fimmtudagur, desember 18, 2008

Konur slá í gegn

„Sú bók sem kemur út nú á seinni hluta árs sem hefur hrært hvað mest í mér . . . Alveg óhemju áhrifarík bók, glæsilega skrifuð.“
Páll Balvin Baldvinsson, Kiljunni.

„[Steinar Bragi] er einfaldlega á stað þar sem aðrir íslenskir höfundar eru ekki.“
Eiríkur Guðmundsson, útvarpsmaður.



„Höfundur hefur aldrei fyrr spennt bogann jafn hátt, eða tekist á jafn agaðan hátt á við jafn margþætt og vandasamt viðfangsefni . . . Með Konum hefur Steinar Bragi sent frá sér eins konar bölsögu, niðdimmt og kvalafullt verk sem fjallar um klám, niðurlægingu, mansal og kynferðislegt og andlegt ofbeldi gegn konum, og er þetta framreitt í umbúðum haganlega smíðaðrar en sjálfsafbyggjandi spennusögu.“
Björn Þór, Lesbók Morgunblaðsins.

„Konur gerist í nútímanum, við nafngreindar götur og í kunnuglegum húsum. Tíðarandi og þjóðfélag er frá því sirka í vor, þegar íslenska útrásin virtist enn vera á fljúgandi fart og það er gaman að staðsetja hreyfingar persóna og rifja upp nýbirtar fyrirsagnir dagblaða. Samtöl eru lifandi og sannfærandi á meðan að frásagnir af ofskynjunum Evu (eða hvað) eru svo ísmeygilegar að á köflum varð ég ringluð og svimaði. Þetta gerir lesturinn að afar sterkri upplifun og reyndar las ég bókina í einum rikk því það var mér ómögulegt að leggja hana frá mér án þess að vita hvar keflið endaði.
Mig dreymdi illa þá sömu nótt.“
Unnur María, kistan.is


„Sögusviðið er Reykjavík útrásarmanna, bankastráka og vaðandi yfirborðsmennsku. Strax á fyrstu síðunum sogaðist ég inn í spennandi atburðarás þar sem ráðvillt, einmana og drykkfelld kona, Eva Einarsdóttir, er í aðalhlutverki . . .
. . . Smám saman tekur gjörsamlega botnlaus hryllingur yfirhöndina. Þegar líður á opinberast lesandanum og aðalpersónunni hverskonar öfl eru að verki og hvílíka gildru er búið að veiða konuna í. Konur er hrollvekja þar sem uppdiktaðar persónur jafnt sem þekktar verur koma við sögu, allt frá hundinum Lúkasi til Hannesar listfræðings. Þarna er fjallað um fólk í þjóðfélagi þar sem peningar, frægð og yfirborðsmennska gegnumsýra alla tilveruna með tilheyrandi siðblindu og subbuskap. Algjörlega klikkað ...“
Þórdís Gísladóttir, bókarýna


„Tvímælalaust áhrifamesta verk sem komið hefur út hér á landi í langa tíð.“
Páll Balvin Baldvinsson, Fréttablaðið.

„Flott bók hjá Steinari Braga. Dularfull og miskunnarlaus hryllingssaga. Hér er konan bókstaflega lokuð inni, býr við allsnægtir en er misþyrmt andlega og líkamlega. Tímabært að staða kvenna sé krufin svona hressilega. Spurningar vakna um mörk og eðli lista, þjáningar og firringar. Í bókinni segir furðufuglinn og listamaðurinn Novak eitthvað á þá leið að fyrir hverja konu sem kemst til valda eða áhrifa í samfélaginu séu gerðar þúsund klámmyndir þar sem konan er sett aftur á sinn stað: valdalaus, undirgefin og niðurlægð. Alveg magnað!“
Steinunn Inga, bloggari

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sú gagnrýni sem ég hef lesið á þessu ári sem ég er mest sammála af öllum.
óli!