miðvikudagur, mars 01, 2006


Gríðarlega góð stemmning á Rosenberg í gær

Líkt og við var að búast var stemmningin kynngimögnuð á Rosenberg í gærkvöldi, þar sem Nýhil hélt sprengidagskrá sína. Haukur Már Helgason forfallaðist reyndar á síðustu stundu vegna óviðráðanlegra veikinda, en obskúr ambíent poppstjörnunni og nýhilistanum gamla Örvari Þóreyjarsyni Smárasyni var ekkert nema ánægjan að fá að leysa Hauk Má af. Dularfullum sögum fer svo af ljóðgjörningi Ingibjargar Magnadóttur, sem ku hafa beislað öfl skammtafræðinnar og fært gestum visku úr ranni stjarnanna, en Ingibjörg hefur einmitt áður lagt lag sitt við hið dulúðuga, en þegar Nýhil skemmti í Þjóðmenningarhúsinu þegar minnst var 50 ára Nóbelsverðlaunaafmælis Laxness flutti hún spádóma - úr framtíðinni!

Eins og kunnugt er voru lesarar af kvenkyni í meirihluta að þessu sinni, en því miður hefur brugðið við að hlutföllin hafi verið typpunum í hag. Það er óhætt að segja að orð Viðars Þorsteinssonar í viðtali við Þórunni Hrefnu DV-mær á mánudag lýsi gærkvöldinu betur en mörg önnur: "Það er ekkert yndislegra en að finna raunverulegt jafnrétti spretta fram."

Engin ummæli: