miðvikudagur, mars 29, 2006

Ljóðabókabúð Nýhil

Eins og lesendur hafa kannski frétt kemur Nýhil til með að opna búð á næstu vikum þar sem áhersla verður lögð á sölu ljóðabóka, og reyndar annars listræns varnings. Á Íslandi líkt og víða annars staðar hefur um nokkurt skeið verið hefð fyrir því að ljóðskáld gefi mikið út sjálf enda hafa markaðsforlögin löngu sannað bakbeinsleysi sitt í þessum málum og gefist upp, og þá sérílagi þegar um tilrauna- og/eða byrjendaverk er að ræða. Þó ljóst sé að bækur af þessu tagi seljast illa virðast heilu lagerarnir af þeim puðrast út í eilífðina á fáeinum árum; og hefur Nýhil illan grun um að gríðarlegur fjöldi stórkostlega áhugaverðra ljóðabóka liggi í kjöllurum út um allar trissur og safni fúa. Nýhil hefur því ákveðið að fara í herferð og leita uppi áhugaverð ljóðverk Íslendinga, þessar sjálfsútgáfubækur, hvort sem þær eru merktar Medúsu, Nykri eða ekki nokkrum manni. Þeim sem eru áhugasamir um að selja bækur sínar - já eða önnur verk - hjá Nýhil, auk hinna sem eru það ekki en vita að þeir ættu samt að gera það, er hér með bent á, jafnvel fyrirskipað af ítrustu alvöru, að hafa samband við útgáfustjóra Nýhil, Viðar Þorsteinsson, í síma 695-4280, eða með því að senda tölvupóst á netfangið nyhil@nyhil.org.

Engin ummæli: