mánudagur, júní 30, 2008

Tvö prósent fjárins í megintilgang sjóðs

Af visi.is

Ekki er að sjá að Bókmenntasjóður hafi farið nákvæmlega eftir forskrift þeirri sem er að finna í lögum um hann þegar 24 milljónum var úthlutað til útgáfu í síðasta mánuði. Sjóðurinn styrkti engin frumsamin íslensk verk og hefur ekki styrkt þau síðan hann var stofnaður á síðasta ári.

Lögin segja að sjóðurinn skuli rækja hlutverk sitt með ýmsum hætti. En það sem er efst á lista, undir lið A, er að „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka [...]".

Liður C, að „stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum [...] erlendis", er hins vegar sá sem tekur mesta orku og peninga sjóðsins, að sögn Njarðar Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra hans. Þetta sé gert með því að styrkja þýðingar á útgefnum verkum á erlend mál.

En í haust á að gera bragarbót á þessu, segir Njörður, og úthluta sérstaklega til frumsaminna verka. Sjóðurinn hefur yfir fimmtíu milljónum að ráða árlega og ætlar að nýta eina þeirra í þessi verk. Tvö prósent fjárins.

Bókaútgáfan Nýhil sótti um styrki fyrir útgáfu ungra skálda í ár en fékk ekki. Öll ljóðskáldin sem fengu styrki til útgáfu í ár, fyrir utan Gunnar Dal, eru reyndar látin. Þetta eru því endurútgáfur eða safn eldri verka.
Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, sendi í gær menntamálaráðherra bréf „í nafni nýsköpunar", þar sem hann fer fram á að lögmæti úthlutunarinnar verði rannsakað.

Ljóðabækur ungra höfunda séu verkin sem síst seljist og því oft gefnar út í sjálfboðavinnu. Þessi fyrstu verk séu hins vegar ómetanleg fyrir bókmenninguna.
„Við erum gríðarlega óánægð og lítum á þetta sem svik við þá bókaútgáfu sem er mest styrktarþurfi," segir hann.

Njörður Sigurjónsson bendir á að enn sé verið að móta starf sjóðsins. Hann telur ekki að ein milljón sé lítið fé til fagurbókmennta. Þó kunni upphæðin að hækka í framtíðinni.

„En í ár bárust okkur fáar umsóknir og úthlutunin var svolítið sérstök, í anda hins gamla Menningarsjóðs, sem styrkti til dæmis orðabækur. Það er hins vegar mikill vilji til að gera vel við fagurbókmenntir og við þurfum að kynna þessa styrki betur fyrir úthlutunina í haust."

Engin ummæli: