sunnudagur, desember 14, 2008

Stjörnuregn í Lesbók


Gagnrýnandi Lesbókar Morgunblaðsins er ánægður með Konur Steinars Braga og gefur henni fullt hús stjarna, fimm af fimm möguleikum. Í dómnum segir: „Höfundur hefur aldrei fyrr spennt bogann jafn hátt, eða tekist á jafn agaðan hátt á við jafn margþætt og vandasamt viðfangsefni.“ Miðað við stjörnugjöfina má álykta að gagnrýnanda þyki Steinari hafa hitt í mark með sínum listarinnar Amors-örvum.
Enn fremur segir í dómnum: „Með Konum hefur Steinar Bragi sent frá sér eins konar bölsögu, niðdimmt og kvalafullt verk sem fjallar um klám, niðurlægingu, mansal og kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn konum, og er þetta framreitt í umbúðum haganlega smíðaðrar en sjálfsafbyggjandi spennusögu.“ Og undir þessi orð gagnrýnandans, Björns Þórs Vilhjálmssonar, má taka.

Engin ummæli: