föstudagur, september 21, 2007

Angela Rawlings og Leif Holmstrand - efni á Tregawöttum

Ágætu landsmenn.

Angela Rawlings er kanadískt ljóðskáld sem mun heiðra 3ju alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils, sem fram fer 12.-14. október næstkomandi, með nærveru sinni. Rawlings hefur átt geysilega frjósaman feril þrátt fyrir ungan aldur, og er ein stærsta stjarnan í kanadískri ljóðagerð. Hún gefur út verk sín, eins og ófá kanadísk ljóðskáld, hjá Coach House Press, og er undir áhrifum af LANGUAGE-poetry hefðinni. Stílbrigði og áferð tungumálsins sjálfs leika ríkulegt hlutverk í skrifum hennar, svo úr verður hrein og allt að því ómenguð lýrík, gjörsneidd fígúratívu myndmáli. Hér má hlýða á Angelu lesa ljóð úr þekktustu ljóðabók sinni, Víður lúr fyrir fiðrildafræðinga.

Þá skal vakin athygli á þýðingu sem Hjörvar Pétursson gerði á ljóði Angelu „Þvagleki“ sem birtist í Nypoesi ásamt afar skemmtilegri fónólógískri þýðingu 'til baka' á ensku sem gerð var af Hugh Thomas, undir titlinum "The Vague Lucky."

Leif Holmstrand hefur einnig dreift hljóðbylgjum á öldur netsins, og má lesa samantekt um nokkur hljóðaljóð-verk hans á Tregawöttunum.

Engin ummæli: