miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Með villidýrum

Nýhil kynnir:

Með villidýrum eftir Kára Pál Óskarsson.

Er hægt að eiga raunverulega hlutdeild í þjáningum annars fólks? Þetta er ein helsta spurningin sem er til umfjöllunar í þessari ljóðabók, sem hefur ofbeldi að meginþema.

Kæri herra Bataille,

ég vildi bara skrifa þér
til að segja að bók þín,
Saga augans,
gekk alveg fram af mér.
Sérstaklega þótti mér senan
þegar stúlkan stingur auga prestsins
fyrst upp í...


Kápu bókarinnar prýðir málverk eftir franska listmálarann Fabien Claude.

Bókin verður fáanleg í bókaverslunum frá og með mánudeginum 1. desember. Leiðbeinandi útsöluverð er kr. 1690. Bókin er 60 síður.

Hægt er að hafa samband við höfund í gegnum netfangið kpo@hi.is og í síma 864 5710.

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Umfjöllun Einars Fals Ingólfssonar um Þess á milli í Morgunblaðinu Laugardaginn 11. október 2008

Ástandið þegar heimar breytast

Þess á milli er ný bók, kynnt sem ljósmyndabók, en ef skilgreiningar er þörf kýs ég að kalla þetta bókverk; verk úr ljósmyndum og texta, pakkað í bókarform - sem er oft besta framsetningin á ljósmyndum.
Þess á milli fjallar um þetta millibilsástand þegar heimar breytast eða skipta um hlutverk. Þess vegna talar þessi bók á beinskeyttan hátt beint inní núið, og birtir nánast endurspeglun þessa furðulega veruleika sem við upplifum á Íslandi í dag. Veruleika sem er svo óraunverulegur, þar sem við erum stödd einhversstaðar„á milli"; í heimi sem enginn þekkir eða hefur not fyrir, eins og þeim sem birtist í ljósmyndum Ingvars Högna Ragnarssonar. Heimi sem við kusum ekki yfir okkur, heimi sem okkur datt aldrei í hug að við myndum lenda í, en þessi heimur er hér engu að síður - í himins stað hangir þung
blýhella í trosnuðum spottum yfir höfðum okkar, og við stöndum
ráðalaus í þessum heimi miðjum.

Ingvar Högni er ungur listamaður sem útskrifaðist úr Listaháskóla
Íslands fyrir einu ári. Árið 2005 ferðaðist hann um landið með
hollenska ljósmyndaranum Rob Hornstra, sem skrásetti mannlíf og
umhverfi hér á landi, eins og hann upplifði það, á ferskan og frumlegan hátt með stórri blaðfilmuvél. Afrakstur vinnu Hornstra var eftirminnileg sýning í Þjóðminjasafninu og bókin Rætur rúntsins. Engum blöðum er um það að fletta að vinnan með Hornstra hefur verið lærdómsrík fyrir Ingvar Högna. Þegar blaðað er í þessu ferska bókverki - sem er fyrsta bók hans og útgáfunnar, Nýhils – má sjá að í uppbyggingunni fer Ingvar Högni að sumu leyti svipaða leið og Hornstra. Myndir eru mismunandi í stærðum, sumar blæða, aðrar fá að anda í hvítunni; þær eru iðulega óræðar, og á milli eru handskrifaðir textar og þankabrot.

Myndheimurinn er af óræðum stað í þessu millibilsástandi, þar sem mannaverk og hlutir sem einkenna umhverfi manna eru á víð og dreif en þetta er staður sem „virkar"ekki. Veggir eru brotnir og pottablóm í pissuskálum. Sú hugsun hvarflar að manni að þetta kunni að vera heimur búinn til af listamönnum; einskonar innsetning í margbreytilegu rými. Aftast í bókinni kemur í ljós hver veruleikinn er. Þetta er heimildaskráning listamanns í yfirgefinni byggingu á dagparti í Hollandi. Þegar hann sneri síðan aftur, mögulega til að halda skráningunni áfram, var heimurinn horfinn.

Þetta er áhrifamikið verk hjá Ingvari Högna, í þessum einfalda ramma. Ef myndir hans eru bornar saman við myndir Hornstra, standa þær ekki vel í samanburðinum, blaðfilmur Hornstra sýna minnstu smáatriði, sem styrkir myndirnar verulega. Stafrænar myndir Ingvars Högna eru ekki jafnskarpar, sumar jafnvel hreyfðar. Ég sakna þess að hafa veruleikann ekki nákvæmari í myndrænni útfærslunni. En heimurinn sem birtist í verkinu Þess á milli er áhrifamikill. Við getum ekki annað en vonað að þegar okkar milliheimur hér á Íslandi hverfur, þá verði sá sem við tekur heilsteyptari og lífvænlegri.

Umfjöllun Sigurðar Hróarssonar um Gáttir í Fréttablaðinu, Föstudaginn 26. september 2008.

Fyrirmyndarbók

Lesandinn er vitaskuld alveg gáttaður á þessari bók, hún er svo falleg
og vel úr garði gerð í alla staði, svo vönduð og smekkleg að maður er alveg stúmm, eins og nafntogaður listmunur á fínu listasafni eða háð, maður þorir varla að fletta og lesa ljóðin og þýðingarnar, en þá heldur ævintýrið áfram eins og ekkert sé, gefur skít í efann, sér ekki fyrir endann, þetta batnar bara, meira eða minna. Bókin er afrakstur alþjóðlegrar ljóðahátíðar, safnrit átján höfunda, tólf íslenskra, sex erlendra, öll ljóðin birt bæði á frummáli og í þýðingu (stundum jafnvel fleiri en einni), allt til fyrirmyndar. Bókin er til vitnis um mikla grósku, borin uppi af sýnilegri trú á hlutverk ljóðsins, sígilt og síungt, rödd þess í skarkalanum, viðspyrnu þess og sjón-varp í samtíma, svar þess við klisjum fjölmiðla og dómara, trú á útúrsnúninga þess og orðumorð. Allir sem fæddir eru fyrir miðja síðustuöld ættu að lesa þessa bók til þrautar, aðrir gera það óumbeðnir vænti ég. Bókin er framhald, ekki nýtt upphaf, því síður órar um framtíð, tekur við því sem er og gerir við það eitthvað nýtt.

Eru þetta tilraunaljóð? Hvað eru tilraunaljóð? Í „Hátíðarkveðju" bjóða forsprakkar forlags og hátíðar lesendum að „kynnast því besta
sem nú er á seyði í íslenskri ljóðlist" - mér finnst þessi setning besta tilraunaljóðið í bókinni, auðmýkt setningarinnar undirstrikar dramb ljóðanna ef maður les hvort tveggja sem íróníu frá rótum, og mistekst. Í skóla heyrði ég þessa skilgreiningu á tilraunaljóði: „Tilraunaljóð eru tvenns konar, tilraun sem tekst og tilraun sem mistekst, og ef tilraunin tekst er ljóðið ekki (lengur) tilraunaljóð". Í þessu felst að tilraunaljóð er bara „eins konar"; ljóð sem mistekst. Þetta hlýtur að vera bull. Hvað er þá tilraunaljóð? Eitthvað nýtt sem á eftir að vaxa og sanna sig (eða afsanna)? Veit ekki, segir hver?, held samt að í þessari bók séu ekki tilraunaljóð, minnir of mikið á verklega eðlisfræði, þetta eru ekki skóla(stofu)ljóð. Hómó sapíens er tilraun, það var kennt í mínu ungdæmi, annars féll maður á landsprófi.

Það eru nokkur frábær ljóð í þessari bók og fallegar, tilgerðarlausar Og blátt áfram þýðingar, víðast, (á einstaka stað ber þó á þeim leiða sið að leita samheita þegar skáldið beitir endurtekningum), spennandi skáldskapur og fagleg vinnubrögð - dæmi um fyrirmyndarþýðingu á íslensku eru „Rótandi kepna" (Kári Páll Óskarsson), „Pan fafla"(EiríkurÖrn Norðdahl) og „Ef Helsinki" (KristínEiríksdóttir) - allt eru þetta líka æðisleg ljóð. Konur fara á kostum í þessari bók, hver án kapps við aðra, „Stóri hvíti maður"(Kristíne) er t.d.magnað ljóð sem beitir lesandann líkamlegum klækjum, sér ígegnum hann eins ogþriðja augað í draumi, skekur með því vídd hans og skerpir sýn hans á eigin skilning, „Neytendalögin" (Börjel) eru drepfyndin og eitruð, „Yrðing" (Cotten) er fagursköpuð og klár, „Ég hef mínar efasemdir..." (KristínSvava), ég ekki, áleitið ljóð með einkar bragðvísu myndmáli, „Hótel Blizz" (Linda) sprengir stríð með friði, kveikir mannkyni von á eigin kostnað, ég tárast, „Ox" (Una Björk) er ljóð sem mig langar sjálfan að dreyma, hvernig sem fer ... og „Ef Helsinki" (Nina Sos); gamanleikur ársins, skellið ykkur strax, áður en það er of seint. Svo gefa strákarnir þeim ekkert eftir, „hreinustu ljóð í heimi", ég segi það satt (núna).

föstudagur, nóvember 21, 2008

Konur


Nýhil kynnir:

KONUR eftir Steinar Braga

Ung kona snýr aftur heim til Íslands eftir nokkurra ára fjarveru og reynir að raða saman brotunum í lífi sínu. Lánið virðist leika við hana þegar bankamaður, einn íslensku útrásarvíkinganna, býður henni að dvelja endurgjaldslaust í háhýsi við Sæbraut.

Í framhaldi sér konan breytingarnar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi og hvernig allt snýst um peninga, banka og auðmenn. Smám saman fær hún á tilfinninguna að verið sé að leiða hana í gildru, en þegar hið myrka leyndarmál opnast henni kann allt að vera um seinan.

Með þessari hugrökku og listilega fléttuðu sögu er varpað ljósi á íslenska þjóð eins og hún er nákvæmlega núna með öllu sínu ranglæti, kúgun, glötuðu trausti – og milljörðum eftir óskiljanlega milljarða sem rísa eins og rimlar umhverfis þegna landsins.

Skáldsagan verður fáanleg í verslunum frá og með mánudeginum 1. desember. Leiðbeinandi útsöluverð er kr. 4.490. Bókin er 220 síður.

Steinar Bragi (f. 1975) hefur áður sent frá sér fimm ljóðabækur og fjórar skáldsögur.

„Á tíma þegar allt er galopið tekst Steinari Braga að vera ráðgáta. Það er ansi mikill kostur. Hann er dularfulli maðurinn í íslenskum bókmenntum.“
- Egill Helgason, blaðamaður

„Ein af bestu bókum sem ég hef lesið síðustu ár.“
- Stefán Máni, rithöfundur

„Frá því ég kynntist fyrst verkum Steinars Braga hef ég alltaf hlakkað til nýrrar bókar eftir hann.“
- Ólafur Stefánsson, handboltamaður

„Bestu verk Steinars Braga smeygja sér inn í vitundina og víkka hana út á undarlegan hátt. Þau hafa haft umtalsverð áhrif á marga íslenska rithöfunda, þar á meðal sjálfa mig.“
- Auður Jónsdóttir, rithöfundur