miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Barkakýli úr tré

Út er komin ljóðabókin Barkakýli úr tré eftir Þorstein Guðmundsson grínista og rithöfund. Í henni er að finna yfir 100 einföld og stutt ljóð í anda þess fáránleika og þeirrar undirfurðulegu sýnar á hversdaginn sem hann er þekktur fyrir. Viðfangsefni Þorsteins eru margvísleg, allt frá Napóleon til Vinstri-grænna, frá bensínafgreiðslumönnum til gamla mannsins sem stofnaði Garðabæ. Bókin er kilja í vasabókarbroti og fæst í nokkrum vel völdum verslunum á stór-Reykjavíkursvæðinu og á þeim dreifbýlisstöðum sem teljast þess virði að bjóða upp á ljóð en hana má einnig nálgast með því að senda skáldinu sjálfu vinsamlegt sendibréf. Verð bókarinnar er 1.890 kr. Útgefandi er Nýhil og Eiríkur Örn Norðdahl ljóðskáld ritar formála.

föstudagur, ágúst 18, 2006

Nýhil rokkar í Bókaverslun Máls og menningar


Að Laugavegi 18 hefur um langt skeið staðið hús. Húsið var byggt fyrir blóðpeninga ógnarstjórnarinnar í Sovétríkjunum, en á íslandi voru kommúnistar fylgileppar og kvislingar þessa illa heimsveldis. En til þess að þeir gætu logið meira að fólki þá þurftu þeir að byggja hús til að selja lygar sínar í. Þá fengu þeir peninga frá Stalín og lygurum og morðingjum hans til að gera það.
Mánudaginn 21. ágúst tekur Nýhil þátt í dagskrá með fleirum (þ.á m. hljómsveitinni Fræ) sem byrjar klukkan 15:00 í Bókaverslun Máls og Menningar. Komið þangað.

Úlfhildur Dagsdóttir um Norrænar bókmenntir II


Á Bókmenntavefnum hefur nú birst ritdómur Úlfhildar Dagsdóttur um ljóðabækurnar fimm í seinna holli ljóðabókaseríunnar Norrænar bókmenntir. Úlfhildur segir "með þessari fimm bóka útgáfu hafa orðið nokkur bókmenntaleg tíðindi." Dóminn í heild sinni má lesa hér.