mánudagur, ágúst 31, 2009

Ljóti boli snýr aftur

En Nýhil var líka lausara við siðferði í gamla daga. Pólitíkin hefur sannarlega alltaf verið til staðar en hún var kannski bundnari sjálfum verkunum. Verkin kölluðu á pólitík en leyfðu ekki pólitíkinni að kalla á sig. Heyrðu ekki undir hana. En veröldin hefur líka breyst. Hefur einhver hneykslast á Nýhil síðan 2004? Það transgressívasta sem Nýhil hefur gert síðan þá var líklega Landsbankasamningurinn. Hann er kannski það eina sem hefur ruglað í veruleika fólks. Hann á í það minnsta metið í rugli.

Eiríkur Örn svarar Jóni Erni hér.

Nýhil svæfir og sker burt hárlokkana:
Af ljóðahátíð Nýhils


Jón Örn Loðmfjörð
ÞÁ: UPPHAF LJÓÐAHÁTÍÐARINNAR
Reykjavíkurborg árið 2005, það er ágústmánuður og her fólks, þar á meðal ég, hefur yfirgefið bæinn til að hanga í úrhellisrigningu. Gömlu Nýhilistarnir, sem þá voru almennt ekki orðnir þrítugir, né afvatnaðir og ekki búnir að flýja land, halda stórt ljóðapartí einhversstaðar í bænum. Eða svo skilst mér.

Ég mætti ekki, stóð inni í íþróttahúsi Vestmannaeyja, tjaldið ónothæft sökum bleytu og reyndi að drekka í mig kjark inni á salerni til að fara aftur út í rigninguna. Á meðan í Reykavík var flott ljóðapartí. Ég er enn að heyra sögur. Stundum benda vinir mínir á einhvern teprulegan spjátrung og hvísla því að mér að hann hafi breyst í skepnu á fyrstu ljóðahátíð Nýhils tvöþúsundogfimm – þó virðist allt fas mannsins benda til þess að hann sé einstaklega döll og hafi alltaf verið það. Af þessu öllu spratt svo sú ímynd sem Nýhil hefur: jaðarbókaútgáfa með nýstárlega ljóðaupplestra.


NÚ: MARKAÐSSETNING VÖRUMERKISINS NÝHIL INTERNATIONAL

Í dag er Nýhil mjög annt um þessa „arfleifð“ sína. Ef Nýhil fengi markaðsfræðing, til að velja lykilorð sín, væri ekki svo fráleitt að hann skilaði frá sér orðunum:

* róttæk (skapandi, öðruvísi, hugsa framávið)
* töff (sjálfstæð, ung, kaldhæðin )
* hress (partí, brjálaðir perfomansar).

Þetta er ekki svo ólíkt sömu hugtökum og flest, ef ekki öll, sprotafyrirtæki nota til að skilgreina sjálf sig. Orð sem hægt er að standa við án mikillrar innistæðu hjá litlum nýstofnuðum fyrirtækjum – þar vinnur yngra fólk en á hefðbundnum vinnustað – sem drekkur meira að meðaltali en eldra fólk, þykist vera róttækara að meðaltali en eldra fólk og er meira upptekið af því að vera töff að meðaltali en eldra fólk. Vinnuaðstæður er óhefðbundnar sökum skorts á fjármagni til að viðhalda eðlilegum fyrirtækjastrúktúr, vinnutímar eru því óhefðbundnari og verkskiptingapýramídinn er næstum öfugur, flestir fá að vera stjórnendur – sem lætur fyrirtækið virka meira skapandi og mjög ólíkt öðrum fyrirtækjum.

Þegar fyrirtækin svo stækka og verða risaveldi reyna þau oft að halda í skapandi ímynd sprotafyrirtækis með því að vísa í upphafið. Setja sérvitran upphafsmann í áberandi symbólíska stöðu eða klifa á næstum merkingarlausu slogani. Partí partí partí. Ljóðapartí Nýhils.

NEI! ÞAÐ VAR EKKI AÐ HEFJAST NEITT PARTÍ
Þegar ég var í grunnskóla lenti ég í vondum félagsskap að mati foreldra minna og fékk á tímabili ekki að fara út á kvöldin. Einhvern föstudaginn fann móðir mín til með mér, þar sem ég var að vorkenna sjálfum mér yfir því að hafa glatað enn öðrum föstudegi. Hún fór og sótti vidjótæki og spólur um ávaxtaflugur og líffæri Jóa á bókasafninu, lagði gulrætur á stofuborðið og ídýfu og tilkynnti mér loks að nú væri partí hjá okkur. Þetta er ekki neitt partí, sagði vanþakkláta gelgjan ég við hana.

*


Um daginn heimsótti ég einn af þeim sem tilheyrðu þessum slæma félagsskap á grunnskólaárum mínum á Selfossi. Þarna voru saman komnir allmargir vinnufélagar hans af bílaverkstæði á Selfossi og einhverjar stúlkur sem vinna á Kaffi Krús og Krónunni. Fólk sat í stólunum sínum og horfði á mig, aðkomumanninn, allar stúlkurnar of ungar til að muna eftir mér og flestir strákanna löngu búnir að gleyma mér. Gestgjafinn sat við hlið mér og fór að rifja upp gamlar sögur, þjónustustigsmun landasalanna þriggja sem við þekktum þá og öll partíin sem hann hélt þegar móðir hans beilaði á barninu til að djamma í Reykjavík.

Þetta voru margar góðar sögur, en á milli þeirra var ekkert – bara hópur Selfyssinga að reyna komst á það stig í drykkjunni að hægt væri að brosa og hlæja yfir því að djammið hafði fæðst andvana. Þegar allar sögurnar voru loks búnar og ég hafði jamm og jæjað allar tilraunir gestgjafans til að segja mér frá ástarlífi sínu, þá greip hann í hönd mína og hrópaði: „Mundu Jón þú ert hjá manninum sem heldur bestu partíin.“ Og það var satt, svona einu sinni. Svo stóð hann upp og benti á lítinn verðlaunabikar uppi í hillunni sem hann hafði unnið í billiardmóti í félagsmiðstöð Selfoss fjórtán gamall, þegar hálfur bærinn var með skæða flensu: „Ég er langbestur.“ Ég notaði tækifærið og laumaði mér til stúlku sem ég vissi að væri á leiðinni til Reykjavíkur og bað um far. „Mig langar að djamma og það er bara ekkert partí hér“

*


Vinur minn kynntist einu sinni stúlku sem hafði þann eina galla, að hans sögn, að eiga leiðinlegustu vinkonu í heimi – um það vorum við sammála. Ég sem vinur hans var alltaf dreginn með hvert sem var, svo ég gæti sinnt hlutverki mínu: að halda vinkonu hennar í burtu frá þeim. Þær tvær höfðu það fyrir reglu að hittast alltaf á föstudögum og vera með Sing Star-partí. Þangað mættum við og fleiri með svipaðar áætlanir og við. Stundum fannst þeim tveimur svo gaman að þær fóru ekki einu sinni niðrí bæ þó allir aðrir gestir væru farnir nema þær og við tveir.

Í lok partísins var hann og sæta stelpan alltaf komin í trúnó inni í eldhúsi og ég með hinni stelpunni í Sing Star. Helvítis stelpan var alltaf svo glöð þegar ég vildi hanga með henni í Sing Star, eins og aukagleðilitningur hefði festst í stóra frekjuskarðinu hennar og núna væri allt að eilífu gaman. „Jón, veistu hvað við erum að upplifa núna? Þetta er partí! Alvöru ekta partí!“

NEI! ÞETTA ER EKKI PARTÍ ÞÓ ÞÚ SEGIR ÞAÐ

21. og 22. ágúst 2009 hélt Nýhil upp á fimmtu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils. Í fréttatilkynningu var lofað ljóðapartí með átta erlendum skáldum og þrettán íslenskum. Ég taldi ekki skáldin en hef engar forsendur eða ástæður til að efast um töluna. Ég hins vegar hugsaði til partísins á Selfossi, þegar ég sá hvernig fólkið í salnum einblíndi á skáldið, aðkomumanninn, hreyfingarlaust en átti það til að forða sér kurteisislega út þegar skáldið leit undan.

Hátíðin minnti að mörgu leyti á ráðstefnu – og ekki þá skemmtilegustu sem ég hef séð. Ljóðskáldin flest ríghéldu í púltið, töluðu lágt í míkrafóninn (eða hann illa stilltur) og salurinn sýndi engin viðbrögð. Úti stóðu reykingamennirnir og ræddu um hvað Nýhil væri töff, ljóðapartíið líka og að hátíðin tvöþúsundogfimm hefði verið mega skemmtileg. Eitt skáldið las upp hálf nakið. Einn öskraði ljóðin sín. Inni var líka partí rétt eins og þá, því þetta var framhald á sama partíi. „Nýhil er töff.“ „Hvar er Eiríkur Örn?“ „Og svo lætur Egill Helgason ekki sjá sig í þetta rosalega menningarpartí?“

HVAR ER EGILL HELGASON?
Það er alþekkt að í leiðinlegum partíum sitja gestirnir með síma undir borði og reyna að redda sér öðru partíi eða einhverjum bólfélaga, til að geta löglega farið. Þeir sem hafa hvorugt reyna að fá vini sína til að koma líka, með það í huga að a) hugsanlega bjargi hann fjörinu b) hafi einhvern skilningsríkan til að nöldra yfir því hvað þetta er leiðinlegt. Það lýsir því ágætlega hversu töff og hresst Nýhil er, þegar Egill Helgason er maðurinn sem á að vera a og/eða b.

Ef Egill Helgason væri gestur í sama partíi og ég myndi ég róta í krullunum hans, og bjóða honum að ganga alla leið með andlegu samkynhneigðina sína og slá hann á rassinn. Fá mér í glas. Flissa. Spjalla. Hrópa. En ekki sitja í stól og bíða þess að Egill Helgason segi eitthvað eða bjargi fjörinu. Ef hann er ekki í partíinu þá hugsa ég ekki til hans – í alvöru, ég hef engar kenndir til hans svona dagsdaglega – og hann er síðasti maðurinn sem ég myndi treysta á til að bjarga einhverju partíi. Þó hann hafi einu sinni fengið að vera með sinn eigin áramótaþátt þar sem hann söng með Geirfuglunum, þá er hann ekki maðurinn sem bjargar partíi sem var aldrei partí.

SKÍTT MEÐ KERFIÐ! HELVÍTIS KERFIÐ!
Markaðsfræðingar Vodafone á Íslandi fengu síðasta sumar (2008) hljómveitina RASS til að spila eitthvað pönkglamur, Pétur Jóhann á trommurnar og hrópa svo klisjukenndar pönksetningar yfir. Markhópur Vodafone er ungur, heimskur, smekklaus og er þar að auki mikið í nöp við allt yfirvald. Markaðsfæðingar Vodafone sáu að þetta var um það bil sami hópur og finnst Pétur Jóhann fyndinn og er tilbúinn til að hrópa einföld slagorð ef það þykir því fá samþykki hópsins fyrir vikið. Frábær herferð.

Að sjálfsögðu hafa markaðsfræðingar Nýhils fyrir löngu gert könnun á markhópi Nýhils. Hann er feiminn, vinafár í grunnskóla, fer aldrei á mannfögnuð sem tengist ekki vinnunni, drekkur bara einn heima hjá sér yfir sjónvarpinu og þegar ráðuneytið sem hann vinnur hjá býður honum í kokteilboð. Hann bíður eftir næsta „reunion“ grunnskólans svo hann geti sannað fyrir hinum að hann hafi meikað það – í góðri skrifstofuvinnu, sé boðið í partí oft og viti mikið um menningu. Boð Nýhils er fullkomið fyrir hann og hann er ólíklegur til að þora kvarta undan leiðindum (þá myndi hann óvart opinbera vankunnáttu sína á því sem er skemmtilegt og því sem er gott)

DJÖFULL VARSTU GÓÐUR Í MORFÍS
Að lokum: Svo ég notist við líkingarfræði Vals Brynjars Antonssonar („Nýhil er ekki getnaður. Nýhil er fullnæging.“). Ljóðahátíð Nýhils er ekki árangur né áfangi. Hún er ekki útskrift. Nú eru allir búnir að taka hvíta kollinn af húfunni sinni og júbilerandi grákollar rifja upp árið tvöþúsundogfimm. Partí. Partí. Eftir kvöldið geta svo sumir farið heim til sín og horft á verðlaunabikarinn úr Morfís uppi í hillu og hugsað „Fuck ég er enn bestur!“ og brosað yfir gömlum sigri – þó enginn hugsi í alvöru um kvöldið sem afrek, þó sumir fái athygli fyrir gömul afrek.

Einu sinni sat ég á bar þar sem vel drukkinn ókunnugur maður síendurtók fyrir mér að hann hafði æft með Eiði Smára átta ára gamall og verið talsvert betri en hann. Mér leiddist röflið en fór að lokum að trúa honum, af vorkunn. Af hverju heldur Nýhil áfram að hrópa partí! partí! partí! þegar það er ekkert partí og öllum leiðist röflið? Þorir enginn að segja af vorkunn: Djöfull eruð þið ógeðslega leiðinleg?

- lommi

sunnudagur, ágúst 30, 2009

Af steypu: 5ta vers í Afbókaflokki

Nú skelfur jörð og skakast himnakroppar!

Bókstafir skríða í felur fyrir komandi fyrirsát, ljóðlistin tekur jóðsótt og fæðir nýja bók: Af steypu, fimmta vers í afbókaflokki Nýhils!

Af steypu meðhöndlar sjálfa meðhöndlun tungumálsins, setur efnið í fyrirrúm og spyr sig: Hvað á þetta allt saman eiginlega að þýða? Hvað er hægt að gera með ljóðlistinni? Myndljóð, konkretljóð, endurvinnsla, hömlur, konseptljóðlist - möguleikarnir virðast óþrjótandi. Bókin er svo stútfull af ljóðverkum og ritgerðum, bæði frumsömdum og þýddum, að bókahillur hreinlega svigna og fílefldir burðarþrælar Nýhils eru við það að kikna í hnjáliðum. Fullvíst má telja að svo veglegt rit um ljóðlist hafi ekki komið út á Íslandi í langan tíma.

Ritstjórar Af steypu eru Eiríkur Örn Norðdahl og Kári Páll Óskarsson, en meðal höfunda efnis eru Gertrude Stein, Guillaume Apollinaire, Charles Bernstein, Inger Christensen, Gyrðir Elíasson, Óskar Árni Óskarsson, Sjón og margir, margir fleiri. Leiðbeinandi verð bókarinnar er kr. 3990 og er hún til sölu í öllum betri bókaverslunum. Hún er í kiljuformi og 284 síður að lengd.

Svör við öllum spurningum veita ritstjórar:

Eiríkur: kolbrunarskald@gmail.com
Kári: kari@kommunan.is

sunnudagur, ágúst 16, 2009

Fimmta alþjóðlega ljóðahátíð Nýhils
í Reykjavík dagana 19.-23. ágúst 2009

Miðvikudagur 19. ágúst
GrandRokk kl. 21:00:
Þjófstart á hátíðina. Koverljóðakvöld – open mic/open michelle/opinn hljóðnemi. Hvert skáld les eitt ljóð úr eigin sarpi og eitt ljóð að eigin vali eftir einhvern annan.

Fimmtudagur 20. ágúst
Norræna húsið kl. 17:00:
Opnun hátíðarinnar. Upplestur norrænna gesta og léttar veitingar.
NæstiBar kl. 21:00:
Alþjóðleg vídeóljóðasýning, sett saman af Eiríki Erni Norðdahl.

Föstudagur 21. ágúst
Hjartatorg kl. 16:00:
Bókamarkaður Nýhils.
Tryggvagata 11 (áður kosningamiðstöð Vinstri grænna) kl. 21:00:
Ljóðapartí með fjórum erlendum og sex íslenskum skáldum. Tepokinn spilar að upplestri loknum.

Laugardagur 22. ágúst
Norræna húsið kl. 14:00-16:00:
Jórunn Sigurðardóttir stjórnar pallborðsumræðum um ljóðlist. Þátttakendur verða Morten Søndergaard, Vivek Narayanan, Cia Rinne, UKON, Bryndís Björgvinsdóttir, Ingólfur Gíslason og Valur Brynjar Antonsson.
Tryggvagata 11 (áður kosningamiðstöð Vinstri grænna) kl. 21:00:
Ljóðapartí með fjórum erlendum og sjö íslenskum skáldum. Fallegir menn spila að upplestri loknum.



Ljóðapartí föstudaginn 21. ágúst

Kynnir: Sigurður Pálsson

Sigurlín Bjarney Gísladóttir
Kristín Svava Tómasdóttir
Dmitry Golynko
Haukur Ingvarsson
UKON

Hlé

Kári Páll Óskarsson
Anton Helgi Jónsson
Mette Moestrup
Bryndís Björgvinsdóttir
Morten Søndergaard

Tepokinn spilar


Ljóðapartí laugardaginn 22. ágúst

Kynnir: Þórunn Erlu Valdimarsdóttir

Haukur Már Helgason
Palle Sigsgaard
Arngrímur Vídalín
Halldóra Kristín Thoroddsen
Angela Rawlings

Hlé

Ingólfur Gíslason
Hildur Lilliendahl
Cia Rinne
Valur Brynjar Antonsson
Jón Örn Loðmfjörð
Vivek Narayanan

Fallegir menn spila

laugardagur, ágúst 08, 2009

Hermann Stefánsson hættur


„Ég held ég skuldi Nýhil eina bók, svona for old times sake, no hard feelings, en að öðru leyti er ég hættur. Stjórn Nýhils hefur lofað mér því að hún komi út næstu jól.“

Mörgum þykir þetta ótrúlegt í ljósi þess að Hermann átti vinsæla bók síðustu jól, Algleymi, sem mörgum þótti ótrúlega skemmtileg og vel skrifuð.

„Æ, ég er ekkert career skáld. Ég er Gary Numan frekar en Duran Duran; allt í lagi að eiga einn og einn hittara en svo langar mig bara að fljúga rellunni minni - eða gera eitthvað annað.“

Hermann Stefánsson segist ætla að eyða næstu mánuðum á Bahamaeyjum.