mánudagur, júní 15, 2009

Arkitektinn með Alpahúfuna


17. júní næstkomandi heldur Óttar M. Norðfjörð sýningu á klippilistaverkum sem hann vann fyrir bók sína, Arkitektinn með alpahúfuna. Um er að ræða ævisögu Sverris Norðfjörð, föður Óttars, sem lést 17. júní í fyrra, 67 ára að aldri.

Ævisagan er unnin upp úr dánarbúi Sverris, svo sem ljósmyndum, bréfum og teikningum, auk ýmislegs annars. Hver opna í bókinni er sjálfstætt klippilistaverk sem sýnir brot úr ævi Sverris og á sýningunni verða nokkrar vel valdar opnur úr bókinni til sýnis, ásamt bókinni sjálfri. Aðeins 18 eintök voru prentuð af henni.

Sýningin er haldin í Grófinni 1 í miðbæ Reykjavíkur (beint á móti Borgarbókasafninu) og stendur frá klukkan 15-18 aðeins þennan eina dag. Veitingar í boði og allir velkomnir. Það er rithöfundaforlagið Nýhil sem gefur ævisöguna út, sem er 285 síður að lengd og verður ekki til sölu. Allar frekari upplýsingar má nálgast hjá Óttari í síma 866-9276.

Í viðhenginu er bókakápan og ein opna úr bókinni. Þeir sem hafa aðgang að Facebook geta nálgast fleiri opnur á eftirfarandi slóð:

fimmtudagur, júní 11, 2009

Hvar standa róttæk stjórnmál í dag?

Chantal Mouffe á opnum fyrirlestri í Háskóla Íslands

Staður: Salur HT 102 á Háskólatorgi, Háskóla Íslands

Tími: Laugardagur 13. júní 2009 kl. 14:00

Hinn þekkti stjórnspekingur Chantal Mouffe flytur opinn fyrirlestur í Reykjavík laugardaginn 13. júní næstkomandi. Fyrirlesturinn nefnist á ensku „Radical Politics Today“ og þar mun Mouffe gera grein fyrir hugmyndum sínum um róttæka stjórnmálabaráttu, sem eiga mikið erindi við Íslendinga í ljósi atburða vetrarins; efnahagshruns, fjöldamótmæla og sögulegra kosningaúrslita. Hún ber kenningar sínar saman við hugmyndir Antonios Negri á gagnrýninn hátt, en hann flutti fjölsóttan fyrirlestur hér á landi þann 26. maí síðastliðinn.

Mouffe, sem er prófessor í stjórnmálafræði við Westminster-háskóla í London, er þekkt fyrir kenningar sínar um róttækt lýðræði, sem hún hefur að hluta sett fram sem gagnrýni á kenningar frjálslyndra stjórnspekinga á borð við John Rawls og Jürgen Habermas. Öðrum þræði eru skrif hennar ekki síður gagnrýni á aðra vinstrimenn og marxista, en Mouffe hefur um 25 ára skeið haldið á lofti nauðsyn þess að vinstrihreyfingar losi sig undan efnahagslegri nauðhyggju og víkki út hugmyndir sínar um stéttabaráttu.

Af verkum Mouffe má nefna bókina Hegemony and Socialist Strategy sem hún gaf út ásamt Ernesto Laclau árið 1984, en þar beittu þau kenningum ítalska marxistans Antonios Gramsci á nýstárlegan hátt. Árið 2000 gaf Mouffe út hina áhrifamiklu bók The Democratic Paradox, þar sem hún beitir jafn ólíkum höfundum og Jacques Derrida og Carl Schmitt til að gagnrýna frjálslyndar hugmyndir um lýðræði, en Mouffe telur þær einkennast af of einsleitum hugmyndum um samlyndi og ónógri fjölhyggju. Greinin „Til varnar ágreiningslíkani um lýðræði“ eftir Chantal Mouffe birtist í íslenskri þýðingu í 16. tölublaði Hugar, tímarits Félags áhugamanna um heimspeki árið 2004.

Heimsókn Mouffe er liður í fyrirlestraröðinni Endurkoma róttækninnar sem Nýhil stendur fyrir, og hefur það að markmiði að færa íslenska samfélagsumræðu nær róttækum hugmyndastraumum. Styrktar- og samstarfsaðilar eru Evrópa unga fólksins, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki, Listaháskóli Íslands og Nýlistasafnið.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangseyrir er enginn. Boðið verður upp á spurningar að framsögu Mouffe lokinni.

Hvað er pólitískur vilji?

Peter Hallward heldur opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands

Staður: Salur 101 í Odda, Háskóla Íslands

Tími: Fimmtudagur 11. Júní 2009 kl. 17.00

Peter Hallward flytur opinn fyrirlestur í Reykjavík þann 11. júní næstkomandi. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Hvað er pólitískur vilji?“ og í honum mun Hallward fjalla um yfirvegaðan og röklegan pólitískan vilja og ástæður og afleiðingar þess að hann hefur verið sniðgenginn í evrópskri heimspeki undanfarin ár. Hallward vísar til hefðar sem má rekja aftur til Rousseau (og jafnframt má finna í verkum Robespierre, Gramsci, Sartre, Fanon, Freire og Badiou, meðal annarra) og áréttar mikilvægi sjálfssprottinnar baráttu þeirra sem eru undirokaðir, sem byggð er á myndun sameiginlegs vilja, með hliðsjón af hinni gömlu en byltingarsinnuðu hugmynd um „vilja fólksins“.

Peter Hallward er þekktur fyrir skrif um franska samtímaheimspeki, sérstaklega bækur sínar um kenningar Alains Badiou og Gilles Deleuze. Hann hefur einnig gefið út gagnrýnið verk um eftirnýlendufræði og nýlega bók um stjórnmál og sögu Haítí auk þess sem hann vinnur nú að rannsókn á pólitískum vilja sem drifkrafti róttækra samfélagsbreytinga. Hallward er prófessor í heimspeki við Middlesex-háskóla í London.

Heimsókn Hallward er liður í fyrirlestraröðinni Endurkoma róttækninnar sem Nýhil stendur fyrir, og hefur það að markmiði að færa íslenska samfélagsumræðu nær róttækum hugmyndastraumum en styrktar- og samstarfsaðilar eru Evrópa unga fólksins, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki, Listaháskóli Íslands og Nýlistasafnið.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangseyrir er enginn. Boðið verður upp á spurningar að framsögunni lokinni.