fimmtudagur, september 27, 2007

Fönix á þúsundkall - örfá eintök eftir - útgáfu flýtt

Forsala fjórðu ljóðabókar Eiríks Arnar Norðdahl, Þjónn, það er Fönix í öskubakkanum mínum, hefur gengið vel og er nú einungis um fjórðungur forsölulagersins eftir, en líkt og kunngjört hefur verið verða fyrstu 200 eintökin af bókinni seld á sérstöku tilboði með 60% afslætti, eða á stakan þúsundkall. Í tilefni af góðum viðtökum við tilboði þessu hefur útgáfu bókarinnar verið flýtt, og mun hún koma út um miðjan október en ekki í byrjun nóvember eins og til stóð.
Athygli er vakin á að enn eru ríflega 50 eintök eftir óseld á þúsund krónur, og hægt er að festa sér eintak með því að senda skáldinu tölvupóst á kolbrunarskald@hotmail.com.
Eiríkur hefur áður gefið út ljóðabækurnar Heimsendapestir, Nihil Obstat og Blandarabrandarar, auk þess sem hann gaf út bókina Handsprengja í morgunsárið ásamt Ingólfi Gíslasyni. Þá ritstýrði hann bókinni Af ljóðum, og gaf nýlega út ljóðaþýðingasafnið 131.839 slög með bilum, þar sem finna má þýðingar á verkum 61 skálds, að mestu eftir erlend samtímaskáld. Eiríkur er einnig höfundur skáldsagnanna Hugsjónadruslan og Eitur fyrir byrjendur.

Engin ummæli: