laugardagur, maí 05, 2007

Fádæma vinsældir Handsprengju í morgunsárið

Nýjasta afurð Nýhils, ljóðabók Ingólfs Gíslasonar og Eiríks Arnar Norðdahl, fer afburða vel af stað enda lesendur einróma um að bókin sé bæði hin skemmtilegasta og áhugaverðasta. Meðal annars segir bloggarinn Þór Steinarsson að bókin sé "skemmtilegasta og vandaðasta ljóðabók sem ég lesið í langan tíma."

Silja Aðalsteinsdóttir, hjá Tímariti Máls og menningar segir baráttukvæðin bæði öflug og skondin, og hnýtir við að hún sé þó einna hrifnust af sjálfum höfundarlýsingunum.


Haukur Már Helgason segir bókina "skíra með brennisteini".


Þórdís Gísladóttir segir m.a. á síðu sinni: "Þið eigið auðvitað öll að kaupa þessa bók og lesa ykkur til gleði á meðan kosningaáróðurinn bylur á okkur öllum einsog stormur sem fyllir augun af sandi (og gerir bílrúðurnar mattar). [...] Verðinu er stillt í hóf, ég fullyrði að þið hafið öll efni á að kaupa ykkur Handsprengju í morgunsárið og þó þær væru tvær."


Og Þröstur Helgason, sjálfur generáll Lesbókarinnar, segir bókina "forvitnilega" í pistli sínum í dag.


Í tilefni af því hefur Handsprengjan eignast sitt eigið Moggablogg!


Í viðtali við Nýhil í dag segjast Eiríkur og Ingólfur hrærðir og hissa. Þeir segjast í raun ekki hafa neina fyrirmynd að skrifunum, þau séu fyrst og fremst gerð til að hafa gaman af þeim.


Og nú er hægt að festa kaup á bókinni á netinu! Kíkið inn hjá Eymundsson!

Engin ummæli: