föstudagur, mars 17, 2006

Fjórða umsögn dómnefndar

Það styttist stöðugt í að úrslit í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist verði tilkynnt, en það verður gert í Kastljósinu á RÚV í beinni útsendingu í kvöld. Þar verða veitt glæsileg bókaverðlaun í boði Nýhils, auk þess sem tilkynnt verður um nöfn þeirra sem lentu í öðru og þriðja sæti. En þangað til heldur dómnefnd áfram að kynna áhugaverðustu innsendingarnar. Ljóðið sem dómnefnd tekur fyrir í dag er eftir Aron Bergman, og nefnist Gömul kona.

Gömul kona

Gömul kona
í gömlum garði
grætur gömlum tárum
yfir gömlum manni.
Afhverju grætur sú gamla?
Jú hún er að rotna eins
og allt annað.

Aron Bergmann.

Umsögn dómnefndar: "Hér má sjá margar tegundir ósmekklegheita í einu stuttu ljóði. Stílbrögð eru klisjukennd og hugmyndafræðin verulega vafasöm. Í sjö línum kemur orðið 'gamall' fyrir með einum eða öðrum hætti, sem hefði með nokkrum tilfæringum auðveldlega mátt nota til áhersluaukningar, en af stökum metnaði hins ljóðrænulausa skálds verður til staglkennd nástaða í ljóði sem ætti að öllu eðlilegu að vera of stutt til að bera slíkt. Með góðum vilja má lesa úr ljóðinu hörmulega tilraun til hrynjandi og jafnvel endaríms. Áberandi skáldlegs smekkleysis gætir hjá höfundi í upphafi næstsíðustu línunnar þar sem orðið Jú öskrar á rauða penna allra ritstjóra."

Engin ummæli: