fimmtudagur, mars 23, 2006

Franska byltingin

Hinn stimamjúki Nýhilisti, Valur Brynjar Antonsson, sem þessa dagana er búsettur meðal franskra, lenti á dögunum í miklum hremmingum þar sem hann í sakleysi sínu rambaði milli bara í leit að betri heim, meiri von og litríkari kærleika. Valur steig út af einum téðra bara beint inn í slagsmál milli lögreglu annars vegar, og franskra uppreisnarmanna hins vegar. Vali var snarlega undið inn í slagsmálin, og tók hann hressilega í að sögn sjónarvotta. Lögregluþjónarnir hopuðu á endanum, og Valur, sem enn var í ham, lenti víst í dálitlu peysutogi við byltingarsinnanna. "Jú, ég lenti í smá ryskingum. En svo flautaði ég bara nallann og þá hleyptu þeir mér umsvifalaust í gegn með bros á vör", sagði Valur Brynjar við fréttamann Nýhilbloggsins þegar stuttlega náðist á hann í gærdag. Þá hermir sagan að Valur Brynjar hafi á endanum fundið góðan bar, og notið sín vel þar fram eftir kvöldi við lestur góðra bóka og sagnalist, auk þess sem nokkur tími fór einnig í vinnu við ljóðabók þá sem væntanleg er frá Vali í seríunni Norrænar bókmenntir, sem kemur út eftir rúman mánuð.

Engin ummæli: