mánudagur, janúar 21, 2008

Íslam með afslætti uppseld hjá útgefanda

* Íslam með afslætti uppseld hjá útgefanda *

Nýhil er sársaukablandin ánægja að tilkynna að hið merka safnrit *Íslam með afslætti* hefur runnið út líkt og ræpa af hillum bókaverslana frá því bókin kom út í byrjun mánaðarins og er nú uppseld hjá útgefanda.

Aðstandendur bókarinnar hafa á síðustu vikum svamlað um öldur ljósvakamiðla og rætt um málefni Íslam og Íslendinga í þáttum á borð við Kastljós, Silfur Egils, Víðsjá og Helgarútgáfuna, auk þess sem prentmiðlar hafa gert verkinu góð skil.

Bókin hefur hlotið einstaklega jákvæðar viðtökur hjá velflestum sem um hana hafa fjallað, þótt dýpt, rökfesta og marbrotin tök hennar á viðfangsefni sínu hafi sett stöku fjölmiðlamann úr jafnvægi.

Fjölmargir lesendur hafa lýst ánægju sinni með framtakið, bæði í bloggheimum og í heyrenda hljóði. Ljóst er að íslensku þjóðina sárþyrstir í upplýsandi og blæbrigðaríka umræðu um hina dularfullu múslima.

Annarrar prentunar Íslam með afslætti er von fyrir helgi og geta áhugasamir því gert sér för í bókabúð, bjartsýnir og kátir í skapi, nú um helgina.

Ritstjórar bókarinnar eru Auður Jónsdóttir og Óttar Martin Norðfjörð, bæði rithöfundar.

Engin ummæli: