fimmtudagur, desember 20, 2007

miðvikudagur, desember 19, 2007

Sekúndu nær dauðanum - vá tíminn líður!


Ágæta þjóð.

Nýhil kynnir í auðmýkt sinni:

Sekúndu nær dauðanum - vá tíminn líður! eftir Ingólf Gíslason.

Um er að ræða magnaða ljóðabók eftir hinn bitra en geðþekka stærðfræðing
sem er hvað þekktastur fyrir róttækar þýðingar sínar í hinni rammpólitísku bók, Handsprengju í morgunsárið, og grein sína Vængjaþytur stærðfræðinnar í Tímariti um raunvísindi og stærðfræði. Tekist á við stríð, pólitík, ástina, ekki síst holdlegar birtingarmyndir hennar, og brotalamir samtímamenningar.Trúin á framfarir svitnar og emjar í faðmlagi kaldhæðninnar í þessari bók sem kennir okkur lexíuna „einlægni er líka gríma.“

Leiðbeinandi söluverð er 2.000 krónur og bókin er til sölu í öllum helstu bókabúðum.

Frekari upplýsingar um bókina er hægt að fá hjá Ingólfi á ingog@internet.is eða í síma 698-0422

mánudagur, desember 17, 2007

Ókeypis bók og Súfistakvöld

Kæru vinir,
Nýhil kemur seint til byggða líkt og illa uppalinn ellegar timbraður jólasveinn. En þegar Nýhil lætur á sér kræla, þá getur jólakötturinn pakkað saman.

Besta leiðin til að gleðja ættingja, vini og elskendur þessi jólin er nefnilega að færa þeim eina af bókum Nýhils að gjöf.

Til þess að gera kaupin á Nýhils-bókinni sem auðveldust og ánægjulegust hefur félagsskapurinn ákveðið að ánafna ókeypis eintaki af hinu merka ljóðasafni ÁST ÆÐA VARPS með hverri Nýhils-bók sem keypt er í einhverjum eftirtalinna verslana nú fyrir jólin:

* Eymundsson, Smáralind * Eymundsson, Kringlunni * Eymundsson, Austurstræti * Bókaverslun Máls og menningar, Laugavegi * Bókaverslun Iðu, Lækjargötu * Bóksölu Stúdenta, Háskólatorgi

Til heiðurs jólunum efnir Nýhil einnig til upplestrarkvöld í samstarfi við Súfistann, kaffihúsið á upphæðum Bókaverslunar Máls og menningar, Laugavegi 18, klukkan 20:00 þriðjudagskvöldið 18. desember. Þar troða upp:
- Ingólfur Gíslason
- Gísli Hvanndal
- Hildur Lilliendahl
- Una Björk Sigurðardóttir
- Hljómsvetin Palindrome

Með hátíðarkveðjum og í -skapi,
ykkar,
Nýhil

fimmtudagur, nóvember 29, 2007

Kynningarsíða Fönixins!


Búið er að opna kynningarsíðu fyrir nýja ljóðabók Eiríks Arnar Norðdahl, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum, á slóðinni fonix.spekingar.com. Á síðunni má skoða myndljóð úr bókinni, endurútsett fyrir vef, hlusta á upplestra skáldsins á ljóðum úr einræðisherraseríunni og lesa valin ljóð úr hinum ýmsu hlutum bókarinnar, auk þess sem annað kynningarefni verður á boðstólum.

laugardagur, október 13, 2007

Lars Skinnebach fangað með kyndlum og heykvíslum


Ljóð Lars Skinnebachs, „Lestu mig. Ég er með stór brjóst“ sem birt var í Lesbók Morgunblaðsins í þýðingu Kristínar Eiríksdóttur um síðustu helgi, hefur vakið mikla gleði hjá landsmönnum. Harpa Hreinsdóttir, bloggari, segir ljóði ekki vera „kvæði fyrir fimm aura“ heldur sé það, þvert á móti, „viðbjóðslegt klám“. Færsluna má lesa í heild sinni hér:
http://harpa.blogg.is/2007-10-06/velsaemi-og-list-og-list/
Ykkar,
Nýhil

fimmtudagur, október 11, 2007

Upplestur á Súfistanum á laugardag

Í tilefni af þriðju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils og væntanlegri bókaútgáfu skáldahópsins, er blásið til upplestrarveislu klukkan 15 nk. laugardag – herlegheitin fara fram á Súfistanum í bókabúð Máls og menningar Laugavegi. Þar munu tveir gesta hátíðarinnar, Angela Rawlings og Linh Dinh koma fram, auk þess sem Nýhilskáldin Eiríkur Örn Norðdahl, Gísli Hvanndal og Ingólfur Gíslason lesa upp úr verkum sínum, sem koma út innan skamms. Með kaffinu verður því boðið upp á ljóð og prósa í hæsta gæðaflokki, íslensku jafnt sem útlenskuna og að sjálfsögðu bækur með sérstökum afslætti. Að venju verður enginn svikinn af frumleika og skemmtun þegar Nýhil er annars vegar.

mánudagur, október 08, 2007

Gestur ljóðahátíðar: Angela Rawlings

Angela Rawlings er kanadískt ljóðskáld og fjöllistakona. Hún hlaut bpNichol-verðlaunin fyrir framúrskarandi skrif árið 2001 og hefur haft viðkom víða, þar á meðal hjá Mercury-útgáfunni, Lexiconjury Reading Series, Gargantua-leikhúsinu og í sjónvarpsþáttaröðinni Heart of a Poet. Hún hefur leiðbeint í starfshópum um texta og hljóð í borgarbókasafni Toronto, terminus1525.ca og við Ryerson-háskóla.
Angela ritstýrði safnritinu Shift & Switch: New Canadian Poetry ásamt derek beaulieu og Jason Christie, sem út kom hjá Mercury árið 2005. Fyrsta bók hennar var Wide slumber for lepidopterists, sem út kom hjá Coach House Books árið 2006 og var útnefnd ein af 100 bestu bókum ársins af The Globe and Mail. Bókin sú hlaut ennfremur Alcuinhönnunarverðlaunin og var tilnefnd til Gerald Lampert minningarverðlaunanna. Víður lúr var nýlega þýdd yfir á leikhúsfjalir fyrir leikhúsverkefnið Harbourfront Centre’s Hatch í Toronto.
Angela stundar um þessar mundir rannsóknir á hljóði, texta og hreyfingu með sérstaka áherslu á spuna raddar og snertingar sem hljóðræna vistfræði. Hún býr í Toronto.

„Ljóðlist a.rawlings er af öðru tagi en við erum vön. Nautnum hlaðin frumraun hennar, Víður lúr fyrir fiðrildafræðinga, örvar ekki bara umfjöllunarefni sitt heldur og sjálfan textann, vekur hann – hristir hann á stundum - upp úr geispandi syfjunni. Orðin rísa og hníga, ganga í svefni og hneppa í dá á meðan samspil þagnar og hljóms heldur lesandanum naglföstum við efnið.“
– Wanda O’Connor, Ottawa Xpress, apríl 2006.

* MYNDIR af Angelu í prenthæfri upplausn:
http://www.nyhil.org/images/angela_1.jpg
http://www.nyhil.org/images/angela_2.jpg

* ÞÝÐINGAR á verkum Angelu:
Úr "Víður lúr fyrir fiðrildafræðinga"
"Þvagleki"

* HLJÓÐALJÓÐ eftir Angelu í MP3-formi:
"Prologue" (1:22)

"Egg O Insomnia" (5:39)

"Apnea" (2:46)

þriðjudagur, október 02, 2007

Dagskrá 3ju alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils

3ja alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils - drög að dagskrá:


FÖSTUDAGUR 12. OKTÓBER

20:30 Þjóðleikhúskjallarinn: Fyrra ljóðapartí
Kynnir: Ásmundur Ásmundsson


LAUGARDAGUR 13. OKTÓBER

15:00 Súfistinn, bókaverslun M&M, Laugavegi 18: Upplestur

20:30 Þjóðleikhúskjallarinn: Seinna Ljóðapartí
Kynnir: Ingibjörg Magnadóttir


SUNNUDAGUR 14. OKTÓBER

13:00-14:40 Norræna húsið: Málþing um ljóðlist
„How unpoetic it was“ | „En hvað það var óskáldlegt“
Umræðum stýrir Birna Bjarnadóttir

15:00-16:40 Norræna húsið: Málþing um ljóðlist
„Taking Aim at the Heart of the Present” | „Ör í hjarta samtímans“
Umræðum stýrir Benedikt Hjartarson

Nýjustu fregnir af Ljóðahátíð - katalógur, dagskrá, nýjar þýðingar


Dagskrá ljóðahátíðar er farin að taka á sig mynd og má nú hlaða niður PDF-skjali af katalóg hátíðarinnar hér.

Dagskráin er svo á laufléttri jpg-mynd hér, og á textaformi í færslunni hér að ofan.

Marta Guðrún Jóhannesdóttir fjallaði um nokkra gesti ljóðahátíðar í útvarpsþætti sínum Seiður og hélog á Rás 1 síðastliðinn sunnudag, og skal mælt með áhlustun hans af mikilli geðshræringu, hér.

Tregawöttin, hinn dyggi fjölbiðill ljóðahátíðar Nýhils, standa vaktina og bæta grimmt í sarp þýðinga á verkum eftir gesti hátíðarinnar. Nýjustu aðföng eru ljóðið „Á morgun eru kerfin aftur til“ eftir Lars Skinnebach og brot úr Víðum lúr fyrir fiðrildafræðinga eftir Angelu Rawlings.

Þá skal minnt á að til að sjá allt ljóðahátíðar-tengt efni á Tregawöttum nægir að smella hér.

fimmtudagur, september 27, 2007

Fönix á þúsundkall - örfá eintök eftir - útgáfu flýtt

Forsala fjórðu ljóðabókar Eiríks Arnar Norðdahl, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum, hefur gengið vel og er nú einungis um fjórðungur forsölulagersins eftir, en líkt og kunngjört hefur verið verða fyrstu 200 eintökin af bókinni seld á sérstöku tilboði með 60% afslætti, eða á stakan þúsundkall. Í tilefni af góðum viðtökum við tilboði þessu hefur útgáfu bókarinnar verið flýtt, og mun hún koma út um miðjan október en ekki í byrjun nóvember eins og til stóð.
Athygli er vakin á að enn eru ríflega 50 eintök eftir óseld á þúsund krónur, og hægt er að festa sér eintak með því að senda skáldinu tölvupóst á kolbrunarskald@hotmail.com.
Eiríkur hefur áður gefið út ljóðabækurnar Heimsendapestir, Nihil Obstat og Blandarabrandarar, auk þess sem hann gaf út bókina Handsprengja í morgunsárið ásamt Ingólfi Gíslasyni. Þá ritstýrði hann bókinni Af ljóðum, og gaf nýlega út ljóðaþýðingasafnið 131.839 slög með bilum, þar sem finna má þýðingar á verkum 61 skálds, að mestu eftir erlend samtímaskáld. Eiríkur er einnig höfundur skáldsagnanna Hugsjónadruslan og Eitur fyrir byrjendur.

föstudagur, september 21, 2007

Angela Rawlings og Leif Holmstrand - efni á Tregawöttum

Ágætu landsmenn.

Angela Rawlings er kanadískt ljóðskáld sem mun heiðra 3ju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils, sem fram fer 12.-14. október næstkomandi, með nærveru sinni. Rawlings hefur átt geysilega frjósaman feril þrátt fyrir ungan aldur, og er ein stærsta stjarnan í kanadískri ljóðagerð. Hún gefur út verk sín, eins og ófá kanadísk ljóðskáld, hjá Coach House Press, og er undir áhrifum af LANGUAGE-poetry hefðinni. Stílbrigði og áferð tungumálsins sjálfs leika ríkulegt hlutverk í skrifum hennar, svo úr verður hrein og allt að því ómenguð lýrík, gjörsneidd fígúratívu myndmáli. Hér má hlýða á Angelu lesa ljóð úr þekktustu ljóðabók sinni, Víður lúr fyrir fiðrildafræðinga.

Þá skal vakin athygli á þýðingu sem Hjörvar Pétursson gerði á ljóði Angelu „Þvagleki“ sem birtist í Nypoesi ásamt afar skemmtilegri fónólógískri þýðingu 'til baka' á ensku sem gerð var af Hugh Thomas, undir titlinum "The Vague Lucky."

Leif Holmstrand hefur einnig dreift hljóðbylgjum á öldur netsins, og má lesa samantekt um nokkur hljóðaljóð-verk hans á Tregawöttunum.

mánudagur, september 17, 2007

Póstmódernískur sitúasjónisti þýðir Baudelaire, en kemur líka á ljóðahátíð

Surrealism meets poetry-as-noise meets 17th century dissidents and refusers. Teasing hints of folk classics (she walked through the fair) are inserted into chance texts and suggestive vocabulary which may just lead you up a garden path. Sometimes the ride is worthwhile but hold onto your hat. - Steve Spence um Blade Pitch Control Unit eftir Sean Bonney

Einn af dularfyllstu gestum Alþjóðlegu Ljóðahátíðar Nýhils sem fram fer 12.-14. október næstkomandi er Bretinn snarhenti Sean Bonney. Bonney yrkir prósa og ljóðrænu af margvíslegum toga, og er ef til vill þekktastur fyrir framúrstefnulegar og undirfurðulegar "þýðingar" sínar á ljóðum Baudelaires, sem birtar hafa verið hinu virta ljóðavefriti Onedit. Prósaverk Seans eru hins vegar meira í ætt við einhvers konar póst-módernískan sitúasjónisma, en ljóð sem nú hefur birst á Tregawöttum ber því ágætis vitni.

sunnudagur, september 16, 2007

Forsala Fönixins hafin: Þúsundkall!

Í byrjun nóvembermánaðar kemur út ljóðabókin Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum eftir Eirík Örn Norðdahl, hjá Nýhil. Bókin, sem er vel ríflega 200 síður, inniheldur m.a. 50 blaðsíðna ljóðabálk um liðhlaupa úr Þorskastríðinu, 8 blaðsíðna ljóðahljóðabálkinn Einræðisherrarnir, og 60 blaðsíðna róttæka endurvinnslu á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, auk ljóðsins Parabólusetning, sem hlaut viðurkenningu í Ljóðstafi Jóns úr Vör fyrr í ár, og fjölda annarra ljóða, bæði ljóðmælandi og framúrstefnandi nýmæla í íslenskri ljóðagerð. Þá skrifar Ingólfur Gíslason formála að bókinni, Haukur Már Helgason er höfundur miðmála og eftirmálann ritar Bryndís Björgvinsdóttir.

Prentkostnaður er höfundum og forlögum oft þungur róður, og því hefur Nýhil gripið til þess ráðs að selja verk þetta í forsölu á verði sem varla á sinn líka, þar sem gefinn verður 60% afsláttur af útsöluverði, sem verður 2.500 krónur, og bókin seld á sléttan þúsundkall.

Ath.: einungis 200 eintök verða seld í forsölu.

Á kápu bókarinnar lýsir ljóðskáldið Valur Brynjar Antonsson bókinni svo: „Nú í þessa tíð þarf eitthvað eins og öxulveldi hins illa, öxul yfir vötnin, öxul sem spannar Ísafjörð, flugstöð Leifs Eiríkssonar og Helsinki City, til að skjóta fallbyssukúlum í hnakkann á hversdagsleikanum, töfrunum og einfaldleikanum. Nú þurfum við hryðjutíð, fellalög og kannski ekki síst hreðjatök, því að þegar kemur að Estrógeni, þá sýnir Eiríkur að „less is more“.“

Bókina er hægt að panta með að senda skáldinu póst á netfangið kolbrunarskald@hotmail.com.

föstudagur, september 14, 2007

10 þúsund tregawött eru fjölbiðill 3ALN

Tekist hefur samkomulag við framsæknasta ljóðamiðil Íslendinga, 10 þúsund tregawött, um að sá síðarnebdi taki að sér að hlutverk "media partners" ellegar "fjölbiðils" 3ju Alþjóðlegu Ljóðahátíðar Nýhils. Tregawöttin hafa um langt skeið verið eini vettvangur öflugs þýðingastarfs á samtímaljóðlist, og fer því vel á að þýðingar og kynningar á verkum gesta ljóðahátíðar fari þar fram.
Nálgast má allt efni á Tregawöttunum sem snýra að 3ALN með því að smella á þar til gerðan flokk.
Góðar stundir,
V.

þriðjudagur, september 11, 2007

Gestir ljóðahátíðar byrjaðir að rokka

Einn af þeim ástsælu rithöfundum sem sækir landið heim í tilefni 3ju ljóðahátíðar Nýhils er kraftaköggullinn Linh Dinh. Hann er marverðlaunaður bæði sem prósahöfundur og ljóðskáld, en verk hans eru oftar en ekki refleksjónir um gildrur tungumálsins. Sjálfur er Dinh tvítyngdur, fæddur í Víetnam en uppalinn í BNA. Hann hefur tekið að blogga hér. Á Tregawöttunum má einnig sjá Linh Dinh lesa upp.

Þá hefur Eiríkur Örn Norðdahl snarað ljóði eftir Svíann hugumprúða Leif Holmstrand yfir á íslensku, og birt á þeim sömu Tregawöttum. Leif er rithöfundur sem jafnframt hefur gert það gott á öðru sviði, líkt og á við marga meðlimi Nýhiles -- en Leif þykir mjög upprennandi myndlistarmaður í Svíþjóð.

sunnudagur, september 09, 2007

3ja aljóðlega ljóðahátíð Nýhils


Ágætu landsmenn.

Nýhil blæs til sinnar 3ju alþjóðlegu ljóðahátíðar. Hún mun fram fara í Reykjavík 12.-14. október og hafa eftirtalin erlend skáld staðfest komu sína:
- Lars Skinnebach
- Leif Holmstrand
- Markku Paasonen
- Vilja-Tuulia Huotarinen
- Sean Bonney
- Angela Rawlings
- Linh Dinh

Á næstu dögum birtast kynningartextar um skáldin auk þess sem dagskrá verður auglýst.

N.

miðvikudagur, júlí 04, 2007

Eiríkur Örn Norðdahl ritar tímamótagrein í Nypoesi


Nýlega birtist á heimasíðu Nypoesi grein eftir Eirík Örn Norðdahl sem nefnist "The importance of destroying a language (of own's one) TAKE TWO". Nypoesi er frábært norrænt tímarít um framsækna ljóðagerð, en ritgerð Eiríks hefur þegar vakið athygli í alþjóðlegum listakreðsum, því stórbokkinn Charles Bernstein linkar í hana af bloggi sínu og segir: "Eiríkur Örn Norðdahl a young Icelandic poet has just published a terrific essay on new transnational poetry". Lesið hina terrifísku esseiju HÉR.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Money, money!


Fimmtudaginn næstkomandi (10. maí) afhendir útgáfuforlagið Nýhil
Mæðrastyrksnefnd allan ágóða af sölu metsölubókarinnar Hannes –
Nóttin er blá, mamma eftir Óttar M. Norðfjörð. Fer afhendingin fram í
húsakynnum Mæðrastyrksnefndar að Hátúni 12 og hefst klukkan 15:00.

Hannes – Nóttin er blá, mamma er 1. bindi í ævisögu Hannesar
Hólmsteins Gissurarsonar. Hún kom út fyrir síðustu jól og sat í
margar vikur í efsta sæti metsölulista Eymundsson og varð jafnframt
ein mest selda bók ársins. Ágóði af sölu bókarinnar reyndist rúmlega
300.000 kr.

Von er á 2. bindi ævisögu Hannesar, Hólmsteinn, 1. nóvember 2007 og
mun allur ágóði hennar einnig renna til nefndarinnar.

Frekari upplýsingar veitir Óttar M. Norðfjörð í síma 866-9276,
netfang ottarmn@gmail.com

laugardagur, maí 05, 2007

Fádæma vinsældir Handsprengju í morgunsárið

Nýjasta afurð Nýhils, ljóðabók Ingólfs Gíslasonar og Eiríks Arnar Norðdahl, fer afburða vel af stað enda lesendur einróma um að bókin sé bæði hin skemmtilegasta og áhugaverðasta. Meðal annars segir bloggarinn Þór Steinarsson að bókin sé "skemmtilegasta og vandaðasta ljóðabók sem ég lesið í langan tíma."

Silja Aðalsteinsdóttir, hjá Tímariti Máls og menningar segir baráttukvæðin bæði öflug og skondin, og hnýtir við að hún sé þó einna hrifnust af sjálfum höfundarlýsingunum.


Haukur Már Helgason segir bókina "skíra með brennisteini".


Þórdís Gísladóttir segir m.a. á síðu sinni: "Þið eigið auðvitað öll að kaupa þessa bók og lesa ykkur til gleði á meðan kosningaáróðurinn bylur á okkur öllum einsog stormur sem fyllir augun af sandi (og gerir bílrúðurnar mattar). [...] Verðinu er stillt í hóf, ég fullyrði að þið hafið öll efni á að kaupa ykkur Handsprengju í morgunsárið og þó þær væru tvær."


Og Þröstur Helgason, sjálfur generáll Lesbókarinnar, segir bókina "forvitnilega" í pistli sínum í dag.


Í tilefni af því hefur Handsprengjan eignast sitt eigið Moggablogg!


Í viðtali við Nýhil í dag segjast Eiríkur og Ingólfur hrærðir og hissa. Þeir segjast í raun ekki hafa neina fyrirmynd að skrifunum, þau séu fyrst og fremst gerð til að hafa gaman af þeim.


Og nú er hægt að festa kaup á bókinni á netinu! Kíkið inn hjá Eymundsson!

laugardagur, apríl 28, 2007

Handsprengja í morgunsárið

Kæri heimur - fjölmiðlamenn, oflátungar, krúsídúllur, einræðisherrar og allra þjóða yndislingar.

Bomburnar eru byrjaðar að falla, sírenuvæl fyllir allar hlustir, vessar Íslendinga flæða niður torg og götur - það er kortér í kosningar og byltingin er á síðasta söludegi! Aldrei hefur riðið meira á að Nýhil, eina forlag Íslands sem eitthvað mark er á takandi, stolt eins og þaninn vindhani með brjóstið upp í norðangarra, kynni komandi dagskrárlið: Ljóðabókina Handsprengja í morgunsárið - baráttukvæði.

Í téðri bók, sem líkja má við hryðjuverkamann sem sprengir sig í tætlur á leiðinni Kleppur-Hraðferð (frítt í strætó), er að finna ljóðaþýðingar Ingólfs Gíslasonar og Eiríks Arnar Norðdahl. Í fyrri hluta bókarinnar eru ljóð eftir útlendan óþjóðalýð á borð við Radovan Karadzic, Saddam Hussein og Osama bin Laden, en í þeim síðari er það innlendur óþjóðalýður sem purkunarlaust er beygður í duftið þar sem þeir Ingólfur og Eiríkur fara hamförum í svonefndum róttækum ljóðaþýðingum þar sem hinn ljóðræni kjarni hefur verið mergsoginn úr ræðum, textum, ummælum, ljóðum og greinum manna á borð við Jón Magnússon, Valgerði Sverrisdóttur og Egil Helgason - svo eftir situr ekkert nema nakinn sannleikurinn um fólkið sem þið þóttust þekkja úr sjónvarpsfréttunum.

Formlegur útgáfudagur bókarinnar er baráttudagur verkamanna, 1. maí, við upphaf hins afturgengna sumars ástarinnar, 2007.

Kápu hannaði Goddur.
Haukur Már Helgason á eina þýðingu í bókinni.

EFNISYFIRLIT

1. hluti

Handsprengja í morgunsárið - Radovan Karadzic
Dragðu sverðið - Saddam Hussein
Tími rúmbunnar - Silvio Berlusconi
Eldklerkur dögunar - Ernesto Che Guevara (f. Fidel Castro)
Þér eruð Túrkmenar - Saparmurat Niyazov (Túrkmenbasí)
Þýskar stúlkur ávarpa Foringjann - óþekktar stúlkur í Hitlersæskunni
Adolf Hitler - óþekktur meðlimur austurrísku Hitlersæskunnar
Ferðalag barns sem hefur yfirgefið land helgidómanna - Osama bin Laden
Vín ástarinnar - Ayatollah Khomeini
Erindi úr kvæðinu Líf - Ronald Reagan
Óþekktir hermenn - Avraham Stern
Kjarnorka - Harry Barnard, liðþjálfi

2. hluti

Besti dagur lífs míns - Björn Bjarnason
Þjónn, það er hakakross á nasistafánanum mínum - Jón Magnússon
Jöfnuður er góður en við verðum ga ga ef við gáum ekki að okkur - Egill Helgason
Ekkert áhyggjuefni - Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Lowest energy prices - Davíð Oddsson
Fram til Draumalandsins! - Jón Sigurðsson
Ísland er nú herlaust land (hugsun til enda) - Valgerður Sverrisdóttir
Þegar ballið er búið - Geir H. Haarde
Sérálit 6. júni, 2003 - Halldór Ásgrímsson (Haukur Már Helgason þýddi)


Frekari upplýsingar um bókina er hægt að fá hjá Ingólfi eða Eiríki:

Ingólfur Gíslason:
ingog@internet.is - s. 698-0422
Eiríkur Örn Norðdahl:
kolbrunarskald@hotmail.com - s. 00 358 442 935 960 (Finnlandi).

föstudagur, mars 23, 2007

föstudagur, febrúar 02, 2007

Veru og Linus enn hampað! Og það erlendis!


Hinni myrka og magnþrungna prósasafni Jesse Balls og Þórdísar Björnsdóttur, Vera & Linus, er hampað í hástert á vefsíðum hins virta óháða bókmenntatímarits Rain Taxi. Ritdóminn skrifar Laird Hunt, og segir Veru & Linus 'a great success' en óþarft er að vitna í smáatriðum í dóminn þar eð hann má auðveldlega nálgast hér:
http://www.raintaxi.com/online/2006winter/ball.shtml

Þá vill Nýhil minna á að sjálft Morgunblaðið birti snemma á þessu ári (laugardaginn 6. janúar) afar lofsamlegan og ítarlega ritdóm í Lesbók sinni skrifaðan af Birni Þór Vilhjálmssyni, undir titlinum 'Vellíðunarlögmálið allsráðandi'. Þar segir m.a.:

„Skáldverkið um Veru og Línus er ekki
hefðbundið og lestur þess krefst ákveðinnar
þolinmæði sem og opins hugarfars gagnvart
tilraunakenndum aðferðum við textasmíðar.
… það sem gerir lesturinn
athyglisverðan og heldur lesandanum við efnið
er rík sköpunargáfa og sægur af óvæntum
myndum og hugmyndatengingum.
… listaverkið er ekki búið til svo að
neytandanum líki vel við það. Það ögrar og
ræðst á neytandann og neyðir hann, ef allt
lukkast vel, til að grípa til ofbeldis á móti.“

Verið ekki lurar og kaupið Veru og Linus hér.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007

Gefins bækur í Nýhil!


Nú er Nýhillinn þinn í góðu skapi og þegar hann er í góðu skapi, þá gefur hann bækur!

Í bókaverslun Nýhils, að Klapparstíg 25 (sama húsi og Elvis og Smekkleysa), fæst nú frí bók með hverjum tveimur keyptum bókum. Þegar þú kaupir tvær bækur færðu því eina bók til viðbótar, já eða kaupbótar, þér að kostnaðarlausu. Rosalega sniðugt! Vitanlega er borgað fyrir dýrari bækurnar og er alger óþarfi að fela það í smáu neðanmálsletri; þetta ættum við öll að vera farin að vita.

Í stuttu máli og einföldu: ‘3fyrir2’ útsala í Nýhil.
Á útsölunni eru allir Nýhilstitlar frá fæðingu þessa litla útgáfurisa og mikið úrval bókmennta frá Útlandinu.
– Kauptu t.d. 3 litlar og sætar bækur á 1000 kr.
– Kauptu 3 Norræn bókmenntaverk á 2000 kr.
– Fáðu alla 3 Nýhilnóvelana sem gefnir voru út fyrir jól, á mun ódýrara verði en annars staðar þekkist.
– Hvað sem þú gerir, ekki láta þetta frábæra tilboð fram hjá þér fara!

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Þorra-Nýhill í Stúdentakjallaranum


Nýhil þreyir Þorrann líkt og aðrir landsmenn. Á upplestrarkvöldi nk. fimmtudagskvöld í Stúdentakjallaranum munu nokkrir súrsaðir og sviðnir Nýhils-ljóðakjammar leika fyrir miklum ljóðrænum Hrunadansi, ásamt eldri ungskáldum.

Á kvöldinu koma fram ungir og kynþokkafullir talentar sem hafa sjaldan eða aldrei komið fram undir merkjum Nýhils og því er full ástæða fyrir kresin ljóðafól að mæta með lonnéttur, stigablað og loftvog.

Hrútspungarnir eru:

* Gísli Hvanndal Ólafsson
* Þórdís Björnsdóttir
* Ingólfur Gíslason
* Una Björk Sigurðardóttir
* Örvar Þóreyjarson Smárason
* Björk Þorgrímsdóttir

Staður: Stúdentakjallarinn v. Hringbraut
Tími: fimmtudagskvöldið 25. janúar kl. 20:30

EÖN fær viðurkenningu í ljóðastaf!


Nýhil getur vart á heilu sér tekið sökum stolts og raupar nú út um allan bæ, fullt gorgeirs, yfir velgengni Eiríks Arnar Norðdahl á Ljóðastafi Jóns úr Vör. Hróðum ferfallt húrra og skálum í botn. Nánari upplýsingar:
Kistan
Tregawöttin
Það var ljóðið 'Parabólusetning' sem vann Eiríki viðurkenninguna. Hip hip húrra húrra!

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Edda fær áminningu


Eins og margir muna sendi Nýhil Neytendastofu kvörtun vegna vinnubragða Eddu - útgáfu síðastliðin desember, en þá auglýsti forlagið að ævisaga þeirra, Ljósið í djúpinu, væri mest selda ævisaga landsins, þegar sannleikurinn var sá að Hannes - Nóttin er blá, mamma bar þann eftirsótta titil. Erjur forlaganna hafa nú verið leiddar til lykta og er niðurstaða Neytendastofu eindregin. Eftir að hafa leitast útskýringa á umræddri auglýsingu Eddu, með bréfi og ítrekun sem forlagið svaraði ekki, hefur Neytendastofa ályktað að auglýsingin hafi verið ósönn og brotið í bága við lög. Edda - útgáfa er jafnframt beðin um að sýna framvegis nákvæmni í auglýsingum sínum.

Nýhil óskar sjálfu sér og réttlætinu til hamingju með sigurinn!

Ályktun Neytendastofu er svohljóðandi:
"Neytendastofa sendi Eddu – útgáfu hf. bréf, dags. 7. desember sl., í tilefni erindis Nýhils til Neytendastofu, dags. 6. desember sl. Í erindinu var kvartað yfir því að í auglýsingu Eddu – útgáfu sem birtist í Fréttablaðinu 3. desember sl. segir m.a. að bókin Ljósið í djúpinu sé mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt metsölulistum. Hið rétta sé að skv. metsölulistum sem hafi verið nýbirtir á þessu tíma hafi metsölubókin í flokki ævisagna verið Hannes – Nóttin er blá, mamma. Auglýsingin sé því brot á ákvæðum 6. gr. laga nr. 57/2005 um óréttmæta viðskiptahætti. Í bréfi Neytendastofu var óskað athugasemda og skýringa Eddu – útgáfu í tilefni erindisins. Ekkert svar barst innan tilskilins frests.
Með bréfi Neytendastofu til Eddu – útgáfu dags. 21. desember sl. var erindið ítrekað og fyrirtækinu gefinn frestur til 29. desember sl. til að koma að athugasemdum og skýringum. Jafnframt var tilkynnt að búast mætti við að málið yrði afgreitt af Neytendastofu að þeim tíma liðnum. Ekkert svar hefur borist stofnuninni.
Með erindinu fylgdi m.a. útprentun af fréttavef Morgunblaðsins 30. nóvember sl. Þar segir m.a. að Hannes – Nóttin er blá, mamma sé í fyrsta sæti bóka í flokki ævisagna. Segir í fréttinni að hún byggi á könnunum sem fram fóru á Íslandi dagana 21. – 27. nóvember sl. Þar sem Edda – útgáfa hefur ekki sýnt fram á að fréttin sé röng verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að framangreind auglýsing Eddu – útgáfu sé í andstöðu við þær skoðanakannanir sem fréttin byggir á. Neytendastofa fær því ekki annað séð en að auglýsingin brjóti í bága við 6. gr. laga nr. 57/2005 um óréttmæta viðskiptahætti.
Neytendastofa beinir þeim tilmælum til Eddu – útgáfu að fyrirtækið beiti framvegis nákvæmni í auglýsingum sínum.
Virðingarfyllst f.h. Neytendastofu
Sigurjón Heiðarsson"

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Vera & Linus fær lofsamlegan dóm hjá SPD Books


Á heimasíðu dreifingarfyrirtækisins Small Press Distribution er að finna síðu þar sem starfsfólk velur sínar uppáhaldsbækur og fjallar stuttlega um þær. Neil Alger fjallar þar nú um bókina Vera & Linus eftir Jesse Ball og Þórdísi Björnsdóttur sem út kom hjá Nýhil árið 2006. Alger segir í lok dómsins: "In short, one of the best things I’ve read in a really long time." En gagnlegast er þó að lesa dóminn í heild sinni hér og síðan að kaupa bókina hér.
Eins vill Nýhil vekja athygli landsmanna á kveðskap eða prósa eftir þau sömu skötuhjú sem birtist í opnuauglýsingu frá Landsbankanum í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu á gamlársdag, en skoða má pdf af Fréttablaðinu þann dag hér og fletta upp á síðum 14-15.