miðvikudagur, mars 29, 2006

Sigurskáldið 2006

Þeir vita það sem fylgjast með að þessa dagana stendur yfir ljóðasamkeppnin Sigurskáldið 2006, en keppnin er haldin af Fréttablaðinu og bókaforlaginu Eddu, og einungis sanslausustu kjánar hafa gleymt því að Kristín Eiríksdóttir í Nýhil bar sigur úr býtum í fyrra. Kristín var ekki eini Nýhilistinn til að komast á blað í keppninni heldur röðuðu þau Ófeigur Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir og Hildur Lilliendahl sér einnig í efstu sætin. Ljóðið sem Kristín sigraði með heitir:

Sálin er rakki sem á skilið að þjást

Maður gefur ekki ókunnugum
draumana sína
perlunar sínar eyðileggur maður ekki
perlufestina sína
til þess að gefa með sér
maður hefur hana um hálsinn
og vonar að hún slitni aldrei.

Maður stingur ekki rýting
í bök vina sinna
maður stingur þá í hjörtun
horfir djúpt í augu þeirra
og lætur vaða.
Maður elskar ekki fólk
í alvörunni
alvaran er að vera einn
í myrkrinu og drekka Tab
og fróa sér
maður elskar fólk
í þykjustunni
í stuttan tíma
og forðar sér svo.

Maður gerir ekki innkaupin sín
í Hagkaup eða 10-11
maður verslar í Bónus
kaupir sér horaðan kjúkling
borðar hann hráan
og vonast til að fá salmónellu
til að þurfa ekki að
vinna þurfa ekki að lifa.

Kristín Eiríksdóttir

Í fréttatilkynningu frá Eddu og Fréttablaðinu vegna keppninnar kemur fram að öllum sem fæddir eru á árinu 1976 og síðar er heimilt að senda eins mörg ljóð og þá lystir á ljod@edda.is. Fresturinn til að skila inn ljóðum rennur svo út miðvikudaginn 5. apríl og þá kemur til kasta dómnefndar. Dómnefndin velur 8 ljóð sem birt verða tvö og tvö hvern dag í Viku bókarinnar og gefst lesendum Fréttablaðsins kostur á að kjósa það sem þeim líst best á í símakosningu. Keppa ljóðskáldin svo hvert við annað uns eitt þeirra stendur uppi sem sigurvegari. Dómnefndina skipa að þessu sinni Þórarinn Þórarinsson frá Fréttablaðinu, Kristján B. Jónasson frá Eddu útgáfu og Ragnheiður Eiríksdóttir - Heiða í Unun - , sem ku fulltrúi ákafra lesenda. Nýhil skorar á heiminn að taka þátt.

Engin ummæli: