fimmtudagur, mars 02, 2006

Tæp vika eftir!

Þeir sem fylgjast með vita að jafnaði betur hvað er að gerast en þeir sem ekki fylgjast með og þeir sem fylgjast með ættu að vita nú að nú fer að líða að því að síðasti skiladagur í Íslandsmeistaramóti Nýhils í ömurlegri ljóðlist renni upp, en hann er nánar tiltekið þann 8. mars, á alþjóðlega kvennadaginn. Nokkuð magn ömurlegra ljóða hefur borist, en betur má ef duga skal til útgáfu bókar, eins og verið hefur í umræðunni og eru því bæði vor bestu og fáguðustu skáld jafnt sem subbulegustu bögubósar beðin um að senda inn sínar bestu tilraunir til mæta hinu ömurlegasta í eilífðinni.

Þetta hófst allt með eftirfarandi draumi:

"Á Íslandi var haldin merk og vegleg ljóðasamkeppni og áhugi skáldaþjóðarinnar var brennandi. Úrslitin voru þau að ungur maður í Reykjavík bar sigur úr býtum, eins og sosum gengur og gerist. Það sem var óvenjulegt við sigurinn voru viðbrögð þjóðarinnar, sem voru fram úr öllu hófi neikvæð. Öllum sem lásu ljóðið fannst það ömurlega vont, svo vont var það að því var slegið upp á forsíðu DV: ÖMURLEGT LJÓÐSKÁLD VERÐLAUNAÐ. Myndin af ljóðskáldinu á téðri forsíðu var stór og óskýr; skáldið var með brúnt, þunnt hár niður fyrir eyru og dreymandi augu eins og vera ber, auðsjáanlega illa haldinn af vatnsorkusálsýki. Yfir myndinni mátti lesa ljóðið. Í draumnum sá ég forsíðu DV einungis á fréttavefnum visir.is, og sökum lítillar upplausnar myndarinnar gat ég ekki lesið ljóðið og leystist draumurinn í framhaldinu upp í einn allsherjar eltingaleik frá manni til manns í leit að þessu ljóði sem var svo ömurlegt að ástæða þótti til að skella því fram á forsíðu. En ég gat þó greint að það var 3X4 línur, sem hver var um það bil 15 atkvæði."

Ljóðum skal skilað á
kolbrunarskald@simnet.is, eða nyhil@nyhil.org, undir fullu nafni. Ljóðið á helst að vera að formi til eins og ljóðið í draumnum, þ.e. þrjú erindi, fjórar línur hvert, og um það bil fimmtán atkvæði í hverri línu. Nýhil veitir glæsilega bókagjöf í vinning fyrir ömurlegasta ljóðið. Tekið verður tillit til asnalegra myndlíkinga, klaufalegs orðalags og ósmekklegs umfjöllunarefnis, auk annarra stílbragða ömurðarinnar sem dómnefnd þykir rétt að hafa til viðmiðunar. Skilafrestur er til 8. mars.

Engin ummæli: