miðvikudagur, apríl 30, 2008

Fréttir frá mínu landi - útgáfuteiti

Í tilefni af útgáfu hinnar stórglæsilegu bókar, Fréttir frá mínu landi, býður hinn hugumstóri höfundur, Ármann Jakobsson, til útgáfuteiti nk. föstudag (2. maí). Herlegheitin fara fram í Reykjavíkur-Akademíunni (4. hæð JL-hússins), frá 16-18, og verður vitanlega boðið uppá léttar veigar. Bókin verður fáanleg á vægu verði og eflaust má plata höfundinn til að hripa vinsamleg kveðjuorð í bókina. Það er almennt mál manna að betri byrjun á góðri helgi sé vandfundin.

Gagnrýnendur hafa farið lofsamlegum orðum um bókina og birtast hér nokkur brot:

„Það sem einkennir textana öðru fremur er óvenjulegt sjónarhorn á daglegt líf og góður húmor fyrir bæði tíðarandanum og eigin tilveru.”
- Huldar Breiðfjörð, Viðskiptablaðið

„Ég hef sjálfur haft áhuga á textum af þessu tagi og tel að verk Ármanns sé í hópi allra bestu örsagna sem ég hef lesið lengi. Ég mæli með verkinu í sumarfríið sem er hjá flestum á næsta leiti.”
- Sigurður Gylfi Magnússon, Kistan

„Ármann er gleðigjafi.”
- Gerður Kristný, Mannamál

föstudagur, apríl 25, 2008

Þá er það alvaran


* Þessu fólki er alvara *
- - Upplestur og uppgrip í Bókaverslun Máls og menningar klukkan 15 á laugardag - -

Nýhil efnir til upplestrar í Bókaverslun Máls og menningar, Laugavegi 18, klukkan 15:00 á morgun, laugardaginn 26. apríl. Tilefnið er vika bókarinnar, sumarið og lífið sjálft.

Skáldin sem lesa eru:
* Haukur Már Helgason, sólbrúnn og bísperrtur
* Kristín Eiríksdóttir, rjóð og blóðstorkin
* Ingólfur Gíslason, ábyrgur og rökvís

Mætið tímanlega og hlustið á rithöfundana ógna viðteknum gildum, halla réttu máli og valda usla líkt og svefnlausir vörubílstjórar.

Á það skal minnt að ljóðabækur og skáldsögur Nýhils eru til sölu í öllum bókabúðum með fáheyrðum afslætti á meðan Þjóðargjöf Félags bókaútgefenda gildir. Allar bækur frá 2007 og eldri eru á kr. 299 eða 499. Nánari upplýsingar um það hér: http://nyhil.org/vikabokar.pdf

Gangi ykkur allt í haginn,
Nýhil

mánudagur, apríl 21, 2008

Vika bókarinnar - kauptu bækur ungskáldanna á fáránlegum prís


Ung skáld fagna sérstaklega Viku bókarinnar, Degi bókarinnar og hinni stórhuga Þjóðargjöf sem Félag bókaútgefenda stendur fyrir af því tilefni. Nýhil hvetja bókaunnendur til að beina sjónum að öflugri útgáfu síðustu missera á skáldskap ungra, íslenskra rithöfunda.

Sautján eftirsóknarverðir titlar sem ættu að prýða bókahillur allra sem fylgjast vilja með nýlegum hræringum í skáldskap verða á tilboði -- aðeins tvö verð gilda: kr 299,- og kr 499,-. Með kaupum á einhverri bókanna fylgir auk þess sýnisbókin Ást æða varps að gjöf meðan birgðir endast.

Bækurnar verða fáanlegar á auglýstu tilboðsverði í helstu bókaverslunum á höfuðborgarsvæðinu frá og með þriðjudeginum 22. apríl og fram á sunnudag 27. apríl, eða jafn lengi og hægt er að nýta sér Þjóðargjafar-ávísunina.

Nánari upplýsingar um verð og titla hér:
http://nyhil.org/vikabokar.pdf

þriðjudagur, apríl 08, 2008

Fréttir frá mínu landi


TÍTAN
Skrýtið að kalla ferðatöskur eftir geðvondum risum sem gleyptu börnin sín.


Hinn sómakæri bloggari, íslenskukennari og lífskúnstner Ármann Jakobsson hefur stokkið fram á vígvöll ljóðsins í fullum herklæðum með fulltingi Nýhils í 96 blaðsíðna riti sem ber nafnið FRÉTTIR FRÁ MÍNU LANDI.

Ljóð Ármanns, brynjuð harmrænni fágun, una lesandanum ekki hvíldar fyrr en hann hefur laugað sig í undirtexta þeirra, bundinn líkt og Ódysseifur við skipsmastur hins óræða.

Höfundur hefur þegar getið sér gott orð fyrir lævísleg orðspjót sem lénsherra á blogginu armannjakobsson.blogspot.com, sem stendur í órofa sambandi við bókina.

Bókin verður fáanleg í helstu bókaverslunun frá og með föstudegi gegn sanngjörnu verði, en útgáfa hennar er einkum hugsuð höfundi sjálfum og velunnurum hans til skemmtunar.