fimmtudagur, júní 11, 2009

Hvar standa róttæk stjórnmál í dag?

Chantal Mouffe á opnum fyrirlestri í Háskóla Íslands

Staður: Salur HT 102 á Háskólatorgi, Háskóla Íslands

Tími: Laugardagur 13. júní 2009 kl. 14:00

Hinn þekkti stjórnspekingur Chantal Mouffe flytur opinn fyrirlestur í Reykjavík laugardaginn 13. júní næstkomandi. Fyrirlesturinn nefnist á ensku „Radical Politics Today“ og þar mun Mouffe gera grein fyrir hugmyndum sínum um róttæka stjórnmálabaráttu, sem eiga mikið erindi við Íslendinga í ljósi atburða vetrarins; efnahagshruns, fjöldamótmæla og sögulegra kosningaúrslita. Hún ber kenningar sínar saman við hugmyndir Antonios Negri á gagnrýninn hátt, en hann flutti fjölsóttan fyrirlestur hér á landi þann 26. maí síðastliðinn.

Mouffe, sem er prófessor í stjórnmálafræði við Westminster-háskóla í London, er þekkt fyrir kenningar sínar um róttækt lýðræði, sem hún hefur að hluta sett fram sem gagnrýni á kenningar frjálslyndra stjórnspekinga á borð við John Rawls og Jürgen Habermas. Öðrum þræði eru skrif hennar ekki síður gagnrýni á aðra vinstrimenn og marxista, en Mouffe hefur um 25 ára skeið haldið á lofti nauðsyn þess að vinstrihreyfingar losi sig undan efnahagslegri nauðhyggju og víkki út hugmyndir sínar um stéttabaráttu.

Af verkum Mouffe má nefna bókina Hegemony and Socialist Strategy sem hún gaf út ásamt Ernesto Laclau árið 1984, en þar beittu þau kenningum ítalska marxistans Antonios Gramsci á nýstárlegan hátt. Árið 2000 gaf Mouffe út hina áhrifamiklu bók The Democratic Paradox, þar sem hún beitir jafn ólíkum höfundum og Jacques Derrida og Carl Schmitt til að gagnrýna frjálslyndar hugmyndir um lýðræði, en Mouffe telur þær einkennast af of einsleitum hugmyndum um samlyndi og ónógri fjölhyggju. Greinin „Til varnar ágreiningslíkani um lýðræði“ eftir Chantal Mouffe birtist í íslenskri þýðingu í 16. tölublaði Hugar, tímarits Félags áhugamanna um heimspeki árið 2004.

Heimsókn Mouffe er liður í fyrirlestraröðinni Endurkoma róttækninnar sem Nýhil stendur fyrir, og hefur það að markmiði að færa íslenska samfélagsumræðu nær róttækum hugmyndastraumum. Styrktar- og samstarfsaðilar eru Evrópa unga fólksins, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki, Listaháskóli Íslands og Nýlistasafnið.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangseyrir er enginn. Boðið verður upp á spurningar að framsögu Mouffe lokinni.

Engin ummæli: