mánudagur, mars 20, 2006

Image hosting by Photobucket
Úrslit í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist

Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mörgum að fyrstu verðlaun í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist voru veitt í beinni útsendingu í Kastljósinu á föstudag. Þá birtust þrjú efstu ljóðin ásamt umsögnum dómnefndar í laugardagsmogganum, mörgum til mikillar þjáningar. Ljóðið sem vann var eftir Eyrúnu Hjörleifsdóttur sem búsett er í Stokkhólmi, og mættu bræður hennar, Grímur og Kristján Eldjárn Hjörleifssynir í hennar stað og tóku við veglegri bókagjöf auk viðurkenningarskjals. Hér á eftir má sjá ljóðin þrjú sem unnu, í réttri röð frá fyrsta til þriðja sætis, ásamt umsögnum dómnefndar, en hana skipuðu Hildur Lilliendahl, Sölvi Björn Sigurðsson og Eiríkur Örn Norðdahl.

Nafnlaust

Skósvertar leifar limgerðisins vikna hástöfum
í sinnepsmaríneraðri hádegissólinni.
Og svartstorkið blóðið undir brotinni tánögl minni
engist um líkt og utankjörstaðaatkvæðaþyrstur slímþörungur.

Ó! Kakódýrið brokkar valhoppandi gegnum nóttina.
Það stirnir á loðdrapplitaðan líkama þess.
Ég finn hvernig svitinn logar í kakóbolla augnabliksins
og súreygður sykurpúði skelfur í auðninni um stund.

Í remúlaðibaði hringiðar hringormakös - Kakódýrsins og mín,
eitt óútsprungið og titrandi síðsumarkvöld í maí.
Tánögl mín klofnar til blóðs, götuna fram eftir veg
og stund míns gulasta plásturs er sokkin í graftarhaf.

Eyrún Edda Hjörleifsdóttir

Dómnefnd sagði: „Ljóð Eyrúnar Eddu er einhvers konar babelsturn ömurlegra ljóðmynda, þær hlaðast hver ofan á aðra og standa hver í vegi fyrir annarri; það er engin leið að vita hvar ljóðið er líklegast til að byrja að molna við lestur, og það verður aldrei á sama stað hjá einum lesenda og hjá öðrum. Er það við „sinnepsmaríneraða hádegissólina“? Við „loðdrapplitaðan líkama kakódýrsins“? Eða kannski strax við „skósvertar leifar limgerðisins“? Við getum einungis verið þess fullviss að einhvers staðar við lesturinn mun ljóðið hrynja, og við munum fá stærstu bitana í hausinn.“

Ömurlegasta ljóð á Íslandi

Mér fannst ég heyra lágvært suð í ölvuðum býflugum
En þá varst það þú að strjúka flötum lófa yfir silkið
og hvísla nafnið mitt, nafnið þitt, nafnið mitt, nafnið þitt
Aftur og aftur og aftur og enn aftur og aftur.

Eins og fínlegt grátt sandkorn á strönd eilífðarinnar
Sem hafið strýkur sinni síðust öldu yfir
og frussar nafnið mitt, nafnið þitt, nafnið mitt, nafnið þitt
Einu sinni enn og svo aftur, einu sinni enn

Þetta fölnaða lauf sem hangir dauðahaldi á grein
sem norðangarrinn hrifsar í svo það missir takið
og ýlfrar nafnið mitt, nafnið þitt, nafnið mitt, nafnið þitt
í síðasta sinn, í síðasta sinn, í síðasta síðasta sinn.

Örn Úlfar Sævarsson

Dómnefnd sagði: „Rómantískur tour-de-force Arnar Úlfars Sævarssonar skekur jörðina með vemmilegheitum sínum, og vafalítið verður langt í að aulahrollurinn sem hríslast um sálir dómnefndarmeðlima hverfi með öllu. Ljóðlínur á borð við „Eins og fínlegt grátt sandkorn á strönd eilífðarinnar“ gætu vart með nokkru móti verið ömurlegri, og hinar hýperljóðrænu víxlendurtekningar „nafnið mitt, nafnið þitt“ eru settar saman af kraftmiklum metnaði. Ljóðið er í alla staði gisin og margútjöskuð þvæla, sem bendir til þess að Örn Úlfar sé vel verseraður í ömurlegri ljóðlist, og hafi jafnvel lesið heilu ömurlegu bókaskápanna upp til agna, að hann dragi varlega til stafs og geri sér vel grein fyrir því að jafnvel metnaðarfyllstu ömurðarskáldum getur skrikað fótur. “

Handalögmál

Lögmál handa.
Handa hverjum?
Handalögmál.
Handa hverra?
Lög mála.
Mál laga.
Lagamalur.
Legmagi.
Hagamelur.
Agalegur.

Skúli Þórðarson

„Þessi skemmtilega (en að sjálfsögðu jafnframt ömurlega) barnagæla er stórkostlega úttroðinn af furðulegum uppásnúningum; ef Þórarinn Eldjárn á sér illan tvíburabróður þá er hann fundinn í Skúla Þórðarsyni.“

Engin ummæli: