fimmtudagur, janúar 03, 2008

Íslam og Íslendingar - bókarkynning á föstudag


Íslam á Íslandi
- fyrsta bók ársins kynnt á föstudag ásamt hneykslanlegum teikningum!

Föstudaginn 4. janúar kl. 17 verður útgáfu bókarinnar Íslam með afslætti fagnað í bókabúðinni Útúrdúr á Njálsgötu 14. Um er að ræða greinasafn í ritstjórn rithöfundanna Auðar Jónsdóttur og Óttars M. Norðfjörð sem fjallar um hættulegar einfaldanir í umræðunni um íslam á Íslandi og víðar í heiminum.

Í bókinni er að finna 12 myndir gerðar af innlendum og erlendum myndlistarmönnum sem varpa upp þeirri spurningu hvort Íslendingum sé nokkuð heilagt, en múslimar hafa verið gagnrýndir fyrir að leggjast gegn skopteikningum af spámanninum Múhameð. Myndirnar í bókinni draga upp rætna mynd af hlutum sem Íslendingum eru heilagir, en þær verða hengdar upp til sýnis í útgáfuveislunni. Einnig eru tvær skopteikningar í bókinni eftir þau Hugleik Dagsson og Lóu Hjálmtýsdóttur.

Í ritnefnd bókarinnar sátu Viðar Þorsteinsson, Haukur Már Helgason, Eiríkur Örn Norðdahl og Þórarinn Leifsson. Meðal greinarhöfunda í bókinni má nefna Magnús Þorkel Bernharðsson, Amal Tamimi, Jón Orm Halldórsson, Guðberg Bergsson og Þórhall Heimisson. Áberandi er einnig að fjöldi höfunda af yngri kynslóðinni skrifar í bókina um innflytjendamál og trúarbragðadeilur. Í bókinni er enn fremur viðtal við Yousef Inga Tamimi, 19 ára gamlan múslima sem er fæddur og uppalinn á Íslandi.

Bókin er 190 síður og verður dreift í allar helstu bókaverslanir strax eftir helgi. Nýhil gefur út.

Allir eru velkominir á bókakynninguna, en þar verður boðið upp á íslamskt snakk og aðstandendur bókarinnar verða til viðtals.

Nánari upplýsingar:
Auður Jónsdóttir - audur@jonsdottir.com - 659-3603
Óttar M. Norðfjörð - ottarmn@gmail.com - 866-9276

1 ummæli:

Ágúst Borgþór sagði...

http://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/406432/