þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Umfjöllun Einars Fals Ingólfssonar um Þess á milli í Morgunblaðinu Laugardaginn 11. október 2008

Ástandið þegar heimar breytast

Þess á milli er ný bók, kynnt sem ljósmyndabók, en ef skilgreiningar er þörf kýs ég að kalla þetta bókverk; verk úr ljósmyndum og texta, pakkað í bókarform - sem er oft besta framsetningin á ljósmyndum.
Þess á milli fjallar um þetta millibilsástand þegar heimar breytast eða skipta um hlutverk. Þess vegna talar þessi bók á beinskeyttan hátt beint inní núið, og birtir nánast endurspeglun þessa furðulega veruleika sem við upplifum á Íslandi í dag. Veruleika sem er svo óraunverulegur, þar sem við erum stödd einhversstaðar„á milli"; í heimi sem enginn þekkir eða hefur not fyrir, eins og þeim sem birtist í ljósmyndum Ingvars Högna Ragnarssonar. Heimi sem við kusum ekki yfir okkur, heimi sem okkur datt aldrei í hug að við myndum lenda í, en þessi heimur er hér engu að síður - í himins stað hangir þung
blýhella í trosnuðum spottum yfir höfðum okkar, og við stöndum
ráðalaus í þessum heimi miðjum.

Ingvar Högni er ungur listamaður sem útskrifaðist úr Listaháskóla
Íslands fyrir einu ári. Árið 2005 ferðaðist hann um landið með
hollenska ljósmyndaranum Rob Hornstra, sem skrásetti mannlíf og
umhverfi hér á landi, eins og hann upplifði það, á ferskan og frumlegan hátt með stórri blaðfilmuvél. Afrakstur vinnu Hornstra var eftirminnileg sýning í Þjóðminjasafninu og bókin Rætur rúntsins. Engum blöðum er um það að fletta að vinnan með Hornstra hefur verið lærdómsrík fyrir Ingvar Högna. Þegar blaðað er í þessu ferska bókverki - sem er fyrsta bók hans og útgáfunnar, Nýhils – má sjá að í uppbyggingunni fer Ingvar Högni að sumu leyti svipaða leið og Hornstra. Myndir eru mismunandi í stærðum, sumar blæða, aðrar fá að anda í hvítunni; þær eru iðulega óræðar, og á milli eru handskrifaðir textar og þankabrot.

Myndheimurinn er af óræðum stað í þessu millibilsástandi, þar sem mannaverk og hlutir sem einkenna umhverfi manna eru á víð og dreif en þetta er staður sem „virkar"ekki. Veggir eru brotnir og pottablóm í pissuskálum. Sú hugsun hvarflar að manni að þetta kunni að vera heimur búinn til af listamönnum; einskonar innsetning í margbreytilegu rými. Aftast í bókinni kemur í ljós hver veruleikinn er. Þetta er heimildaskráning listamanns í yfirgefinni byggingu á dagparti í Hollandi. Þegar hann sneri síðan aftur, mögulega til að halda skráningunni áfram, var heimurinn horfinn.

Þetta er áhrifamikið verk hjá Ingvari Högna, í þessum einfalda ramma. Ef myndir hans eru bornar saman við myndir Hornstra, standa þær ekki vel í samanburðinum, blaðfilmur Hornstra sýna minnstu smáatriði, sem styrkir myndirnar verulega. Stafrænar myndir Ingvars Högna eru ekki jafnskarpar, sumar jafnvel hreyfðar. Ég sakna þess að hafa veruleikann ekki nákvæmari í myndrænni útfærslunni. En heimurinn sem birtist í verkinu Þess á milli er áhrifamikill. Við getum ekki annað en vonað að þegar okkar milliheimur hér á Íslandi hverfur, þá verði sá sem við tekur heilsteyptari og lífvænlegri.

Engin ummæli: