mánudagur, júní 30, 2008

Vísir og Víðsjá

Hér má heyra umfjöllun Víðsjár um málið og að neðan er svo frekari fréttaflutningur visir.is um málið:

Fá ný skáldverk í pottinum


„Það er reginmisskilningur að það sé eina eða meginhlutverk Bókmenntasjóðs að styrkja ný íslensk skáldverk," segir Njörður Sigurjónsson, framkvæmdastjóri sjóðsins.

Í blaðinu í gær var því haldið fram að sjóðurinn hefði ekki staðið sig sem skyldi að þessu leyti og var byggt á a-lið 2. greinar laga um Bókmenntasjóð. Þar stendur að sjóðurinn skuli „styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka". Síðan er rætt um önnur verk.
Bókaútgáfan Nýhil hefur krafist þess að lögmæti síðustu úthlutunar Bókmenntasjóðs verði rannsakað. Nýhil heldur því fram að sjóðurinn hafi ekki styrkt „frumsamin skáldverk", heldur frekar endurútgáfur skáldverka og svo fræðirit og annað.

„En frumsamið skáldverk þarf alls ekki að vera nýtt skáldverk," segir Njörður. Með lagaákvæðinu sé einfaldlega verið að vísa til þess að sjóðurinn eigi ekki einungis að styrkja þýðingar eða fræðirit.
Frumsamið íslenskt skáldverk geti því vel verið endurútgáfa á eldri íslenskum bókum. „Þetta þýðir að verkin eiga ekki að vera þýdd og ekki stolin."

Njörður segir óumdeilt að sjóður­inn eigi líka að styrkja ný íslensk skáldverk. Of fáir umsækjendur hafi þó gert sér grein fyrir því. Einni milljón króna verði varið í haust til að vekja athygli á þessu. Ný skáldverk verði þó engu að síður gjaldgeng í öðrum úthlutunum.

„Úthlutunin í vor var alls ekki stefnumarkandi. Ákvörðun um styrkveitingu er tekin á grundvelli þeirra umsókna sem berast. Þær voru bara of fáar í ár. Engin þeirra hlaut náð fyrir augum dóm­nefndar."

Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, fellst ekki á þessi rök. „Það er með ólíkindum að þeir haldi þessu fram núna. Þetta er lagakrókur á móti bragði. Það sem gerðist er ekki að fáir hafi sótt um heldur að stóru forlögin, hagsmunaaðilarnir, áttuðu sig ekki á því að sækja um.
Stjórn sjóðsins hefur því skipt um reglur í miðjum leik. Þetta hefði frekar átt að vera rík ástæða til að verðlauna litlu forlögin, sem voru vakandi," segir hann. Það hefði vakið athygli þeirra stóru.

1 ummæli:

Hafdís gítareigandi sagði...

Sæl verið þið. Ég er að velta fyrir mér einu: Voruð það ekki þið sem stóðuð fyrir keppnunum um versta ljóðið í...öö...fréttablaðinu (?) hér einhvern tímann? Ef svo er, hvar getur maður nálgast þessi ljóð? Ég er að leita að texta við lag sem ég er að semja, sjá http://www.hafdisgitar.blogspot.com

Bestu kveðjur, Hafdís.