föstudagur, apríl 24, 2009

Kynningarfundur um höfunda Empire

29. apríl klukkan 20:00 - Kaffi Hljómalind

Í tilefni af komu Michaels Hardt og Antonios Negri til Íslands í maí verður stutt og skemmtileg kvöldsamkoma fyrir alla róttæklinga, spekúlanta og aktívista sem langar að kynna sér helstu atriðin í Empire og Multitude.

Sýndur verður hluti úr myndinni The Cell, en hún geymir viðtöl við Antonio Negri um fangelsisvist hans í kjölfar þess að hann var ranglega dæmdur fyrir aðild að morðinu á Aldo Moro forsætisráðherra Ítalíu.

Haldin verður stutt inngangstala um hinar áhrifamiklu kenningar í Empire og Multitude og síðan boðið upp á spurningar og umræður. Allir velkomnir og ókeypis inn!

fimmtudagur, apríl 16, 2009

Fréttir frá mínu landi uppseld



Fréttir frá mínu landi eftir Ármann Jakobsson er uppseld hjá útgefanda. Síðustu eintökin eru í verslunum.

sunnudagur, apríl 12, 2009

Sittúasjónin er revúlúsjóner:
Michael Hardt og Antonio Negri



Í lok hátíða líta börnin á dagatalið og telja hversu margir dagar eru til næsta tyllidags. Nú á páskadag (gleðilega hátíð!) tilkynnir Nýhil að ekki séu nema sex vikur eða 44 dagar til viðburðar sem svo sannarlega verður tilefni til að gleðjast yfir.


26. maí 2009 verða Nýhil o.fl. með sérstakan atburð.

Michael Hardt og Antonio Negri, höfundar bókanna Empire og Multitude, tala um fjármagnskreppur, andóf og möguleikann á lýðræðislegum kommúnisma í nánustu framtíð. Ómissandi tækifæri til að hlýða á fremstu hugsuði samtímans á sviði gagnrýnna samfélagsvísinda. Boðið verður upp á fyrirspurnir og búast má við að nýju ljósi verði varpað á atburði vetrarins hér á landi. Aðgangur ókeypis og allir hvattir til að mæta!

Meira um þetta síðar. Fylgist með hér eða á facebook.

fimmtudagur, apríl 09, 2009

Sittúasjónin er revúlúsjóner:
Hústaka og ljóðalestur



Félagsrými hefur verið yfirtekið við Vatnsstíg 4!

Alstaðar eru hús á hús ofan sem standa auð, hús sem átti að rífa fyrir verslunarmiðstöðvar, hús sem átti að leigja á okurverði, hús sem áttu að gera ríka ríkari og samfélagið menningarsnauðara. Við spurðum hvorki kóng né prest hvort við mættum brúka þetta hús, við þurfum ekki leyfi þeirra sem þykjast geta ráðskast með líf og land í krafti peninga. Við tökum ekki þátt í því kerfi.

Við tökum það sem réttilega er okkar og sköpum í þessu húsi félagslegt rými þar sem fólk getur hist og notað rýmið á þá vegu sem því finnst skipta máli; t.d. halda fræðslukvöld, elda mat, koma á fót leshringjum, stunda pólitískt starf gegn auðvaldinu og til hvers konar sköpunnar auk hverra þeirra uppákoma sem fólk kærir sig um að halda.

Rýmið verður opið öllum þeim sem vilja stuðla að róttækum breytingum í
samfélaginu.


Hið kapítalíska lýðræðið er eins og við þekkjum það í raun aðeins enn eitt valdakerfið hannað til að níðast á fólki og græða á því. Fólki er kennt að það sé það eina réttláta kerfið sem mannskepnan hefur smíðað utan um sig, en slíkt er firra. Í lýðræðinu kúgar meirihlutinn minnihlutann og fáir lenda á toppi valdapýramída á kostnað hinna mörgu. Fyrir hvern forsætisráðherra eru þúsundir sem eru það ekki. Sameiginleg ákvarðanartaka allra er sú aðferð sem anarkistar og ýmsir aðrir róttækir hópar nota til að komast að niðurstöðum í hópum, stórum sem smáum í stað meirihlutakosninga og valdapýramída lýðræðisskrumsins. Við viljum tækifærið til þess að skapa möguleikana, ekki bara velja á milli þeirra!

Kapítalismi gerir fólki kleift að eiga hús, en láta þau standa auð þrátt fyrir að fjölda vanti heimili og viðverustaði. Bankarnir eiga flest tómu húsana og ætlast er til þess að við fólkið borgum fyrir þá svikamyllu sem viðgekkst „fyrir hrun“. Það verður ekki liðið lengur.

Hústöku þessari er stefnt gegn yfirvaldi, auðhyggju og hverskonar valdabrölti. Húsið okkar verður laust við ríkjandi yfirvöld hér á landi og laust við alla yfirvaldsbygginu að okkar hálfu.

Við, fólkið, felldum fyrri stjórn og erum langt frá baki dottin um framhaldandi niðurrif á þessu kerfi mismununar og græðgi en samhliða því byggjum við upp það samfélag sem við viljum lifa í. Við hvetjum aðra til þess að neita að borga skuldir til banka og taka yfir eigin hús og hefja almennar hústökur!

miðvikudagur, apríl 08, 2009

Síðasta ljóðabók Sjóns er ólögleg



Rýnanda þykir einkennilegt að einhver skuli nota verk annars til að fá athygli en þó þarf ekki að leita lengra en á facebook, bloggsíður og myspace til að sjá að ýmsir hafa tileinkað sér að nota texta, lög og myndir annarra til að tjá sig. Er Síðasta ljóðabók Sjóns myspace.com að taka á sig efnisform? Sjón er kannski súr en Síðasta ljóðabók Sjóns er súrnun á Sjón, og fellur því algerlega um sjálfa sig...

Celidonus er módel, sem brosir til okkar vandræðalega, klætt línum Sjóns og ef til vill hrópar eitthvað barn „En hann er nakinn!“. Það skiptir engu máli, Celidonius á hvorki tilkall til nektar sinnar né klæða. Bókin er ólögleg.
(úr dómi Jóns Arnar Loðmfjörð á Síðustu ljóðabók Sjóns,
tekið héðan)

Salurinn er fullur, ritstjórinn hefur haldið ræðu og lúðrasveitin spilað þrsivar


Nýtt tölublað af Tíu þúsund tregawöttum hefur litið dagsins ljós! Þemað er ljótleiki, ritstjóri er hinn knái Kári Páll Óskarsson (höf. Með villidýrum) og meðal efnis er, fullt af Nýhil-skáldum og:





GREINAR

Lífið er alltaf grófast - viðtal við Kristínu Eiríksdóttur
Nokkur orð um ljótleika - ritstjórapistill KPÓ
Stutt spjall um fagurfræðilega möguleika ljótleikans eftir Kristínu
Ómarsdóttur
Fagurfræði er jójó eftir Óttar Martin Norðfjörð
Kúkur og piss eftir Ásmund Ásmundsson

LJÓÐ

Úr Heimaslátrun eftir Davíð Stefánsson
Myndir eftir Arngrím Vídalín
Úr Hnefa eftir Eirík Örn Norðdahl
Ég eða mjólkurfernuljóðið mitt eftir Hauk Má Helgason
Ófagur fagurgali eftir Emil Hjörvar Petersen
Úr Nemanda svefnsins eftir Hörð Gunnarsson

LJÓÐAÞÝÐINGAR

Of margar Byrds-plötur eftir Tim Wells
Ben Sherman eftir Tim Wells
Í tilefni lesturs Ljóðsins eftir Auden og Andsvars Randall Jarrell, sem
lenti fyrir bíl 14. október, 1965 eftir Teemu Manninen
Að verða töframaður; eða, óður til Aleister Crowley, fjallamanns frá
Bretlandseyjum eftir Teemu Manninen
Endurfundir skólafélaga eftir Kathleen Jamie

RITDÓMAR

Um þýðingar á upphafi Mauvais Sang eftir Arthur Rimbaud
Um Síðustu ljóðabók Sjóns
Um My Life eftir Lyn Hejinian
Um Blátt áfram rautt eftir Lárus Ásgeirsson
Um Nei eftir Ara Jósefsson
Um blert eftir Jordan Scott
Um Gangandi vegfaranda eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen

MÁLVERK

En fin d’après-midi eftir Jean Rustin

Allt þetta og meira til á
www.tregawott.net

föstudagur, apríl 03, 2009

Coup d'état Nýhil - NÝ STJÓRN


Hér hefur verið gerð mikil hallarbyltíng, sú mesta sem orðið hefur í sögu Nýhils, og eins og allar stór-hallarbyltíngar hefur hún gerst þegjandi, án þess að nokkur tæki eftir því. Verið viðbúin að veita henni viðtökur þegar hún kemur, jafnvel með vopni í hendi. Ekkert gat bjargað Nýhil nema byltíng undan oki '78 kynslóðarinnar.

Hér er ekkert spaug á ferðinni. Enginn vafi er á því að hér er byltingarástand. Og útkoman tvísýn. Semsé, eins og áður segir í tilkynningunni: Sittúasjónin er revúlúsjóner, það sér hver heilvita maður. Við höfum trú á hinum endurleysandi anda byltíngarinnar á sviðum lista einsog annarstaðar. Hún ræðst inn með fögnuði og innblæstri. Burt með gömlu miðstjórnina!

f.h. nýrrar stjórnar
Halldór Laxness