sunnudagur, september 16, 2007

Forsala Fönixins hafin: Þúsundkall!

Í byrjun nóvembermánaðar kemur út ljóðabókin Þjónn, það er fönix í öskubakkanum mínum eftir Eirík Örn Norðdahl, hjá Nýhil. Bókin, sem er vel ríflega 200 síður, inniheldur m.a. 50 blaðsíðna ljóðabálk um liðhlaupa úr Þorskastríðinu, 8 blaðsíðna ljóðahljóðabálkinn Einræðisherrarnir, og 60 blaðsíðna róttæka endurvinnslu á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, auk ljóðsins Parabólusetning, sem hlaut viðurkenningu í Ljóðstafi Jóns úr Vör fyrr í ár, og fjölda annarra ljóða, bæði ljóðmælandi og framúrstefnandi nýmæla í íslenskri ljóðagerð. Þá skrifar Ingólfur Gíslason formála að bókinni, Haukur Már Helgason er höfundur miðmála og eftirmálann ritar Bryndís Björgvinsdóttir.

Prentkostnaður er höfundum og forlögum oft þungur róður, og því hefur Nýhil gripið til þess ráðs að selja verk þetta í forsölu á verði sem varla á sinn líka, þar sem gefinn verður 60% afsláttur af útsöluverði, sem verður 2.500 krónur, og bókin seld á sléttan þúsundkall.

Ath.: einungis 200 eintök verða seld í forsölu.

Á kápu bókarinnar lýsir ljóðskáldið Valur Brynjar Antonsson bókinni svo: „Nú í þessa tíð þarf eitthvað eins og öxulveldi hins illa, öxul yfir vötnin, öxul sem spannar Ísafjörð, flugstöð Leifs Eiríkssonar og Helsinki City, til að skjóta fallbyssukúlum í hnakkann á hversdagsleikanum, töfrunum og einfaldleikanum. Nú þurfum við hryðjutíð, fellalög og kannski ekki síst hreðjatök, því að þegar kemur að Estrógeni, þá sýnir Eiríkur að „less is more“.“

Bókina er hægt að panta með að senda skáldinu póst á netfangið kolbrunarskald@hotmail.com.

Engin ummæli: