laugardagur, apríl 28, 2007

Handsprengja í morgunsárið

Kæri heimur - fjölmiðlamenn, oflátungar, krúsídúllur, einræðisherrar og allra þjóða yndislingar.

Bomburnar eru byrjaðar að falla, sírenuvæl fyllir allar hlustir, vessar Íslendinga flæða niður torg og götur - það er kortér í kosningar og byltingin er á síðasta söludegi! Aldrei hefur riðið meira á að Nýhil, eina forlag Íslands sem eitthvað mark er á takandi, stolt eins og þaninn vindhani með brjóstið upp í norðangarra, kynni komandi dagskrárlið: Ljóðabókina Handsprengja í morgunsárið - baráttukvæði.

Í téðri bók, sem líkja má við hryðjuverkamann sem sprengir sig í tætlur á leiðinni Kleppur-Hraðferð (frítt í strætó), er að finna ljóðaþýðingar Ingólfs Gíslasonar og Eiríks Arnar Norðdahl. Í fyrri hluta bókarinnar eru ljóð eftir útlendan óþjóðalýð á borð við Radovan Karadzic, Saddam Hussein og Osama bin Laden, en í þeim síðari er það innlendur óþjóðalýður sem purkunarlaust er beygður í duftið þar sem þeir Ingólfur og Eiríkur fara hamförum í svonefndum róttækum ljóðaþýðingum þar sem hinn ljóðræni kjarni hefur verið mergsoginn úr ræðum, textum, ummælum, ljóðum og greinum manna á borð við Jón Magnússon, Valgerði Sverrisdóttur og Egil Helgason - svo eftir situr ekkert nema nakinn sannleikurinn um fólkið sem þið þóttust þekkja úr sjónvarpsfréttunum.

Formlegur útgáfudagur bókarinnar er baráttudagur verkamanna, 1. maí, við upphaf hins afturgengna sumars ástarinnar, 2007.

Kápu hannaði Goddur.
Haukur Már Helgason á eina þýðingu í bókinni.

EFNISYFIRLIT

1. hluti

Handsprengja í morgunsárið - Radovan Karadzic
Dragðu sverðið - Saddam Hussein
Tími rúmbunnar - Silvio Berlusconi
Eldklerkur dögunar - Ernesto Che Guevara (f. Fidel Castro)
Þér eruð Túrkmenar - Saparmurat Niyazov (Túrkmenbasí)
Þýskar stúlkur ávarpa Foringjann - óþekktar stúlkur í Hitlersæskunni
Adolf Hitler - óþekktur meðlimur austurrísku Hitlersæskunnar
Ferðalag barns sem hefur yfirgefið land helgidómanna - Osama bin Laden
Vín ástarinnar - Ayatollah Khomeini
Erindi úr kvæðinu Líf - Ronald Reagan
Óþekktir hermenn - Avraham Stern
Kjarnorka - Harry Barnard, liðþjálfi

2. hluti

Besti dagur lífs míns - Björn Bjarnason
Þjónn, það er hakakross á nasistafánanum mínum - Jón Magnússon
Jöfnuður er góður en við verðum ga ga ef við gáum ekki að okkur - Egill Helgason
Ekkert áhyggjuefni - Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Lowest energy prices - Davíð Oddsson
Fram til Draumalandsins! - Jón Sigurðsson
Ísland er nú herlaust land (hugsun til enda) - Valgerður Sverrisdóttir
Þegar ballið er búið - Geir H. Haarde
Sérálit 6. júni, 2003 - Halldór Ásgrímsson (Haukur Már Helgason þýddi)


Frekari upplýsingar um bókina er hægt að fá hjá Ingólfi eða Eiríki:

Ingólfur Gíslason:
ingog@internet.is - s. 698-0422
Eiríkur Örn Norðdahl:
kolbrunarskald@hotmail.com - s. 00 358 442 935 960 (Finnlandi).