þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Umfjöllun Sigurðar Hróarssonar um Gáttir í Fréttablaðinu, Föstudaginn 26. september 2008.

Fyrirmyndarbók

Lesandinn er vitaskuld alveg gáttaður á þessari bók, hún er svo falleg
og vel úr garði gerð í alla staði, svo vönduð og smekkleg að maður er alveg stúmm, eins og nafntogaður listmunur á fínu listasafni eða háð, maður þorir varla að fletta og lesa ljóðin og þýðingarnar, en þá heldur ævintýrið áfram eins og ekkert sé, gefur skít í efann, sér ekki fyrir endann, þetta batnar bara, meira eða minna. Bókin er afrakstur alþjóðlegrar ljóðahátíðar, safnrit átján höfunda, tólf íslenskra, sex erlendra, öll ljóðin birt bæði á frummáli og í þýðingu (stundum jafnvel fleiri en einni), allt til fyrirmyndar. Bókin er til vitnis um mikla grósku, borin uppi af sýnilegri trú á hlutverk ljóðsins, sígilt og síungt, rödd þess í skarkalanum, viðspyrnu þess og sjón-varp í samtíma, svar þess við klisjum fjölmiðla og dómara, trú á útúrsnúninga þess og orðumorð. Allir sem fæddir eru fyrir miðja síðustuöld ættu að lesa þessa bók til þrautar, aðrir gera það óumbeðnir vænti ég. Bókin er framhald, ekki nýtt upphaf, því síður órar um framtíð, tekur við því sem er og gerir við það eitthvað nýtt.

Eru þetta tilraunaljóð? Hvað eru tilraunaljóð? Í „Hátíðarkveðju" bjóða forsprakkar forlags og hátíðar lesendum að „kynnast því besta
sem nú er á seyði í íslenskri ljóðlist" - mér finnst þessi setning besta tilraunaljóðið í bókinni, auðmýkt setningarinnar undirstrikar dramb ljóðanna ef maður les hvort tveggja sem íróníu frá rótum, og mistekst. Í skóla heyrði ég þessa skilgreiningu á tilraunaljóði: „Tilraunaljóð eru tvenns konar, tilraun sem tekst og tilraun sem mistekst, og ef tilraunin tekst er ljóðið ekki (lengur) tilraunaljóð". Í þessu felst að tilraunaljóð er bara „eins konar"; ljóð sem mistekst. Þetta hlýtur að vera bull. Hvað er þá tilraunaljóð? Eitthvað nýtt sem á eftir að vaxa og sanna sig (eða afsanna)? Veit ekki, segir hver?, held samt að í þessari bók séu ekki tilraunaljóð, minnir of mikið á verklega eðlisfræði, þetta eru ekki skóla(stofu)ljóð. Hómó sapíens er tilraun, það var kennt í mínu ungdæmi, annars féll maður á landsprófi.

Það eru nokkur frábær ljóð í þessari bók og fallegar, tilgerðarlausar Og blátt áfram þýðingar, víðast, (á einstaka stað ber þó á þeim leiða sið að leita samheita þegar skáldið beitir endurtekningum), spennandi skáldskapur og fagleg vinnubrögð - dæmi um fyrirmyndarþýðingu á íslensku eru „Rótandi kepna" (Kári Páll Óskarsson), „Pan fafla"(EiríkurÖrn Norðdahl) og „Ef Helsinki" (KristínEiríksdóttir) - allt eru þetta líka æðisleg ljóð. Konur fara á kostum í þessari bók, hver án kapps við aðra, „Stóri hvíti maður"(Kristíne) er t.d.magnað ljóð sem beitir lesandann líkamlegum klækjum, sér ígegnum hann eins ogþriðja augað í draumi, skekur með því vídd hans og skerpir sýn hans á eigin skilning, „Neytendalögin" (Börjel) eru drepfyndin og eitruð, „Yrðing" (Cotten) er fagursköpuð og klár, „Ég hef mínar efasemdir..." (KristínSvava), ég ekki, áleitið ljóð með einkar bragðvísu myndmáli, „Hótel Blizz" (Linda) sprengir stríð með friði, kveikir mannkyni von á eigin kostnað, ég tárast, „Ox" (Una Björk) er ljóð sem mig langar sjálfan að dreyma, hvernig sem fer ... og „Ef Helsinki" (Nina Sos); gamanleikur ársins, skellið ykkur strax, áður en það er of seint. Svo gefa strákarnir þeim ekkert eftir, „hreinustu ljóð í heimi", ég segi það satt (núna).

Engin ummæli: