fimmtudagur, apríl 09, 2009

Sittúasjónin er revúlúsjóner:
Hústaka og ljóðalesturFélagsrými hefur verið yfirtekið við Vatnsstíg 4!

Alstaðar eru hús á hús ofan sem standa auð, hús sem átti að rífa fyrir verslunarmiðstöðvar, hús sem átti að leigja á okurverði, hús sem áttu að gera ríka ríkari og samfélagið menningarsnauðara. Við spurðum hvorki kóng né prest hvort við mættum brúka þetta hús, við þurfum ekki leyfi þeirra sem þykjast geta ráðskast með líf og land í krafti peninga. Við tökum ekki þátt í því kerfi.

Við tökum það sem réttilega er okkar og sköpum í þessu húsi félagslegt rými þar sem fólk getur hist og notað rýmið á þá vegu sem því finnst skipta máli; t.d. halda fræðslukvöld, elda mat, koma á fót leshringjum, stunda pólitískt starf gegn auðvaldinu og til hvers konar sköpunnar auk hverra þeirra uppákoma sem fólk kærir sig um að halda.

Rýmið verður opið öllum þeim sem vilja stuðla að róttækum breytingum í
samfélaginu.


Hið kapítalíska lýðræðið er eins og við þekkjum það í raun aðeins enn eitt valdakerfið hannað til að níðast á fólki og græða á því. Fólki er kennt að það sé það eina réttláta kerfið sem mannskepnan hefur smíðað utan um sig, en slíkt er firra. Í lýðræðinu kúgar meirihlutinn minnihlutann og fáir lenda á toppi valdapýramída á kostnað hinna mörgu. Fyrir hvern forsætisráðherra eru þúsundir sem eru það ekki. Sameiginleg ákvarðanartaka allra er sú aðferð sem anarkistar og ýmsir aðrir róttækir hópar nota til að komast að niðurstöðum í hópum, stórum sem smáum í stað meirihlutakosninga og valdapýramída lýðræðisskrumsins. Við viljum tækifærið til þess að skapa möguleikana, ekki bara velja á milli þeirra!

Kapítalismi gerir fólki kleift að eiga hús, en láta þau standa auð þrátt fyrir að fjölda vanti heimili og viðverustaði. Bankarnir eiga flest tómu húsana og ætlast er til þess að við fólkið borgum fyrir þá svikamyllu sem viðgekkst „fyrir hrun“. Það verður ekki liðið lengur.

Hústöku þessari er stefnt gegn yfirvaldi, auðhyggju og hverskonar valdabrölti. Húsið okkar verður laust við ríkjandi yfirvöld hér á landi og laust við alla yfirvaldsbygginu að okkar hálfu.

Við, fólkið, felldum fyrri stjórn og erum langt frá baki dottin um framhaldandi niðurrif á þessu kerfi mismununar og græðgi en samhliða því byggjum við upp það samfélag sem við viljum lifa í. Við hvetjum aðra til þess að neita að borga skuldir til banka og taka yfir eigin hús og hefja almennar hústökur!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mynduð þið hafa eitthvað við það að athuga ef ég myndi fara heim til ykkar á meðan þið eruð í hústökuleik, koma mér vel fyrir og neita að fara?

Eignaréttur ykkar yfir því húsnæði sem þið kjósið að kalla heimili er varla meiri en eignaréttur þeirra sem eiga húsið sem þið ákváðuð að koma ykkur fyrir í.

p.s. Ég sé að þið eruð með "comment moderation" á sem er pínu hlægilegt miðað við hvað þið eruð miklir anarkistar. Skora á ykkur að hleypa þessu í gegn og láta ekki eignaréttinn yfir blogginu verða tjáningarfrelsi gesta yfirsterkari :)

Jón Örn sagði...

Takk fyrir að lesa Nýhil bloggið.

Hér koma örfáir málshættir í tilefni páska:

Eignarréttur er þjófnaður.

Anarkismi er hugmyndafræði, ekki mælieining sem er notuð til að lýsa fólki.

Comment moderation er til að sleppa við spam.

Nýhil er forlag, með enga opinbera hugmyndafræði.

f.h. Nýhils
Jón Örn Loðmfjörð

p.s :)

Nafnlaus sagði...

Sæll Jón.

Tvær spurningar.

Er ekkert til í þessum heimi sem þú lítur á sem þína eign?

Er til sá hlutur sem þér væri illa við að ég myndi taka án þess að spyrja þig og hafa eftirleiðis fyrir mig?

Kveðja
Sami nafnlaus og áðan

Jón Örn sagði...

Ef þú reynir að taka pennann minn af mér, sting ég úr þér augun með honum.

Hverjum þjónar það að þetta hús hafi staðið autt lengi? Fyrir hvern er eignarrétturinn?

f.h. Jóns
lommi, næstum sami Jón og síðast

p.s. Kommentin þín virka einungis sem þreyttur brandari svona nafnlaus.

Nafnlaus sagði...

Pennann "þinn"? Átt þú pennann? Ertu þá ekki þjófur samkvæmt eigin skilgreiningu?

"eignaréttur er þjófnaður".

Mikil hringlógík í þessu hjá þér. Til að fremja þjófnað þarf fyrst einhver að eiga það sem tekið er ekki satt?. Annars er það varla þjófnaður. En ef það er sjálfkrafa þjófnaður að eiga eitthvað, þá er varla þjófnaður að einhver annar taki það?

Spurningunni sem þú berð fram er annars auðsvarað. Eignarétturinn er fyrir þann sem á. Það liggur í augum uppi. Ef það er þá ekki búið að stinga þau úr.

Jón Örn sagði...

Að sjálfsögðu er „eignarréttur er þjófnaður“ hringalógíka - það játar að það sé til eignarréttur, að hægt sé að eiga hluti. Gott ef þetta var ekki helsta gagnrýni Marx á Proudhon. Enda kallaði ég þetta slagorð málshátt og ég vona svo sannarlega að þú látir ekki málshætti stjórna lífi þínu þó þeir geti verið snjallir og gefið vissar vísbendingar eins og að eignarréttur geti verið slæmur.

Tómt hús í eigu einhvers sem notar það ekki er einkennilegt fyrirkomulag. Eignarrétturinn nýtist þá einungis til þess að aftra fólki frá því að nota húsið. Er heilbrigt fyrirkomulag að búa í borg þar sem er fullt af tómum húsum, í eigu einhvers aðila, sem enginn hefur not af og á sama tíma er fullt af fólki að missa heimilin sín?

Þá er eignarrétturinn fyrst og fremst til að verja status quo, stétt fárra auðmanna - ekki til að stuðla að uppbyggingu réttláts samfélags og er hreinlega skaðlegur mörgum í samfélaginu.

En það er eitthvað sem ekki er hægt að útskýra í örfáum kommentum fyrir manni sem væntanlega hefur lært að hornsteinn samfélagsins sé eignarrétturinn.

kv.
lommi

Jón Örn sagði...

Það er ánægulegt að sjá að núna mörgum mánuðum eftir síðasta kommentið mitt svaraði enginn. Það þarf ekki annað en að vitna í heimspekinga, án þess að í raun gefa upp hvar það stendur, til að sigra rifrildi.

Munið þetta í framtíðinni. Vitnið grimmt í heimspekinga. Og þá þegir fólk.

a.m.k. á bloggsíðum.

kv.
lommi