föstudagur, mars 31, 2006

Íslenskt gengi!

Góður rómur var gerður að hlutdeild Nýhils sem og Gamlhils á Vestanvindum á Ísafirði í gærkvöldi. Á heimasíðu fréttablaðsins Bæjarins besta segir um málið: "Bókmenntahátíð Edinborgarhússins, Vestanvindar, sem haldin var í gærkvöldi gekk mjög vel að sögn Margrétar Gunnarsdóttur skipuleggjanda hátíðarinnar. „Þetta var frábær dagskrá, ofsalega fallegur texti og vel fluttur. Það voru alltof fáir mættir, textinn um Jón úr Vör var það góður að óskandi væri að fleiri hefðu notið hans. Hann verður vonandi fluttur annar staðar og oftar“, segir Margrét. Dagskráin í ár var tileinkuð Jóni úr Vör og flutti Andrea Sigrún Harðardóttir erindi um hann og Páll Gunnar Loftsson las úr ljóðum hans. Engin sérstök ástæða var fyrir því að Jón úr Vör varð fyrir valinu í ár að sögn Margrétar: „Við eigum ekki svo mörg vestfirsk skáld og það var bara komið að honum í röðinni.“ Auk dagskrárinnar um Jón úr Vör lásu þrjú ung skáld úr verkum sínum en það voru þeir Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Ingvarsson og Haukur Már Helgason. „Þeir voru alveg frábærir, það var mjög gaman að hlusta á þá“, segir Margrét. Vestanvindar hafa verið haldnir í Edinborgarhúsinu síðan 2001 og er tileinkuð vestfirskum bókmenntum. Þau skáld sem hátíðin hefur verið tileinkuð eru Guðmundur G. Hagalín, Jakobína Sigurðardóttir og Guðmundur Ingi Kristjánsson. Þá hefur hún einnig verið tileinkuð vestfirskum ævisögum og vestfirskri ævisagnaritun fyrr og síðar." Síðast spurðist til skáldanna ungu nú í morgunsárið hvar þeir rifust hástöfum um gengi íslensku krónunnar á leið sinni heim í háttinn.

Engin ummæli: