fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Ljóð fljúga um Gáttir á vængjum þýðingaNýhil kynnir, tárvott af stolti: Gáttir / Gateways – þýðingarit 4ðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og hönnun Söru Riel.

Í tilefni af Ljóðahátíð Nýhils, sem nú er haldin í fjórða sinn, kemur út sérstakt rit með þýðingum á verkum innlendra og erlendra skálda sem koma fram á hátíðinni. Með útgáfu ritsins, sem nefnist Gáttir eða Gateways, er ætlunin að gera skáldunum sem koma fram á hátíðinni kleift að lesa verk hvers annars, sem og að kynna betur verk erlendu skáldanna. Einnig gefst mörgum upprennandi íslenskum höfundum í fyrsta sinn færi á að fá verk sín þýdd á ensku, sem vonandi verður fyrsta skrefið í landvinningum þeirra erlendis í framtíðinni. Enn fremur eru Gáttir hin glæsilegasta sýnisbók ungrar, íslenskrar ljóðagerðar.

Erlendu skáldin sem eiga verk í Gáttum eru þessi: Nina Søs Vinther (Danmörk), Ida Börjel (Svíþjóð), Hanno Millesi (Austurríki), Ann Cotten (Þýskaland), Sureyyya Evren (Tyrkland) og Morten Søkilde (Danmörk).

Eftirtalin íslensk skáld eiga jafnframt þýðingar á ensku í bókinni: Kristín Svava Tómasdóttir, Kári Páll Óskarsson, Ingólfur Gíslason, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Már Helgason, Kristín Eiríksdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Jón Örn Loðmfjörð, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ófeigur
Sigurðsson, Una Björk Sigurðardóttir og Ragnar Ísleifur Bragason.

Einnig er í bókinni stuttur texti um hvert skáld á íslensku og ensku ásamt mynd.

Ritstjóri Gátta / Gateways er Kári Páll Óskarsson, rithöfundur og þýðingafræðingur. Hönnun og frágangur bókarinnar, sem er einkar glæsilegur, var í höndum myndlistarkonunnar Söru Riel. Það er Prentsmiðjan Oddi sem prentaði bókina, en Nýhil og Oddi eiga í samstarfi um framsækna bókagerð. Bókin verður til sölu á 1500 krónur á öllum viðburðum ljóðahátíðar Nýhils, og í bókaverslunum eftir helgi. Bókin er harðspjalda og 109 síður að lengd.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Ljóðahátíð Nýhils 2008 – dagskrá

Föstudaginn 22. agúst


16:00-17:30
Setning ljóðahátíðar, móttaka í Norræna húsinu

20:00-23:00
Ljóðapartí # 1, Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Hanno Millesi, Morten Søkilde, Ann Cotten, Linda Vilhjálmsdóttir, Ófeigur Sigurðsson, Kári Páll Óskarsson, Kristín Svava Tómasdóttir, Haukur Már Helgason og Una Björk Sigurðardóttir. Tónlist: Ólöf Arnalds. Kynnar: Fræði & framkvæmd

Laugardaginn 23. ágúst


13:00-14:30
Ljóðlistin í Ríki Sjoppunnar – málþing um samtímaljóðlist, Norræna húsinu. [sjá nánar hér]

18:00-19:00
Ljóðalestur – skandinavískir gestir hátíðarinn lesa upp, Norræna húsinu. Ida Börjel, Morten Søkilde, Nina Søs Vinther

20:00-23:00
Ljóðapartí # 2, Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins. Sureyyya Evren, Ida Börjel, Nina Søs Vinther, Eiríkur Örn Norðdahl, Örvar Þóreyjarson Smárason, Ragnar Ísleifur Bragason, Jón Örn Loðmfjörð, Kristín Eiríksdóttir og Ingólfur Gíslason. Tónlist: The Diversion Session. Kynnar: Fræði & framkvæmd

Sunnudaginn 24. ágúst


14:00-16:00
Líf ljóðabókanna – málþing um óháða útgáfustarfsemi og ljóðabókaútgáfu á Íslandi og erlendis, Þjóðminjasafninu. [sjá nánar hér]

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Kristín Eiríksdóttir, myndlistarkona og skáld. Helstu stuðningsaðilar eru Norræna húsið, Reykjavíkurborg, Clara Lachmanns fond og Prenstmiðjan Oddi. Í tilefni hátíðarinnar kemur út veglegt þýðingarit,Gáttir/Gateways, í ritstjórn Kára Páls Óskarssonar og hönnun Söru Riel. RÚV tekur dagskrá hátíðarinnar upp í heild og gerir í kjölfarið skil í þáttum sem útvarpað verður á Rás 1. Frítt er inn á alla viðburði ljóðahátíðar Nýhils.

Sjá fréttatilkynningu í heild sinni hér

Líf ljóðabókanna – málþing um útgáfu ljóðabóka og óháða útgáfustarfsemi

Á 4ðu alþjóðlegu ljóðahátíð Nýhils fer fram málþing um stöðu ljóðabókaútgáfu og óháðrar útgáfustarfsemi í hnattrænu samhengi. Málþingið stendur milli klukkan 14:00 og 16:00 í sal Þjóðminjasafns Íslands, sunnudaginn 24. ágúst.

Jón Karl Helgason, bókmenntafræðingur, stýrir umræðum. Jón Karl hefur að undanförnu unnið að rannsókn um ævi og störf Ragnars í Smára, eins stórtækasta velgjörðarmanns íslenskrar bókaútgáfu á tuttugustu öld.

Stuttar framsögur munu flytja þau Sureyyya Evren frá Tyrklandi og hin danska Nina Søs Vinther. Evren og Vinther eru bæði starfandi rithöfundar, en hafa jafnframt komið beint að útgáfumálum í heimalöndum sínum, sá fyrrnefndi sem ritstjóri róttæks menningartímarits og sú síðarnefnda sem útgáfustjóri rithöfundaforlagsins Arena sem undir hennar stjórn hefur gengið í endurnýjun lífdaga.

Með þeim í pallborði sitja þau Viðar Þorsteinsson, stjórnarformaður Nýhils, og Silja Aðalsteinsdóttir, fráfarandi ritstjóri Tímarits Máls og menningar og verðandi útgáfustjóri Máls og menningar innan Forlagsins.

Búast má við að drepið verði á ýmsum málefnum sem snerta útgáfustarfsemi, en íslenskur útgáfumarkaður hefur verið einkar umhleypingasamur á síðustu árum. Hver eru afdrif ljóðabóka í þeim breytingum? Geta íslenskir rithöfundar tekið málin í sínar hendur í meiri mæli og hver er reynslan af því erlendis frá? Hvaða áhrif hefur samþjöppun auðmagns í atvinnulífinu um heim allan á tjáningarfrelsið? Hvaða hundar liggja grafnir á bak við annars vegar opinberan stuðning við bókaútgáfu og hins vegar stuðning frá einkaaðilum og fyrirtækjum?

Allt þetta og margt fleira verður rætt á æsispennandi málþingi um breyttan heim bókaútgáfunnar og örlög ljóðsins. Boðið verður upp á léttar veitingar í kjölfar málþingsins, sem markar lok fjórðu alþjóðlegu ljóðahátíðar Nýhils.

Nánari upplýsingar:
Jón Karl Helgason s. 690 3936 jkh@hi.is / Viðar Þorsteinsson s. 695 4280 vidart@hive.is

mánudagur, ágúst 18, 2008

Ljóðlistin í Ríki Sjoppunnar – málþing um samtímaljóðlist


Á ljóðahátíð Nýhils, sem fram fer í Norræna húsinu og á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins dagana 22.-24. ágúst, verður efnt til afar spennandi pallborðsumræðna með ungum skáldum frá ýmsum löndum. Skáldin eru öll sérlegir þátttakendur í hátíðinni, en það eru þau Ármann Jakobsson, lektor í íslensku við Háskóla Íslands, og Birna Bjarnadóttir, dósent og forstöðumaður við íslenskudeild Manitóbaháskóla í Kanada, sem stýra umræðunum.

Umræðurnar hefjast stundvíslega klukkan 13:00 í sal Norræna hússins, Sturlugötu 5, laugardaginn 23. ágúst, verður skipt í tvær lotur, og lýkur klukkan 14:30.

Í fyrri lotu munu Ármann og skáldin beina umræðum í farveg útfrá tveimur spurningum:
Í fyrsta lagi er spurt: leitar ljóðlistin ávallt að nýjum byrjunarreit?
Í öðru lagi er spurt: Er ljóðlist samtímans síður ljóðræn en ljóðlist fortíðarinnar?
Í pallborði fyrri lotu sitja þau Ann Cotten (Austurríki), Nina Søs Vinther (Danmörk), Süreyyya Evren (Tyrkland) og Haukur Már Helgason.

Seinni lota pallborðsumræðna hefst að loknu örstuttu kaffihléi, en þar verður spurt: Hvert er rými listarinnar í Ríki Sjoppunnar á tíma kapítalískrar neysluhyggju?
Birna Bjarnadóttir mun kría svör út úr þessum skáldum: Ida Börjel (Svíþjóð), Morten Søkilde (Danmörk), Eiríkur Örn Norðdahl og Kristín Eiríksdóttir.

Dagskrá hátíðarinnar í heild má sjá hér að neðan.
RÚV mun taka upp dagskrá allrar ljóðahátíðar Nýhils og gera henni skil í útvarpsþáttum á Rás 1 í kjölfarið.
Stuðningsaðilar ljóðahátíðar Nýhils eru Norræna húsið, Reykjavíkurborg, Clara Lachmanns fond og Prentsmiðjan Oddi.