þriðjudagur, mars 21, 2006

Stríðinu mótmælt

Það hefur vafalítið ekki farið framhjá neinum að síðastliðinn laugardag var því annars vegar fagnað að amríski herinn skyldi hafa tekið upp hjá sjálfum sér að leggja hlustir við málflutning herstöðvaandstæðinga og huskast í burtu, og hins vegar var þess minnst að 3 ár eru liðin frá því stríðið í Írak hófst, sem var reyndar í gær en ekki á laugardag, en ætli fundartíminn hafi ekki haft eitthvað með almenn heppilegheit laugardaga að gera auk þess sem hér á Íslandi hefur 18. mars þá aukreitis symbólísku þyngd að þetta er dagurinn sem Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þá utanríkisráðherra, lýstu yfir vilja og staðfestu íslensku þjóðarinnar til að fylgja bandarískum yfirvöldum að máli í nær einu og öllu - að því tilskyldu að við fengjum að halda orrustuþotunum, héldu sumir, en svo var auðvitað ekki.

Á mótmælafundinum, sem haldinn var á Ingólfstorgi, var Haukur Már Helgason, Marcello Mastroiani okkar Nýhilista, einn ræðumanna og þótti honum mælast af stakri raddmýkt, svo jafnvel kiðlingarnir sjö gætu blekkst. Þá fjölmennti krúttkynslóðin með blöðrur og slagorð sem voru jafn klén og þau voru falleg, auk þess sem hópur ungra svartklæddra anarkista sem sagðir voru vera úr austurbæjarskóla stilltu sér upp með hvítan borða með áletruninni: "Drepið yður Dabbi, drepið yður Dóri". Að lokinni ræðu Hauks Más brenndu anarkistarnir svo NATÓ-fánann með dyggri aðstoð vegfarenda.

Víða um heim var ljóðverkið/ritgerðin What I heard about Iraq eftir Eliot Weinberger flutt til minningar um upphaf stríðsins. Verkið má lesa með því að smella
hér. Nýhil mælir með Weinberger.

Myndin hér að ofan, af Marcello í ham, er tekin af Ólafíu Erlu Svansdóttur.

Engin ummæli: