þriðjudagur, janúar 16, 2007

Edda fær áminningu


Eins og margir muna sendi Nýhil Neytendastofu kvörtun vegna vinnubragða Eddu - útgáfu síðastliðin desember, en þá auglýsti forlagið að ævisaga þeirra, Ljósið í djúpinu, væri mest selda ævisaga landsins, þegar sannleikurinn var sá að Hannes - Nóttin er blá, mamma bar þann eftirsótta titil. Erjur forlaganna hafa nú verið leiddar til lykta og er niðurstaða Neytendastofu eindregin. Eftir að hafa leitast útskýringa á umræddri auglýsingu Eddu, með bréfi og ítrekun sem forlagið svaraði ekki, hefur Neytendastofa ályktað að auglýsingin hafi verið ósönn og brotið í bága við lög. Edda - útgáfa er jafnframt beðin um að sýna framvegis nákvæmni í auglýsingum sínum.

Nýhil óskar sjálfu sér og réttlætinu til hamingju með sigurinn!

Ályktun Neytendastofu er svohljóðandi:
"Neytendastofa sendi Eddu – útgáfu hf. bréf, dags. 7. desember sl., í tilefni erindis Nýhils til Neytendastofu, dags. 6. desember sl. Í erindinu var kvartað yfir því að í auglýsingu Eddu – útgáfu sem birtist í Fréttablaðinu 3. desember sl. segir m.a. að bókin Ljósið í djúpinu sé mest selda bókin í flokki ævisagna samkvæmt metsölulistum. Hið rétta sé að skv. metsölulistum sem hafi verið nýbirtir á þessu tíma hafi metsölubókin í flokki ævisagna verið Hannes – Nóttin er blá, mamma. Auglýsingin sé því brot á ákvæðum 6. gr. laga nr. 57/2005 um óréttmæta viðskiptahætti. Í bréfi Neytendastofu var óskað athugasemda og skýringa Eddu – útgáfu í tilefni erindisins. Ekkert svar barst innan tilskilins frests.
Með bréfi Neytendastofu til Eddu – útgáfu dags. 21. desember sl. var erindið ítrekað og fyrirtækinu gefinn frestur til 29. desember sl. til að koma að athugasemdum og skýringum. Jafnframt var tilkynnt að búast mætti við að málið yrði afgreitt af Neytendastofu að þeim tíma liðnum. Ekkert svar hefur borist stofnuninni.
Með erindinu fylgdi m.a. útprentun af fréttavef Morgunblaðsins 30. nóvember sl. Þar segir m.a. að Hannes – Nóttin er blá, mamma sé í fyrsta sæti bóka í flokki ævisagna. Segir í fréttinni að hún byggi á könnunum sem fram fóru á Íslandi dagana 21. – 27. nóvember sl. Þar sem Edda – útgáfa hefur ekki sýnt fram á að fréttin sé röng verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að framangreind auglýsing Eddu – útgáfu sé í andstöðu við þær skoðanakannanir sem fréttin byggir á. Neytendastofa fær því ekki annað séð en að auglýsingin brjóti í bága við 6. gr. laga nr. 57/2005 um óréttmæta viðskiptahætti.
Neytendastofa beinir þeim tilmælum til Eddu – útgáfu að fyrirtækið beiti framvegis nákvæmni í auglýsingum sínum.
Virðingarfyllst f.h. Neytendastofu
Sigurjón Heiðarsson"

Engin ummæli: