föstudagur, mars 10, 2006

Dómnefnd Íslandsmeistaramóts Nýhils í ömurlegri ljóðlist hefur nú hafið störf. Stórkostlegt verk er fyrir höndum, enda hlaupa innsend ljóð á hundruðum. Dómnefndina skipa þau Sölvi Björn Sigurðarson, hinn djöfullega gleðilegi, Eiríkur Örn Norðdahl, sem samkvæmt heimildum Dagblaðsins Vísis er ýmist gott eða vont ljóðskáld eftir því hver er spurður, og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, einn af fáum fyrrverandi atvinnumönnum í ljóðskipulegum fræðum á Íslandi. Áreiðanlegar heimildir herma að dómnefnd hafi komið sér mismakindalega fyrir á ónefndum stað hvar dvalið verður næstu vikuna við lestur allrar Íslandsbyggðar póetísku ömurðar. Búast má við því að fréttatilkynningar verði sendar út daglega frá og með komandi mánudegi, og verða þær birtar hér og í Morgunblaði allra landsmanna. Frá mánudegi til föstudags verða dregin út áhugaverð ljóð úr keppninni – ekki endilega sigurljóðin, nota bene – og dómnefnd mun tjá sig um gildi þeirra fyrir eilífð ömurðarinnar.

Næstkomandi föstudag verða svo afhent verðlaun fyrir ömurlegt, ömurlegra og ömurlegasta ljóð Íslandssögunnar, og fer afhendingin væntanlega fram í Kastljósi Ríkissjónvarpsins.

Engin ummæli: