mánudagur, júní 30, 2008

Vísir og Víðsjá

Hér má heyra umfjöllun Víðsjár um málið og að neðan er svo frekari fréttaflutningur visir.is um málið:

Fá ný skáldverk í pottinum


„Það er reginmisskilningur að það sé eina eða meginhlutverk Bókmenntasjóðs að styrkja ný íslensk skáldverk," segir Njörður Sigurjónsson, framkvæmdastjóri sjóðsins.

Í blaðinu í gær var því haldið fram að sjóðurinn hefði ekki staðið sig sem skyldi að þessu leyti og var byggt á a-lið 2. greinar laga um Bókmenntasjóð. Þar stendur að sjóðurinn skuli „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka". Síðan er rætt um önnur verk.
Bókaútgáfan Nýhil hefur krafist þess að lögmæti síðustu úthlutunar Bókmenntasjóðs verði rannsakað. Nýhil heldur því fram að sjóðurinn hafi ekki styrkt „frumsamin skáldverk", heldur frekar endurútgáfur skáldverka og svo fræðirit og annað.

„En frumsamið skáldverk þarf alls ekki að vera nýtt skáldverk," segir Njörður. Með lagaákvæðinu sé einfaldlega verið að vísa til þess að sjóðurinn eigi ekki einungis að styrkja þýðingar eða fræðirit.
Frumsamið íslenskt skáldverk geti því vel verið endurútgáfa á eldri íslenskum bókum. „Þetta þýðir að verkin eiga ekki að vera þýdd og ekki stolin."

Njörður segir óumdeilt að sjóður­inn eigi líka að styrkja ný íslensk skáldverk. Of fáir umsækjendur hafi þó gert sér grein fyrir því. Einni milljón króna verði varið í haust til að vekja athygli á þessu. Ný skáldverk verði þó engu að síður gjaldgeng í öðrum úthlutunum.

„Úthlutunin í vor var alls ekki stefnumarkandi. Ákvörðun um styrkveitingu er tekin á grundvelli þeirra umsókna sem berast. Þær voru bara of fáar í ár. Engin þeirra hlaut náð fyrir augum dóm­nefndar."

Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, fellst ekki á þessi rök. „Það er með ólíkindum að þeir haldi þessu fram núna. Þetta er lagakrókur á móti bragði. Það sem gerðist er ekki að fáir hafi sótt um heldur að stóru forlögin, hagsmunaaðilarnir, áttuðu sig ekki á því að sækja um.
Stjórn sjóðsins hefur því skipt um reglur í miðjum leik. Þetta hefði frekar átt að vera rík ástæða til að verðlauna litlu forlögin, sem voru vakandi," segir hann. Það hefði vakið athygli þeirra stóru.

Tvö prósent fjárins í megintilgang sjóðs

Af visi.is

Ekki er að sjá að Bókmenntasjóður hafi farið nákvæmlega eftir forskrift þeirri sem er að finna í lögum um hann þegar 24 milljónum var úthlutað til útgáfu í síðasta mánuði. Sjóðurinn styrkti engin frumsamin íslensk verk og hefur ekki styrkt þau síðan hann var stofnaður á síðasta ári.

Lögin segja að sjóðurinn skuli rækja hlutverk sitt með ýmsum hætti. En það sem er efst á lista, undir lið A, er að „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka [...]".

Liður C, að „stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum [...] erlendis", er hins vegar sá sem tekur mesta orku og peninga sjóðsins, að sögn Njarðar Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra hans. Þetta sé gert með því að styrkja þýðingar á útgefnum verkum á erlend mál.

En í haust á að gera bragarbót á þessu, segir Njörður, og úthluta sérstaklega til frumsaminna verka. Sjóðurinn hefur yfir fimmtíu milljónum að ráða árlega og ætlar að nýta eina þeirra í þessi verk. Tvö prósent fjárins.

Bókaútgáfan Nýhil sótti um styrki fyrir útgáfu ungra skálda í ár en fékk ekki. Öll ljóðskáldin sem fengu styrki til útgáfu í ár, fyrir utan Gunnar Dal, eru reyndar látin. Þetta eru því endurútgáfur eða safn eldri verka.
Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, sendi í gær menntamálaráðherra bréf „í nafni nýsköpunar", þar sem hann fer fram á að lögmæti úthlutunarinnar verði rannsakað.

Ljóðabækur ungra höfunda séu verkin sem síst seljist og því oft gefnar út í sjálfboðavinnu. Þessi fyrstu verk séu hins vegar ómetanleg fyrir bókmenninguna.
„Við erum gríðarlega óánægð og lítum á þetta sem svik við þá bókaútgáfu sem er mest styrktarþurfi," segir hann.

Njörður Sigurjónsson bendir á að enn sé verið að móta starf sjóðsins. Hann telur ekki að ein milljón sé lítið fé til fagurbókmennta. Þó kunni upphæðin að hækka í framtíðinni.

„En í ár bárust okkur fáar umsóknir og úthlutunin var svolítið sérstök, í anda hins gamla Menningarsjóðs, sem styrkti til dæmis orðabækur. Það er hins vegar mikill vilji til að gera vel við fagurbókmenntir og við þurfum að kynna þessa styrki betur fyrir úthlutunina í haust."

laugardagur, júní 28, 2008

Bréf Nýhils til menntamálaráðherra

Til: Menntamálaráðherra
Menntamálaráðuneytinu
Sölvhólsgötu 4
150 Reykjavík
Erindi: Ósk um athugun á lögmæti úthlutana úr Bókmenntasjóði


Undirrituð fara þess á leit við menntamálaráðherra að hún láti fara fram athugun á lögmæti úthlutana úr Bókmenntasjóði sem gerðar voru opinberar 7. maí 2008. Undirrituð telja að úthlutun sjóðsins hafi ekki uppfyllt skilyrði sem lýst er í lögum nr. 91 frá árinu 2007. Í lögunum er hlutverk sjóðsins meðal annars sagt það að „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka og vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu,“ en undirrituð telja í því ljósi ámælisvert að engin frumsamin verk voru styrkt í umræddri úthlutun. Undirrituð telja auk þess að sjóðurinn hafi gengið í berhögg við eigin viðmiðunarreglur um úthlutanir til ljóðabóka.

Þann 11. febrúar 2008 auglýsti Bókmenntasjóður eftir umsóknum um útgáfu- og þýðingastyrki, þar sem sérstaklega var minnst á styrki til „útgáfu frumsaminna verka“ auk annars, í samræmi við lög um sjóðinn. Enn fremur var að finna á heimasíðu sjóðsins leiðbeinandi texta fyrir umsækjendur þar sem þrír meginflokkar styrkja voru tilgreindir. Flokki „C“ er lýst svo:

Flokkur C. Styrkir sem miða að því að styðja við bakið á verkefnum sem hafa takmarkaða eða litla tekjuvon en eru mikilvæg fyrir íslenska bókmenningu. Hér er til að mynda átt við stuðning við ýmsa vinnslu á myndskreyttum barnabókum eftir innlenda höfunda, útgáfu ljóðabóka og ritsafna með fræðilegum innangi eða formála, þróunarverkefni, verkefni í rafrænni miðlun, fræðilegt efni af ýmsum toga o.s.frv.

Undirrituð höfðu túlkað lög sjóðsins og ofangreindan leiðbeiningartexta á þann veg að enginn vafi léki á að sjóðurinn myndi styrkja útgáfu nýrra ljóðabóka, og ályktuðu sem svo að þar yrðu bækur yngri höfunda hafðar til hliðsjónar, í ljósi þess að þær hafa litla tekjuvon en eru afar mikilvægar fyrir íslenska bókmenningu, líkt og nánar verður vikið að.
Stjórnarformaður Nýhils hafði enn fremur átt samtöl við Kristján B. Jónasson, fulltrúa Félags íslenskra bókaútgefenda í stjórn Bókmenntasjóðs, og Njörð Sigursjónsson, starfsmann sjóðsins, þar sem margítrekað kom fram að Nýhil myndi sækja um styrki vegna skáldverka yngri höfunda, einkum ljóðabóka. Í engu þessara samtala kom annað fram en að slíkar bækur féllu undir svið útgáfustyrkja Bókmenntasjóðs.
Í úthlutun sinni sem kunngjörð var 7. maí styrkti Bókmenntasjóður hins vegar engar nýjar ljóðabækur eftir unga höfunda, heldur aðeins endurútgáfur á verkum eldri eða látinna íslenskra ljóðaskálda. Undirrituð telja þetta ganga í berhögg við lög um starfsemi sjóðsins, enda séu verkin ekki „frumsamin“ heldur áður útgefin, og falli þar að auki ekki að þeirri skilgreiningu að verkin hafi takmarkaða eða litla tekjuvon í samanburði við aðra útgáfu – til að mynda útgáfu á nýjum, íslenskum ljóðabókum.
Undirrituð lýstu þessum áhyggjum sínum í erindi til stjórnar Bókmenntasjóðs í bréfi dagsettu 13. maí 2008. Undirrituðum voru í kjölfar þess færð munnleg skilaboð frá starfsmanni sjóðsins í gegnum stjórnarformann Nýhils um að stjórn Bókmenntasjóðs hygðist ekki svara erindinu eftir að hafa fjallað um það á stjórnarfundi sínum miðvikudaginn 18. júní, og bar stjórnin fyrir sig stjórnsýslulögum sem verja rétt opinberra nefnda til að tjá sig ekki um einstakar úthlutanir.
Undirrituð mótmæla þessu og telja stjórn Bókmenntasjóðs skylt að veita menntamálaráðuneyti, skipunaraðilum sjóðsins, umsækjendum og öllum almenningi skýringar á því hvers vegna hún tók ákvörðun um úthlutun sem virðist vera á skjön við lög um starfsemi sjóðsins og þær viðmiðanir sem stjórnin sjálf hafði ætlað umsækjendum að fylgja. Umrædd stjórnsýslulög eiga við um kvartanir sem lúta að huglægu eða listrænu mati nefndarmanna um einstakar úthlutanir, en ekki um athugasemdir við almenn vinnubrögð og áherslur viðkomandi úthlutunarnefndar með hliðsjón af lögum og útgefnum viðmiðum.

Ljóst er að ef stjórn Bókmenntasjóðs hefur farið eftir eigin viðmiðunum um meginflokka A, B og C í úthlutun sinni þá eru allir styrkir sem úthlutað var til ljóðabóka í flokki C, þar sem styrkupphæðir eru á bilinu 100-300 þúsund. Allar bækurnar sem hlutu styrk eru undurútgáfur.
Veruleg áhöld hljóta að teljast á því hvort þær ljóðabækur sem hlutu styrk uppfylli skilyrði í viðmiðunum um að hafa „takmarkaða eða litla tekjuvon“. Tekjuvon bóka grundvallast á sölu þeirra, og má ætla að endurútgáfa sé almennt og í eðli sínu tiltölulega vel til þess fallin að uppfylla eðlilegar söluvæntingar, enda væri vart þörf á endurútgefa verkin nema vegna þess að þau hafa þegar notið vinsælda og selst upp.
Alkunna er innan íslenskrar bókaútgáfu að sú útgáfa sem hvað sísta tekjuvon hefur er útgáfa á ljóðum, einkum ljóðum ungra og lítt þekktra höfunda. Þetta sést best af því að slíkri útgáfu er að miklu leyti haldið úti með sjálfsútgáfu höfunda eða undir formerkjum sjálfsprottina hópa á borð við Nýhil eða Nykur, svo dæmi séu nefnd, sem starfa á grundvelli sjálfboðavinnu og án arðsemismarkmiða. Almennt viðurkenna stöndugri bókaforlög að í útgáfu nýrra ljóðabóka er ekki hægt að gera ráð fyrir að sölutekjur standi undir kostnaði, og er því útgáfa einstakra titla að hluta afskrifuð.
Menningarlegt gildi fyrstu ljóðabóka ungra höfunda er ótvírætt og má rökstyðja að útgáfa þeirra sé að sönnu fjöregg íslensks bókmenntalífs. Endurnýjun í rithöfundastétt er háð því að ungum höfundum sé gefið færi á að koma verkum sínum fyrir sjónir almenning, og hljóta þá umfjöllun og gagnrýni sem útgáfan ein getur tryggt.
Allur aðdragandi styrkúthlutunar Bókmenntasjóðs gaf til kynna að þessari mikilvægu en lítt söluvænlegu endurnýjun rithöfundastéttarinnar yrði veitt liðsinni með auglýstum útgáfustyrkjum. Stjórn sjóðsins virðist hins vegar hafa snúist hugur og er eðlilegt að hún veiti skýringar á því hvers vegna hún beinir fjármagni sjóðsins annað en tilefni var gefið til. Slíkt hlýtur að teljast eðlilegur réttur þeirra sem þurfa að verja tíma og kröftum í samnings- og áætlanagerð vegna styrkumsókna.

Undirrituð leggja á það sérstaka áherslu að þau setja fram mál sitt í nafni almennra hagsmuna ungra, íslenskra rithöfunda. Með erindi þessu er ekki verið að krefjast rökstuðnings fyrir einstökum úthlutunum sjóðsins innan hvers flokks bóka, heldur skýringa á því hvers vegna heill flokkur bóka – nýjar ljóðabækur – var í heild sinni sniðgenginn af hálfu sjóðsins, öfugt við anda laganna um starfsemi sjóðsins og leiðbeiningar til umsækjenda.

Með ósk um góð viðbrögð við erindi þessu,

Nýhil

mánudagur, júní 16, 2008

Öfuguggaljóðaglíma

Fyrir allri skemmtan er góð ástæða, helst aldarafmæli!

Í tilefni af aldarafmæli Ólympíuþátttöku Íslendinga blæs skátahreyfingin Nýhil til ljóðveislu á Næsta bar klukkan 20:30 miðvikudagskvöldið 18. júní. Kvöldið er haldið sérstaklega til heiðurs glímukappanum Guðmundi Sigurjónssyni Hofdal, þátttakanda á Ólympíuleikunum í London 1908 og eina Íslendingnum sem dæmdur hefur verið fyrir sódómíu. Ýmis ung og öfugsnúin skáld stíga á stokk og hylla lífsvilluna.


Þau eru: Kristín Eiríksdóttir, Ingólfur Gíslason, Kristín Svava Tómasdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Bergþóra Einarsdóttir, Gísli Hvanndal og Arngrímur Vídalín.