhil

Eins og lesendur hafa kannski frétt kemur Nýhil til með að opna búð á næstu vikum þar sem áhersla verður lögð á sölu ljóðabóka, og reyndar annars listræns varnings. Á Íslandi líkt og víða annars staðar hefur um nokkurt skeið verið hefð fyrir því að ljóðskáld gefi mikið út sjálf enda hafa markaðsforlögin löngu sannað bakbeinsleysi sitt í þessum málum og gefist upp, og þá sérílagi þegar um tilrauna- og/eða byrjendaverk er að ræða. Þó ljóst sé að bækur af þessu tagi seljast illa virðast heilu lagerarnir af þeim puðrast út í eilífðina á fáeinum árum; og hefur Nýhil illan grun um að gríðarlegur fjöldi stórkostlega áhugaverðra ljóðabóka liggi í kjöllurum út um allar trissur og safni fúa. Nýhil hefur því ákveðið að fara í herferð og leita uppi áhugaverð ljóðverk Íslendinga, þessar sjálfsútgáfubækur, hvort sem þær eru merktar Medúsu, Nykri eða ekki nokkrum manni. Þeim sem eru áhugasamir um að selja bækur sínar - já eða önnur verk - hjá Nýhil, auk hinna sem eru það ekki en vita að þeir ættu samt að gera það, er hér með bent á, jafnvel fyrirskipað af ítrustu alvöru, að hafa samband við útgáfustjóra Nýhil, Viðar Þorsteinsson, í síma 695-4280, eða með því að senda tölvupóst á netfangið nyhil@nyhil.org.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Nýhil, Gamlhil, Edinborg og Vör

Næstkomandi fimmtudag koma saman hinar öflugu samsteypur Nýhil og Gamlhil, og skemmta ásamt fleirum á bókmenntahátíðinni Vestanvindum á Ísafirði sem að þessu sinni er tileinkuð Jóni úr Vör. Þar mun Andrea Sigrún Harðardóttir flytja erindi um Jón og að öllum líkindum les hinn mikilúðlegi vestfirski leikari Páll Loftsson kvæði kappans. Jón úr Vör er auðvitað Vestfirðingur eins og allir vita, Patreksfirðingur sem orti sitt merkasta verk um heimabyggðina og Fóstra sinn. Frá Nýhil mæta Eiríkur Örn Norðdahl, sem búsettur er vestra, og Haukur Már Helgason, sem er búsettur á Vesturgötunni, en fulltrúi Gamlhils í gamaninu verður hinn víðsjárverði Haukur Ingvarsson. Sem er búsettur hjá Jónadab.

Dagskráin verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði, og hefst klukkan 20:30.

mánudagur, mars 27, 2006

Flúxus á ÚBÚ

Nýhil vill nota tækifærið og benda góðlátlegum, fallegum, velmeinandi og harðduglegum lesendum sínum á að UBU-vefurinn (www.ubu.com) hefur nýlega bætt í veglegt safn sitt nokkrum flúxus-stuttmyndum frá listamönnum á borð við Dick Higgins, Yoko Ono, George Brecht, John Cale og fleiri. Myndirnar, sem eru allt frá tíu sekúndum upp í tíu mínútur, eru allar frá sjöunda áratugnum, og eiga sumar hverjar að vera lúppaðar. Nýhil minnir líka á allt hitt sem UBU býður upp á, ljóð, upplestra, myndir, stuttmyndir og allt það. UBU er best í heimi, og allt saman ókeypis. Smellið hér til að sjá Flúxusinn.

sunnudagur, mars 26, 2006

Fyrir brjóst Sölva

Sölvi Björn Sigurðsson, rithöfundur og einn meðlima dómnefndar í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist, skrifar um reynslu sína af dómnefndarstörfunum í Lesbók Morgunblaðsins, undir titlinum "Heldur það versta en það næstbesta?". Í ádrepu Sölva segir meðal annars: "Mér leiddist að lesa keppnisljóðin enda stóðu þau flest ef ekki öll vel undir nafni - klisjukennd og ömurleg; því ömurlegri sem þau urðu lengri. Eftir því sem á leið lesturinn glataði ég allri sýn á hvað keppnin stæði fyrir eða hvað knýði fólk til þess að yrkja vísvitandi ömurlega; nógu margir gera það án þess að leiða að því hugann. [...] En það var athyglisvert að sjá hvað fólk bar á borð sem ömurleika í keppninni: Hugsunarlaust rím og ambögur voru algengar, bull og súrrealismi einnig sem mér þótti skást - eða verst (minnst ömurlegt) eftir því hvernig á það var litið. Sumir rembdust mikið og tóku sér meðvitaðar írónískar afbakanir á hendur. Mér fannst stundum eins og hroki ljóðanna væri farinn að nálgast allverulega ömurleikann sem þeim var ætlað að gagnrýna. Því er ekki sýnu skárra að yrkja illa og meina bara gott með því en að yrkja illa með þann einráða ásetning að forsmá fleiri en bara sjálfan sig?"

Grein Sölva má nálgast í heild sinni í Lesbók Morgunblaðsins, 25. mars 2006. Sigurljóðin þrjú í keppninni má lesa
hér á síðunni, ásamt umsögnum dómnefndar.

föstudagur, mars 24, 2006

Myndhvörf í minningu Þorsteins

Næsta sunnudag verður haldin ráðstefna um myndhvörf í Þjóðminjasafninu, en að henni standa þeir sem rökræddu myndhvörf í málstofu íslenskuskorar haustið 2004, og Ritið, Tímarit Hugvísindadeildar. Ráðstefnan er helguð minningu Þorsteins Gylfasonar sem kynti sleitulaust undir rökræðunum. Meðal erinda á ráðstefnunni er "Líkami, hryllingur og annarleiki. Um myndhvörf í Kjötbænum eftir Kristínu Eiríksdóttur" sem Elísa Jóhannsdóttir flytur - en þess má einmitt geta að á næstu vikum er von á ljóðabók frá Kristínu í seríu Nýhils sem kennd er við Norrænar bókmenntir. Meðal annarra eftirtektarverðra erinda er "Sjálfs-mynd-hverfing" frá gamlhilistanum og besta-vini-nýhils Hauki Ingvarssyni, "Bókin er borg" frá Inga Birni Guðnasyni og "Að hugsa ekki á íslensku" frá Andra Snæ Magnasyni. Annars virðist þetta allt með skemmtilegasta móti. - Myndin hér fyrir ofan er af Kristínu Eiríksdóttur, og er fengin af vef Veru, vera.is.

Dagskrá ráðstefnunnar verður sem hér segir:

kl. 10.00-11.05

Ráðstefnan sett: Bergljót S. Kristjánsdóttir

Fyrsta málstofa:

Pétur Gunnarsson: Paradísarmissir, paradísarleit, paradísarheimt
Davíð Erlingsson: Nykrað
Bergljót S. Kristjánsdóttir: Þankar, myndhvörf

kl. 11.05 – 11.20 Kaffihlé

kl. 11.20 – 12.30 - Önnur málstofa:

Jón Karl Helgason: Orðaleikir sem myndhvörf
Guðrún Lára Pétursdóttir: De rerum natura – um sjúkdóma og myndhvörf
Sigurrós Eiðsdóttir: Hnakkar og treflar

kl.12.30 – 13.00 Matarhlé

kl 13.00 – 14.05 - Þriðja málstofa

Linda Vilhjálmsdóttir: Prinsessa um borð
Sverrir Árnason: Einar Benediktsson í skynsambandi við alheiminn
Haukur Ingvarsson: Sjálfs-Mynd-Hverfing

14.05 – 14.20 Kaffihlé

kl. 14.30 – 15.30 - Fjórða málstofa

Hjalti Snær Ægisson: Stofninn og laufið. Myndhvörf um gróður og tungumál.
Elísa Jóhannsdóttir: Líkami, hryllingur og annarleiki. Um myndhvörf í Kjötbænum eftir Kristínu Eiríksdóttur
Benedikt Hjartarson: Draumurinn um hinn ómyndhverfa mann. Myndhvörf og konkretljóð

kl. 15.45 – 16.30 - Fimmta málstofa

Ingi Björn Guðnason: Bókin er borg
Andri Snær Magnason: Að hugsa ekki á íslensku

fimmtudagur, mars 23, 2006

Franska byltingin

Hinn stimamjúki Nýhilisti, Valur Brynjar Antonsson, sem þessa dagana er búsettur meðal franskra, lenti á dögunum í miklum hremmingum þar sem hann í sakleysi sínu rambaði milli bara í leit að betri heim, meiri von og litríkari kærleika. Valur steig út af einum téðra bara beint inn í slagsmál milli lögreglu annars vegar, og franskra uppreisnarmanna hins vegar. Vali var snarlega undið inn í slagsmálin, og tók hann hressilega í að sögn sjónarvotta. Lögregluþjónarnir hopuðu á endanum, og Valur, sem enn var í ham, lenti víst í dálitlu peysutogi við byltingarsinnanna. "Jú, ég lenti í smá ryskingum. En svo flautaði ég bara nallann og þá hleyptu þeir mér umsvifalaust í gegn með bros á vör", sagði Valur Brynjar við fréttamann Nýhilbloggsins þegar stuttlega náðist á hann í gærdag. Þá hermir sagan að Valur Brynjar hafi á endanum fundið góðan bar, og notið sín vel þar fram eftir kvöldi við lestur góðra bóka og sagnalist, auk þess sem nokkur tími fór einnig í vinnu við ljóðabók þá sem væntanleg er frá Vali í seríunni Norrænar bókmenntir, sem kemur út eftir rúman mánuð.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Ljótu ljóðin

Í gær, þriðjudag, birtist viðtal Margrétar Hugrúnar Gústavsdóttur við Viðar Þorsteinsson, nýskipaðan útgáfustjóra Nýhil í
Blaðinu. Þar kennir margra grasa þar sem Viðar ræðir ljóð almennt og það sem framundan er hjá Nýhil á næstu misserum. Meðal annars segir Viðar: "Ljóðinu er ætlað að vera einhver leið fyrir okkur til að nálgast hið háleita (e. sublime). Á sama tíma eiga ljóð, samkvæmt hefðinni, að fjalla um stóra hluti eins og náttúruna eða ástina, sammannlegar reynslur og fleira í þeim dúr. Öll ljóð sem bregða út af þessari venju, til dæmis þau sem vinna með útúrsnúninga eða ljótleika, verða á einhvern hátt eins og steinvala í skónum... þau bara passa ekki inn í þetta. Ég man að ég fann þetta alltaf óbeint þegar ég var í skóla án þess að því væri blákalt haldið fram. Svo gekk ljóðakennslan einnig út á fáránlega langdregnar útskýringar á því hvað væri myndlíking og hvað væri myndhverfing. Eitthvað sem mér fannst alger móðgun við greind nemenda, en af einhverjum ástæðum er það talið mjög mikilvægt að krakkar skilji þessi atriði. Eins og myndlíkingin opni þessa rás inn í hið háleita." Viðtalið má lesa í pdf-útgáfu Blaðsins með því að smella hér og fletta upp á blaðsíðu 22.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Stríðinu mótmælt

Það hefur vafalítið ekki farið framhjá neinum að síðastliðinn laugardag var því annars vegar fagnað að amríski herinn skyldi hafa tekið upp hjá sjálfum sér að leggja hlustir við málflutning herstöðvaandstæðinga og huskast í burtu, og hins vegar var þess minnst að 3 ár eru liðin frá því stríðið í Írak hófst, sem var reyndar í gær en ekki á laugardag, en ætli fundartíminn hafi ekki haft eitthvað með almenn heppilegheit laugardaga að gera auk þess sem hér á Íslandi hefur 18. mars þá aukreitis symbólísku þyngd að þetta er dagurinn sem Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þá utanríkisráðherra, lýstu yfir vilja og staðfestu íslensku þjóðarinnar til að fylgja bandarískum yfirvöldum að máli í nær einu og öllu - að því tilskyldu að við fengjum að halda orrustuþotunum, héldu sumir, en svo var auðvitað ekki.

Á mótmælafundinum, sem haldinn var á Ingólfstorgi, var Haukur Már Helgason, Marcello Mastroiani okkar Nýhilista, einn ræðumanna og þótti honum mælast af stakri raddmýkt, svo jafnvel kiðlingarnir sjö gætu blekkst. Þá fjölmennti krúttkynslóðin með blöðrur og slagorð sem voru jafn klén og þau voru falleg, auk þess sem hópur ungra svartklæddra anarkista sem sagðir voru vera úr austurbæjarskóla stilltu sér upp með hvítan borða með áletruninni: "Drepið yður Dabbi, drepið yður Dóri". Að lokinni ræðu Hauks Más brenndu anarkistarnir svo NATÓ-fánann með dyggri aðstoð vegfarenda.

Víða um heim var ljóðverkið/ritgerðin What I heard about Iraq eftir Eliot Weinberger flutt til minningar um upphaf stríðsins. Verkið má lesa með því að smella
hér. Nýhil mælir með Weinberger.

Myndin hér að ofan, af Marcello í ham, er tekin af Ólafíu Erlu Svansdóttur.

mánudagur, mars 20, 2006

Image hosting by Photobucket
Úrslit í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mörgum að fyrstu verðlaun í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist voru veitt í beinni útsendingu í Kastljósinu á föstudag. Þá birtust þrjú efstu ljóðin ásamt umsögnum dómnefndar í laugardagsmogganum, mörgum til mikillar þjáningar. Ljóðið sem vann var eftir Eyrúnu Hjörleifsdóttur sem búsett er í Stokkhólmi, og mættu bræður hennar, Grímur og Kristján Eldjárn Hjörleifssynir í hennar stað og tóku við veglegri bókagjöf auk viðurkenningarskjals. Hér á eftir má sjá ljóðin þrjú sem unnu, í réttri röð frá fyrsta til þriðja sætis, ásamt umsögnum dómnefndar, en hana skipuðu Hildur Lilliendahl, Sölvi Björn Sigurðsson og Eiríkur Örn Norðdahl.

Nafnlaust

Skósvertar leifar limgerðisins vikna hástöfum
í sinnepsmaríneraðri hádegissólinni.
Og svartstorkið blóðið undir brotinni tánögl minni
engist um líkt og utankjörstaðaatkvæðaþyrstur slímþörungur.

Ó! Kakódýrið brokkar valhoppandi gegnum nóttina.
Það stirnir á loðdrapplitaðan líkama þess.
Ég finn hvernig svitinn logar í kakóbolla augnabliksins
og súreygður sykurpúði skelfur í auðninni um stund.

Í remúlaðibaði hringiðar hringormakös - Kakódýrsins og mín,
eitt óútsprungið og titrandi síðsumarkvöld í maí.
Tánögl mín klofnar til blóðs, götuna fram eftir veg
og stund míns gulasta plásturs er sokkin í graftarhaf.

Eyrún Edda Hjörleifsdóttir

Dómnefnd sagði: „Ljóð Eyrúnar Eddu er einhvers konar babelsturn ömurlegra ljóðmynda, þær hlaðast hver ofan á aðra og standa hver í vegi fyrir annarri; það er engin leið að vita hvar ljóðið er líklegast til að byrja að molna við lestur, og það verður aldrei á sama stað hjá einum lesenda og hjá öðrum. Er það við „sinnepsmaríneraða hádegissólina“? Við „loðdrapplitaðan líkama kakódýrsins“? Eða kannski strax við „skósvertar leifar limgerðisins“? Við getum einungis verið þess fullviss að einhvers staðar við lesturinn mun ljóðið hrynja, og við munum fá stærstu bitana í hausinn.“

Ömurlegasta ljóð á Íslandi

Mér fannst ég heyra lágvært suð í ölvuðum býflugum
En þá varst það þú að strjúka flötum lófa yfir silkið
og hvísla nafnið mitt, nafnið þitt, nafnið mitt, nafnið þitt
Aftur og aftur og aftur og enn aftur og aftur.

Eins og fínlegt grátt sandkorn á strönd eilífðarinnar
Sem hafið strýkur sinni síðust öldu yfir
og frussar nafnið mitt, nafnið þitt, nafnið mitt, nafnið þitt
Einu sinni enn og svo aftur, einu sinni enn

Þetta fölnaða lauf sem hangir dauðahaldi á grein
sem norðangarrinn hrifsar í svo það missir takið
og ýlfrar nafnið mitt, nafnið þitt, nafnið mitt, nafnið þitt
í síðasta sinn, í síðasta sinn, í síðasta síðasta sinn.

Örn Úlfar Sævarsson

Dómnefnd sagði: „Rómantískur tour-de-force Arnar Úlfars Sævarssonar skekur jörðina með vemmilegheitum sínum, og vafalítið verður langt í að aulahrollurinn sem hríslast um sálir dómnefndarmeðlima hverfi með öllu. Ljóðlínur á borð við „Eins og fínlegt grátt sandkorn á strönd eilífðarinnar“ gætu vart með nokkru móti verið ömurlegri, og hinar hýperljóðrænu víxlendurtekningar „nafnið mitt, nafnið þitt“ eru settar saman af kraftmiklum metnaði. Ljóðið er í alla staði gisin og margútjöskuð þvæla, sem bendir til þess að Örn Úlfar sé vel verseraður í ömurlegri ljóðlist, og hafi jafnvel lesið heilu ömurlegu bókaskápanna upp til agna, að hann dragi varlega til stafs og geri sér vel grein fyrir því að jafnvel metnaðarfyllstu ömurðarskáldum getur skrikað fótur. “

Handalögmál

Lögmál handa.
Handa hverjum?
Handalögmál.
Handa hverra?
Lög mála.
Mál laga.
Lagamalur.
Legmagi.
Hagamelur.
Agalegur.

Skúli Þórðarson

„Þessi skemmtilega (en að sjálfsögðu jafnframt ömurlega) barnagæla er stórkostlega úttroðinn af furðulegum uppásnúningum; ef Þórarinn Eldjárn á sér illan tvíburabróður þá er hann fundinn í Skúla Þórðarsyni.“

föstudagur, mars 17, 2006

Fjórða umsögn dómnefndar

Það styttist stöðugt í að úrslit í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist verði tilkynnt, en það verður gert í Kastljósinu á RÚV í beinni útsendingu í kvöld. Þar verða veitt glæsileg bókaverðlaun í boði Nýhils, auk þess sem tilkynnt verður um nöfn þeirra sem lentu í öðru og þriðja sæti. En þangað til heldur dómnefnd áfram að kynna áhugaverðustu innsendingarnar. Ljóðið sem dómnefnd tekur fyrir í dag er eftir Aron Bergman, og nefnist Gömul kona.

Gömul kona

Gömul kona
í gömlum garði
grætur gömlum tárum
yfir gömlum manni.
Afhverju grætur sú gamla?
Jú hún er að rotna eins
og allt annað.

Aron Bergmann.

Umsögn dómnefndar: "Hér má sjá margar tegundir ósmekklegheita í einu stuttu ljóði. Stílbrögð eru klisjukennd og hugmyndafræðin verulega vafasöm. Í sjö línum kemur orðið 'gamall' fyrir með einum eða öðrum hætti, sem hefði með nokkrum tilfæringum auðveldlega mátt nota til áhersluaukningar, en af stökum metnaði hins ljóðrænulausa skálds verður til staglkennd nástaða í ljóði sem ætti að öllu eðlilegu að vera of stutt til að bera slíkt. Með góðum vilja má lesa úr ljóðinu hörmulega tilraun til hrynjandi og jafnvel endaríms. Áberandi skáldlegs smekkleysis gætir hjá höfundi í upphafi næstsíðustu línunnar þar sem orðið Jú öskrar á rauða penna allra ritstjóra."

fimmtudagur, mars 16, 2006

Þriðja umsögn dómnefndar

Þá er komið að þriðju umsögn dómnefndar í Íslandsmeistaramóti Nýhil í ömurlegri ljóðlist, og fer að styttast ískyggilega í verðlaunaafhendinguna sjálfa, þegar í ljós kemur hverjir eru færastir í ambögusmíðum innanlands. Ljóðið sem dómnefnd tjáir sig um í dag heitir Ort við andlát Derrída og er eftir Karl Ægi Karlsson.Ort við andlát Derrída:

Derrída.

Dáinn Derrída
Dáinn Derrídí

Og öll franskan
sem skil ekkert í

Dáinn, nema hvað
Og ekkert póstmódern við það.

Karl Ægir Karlsson

Umsögn dómnefndar: "Út úr veröld hins alltumlykjandi texta smýgur þetta fáorðaða og lítið eitt smámælta ljóð, eins og freklegur en ástúðlegur kinnhestur á hinn heitna franska heimspeking Jacques Derrida, sem hefur þann undarlega status að vera klisja og goðsögn í senn, gleymdur, skilinn, misskilinn og dýrkaður. Þessi leikandi létta staka með sínum dirrindíum og derrídaum minnir á einhverslags sönglag fyrir börn og dómnefnd getur ekki annað en spurt sig hvort stökunni fylgi leikur, eða kannski ákveðnar handahreyfingar?"

miðvikudagur, mars 15, 2006

Önnur umsögn dómnefndar

Önnur umsögn dómnefndar í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist er um ljóðið Ég og minn viðbjóður eftir Karenu Sif Róbertsdóttur. Ljóðið hljómar svo:


Ég og minn viðbjóður

Ég horfi á þig sofa
Ég fyllist viðbjóði
Þú minnir mig á Hulk
En ég elska þig samt.

Ég pissaði á mig
Þegar ég sá þig fyrst
Slík voru áhrifin
Sem að þú hafðir á mig.

Kettirnir okkar eru æðislegir
Þeir fá bara allt of mikinn sykur
Ég er að verða geðveik
Trufluð af anorexiu til þín.

Karen Sif Róbertsdóttir

Umsögn dómnefndar: "Ljóðið Ég og minn viðbjóður eftir Karenu Sif Róbertsdóttur er gætt fruntalegu hrifnæmi og einbeitingarlausri ástríðu sem reynt er að kynda upp með melódramatískri framsetningu ungæðislegs tilfinningaflæðisins. Þá er myndrænt lokaerindið merkilega mikið úr takti við frásagnarhátt fyrstu tveggja erindanna, sem lulla áfram í hægagangi á meðan lokaerindið tekst á flug. Ljóðið er auðsjáanlega ort í Word með kveikt á "autocorrect" fítusnum sem gerir það að verkum að fyrsti stafur hverrar línu er hástafur, burt séð frá því hvort punktur er aftast í línunni á undan, sem gefur þessu hráslagalegan og kæruleysislegan fíling."
Nótísa frá Nýhil! Lesið:

Vegna mikillar eftirspurnar vantar okkur einhvern/einhverja til að hjálpa okkur að selja ljóðabókaseríuna okkar Norrænar bókmenntir. Við höfum selt áskriftir í gegnum síma með miklum árangri síðan í nóvember. Okkur langar að bjóða þeim sem vilja hjálpa okkur 1.000 krónur af hverri greiddri seríu (sem kaupendur greiða 6.750 fyrir).
Viðkomandi myndi fá hjá okkur lista yfir vænlega kaupendur en má líka gjarnan nota eigin sambönd. Helst viljum við fá einhvern sem þekkir eitthvað til okkar útgáfu og starfsemi.
Áhugasamir hafi samband við Viðar (vidart@hi.is, s. 695 4280).
--- Nýhil

þriðjudagur, mars 14, 2006

Fyrsta umsögn dómnefndar

Fyrsta umsögn dómnefndar í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist er um ljóðið EYÐNI eftir Ívar Pétursson. Ljóðið hljómar svo:

EYÐNI

kongó tógó fílabeinströndin
allir eru með eyðni
hvernig væri að uppfræða þau
svo engin þeirra deyji

Ívar Pétursson

Dómnefnd segir: "Þetta stutta ljóð sameinar stök ósmekklegheit í meðhöndlun sérlega harmþrungins umfjöllunarefnis og félagslega raunsætt raunavæl hins vestræna móralisma. Þá er vísað til lagsins "Everyone has AIDS" úr dúkkukvikmyndinni Team America: World Police sem gefur þessu öllusaman frekar slepjulega póstmódernískan blæ."

laugardagur, mars 11, 2006

Vinnur Silvía Nótt?

Magnús Sigurðsson hefur skrifað grein um Íslandsmeistaramót Nýhils í ömurlegri ljóðlist á vef Tímarits Máls og menningar,
www.tmm.is. Þar gerir Magnús því skónna að Silvía Nótt hljóti að teljast ótvíræður sigurvegari mótsins, enda séu ljóð hennar með ömurlegra móti. Meðal annars segir: "Ef ég ætla að tala um Ágústu Evu sem ljóðskáld (og ég sé ekkert því til fyrirstöðu – þau eru til að mynda ófá ljóðin sem hún hefur þulið í þáttum sínum Sjáumst með Silvíu Nótt), þá verð ég engu að síður að taka tillit til þess að Silvía Nótt er hennar persona; gríma á borð við þær sem bandaríska ljóðskáldið Ezra Pound setti upp og einkenna æskuskáldskap hans; í raun og veru annar persónuleiki sem bætist við persónuleika listamannsins. Þessi persona Ágústu afhjúpar og afhelgar, rétt eins og Íslandsmeistaramótinu í vondum kveðskap er ætlað að gera, auk þess sem hún hæðist óborganlega að hógværð og almennu velsæmi – þessum tveim höfuðeinkennum á skáldi hins haganlega orta kveðskapar sem Eiríkur og önnur Nýhil-skáld hafa amast nokkuð við. Þess utan er ég ekki frá því að Ágústa Eva/Silvía Nótt hafi hreinlega samið vinningsljóð keppninnar nú þegar og þar með skotið skáldunum sem vonuðust eftir glæsilegri bókagjöf í vinning ref fyrir rass."

Þá vitnar Magnús í ljóð sem Silvía Nótt flutti í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 þegar hún hafði verið valin kynþokkafyllsta kona Íslands. Ljóðið hljómar svo, í línuskiptingum Magnúsar og með titli hans:

Yfir heiminn og allsráðandi

Hvað er það sem fær blómin
til að draga út anga sína
í angist og svefnleysi?

Hvað er það sem fær lítil börn
til að stinga sig
í hjartað?

Hvað er það sem gefur
blóð yfir sjóinn
þegar hrafninn flýgur?

Er það ekki ástin sem kviknar
þegar kynþokki Silvíu Nætur
lætur á sér kræla?

Ó jú, það er kynþokki Silvíu Nætur
sem lætur ljósin kvikna.

Silvía Nótt, sofðu rótt
í eilífðar þyrnirósar Íslandía,
yfir heiminn og allsráðandi,
amen.

Grein Magnúsar má nálgast með því að smella
hér.

föstudagur, mars 10, 2006

Dómnefnd Íslandsmeistaramóts Nýhils í ömurlegri ljóðlist hefur nú hafið störf. Stórkostlegt verk er fyrir höndum, enda hlaupa innsend ljóð á hundruðum. Dómnefndina skipa þau Sölvi Björn Sigurðarson, hinn djöfullega gleðilegi, Eiríkur Örn Norðdahl, sem samkvæmt heimildum Dagblaðsins Vísis er ýmist gott eða vont ljóðskáld eftir því hver er spurður, og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, einn af fáum fyrrverandi atvinnumönnum í ljóðskipulegum fræðum á Íslandi. Áreiðanlegar heimildir herma að dómnefnd hafi komið sér mismakindalega fyrir á ónefndum stað hvar dvalið verður næstu vikuna við lestur allrar Íslandsbyggðar póetísku ömurðar. Búast má við því að fréttatilkynningar verði sendar út daglega frá og með komandi mánudegi, og verða þær birtar hér og í Morgunblaði allra landsmanna. Frá mánudegi til föstudags verða dregin út áhugaverð ljóð úr keppninni – ekki endilega sigurljóðin, nota bene – og dómnefnd mun tjá sig um gildi þeirra fyrir eilífð ömurðarinnar.

Næstkomandi föstudag verða svo afhent verðlaun fyrir ömurlegt, ömurlegra og ömurlegasta ljóð Íslandssögunnar, og fer afhendingin væntanlega fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Nýhil minnir á að lokafrestur til að skila inn ljóðum í Íslandsmeistaramót Nýhils í ömurlegri ljóðlist rennur út á miðnætti í kvöld, áttunda mars. Eins og áður segir verður tekið tillit til asnalegra myndlíkinga, klaufalegs orðalags og ósmekklegs umfjöllunarefnis, auk annarra stílbragða ömurðarinnar sem dómnefnd þykir rétt að hafa til viðmiðunar. Athygli skal einnig veitt á því að verðlaunaafhendingu hefur verið frestað um tvo daga, og verður ekki 15. mars eins og áður sagði, heldur föstudaginn 17. mars.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Deilt með tveimur

Áhugamenn um menningu og pólitík, að ekki sé minnst á allan þann fjölda atvinnumanna í þessum greinum sem liggja á þjóðinni líkt og ótal samviskur, ættu að vera sér vel vitandi um ritdeilu þá sem átt hefur sér stað milli hins ódanselska fyrrum norðurlandameistara í bókmenntum, Sjón(s)/(ar), og ástsæla nýhilíska ljóðskáldsins með gráa hárið, Hauks Más Helgasonar. Nú síðast svaraði Haukur Már Sjón(i) í Fréttablaðsgrein á næstu opnu við þar sem G.Andri Thorsson Vilhjálmssonar gafst upp á hlaupunum og orti sér uppgjöf undir kalstjörnu banalitetsins: Jótlandspósturinn má það sem hann má það sem hann má. Er rós.

Fyrstu grein Hauks Más, Stríðið langa og siðferðisvísitalan Egill Helgason, má lesa á Kistunni.

Svargrein Sjón(s)/(ar), Vandlætara svarað, má lesa á vef bókaforlagsins Bjarts.

Svar Hauks við svargrein Sjón(s)/(ar), Trölli stelur málfrelsinu, má svo lesa á Hvalveiðislóðum.

mánudagur, mars 06, 2006

Sjötti mars

14. febrúar, á valentínusardaginn árið 1989, gaf Ayatollah Khomeini út veiðileyfi á rithöfundinn Salman Rushdie - eins og hefur nokkuð verið í umræðunni upp á síðkastið í kjölfarið á pönkun Jótlandspóstsins á múslimum í Danmörku. Fáeinum vikum síðar orti Salman Rushdie ljóð sér til varnar, en það var einmitt ort þennan dag fyrir 17 árum síðan. Ljóðið heitir '6 march 1989' og birtist upphaflega í bókmenntatímaritinu Granta í september sama ár.

6 march 1989

Boy, yaar, they sure called me some good names of late:
e.g. opportunist (dangerous). E.g. full-of-hate,
self-aggrandizing, Satan, self-loathing and shrill,
the type it would clean up the planet to kill.
I justjust remember my own goodname still.

Damn, brother. You saw what they did to my face?
Poked out my eyes. Knocked teeth out of place,
stuck a dog's body under, hung same from a hook,
wrote what-all on my forehead! Wrote 'bastard'! Wrote 'crook'!
I justjust recall how my face used to look.

Now, misters and sisters, they've come for my voice.
If the Cat got my tongue, look who-who would rejoice—
muftis, politicos, 'my own people', hacks.
Still, nameless-and-faceless or not, here's my choice:
not to shut up. To sing on, in spite of attacks,
to sing (while my dreams are being murdered by facts)
praises of butterflies broken on racks.

- Salman Rushdie

föstudagur, mars 03, 2006

1170 bækur á einu bretti!

Útvalin hörkutól úr hópi Nýhilista voru í gær send til samningaviðræðna við Íslands liprustu samningamenn, viðskiptamógúla og listunnendur. En þetta voru engar karphúsaumræður heldur var komið saman á sjálfri Lækjarbrekku og þráttað á sívílíseruðum tungum, t.d. dönsku. Nýhilistar höfðu að lokum betur og tókst að pranga 1170 bókum, hvorki meira né minna, upp á bissnessmanninn silfurgráa, Björgólf Guðmundsson formann bankaráðs Landsbankans. Var það mál manna að Björgólfur hefði ekki gert jafn góð kaup síðan þeir sonur hans festu kaup á bjórverksmiðjum lengst austur í Rússíá forðum daga.

Myndin hér að ofan er tekin af Sverri Morgunblaðsins.

fimmtudagur, mars 02, 2006

Tæp vika eftir!

Þeir sem fylgjast með vita að jafnaði betur hvað er að gerast en þeir sem ekki fylgjast með og þeir sem fylgjast með ættu að vita nú að nú fer að líða að því að síðasti skiladagur í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist renni upp, en hann er nánar tiltekið þann 8. mars, á alþjóðlega kvennadaginn. Nokkuð magn ömurlegra ljóða hefur borist, en betur má ef duga skal til útgáfu bókar, eins og verið hefur í umræðunni og eru því bæði vor bestu og fáguðustu skáld jafnt sem subbulegustu bögubósar beðin um að senda inn sínar bestu tilraunir til mæta hinu ömurlegasta í eilífðinni.

Þetta hófst allt með eftirfarandi draumi:

"Á Íslandi var haldin merk og vegleg ljóðasamkeppni og áhugi skáldaþjóðarinnar var brennandi. Úrslitin voru þau að ungur maður í Reykjavík bar sigur úr býtum, eins og sosum gengur og gerist. Það sem var óvenjulegt við sigurinn voru viðbrögð þjóðarinnar, sem voru fram úr öllu hófi neikvæð. Öllum sem lásu ljóðið fannst það ömurlega vont, svo vont var það að því var slegið upp á forsíðu DV: ÖMURLEGT LJÓÐSKÁLD VERÐLAUNAÐ. Myndin af ljóðskáldinu á téðri forsíðu var stór og óskýr; skáldið var með brúnt, þunnt hár niður fyrir eyru og dreymandi augu eins og vera ber, auðsjáanlega illa haldinn af vatnsorkusálsýki. Yfir myndinni mátti lesa ljóðið. Í draumnum sá ég forsíðu DV einungis á fréttavefnum visir.is, og sökum lítillar upplausnar myndarinnar gat ég ekki lesið ljóðið og leystist draumurinn í framhaldinu upp í einn allsherjar eltingaleik frá manni til manns í leit að þessu ljóði sem var svo ömurlegt að ástæða þótti til að skella því fram á forsíðu. En ég gat þó greint að það var 3X4 línur, sem hver var um það bil 15 atkvæði."

Ljóðum skal skilað á
kolbrunarskald@simnet.is, eða nyhil@nyhil.org, undir fullu nafni. Ljóðið á helst að vera að formi til eins og ljóðið í draumnum, þ.e. þrjú erindi, fjórar línur hvert, og um það bil fimmtán atkvæði í hverri línu. Nýhil veitir glæsilega bókagjöf í vinning fyrir ömurlegasta ljóðið. Tekið verður tillit til asnalegra myndlíkinga, klaufalegs orðalags og ósmekklegs umfjöllunarefnis, auk annarra stílbragða ömurðarinnar sem dómnefnd þykir rétt að hafa til viðmiðunar. Skilafrestur er til 8. mars.

miðvikudagur, mars 01, 2006


Gríðarlega góð stemmning á Rosenberg í gær

Líkt og við var að búast var stemmningin kynngimögnuð á Rosenberg í gærkvöldi, þar sem Nýhil hélt sprengidagskrá sína. Haukur Már Helgason forfallaðist reyndar á síðustu stundu vegna óviðráðanlegra veikinda, en obskúr ambíent poppstjörnunni og nýhilistanum gamla Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni var ekkert nema ánægjan að fá að leysa Hauk Má af. Dularfullum sögum fer svo af ljóðgjörningi Ingibjargar Magnadóttur, sem ku hafa beislað öfl skammtafræðinnar og fært gestum visku úr ranni stjarnanna, en Ingibjörg hefur einmitt áður lagt lag sitt við hið dulúðuga, en þegar Nýhil skemmti í Þjóðmenningarhúsinu þegar minnst var 50 ára Nóbelsverðlaunaafmælis Laxness flutti hún spádóma - úr framtíðinni!

Eins og kunnugt er voru lesarar af kvenkyni í meirihluta að þessu sinni, en því miður hefur brugðið við að hlutföllin hafi verið typpunum í hag. Það er óhætt að segja að orð Viðars Þorsteinssonar í viðtali við Þórunni Hrefnu DV-mær á mánudag lýsi gærkvöldinu betur en mörg önnur: "Það er ekkert yndislegra en að finna raunverulegt jafnrétti spretta fram."