fimmtudagur, mars 16, 2006

Þriðja umsögn dómnefndar

Þá er komið að þriðju umsögn dómnefndar í Íslandsmeistaramóti Nýhil í ömurlegri ljóðlist, og fer að styttast ískyggilega í verðlaunaafhendinguna sjálfa, þegar í ljós kemur hverjir eru færastir í ambögusmíðum innanlands. Ljóðið sem dómnefnd tjáir sig um í dag heitir Ort við andlát Derrída og er eftir Karl Ægi Karlsson.



Ort við andlát Derrída:

Derrída.

Dáinn Derrída
Dáinn Derrídí

Og öll franskan
sem skil ekkert í

Dáinn, nema hvað
Og ekkert póstmódern við það.

Karl Ægir Karlsson

Umsögn dómnefndar: "Út úr veröld hins alltumlykjandi texta smýgur þetta fáorðaða og lítið eitt smámælta ljóð, eins og freklegur en ástúðlegur kinnhestur á hinn heitna franska heimspeking Jacques Derrida, sem hefur þann undarlega status að vera klisja og goðsögn í senn, gleymdur, skilinn, misskilinn og dýrkaður. Þessi leikandi létta staka með sínum dirrindíum og derrídaum minnir á einhverslags sönglag fyrir börn og dómnefnd getur ekki annað en spurt sig hvort stökunni fylgi leikur, eða kannski ákveðnar handahreyfingar?"

Engin ummæli: