miðvikudagur, apríl 26, 2006

Rómantískar hrákaslummur

Í gær birtist dómur Davíðs A. Stefánssonar um ljóðabók Örvars Þóreyjarsonar Smárasonar í DV. Bókin fær fjórar stjörnur af fimm mögulegum og segir Davíð meðal annars um verkið: "Gamall þrjótur, nýir tímar er ærslafull ljóðabók, stútfull af fortíðarþrá. Draumurinn er að yfirgefa bæði nútímann og alvarleikann sem honum fylgir og hverfa aftur inní náttúruna og barndóminn þar sem er meira en í lagi að elska fegurðina, leikinn og horið sem rennur úr nefinu [...] Leikurinn er ýktur án þess að vera rembingslegur, hann flæðir eðlilega en er ekki sprottinn úr meðvitund um að gera eitthvað öðruvísi. [...] þráðurinn í gegnum bókina er óslitinn og það er tilgangurinn með leiknum og banalítetinu - gróteskan og leikurinn eru notuð til að grafa undan textanum um leið og hann er lesinn."

Dóminn í heild sinni má lesa í DV 25.04.2006. (bls. 20).

Þess má reyndar geta að þetta er ekki í fyrsta skipti sem Örvar fær góðan dóm í DV, en hann var valinn einn af fjórum kynþokkafyllstu piparsveinum landsins af blaðinu fyrir fáeinum vikum síðan, ásamt Gilzenegger, Óla Geir "Herra Ísland", og Pétri Jóhanni grínista.

föstudagur, apríl 21, 2006

Hildur sigurskáld!

Nú er komið í ljós hver er seinni Nýhilistinn í ljóðasamkeppni Eddu og Fréttablaðsins, og er það engin önnur en Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, sem sveiflar sér fram á ljóðvöllinn með kvæðið Sweet Jane - ósigrandi bítkvæði sem minnir einna helst á Frank O'Hara á góðum degi.

Nýhil segir: JA L7 í síma 1900.

Eins og áður hefur verið sagt frá tekur Óttar Martin Norðfjörð líka þátt, en eftir á að tilkynna um glæstan sigur hans á Atla Bollasyni.

Myndin hér að ofan er af Hildi við upplestur á kajanum í Bolungarvík í hávaðaregni, og ef maður leggur vel við hlustir má heyra í strumpum... nei stórvirkum vinnuvélum sem mylja undir sig allt heilagt og gott fáeinum metrum aftar á höfninni.

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Norrænar bókmenntir heiðraðar á Bókakápunni 2005!Hönnun ljóðabókaseríu Nýhils, Norrænar bókmenntir, hlaut í dag sérstaka viðurkenningu fyrir athyglisverða bókaframleiðslu á verðlaunaafhendingu prentsmiðjunnar Odda, 'Bókakápan 2005'. Myndskreytingu og hönun bókanna önnuðust þau Kristín Eiríksdóttir, Haukur Már Helgason og Örvar Þ. Smárason, sem veitti viðurkenningunni og sérlegum verðlaunagrip móttöku, auk blóma og kossaregns. Dómnefnd hafði þau orð um útlit seríunnar að það 'sendi allri upphafningu langt nef'. Húrra, og til hamingju Stína, Haukur og Örvar!

Nýhil í Laufskálanum


Nýhilistinn Eiríkur Örn Norðdahl var gestur Finnboga Hermannssonar í Laufskálanum á Rás 1 í morgun. Í þættinum stamaði Eiríkur einhverju út úr sér um ljóðlist og Nýhil. Þess má reyndar geta að Eiríkur var í þreyttari kantinum eftir fimm daga rokkhátíð á Ísafirði þegar hann mætti í hljóðstofu svæðisútvarpsins. Heyra má viðtalið við Eirík á vef Ríkisútvarpsins næstu tvær vikurnar. Smellið hér.

Óttar Martin sigurskáld!


Í ljós hefur komið að einn þátttakenda í ljóðasamkeppni Eddu og Fréttablaðsins er úr röðum Nýhils. Um er að ræða engan annan en hinn knáa Óttar Martin Norðfjörð. Óttar etur í dag kappi við Grapevine-blaðamanninn Atla Bollason, þann arma hund sem vafalaust fær að hníga í duftið fyrir ljóðrænum almætti Óttars. Nýhil segir: Sendið smáskilaboðin JA L3 í síma 1900, og verið með sigurvegaranum í liði.

Orðrómur hefur verið á kreiki þess efnis að Óttar sé ekki eini Nýhilistinn í átta manna úrslitum keppninnar. Við bíðum spennt eftir að sjá framhaldið...

Þess má svo geta að á minnsta kosti tveimur bloggum er bloggað um ljóðin. Annars vegar er það Eiríkur Örn Norðdahl, og hins vegar Ásgeir H. Ingólfsson. Fréttablaðið, með ljóðum dagsins, má lesa á www.visir.is.

Nýhil brillerar á myspace

Nýhil hefur náð stórkostlegum árangri á Myspace síðustu vikurnar. Búið er að skoða Nýhil-prófælinn alls 279 sinnum þegar þetta er skrifað, Nýhil á 47 vini og hefur fengið fimm komment.

En eins og það væri ekki nóg! Búið er að bæta inn ljóðalestrum á síðuna. Þar má heyra Ófeig Sigurðsson lesa úr óútgefnu meistaraverki sínu Roðanum, það má heyra Böðvar von Brutale syngja lagið Raxö ðiv aná, Haukur Már Helgason fjallar um gereyðingavopn í Írak og Eiríkur Örn Norðdahl mallar naglasúpu. Gera má ráð fyrir að skipt verði reglulega um upptökur og er áhugasömum einfaldlega bent á að fylgjast með.

mánudagur, apríl 10, 2006

Okkur vantar svo kassa og búðarborð

Hæ hó. Er ekki einhver þarna úti sem á kassa, löggiltan, notaðan, sem hann langar til að gefa Nýhil í nýju búðina sína? Nú eða jafnvel fínt búðarborð? Við tækjum slíku fegins hendi. Humm humm. Nýhil.

föstudagur, apríl 07, 2006

Hver er iðnaðarmaðurinn?


Undirbúningur fyrir opnun Nýhilbúðarinnar stendur nú sem hæst, og hafa meðlimir flykkst upp á Laugaveg til að mála, setja upp hillur og hlaða inn húsgögnum. Við þessi störf hefur Nýhil notið dyggrar aðstoðar rafvirkjans hugljúfa, Friðriks Sólness. En það er þó ekki hinn löggilti rafvirki sem á heiðurinn af þessari glæsilegu 'skoru' – heldur einn af meðlimum Nýhils. Spurt er: Af hverjum er myndin, hver er þessi Nýhilmeðlimur sem gæti átt framtíðina fyrir sér sem iðnaðarmaður?
Sigurvegari úr vonduljóðakeppninni gerir það gott á erlendri grundu!

Dagblaðið Guardian auglýsti á dögunum eftir ljóðum í hækuformi sem fjölluðu um gjaldmiðilinn evruna. Ein þeirra hækna sem valin var í hóp allra bestu hæknanna var eftir Örn Úlfar nokkurn Sævarsson, sem eins og margir kannski muna lenti í öðru sæti í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist, með ljóð sitt Ömurlegasta ljóð á Íslandi. Örn er í kjölfar Íslandsmeistaramótsins farinn að gera það gott erlendis, og óskar Nýhil honum hjartanlega til hamingju með árangurinn.

Hæka Arnar Úlfars hljómar svo:

Maybe it will hold
The new european gold
Just like we were told

Nálgast má aðrar evruhækur sem þóttu góðar á heimasíðu Guardian.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

G.Eva valtaði yfir keppinautana!

Guðrún Eva Mínervudóttir hefur lagt íslenskar bókmenntir að fótum sér með stórvirkinu Yosoy. Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss, og hefur nú hlotið menningarverðlaun DV að auki . Nýhil er hæstánægt með þessa niðurstöðu, sem þykir sérlega verðskulduð meðal færustu sérfræðinga Nýhils í bókmenntum, stórkostlegheitum og almennri velferð mannkyns. Nú keppist hver kjaftur við að komast að kinnum G.Evu til hamingjuóska og knúserís, og má til sanns vegar færa að framkvæmdastjóri Nýhils, Þór Steinarsson, hafi verið allra kjafta fyrstur er hann smellti einum á skáldkonuna mikilfenglegu í ágúst síðastliðnum.

Hipp hipp húrra! Hipp hipp húrra! Hipp hipp húrra!
Nýhilisti lifir af

Hættuástandi var lýst yfir í herbúðum Nýhils á Vestfjörðum í gær, og voru 6 hús rýmd í Bolungarvík þegar brýnnar á Sigmundi Erni voru komnar niður fyrir mið augu. Einn björgunarsveitarmaður fótbrotnaði þegar hann lenti á milli bíla við störf sín á Súðavíkurhlíð. Þá spurðist til bónda sem bjargaði konu í Ísafjarðardjúpi í gærkvöldi. Ekki er á þessari stundu ljóst hver bóndinn var, hver konan var, eða frá hverju hann bjargaði henni. Að sögn Eiríks Arnar Norðdahl, fulltrúa Nýhils á Vestfjörðum, var veðurofsinn slíkur að vart sá út úr augum. "Ég hljóp í gegnum bæinn í gær til að hjálpa móður minni að bera húsgögn, og þurfti að feta mig áfram eftir minni sökum hríðarinnar", segir Eiríkur. Veðrið gekk niður í nótt samhliða almennri hysteríu landans og er nú fjarska bjart í Vestfjarðaútibúinu enda snjór upp um allar hlíðar og yfir öllum vegum, húsum, skáldum og gangstéttum. Samkvæmt óformlegri rannsókn Nýhils tekur það um eina mínútu fyrir augu meðalmannsins að venjast við þegar hann kemur að utan inn í hús. "Maður fetar sig bara um eftir minni" segir Eiríkur.

Myndin hér að ofan var tekin þegar Nýhil túraði norðanverða Vestfirði fyrir fáeinum misserum síðan. Maðurinn með hattinn er téður Eiríkur Örn Norðdahl, konan með plasthattinn og áfengið fyrir framan hann er Hildur Lilliendahl, og sposki maðurinn með sólgleraugun er Steinar Bragi Guðmundsson. Myndin er tekin á kajanum á Súðavík. Tekið skal fram að myndin er tekin um sumar.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Þetta kvak

Annað erindi þjóðsöngs Íslendinga virðist að nokkru hafa fallið í gleymsku. Meðlimir Nýhil kannast ekki við að hafa heyrt þetta erindi það sem af er öldinni og þykir því ekki seinna vænna, á þeim Drottins degi 5. apríl 2006, að vekja athygli á því kvaki:

Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
:/: Íslands þúsund ár :/:
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.
Dásamlegar hríðir Nýhilbúðarinnar

Það er allt að verða vitlaust í Nýhilbúðinni, sem opnar eftir fáeinar vikur. Eins og áður hefur komið fram er Nýhil að gera dauðaleit að íslenskum sjálfsútgáfuljóðabókum til að selja í búðinni auk þess sem verið er að ganga frá pöntunum á erlendum titlum eftir framúrstefnuskáld á borð Christian Bök og Kenneth Goldsmith, en Bök heimsótti einmitt Ísland í boði Nýhils síðasta sumar og gerði alla agndofa sem hlýddu á upplestur hans í Klink&Bank, þeim heitna kúltúrkastala. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd er unnið hörðum höndum að uppsetningu búðarinnar, en þessi káti maður með pensilinn er enginn annar en Viðar Þorsteinsson, hinn knái.

Auk þess að árétta þá bón okkar að sjálfsútgáfu- og smáútgáfuskáldin hafi samband við okkur (nyhil@nyhil.org) til að koma bókum sínum í sölu, langar Nýhil að bjóða velunnurum sínum að koma með innlegg í lager búðarinnar með því að stinga upp á áhugaverðum erlendum ljóðabókum til innkaupa. Sama netfang gildir fyrir uppástungurnar að sjálfsögðu. Mais bien sur.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Vel launuð vinna fyrir sjálfbæra Íslendinga!

Fjöldinn allur af atvinnuauglýsingum hefst á orðunum: „Vilt þú vinna að heiman? Vilt þú vera sjálfstæð(ur) í vinnubrögðum og ráða þínum eigin vinnutíma?“ Nýhil vill gerast svo gróft að spyrja þessara spurninga, og hnýta við þessari: „Vilt þú vinna íslenskri menningu gagn?“

Um er að ræða starf við símasölu á ljóðabókaseríunni Norrænar bókmenntir. Nýhilistar hafa selt áskriftir í gegnum síma með miklum árangri síðan í nóvember og langar okkur að bjóða vinnu við þetta starf. Unnið er þannig að greiddar verða 1.000 krónur fyrir hverja greidda seríu (sem kaupendur greiða 6.750 kr. fyrir). Viðkomandi myndi fá lista hjá Nýhil yfir vænlega kaupendur en má gjarnan líka nota eigin sambönd. Helst viljum við fá einhvern sem þekkir eitthvað til okkar útgáfu og starfsemi. Ef viðkomandi nær viðlíka árangri og Nýhilistar hafa náð við sína sölu má gera ráð fyrir góðum launum.

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Viðar Þorsteinsson, útgáfustjóra Nýhil, í síma 695-4280 eða á netfangið vidart@hi.is.

mánudagur, apríl 03, 2006

Fyrsti apríl - Nýhil drukknar í pöntunum!

The first of April, some do say,
Is set apart for All Fools' Day.
But why the people call it so,
Nor I, nor they themselves do know.
But on this day are people sent
On purpose for pure merriment.


úr Poor Robin's Almanac frá árinu 1790

Menn hafa velt fyrir sér uppruna gabbhefðar fyrsta apríl næstum því jafn lengi og menn hafa stunda göbbin. Samkvæmt áreiðanlegustu upplýsingum Nýhil var fyrsta aprílgabbið þegar einhver tók sig til og flutti sjálf áramótin frá 1. apríl til 1. janúar, og olli það að sögn miklum ruglingi.

Hinir allra glöggustu, glámskyggnustu, gerustu og bestsamansettu lesendur Nýhilbloggsins hafa sjálfsagt séð í gegnum aprílgabbið með ljóðabók Tandra Árdál, Ítalskar nætur, en það breytir því þó ekki að þá tvo sólarhringa sem gabbið fékk að standa óleiðrétt rigndi inn pöntunum fyrir bókina. Nýhil biður þá sem létu gabbast forláts en flissar í kragann.

laugardagur, apríl 01, 2006

Ítalskar nætur e. Tandra Árdal


Nýhil kynnir með gleði nýjasta stolt sitt: Ítalskar nætur eftir Tandra Árdal. Bókin er önnur í röð ljóðabóka Tandra og sú fyrsta sem kemur út hjá Nýhil.
Tandri hefur á undanförnum árum dvalist mestmegnis í Suður-Evrópu, og er bókin afrakstur af dvöl hans í Toscana á Ítalíu. Ítalskar nætur er óður til ástarinnar og listarinnar ekki síður en til fegurðarinnar í ítölsku landslagi og menningu. Í verkinu tekst höfundur á við ást, list, líf og náttúru á harmrænan en oft ljúfsáran hátt.
Um fyrri ljóðabók Tandra, Vindurinn í Provance (Skákprent, 1999), sagði gagnrýnandi Morgunblaðsins: „Ljóðsjálfið í verkinu er leitandi ferðalangur sem spyr sig líkt og barn frammi fyrir brimróti tímans: Hver er ég? Svörin eru ekki ódýr líkt og ferðalag ljóðsjálfsins leiðir í ljós, en lesandinn verður margs vísari með glöggum augum Tandra Árdal. Með bók þessari sýnir hann fram á ótvíræð tök á háleitum viðfangsefnum.“
Ítalskar nætur, sem er 90 blaðsíður að lengd, fæst í öllum betri bókabúðum á viðráðanlegu verði, en beint frá útgefanda á aðeins kr. 1.150 með því að senda póst á netfangið nyhil@nyhil.org
Í bókinni er m.a. að finna ljóðið „Eilífð“, en það er tileinkað Antonio Santori, einu ástsælasta ljóðskáldi Ítala á 20. öld, sem jafnframt er mikill áhrifavaldur í skáldskap Tandra.Eilífð

– til Antonios SantorisStrand lína Toscana – ó, ert þú líkt og útlínur fagurrar konu?

Glepur þú mig kona?

Eilífð ástarinnar, eins og eilífð eilífða

– í þér vil ég gleyma öllu, öllu sem ég hef skilið að baki.

Ég hef nú gefið mig listinni á vald

– hún kemur til mín í draumi, líkt og músa í draumi

Tocchi le mie anche e lascilo amarlo

Li bevo come bottiglia di vino

Ítalía

Faðmur þinn er líkt og faðmur fallegrar konu

Kornin á ströndinni eru líkt og spor lífs míns

Lyktin af vín viðnum er höfug

Hún stígur mér til höfuðs

Líkt og skáldskapur Antonios Santoris

Ég leita

ástarinnar listarinnar

Ég leita þín Ítalía