fimmtudagur, júní 11, 2009

Hvað er pólitískur vilji?

Peter Hallward heldur opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands

Staður: Salur 101 í Odda, Háskóla Íslands

Tími: Fimmtudagur 11. Júní 2009 kl. 17.00

Peter Hallward flytur opinn fyrirlestur í Reykjavík þann 11. júní næstkomandi. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Hvað er pólitískur vilji?“ og í honum mun Hallward fjalla um yfirvegaðan og röklegan pólitískan vilja og ástæður og afleiðingar þess að hann hefur verið sniðgenginn í evrópskri heimspeki undanfarin ár. Hallward vísar til hefðar sem má rekja aftur til Rousseau (og jafnframt má finna í verkum Robespierre, Gramsci, Sartre, Fanon, Freire og Badiou, meðal annarra) og áréttar mikilvægi sjálfssprottinnar baráttu þeirra sem eru undirokaðir, sem byggð er á myndun sameiginlegs vilja, með hliðsjón af hinni gömlu en byltingarsinnuðu hugmynd um „vilja fólksins“.

Peter Hallward er þekktur fyrir skrif um franska samtímaheimspeki, sérstaklega bækur sínar um kenningar Alains Badiou og Gilles Deleuze. Hann hefur einnig gefið út gagnrýnið verk um eftirnýlendufræði og nýlega bók um stjórnmál og sögu Haítí auk þess sem hann vinnur nú að rannsókn á pólitískum vilja sem drifkrafti róttækra samfélagsbreytinga. Hallward er prófessor í heimspeki við Middlesex-háskóla í London.

Heimsókn Hallward er liður í fyrirlestraröðinni Endurkoma róttækninnar sem Nýhil stendur fyrir, og hefur það að markmiði að færa íslenska samfélagsumræðu nær róttækum hugmyndastraumum en styrktar- og samstarfsaðilar eru Evrópa unga fólksins, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Heimspekistofnun Háskóla Íslands, Félag áhugamanna um heimspeki, Listaháskóli Íslands og Nýlistasafnið.

Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangseyrir er enginn. Boðið verður upp á spurningar að framsögunni lokinni.

Engin ummæli: