föstudagur, nóvember 21, 2008

Konur


Nýhil kynnir:

KONUR eftir Steinar Braga

Ung kona snýr aftur heim til Íslands eftir nokkurra ára fjarveru og reynir að raða saman brotunum í lífi sínu. Lánið virðist leika við hana þegar bankamaður, einn íslensku útrásarvíkinganna, býður henni að dvelja endurgjaldslaust í háhýsi við Sæbraut.

Í framhaldi sér konan breytingarnar sem orðið hafa á íslensku þjóðfélagi og hvernig allt snýst um peninga, banka og auðmenn. Smám saman fær hún á tilfinninguna að verið sé að leiða hana í gildru, en þegar hið myrka leyndarmál opnast henni kann allt að vera um seinan.

Með þessari hugrökku og listilega fléttuðu sögu er varpað ljósi á íslenska þjóð eins og hún er nákvæmlega núna með öllu sínu ranglæti, kúgun, glötuðu trausti – og milljörðum eftir óskiljanlega milljarða sem rísa eins og rimlar umhverfis þegna landsins.

Skáldsagan verður fáanleg í verslunum frá og með mánudeginum 1. desember. Leiðbeinandi útsöluverð er kr. 4.490. Bókin er 220 síður.

Steinar Bragi (f. 1975) hefur áður sent frá sér fimm ljóðabækur og fjórar skáldsögur.

„Á tíma þegar allt er galopið tekst Steinari Braga að vera ráðgáta. Það er ansi mikill kostur. Hann er dularfulli maðurinn í íslenskum bókmenntum.“
- Egill Helgason, blaðamaður

„Ein af bestu bókum sem ég hef lesið síðustu ár.“
- Stefán Máni, rithöfundur

„Frá því ég kynntist fyrst verkum Steinars Braga hef ég alltaf hlakkað til nýrrar bókar eftir hann.“
- Ólafur Stefánsson, handboltamaður

„Bestu verk Steinars Braga smeygja sér inn í vitundina og víkka hana út á undarlegan hátt. Þau hafa haft umtalsverð áhrif á marga íslenska rithöfunda, þar á meðal sjálfa mig.“
- Auður Jónsdóttir, rithöfundur

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mig langar að gefa öllum þessa bók. Hún er frábær.

Nafnlaus sagði...

Klikkuð bók